Úrlausnir

Bein markaðssetning frá Skjánum og miðlun persónuupplýsinga - 2013/1216

23.5.2014

Persónuvernd hefur úrskurðað um að símhringing frá Skjánum til kvartanda, í þágu beinnar markaðssetningar, hafi ekki verið í samræmi við lög nr. 77/2000. Varðveisla Skjásins á viðskiptaupplýsingum um kvartanda var þó talin heimil.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 13. maí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2013/1216:

 

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

 

1.

Tildrög máls

Þann 12. október 2013 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi), vegna símtals starfsmanns Skjásins ehf. frá 10. október 2013, þar sem honum var boðin áskrift að sjónvarpsefni þrátt fyrir að vera bannmerktur í þjóðskrá. Kvartað er yfir trekuðum símtölum með beinni markaðssetningu (tilboðum vegna áskrifta). Jafnframt segir:

„Hringt hefur verið ítrekað í bannmerkt símanúmer þrátt fyrir að strax við fyrstu hringingu var starfsmanni sem hringdi bent á bannmerkingu og þess krafist að öllum upplýsingum um undirritaðan yrði eytt úr tölvukerfum hringjanda.

Þess skal einnig getið að undirritaður hefur verið á svokallaðri „bannskrá þjóðskrár“ frá ofanverðri síðustu öld.

Nánari upplýsingar um síðasta símtal:

Klukkan 17:58 hringdi starfsmaður á vegum Skjásins úr símanúmeri [xxxxxxx] í símanúmerið [xxxxxxx] til að bjóða undirrituðum einhverja áskrift að sjónvarpsefni í vetur. Nafn starfsmanns var gefið upp sem [B] og hann sagði nafn yfirmanns vera [C]. Hvorugur finnst á starfsmannalista Skjásins. Tekið skal fram að [B] sýndi fulla kurteisi og baðst afsökunar fyrir hönd Skjásins, ásamt því að hann tók að sér að koma kvörtun á framfæri til yfirmanna ásamt kröfu þess efnis að upplýsingum um undirritaðan yrði eytt úr skrám hjá Skjánum. [...]“

Þar sem einnig kom fram í kvörtuninni að símanúmer kvartanda, sem Skjárinn ehf. hringdi í, var bannmerkt í símaskrá benti Persónuvernd kvartanda á með bréfi, dags. 12. nóvember 2013, að samkvæmt ákvæði 5. mgr. 46. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti bæri þeim sem nota almenna tal- og farsímaþjónustu sem lið í markaðssetningu að virða merkingu í símaskrá sem gefur til kynna að viðkomandi áskrifandi vilji ekki slíkar símhringingar í símanúmer sitt. Þá hefði Póst- og fjarskiptastofnun eftirlit með lögum nr. 81/2003 um fjarskipti. Var kvartanda leiðbeint um að beina þeim hluta erindisins til Póst- og fjarskiptastofnunar óskaði hann þess að fá úr því skorið hvort Skjánum ehf. var heimilt að hringja í hann m.t.t. framangreinds ákvæðis fjarskiptalaga.

 

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 12. nóvember 2013, var Skjánum ehf. boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var þess einkum óskað að fram kæmi hvort Skjárinn ehf. hefði við úthringingu símtals til kvartanda gætt að ákvæði 2. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Einnig var óskað eftir nánari upplýsingum um hvort sá starfsmaður Skjásins ehf., sem vísað væri til í kvörtuninni, væri starfsmaður Skjásins ehf., og loks hver afstaða fyrirtækisins væri til beiðni kvartanda um að öllum upplýsingum um hann yrði eytt úr kerfum fyrirtækisins.

 

Með tölvupósti, mótteknum þann 27. nóvemer 2013, óskaði [D], hdl., starfsmaður Skipta hf., eftir að svarfrestur til handa Skjánum ehf. yrði framlengdur vegna mikilla anna. Benti hann einnig á að Skipti hf. væri móðurfélag Skjásins ehf. og annaðist því alla lögfræðiþjónustu fyrir Skjáinn ehf.

 

Í svari Skipta hf., f.h. Skjásins ehf., er barst með tölvupósti þann 11. desember 2013, kemur m.a. fram að Skjárinn hafi hringt í kvartanda fyrir mistök, þar sem hann hafi verið fyrrverandi viðskiptavinur Skjásins, en með símtalinu var fyrirhugað að bjóða honum að koma aftur í viðskipti við félagið. Hins vegar hafi láðst að merkja við hann í samræmi við bannskráningu í símaskrá og baðst Skjárinn afsökunar á því. Þá kom fram að símanúmeri kvartanda hefði verið eytt úr skrám félagsins í samræmi við ósk hans þar um. Loks tók Skjárinn fram að félaginu væri bæði heimilt og skylt að varðveita upplýsingar um viðskiptasögu einstaklinga samkvæmt lögum um bókhald nr. 145/1994.

 

Með bréfi, dags. 12. desember 2013, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar Skipta hf. til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Óskaði Persónuvernd einkum eftir afstöðu kvartanda til þess hvort hann teldi enn ágreining vera til staðar milli hans og Skjásins ehf., og ef svo væri, í hverju hann fælist.

 

Í svarbréfi kvartanda, er barst með tölvupósti þann 16. desember 2013, mótmælir kvartandi því að hann sé fyrrverandi viðskiptavinur Skjásins. Í bréfinu kemur m.a. fram að kvartandi hafi hvorki verið áskrifandi að Skjánum né verið í öðrum viðskiptum við félagið. Þvert á móti hafi hann einungis orðið fyrir áreiti af hálfu félagsins. Þá tekur kvartandi fram að Skjárinn hafi reynt að þröngva upp á hann viðskiptum með því að senda honum reikning fyrir sjónvarpsáskrift en kvartandi hafði áður hafnað öllum tilboðum um ókeypis prufuáskriftir frá Skjánum. Af hálfu kvartanda kemur fram að af þeim sökum kynni að vera til reikningur og kreditreikningur vegna hans í bókhaldi Skjásins og ef sú væri raunin þá væru persónuupplýsingar kvartanda skráðar hjá félaginu þvert gegn óskum hans. Kvartandi tekur einnig fram að ágreiningur sé enn uppi um skráningu persónulegra upplýsinga um hann hjá Skjánum sem félagið neitaði að eyða. Þá mótmælir kvartandi því einnig að persónulegar deilur hans við Skjáinn séu komnar til umfjöllunar hjá móðurfélagi Símans, Skiptum hf., þar sem hann telur slíkt geta skaðað hagsmuni hans sem viðskiptavinar Símans. Loks óskar kvartandi eftir því að Persónuvernd taki til skoðunar hvort Síminn, Skipti og Skjárinn dreifi persónulegum upplýsingum allra viðskiptavina hvers félags, milli félaganna án heimildar.

 

Með bréfi, dags. 16. janúar 2014, óskaði Persónuvernd eftir nánari upplýsingum frá Skiptum hf. m.t.t. framangreinds svarbréfs kvartanda. Nánar tiltekið benti Persónuvernd á að kvartandi teldi nú að umrætt símtal mætti rekja til þess að Síminn hf. hefði miðlað persónuupplýsingum um hann til Skjásins ehf. án heimildar, enda var hann aldrei viðskiptavinur Skjásins ehf. Óskaði Persónuvernd eftir nánari upplýsingum um hvort, og þá hvenær, Síminn hf. miðlaði persónuupplýsingum um kvartanda til Skjásins ehf. Hefði slíkum upplýsingum verið miðlað um kvartanda var þess óskað að fram kæmi í hvaða tilgangi það var og hvaða heimild væri fyrir þeirri miðlun, sbr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

 

Í svarbréfi Skipta hf., f.h. Skjásins ehf., er barst með tölvupósti þann 7. febrúar sl., segir m.a. að samkvæmt upplýsingum Skjásins þá hafi kvartandi notað þjónustu Skjásins og því hafi kvartandi verið viðskiptavinur félagsins. Þá kom fram að Síminn hf., samkvæmt samningi við Skjáinn ehf., selji þjónustu Skjásins, þ.m.t. bjóði viðskiptavinum sínum sem nota sjónvarpsþjónustu Símans, þjónustu Skjásins. Samkvæmt skráningu Skjásins hefði kvartandi fengið svokallaðan „Allt Pakka“, þ.e. allar erlendar rásir sem Skjárinn býður upp á í einum pakka. Þá sagði:

„Nýir viðskiptavinir geta fengið pakkann án endurgjalds fyrsta mánuðinn en þurfa að segja upp þjónustunni eftir það ella verður greitt samkvæmt verðskrá Skjásins. Á grundvelli samnings Símans og Skjásins þá getur Síminn boðið viðskiptavinum sínum að fá slíkan pakka og þeir sem það þiggja verða viðskiptavinir Skjásins, enda samþykkja þeir að fá þjónustuna.  Þetta er eftir sem áður þjónusta Skjásins en ekki Símans og því verða þeir viðskiptavinir sem þiggja þjónustuna, viðskiptavinir Skjásins eðli málsins samkvæmt.

Þá er einnig rétt að geta þess að Skjárinn selur efni í sjónvarpsviðmóti Símans, t.d. SkjárBíó. Þegar viðskiptavinurinn kaupir efni og greiðir fyrir það, þegar Skjárinn er söluaðili, þá kaupir viðkomandi þjónustu af Skjánum og sendir Skjárinn reikning fyrir þjónustunni.“

Með bréfi, dags. 17. febrúar sl., var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomið svarbréf Skipta hf. Í svarbréfi kvartanda, er barst með tölvupósti þann 21. s.m., ítrekar hann kvörtun sína yfir því að Skjárinn hafi upplýst Skipti hf., móðurfélag Skjásins og Símans, um persónuleg málefni hans með því að fela lögfræðingi Skipta hf. að svara fyrir áreiti Skjásins, þar sem slíkt geti skaðað viðskipti kvartanda við Símann. Þá mótmælir kvartandi því að hann hafi notað þjónustu og verið viðskiptavinur Skjásins enda hefði hann hafnað öllum áskriftarleiðum og tilboðum frá Skjánum sem honum hefðu verið boðin þegar hann gerðist áskrifandi að Sjónvarpi Símans. Tekur kvartandi fram að hann hafi hafnað fyrrnefndum „Allt pakka“ sem og öðrum tilboðum. Hafi skráning hans sem notanda þess pakka því verið þvert gegn vilja hans. Telur kvartandi að slík skráning hafi eingöngu verið möguleg vegna þess að Síminn sendi Skjánum persónulegar upplýsingar um hann í heimildarleysi. Þá hafi brot Skjásins falist í því að hringja í bannmerkt símanúmer hans, þrátt fyrir ábendingu um að númer kvartanda væri bannmerkt og þess óskað að því yrði eytt úr skrám félagsins. Þá tekur kvartandi fram að hann hafi ekkert efni keypt í sjónvarpsviðmóti Símans. Loks tekur kvartandi fram að svarbréf lögmanns Skjásins byggi á röngum upplýsingum frá Skjánum, rangri forsendu um að kvartandi hafi samþykkt að fá þjónustu frá Skjánum og feli í sér ósanna aðdróttun um að hann hafi keypt annað efni í sjónvarpsviðmóti Símans.

 

Með bréfi, dags. 5. mars 2014, benti Persónuvernd Skiptum hf. sérstaklega á að í mótteknum athugasemdum kvartanda frá 21. febrúar sl. væri áréttað að hann hefði aldrei verið viðskiptavinur Skjásins þar sem hann hefði hafnað öllum tilboðum frá Skjánum ehf. Af þeim sökum hefði hann bent á að Síminn hf. hlyti að hafa miðlað persónuupplýsingum um hann til Skjásins ehf. án heimildar. Þá hefði kvartandi tekið fram að hann hefði auk þess aldrei keypt efni í sjónvarpsviðmóti Símans hf. Í ljósi framangreindra athugasemda óskaði Persónuvernd eftir frekari upplýsingum og/eða gögnum frá Skiptum hf. sem gætu varpað frekara ljósi á þá staðhæfingu Skipta, sbr. tölvubréf félgsins frá 7. febrúar sl., um að kvartandi væri viðskiptavinur Skjásins. Hefði persónuupplýsingum um kvartanda verið miðlað frá Símanum hf. til Skjásins ehf. var þess óskað að fram kæmi hvenær þeim var miðlað og á grundvelli hvaða heimildar í 8. gr. laga nr. 77/2000.

 

Í svarbréfum Skipta hf., f.h. Skjásins ehf., sem bárust með tölvupósti dagana 24. og 26. mars 2014, segir m.a. að samkvæmt upplýsingum frá Símanum séu ekki til gögn um samskipti Símans og þegar viðskiptavinur fær grunnþjónustu frá Símanum þ.e. hvort hann hafi hafnað því að fá „Allt pakkann“ frá Skjánum í einn mánuð eða ekki. Hafi verið gerð mistök í tilviki kvartanda biðst Skjárinn velvirðingar á því. Þá segir að hins vegar liggi fyrir að kvartandi hafi leigt mynd í gegnum Sjónvarp Símans árið 2013 og fyrir þá leigu var greitt til Skjásins. Um það sagði frekar að þær kvikmyndir sem leigðar væru í gegnum Sjónvarp Símans væru hluti af þjónustu Skjásins (SkjásBíó) en Skjárinn væri söluaðili þeirra. Þá tekur Skjárinn fram að á grundvelli ákvörðun Samkeppnisráðs nr. 10/2005 þá beri Símanum hf. og Skjánum ehf. að senda út sér reikninga vegna þeirrar þjónustu sem félögin veita. Því væri óhjákvæmilegt fyrir Skjáinn að geyma upplýsingar um viðskiptasögu kvartanda en hann hafi sannarlega keypt þjónustu af Skjánum. Þá segir jafnframt í svarbréfi Skjásins:

„[...Þ]egar viðskiptavinurinn kaupir sjónvarpsþjónustu Símans þá hefur hann samhliða möguleika á því að leigja myndefni í gegnum þjónustuna. Sú þjónusta er veitt af Skjánum. Almennt ætti viðskiptavinurinn að vera upplýstur um þessa staðreynd þegar hann fær Sjónvarpsþjónustu Símans. Þá skal einnig vakin athygli á því að þegar viðskiptavinurinn leigir myndefni þá kemur sértaklega fram hver sé söluaðili, þ.e. Skjárinn, RÚV eða 365. Með því að panta mynd, sem viðskiptavinurinn gerir með handvirkum [h]ætti þá gerir hann samning um að kaupa þjónustu af þeim aðila sem selur hana og þar er einnig tilgreint verð sem myndefnið kostar. Eins og staðan er í dag þá er það aðeins Skjárinn sem leigir efni gegn endurgjaldi og þar af leiðandi eina fyrirtækið sem þarf að senda reikning á viðskiptavininn fyrir keyptri þjónustu. Vinnslan er því á þeim grundvelli að viðskiptavinurinn velur að kaupa þjónustuna, í öllum tilfellum þarf hann að framkvæma aðgerð til þess að kaupa þjónustuna, og því er hún nauðsynleg til þess að efna samning við hann. Viðskiptavinurinn ætti því að vera strax í upphafi meðvitaður um að það er Skjárinn sem leigir myndefnið og innheimtir fyrir það sérstaklega. Þar fyrir utan kemur það fram við hverja mynd hver sé söluaðili og því er viðskiptavinurinn einnig upplýstur um hver það er sem selur honum þjónustuna og má því gera ráð fyrir því að viðkomandi aðili muni senda honum reikning fyrir þjónustunni. Hann samþykkir að kaupa þjónustuna af Skjánum. Vinnslan er því nauðsynleg til þess að efna samning, sbr. 2. og 7. tl. 1. mgr. 8. gr. persónuverndarlaga.

Það má hugsanlega taka þetta betur fram í skilmálum um Sjónvarpsþjónustu Símans, þ.e. að Síminn verði að miðla upplýsingum til þessara efnisveitna til þess að þau geti klárað reikningagerð með fullnægjandi hætti. Mun þeim skilaboðum verða komið áfram.“

 

Með bréfi, dags. 26. mars 2014, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum við framangreind svarbréf Skipta hf. Var svarfrestur veittur til 9. apríl 2014. Í svarbréfi kvartanda, sem barst með tölvubréfi þann 7. apríl sl., segir m.a. að Skjárinn hafi reynt að rukka kvartanda fyrir 9.310 kr. í apríl 2012 vegna meintrar áskriftar að tilteknum áskriftarpakka hjá Skjánum sem kvartanda hafði áður hafnað þegar hann tók í notkun Sjónvarp Símans í febrúar eða mars 2012. Skjárinn hafi síðar bakfært reikninginn og staðfesti þar með að hann hefði verið sendur í heimildarleysi. Því staðfesti viðskiptayfirlit kvartanda hjá Skjánum að hann hefði ekki átt nein viðskipti við Skjáinn áður og staðfesti því einnig að Síminn hefði lekið persónulegum upplýsingum um kvartand og ný viðskipti hans við Símans, til Skjásins. Loks segir í svarbréfi kvartanda:

„Að síðustu tel ég að þó ég hefði óskað eftir þjónustu Skjásins; jafnvel strax og ég gerðist áskrifandi að sjónvarpi Símans; þá hefði Símanum ekki verið heimilt að miðla upplýsingum um bannmerkt símanúmer mitt til Skjásins.  

Sama tel ég gilda vegna leigu þessarar einu myndar sem leigð hefur verið af Skjánum; leiga þeirrar myndar er ekki löggilt ástæða fyrir því að skrá bannmerkt símanúmer mitt í gagnagrunn Skjásins.“

Með tölvubréfi, dags. 25. apríl sl., óskaði Persónuvernd eftir frekari skýringum frá Skiptum hf., nánar til tekið um staðfestingu á því hvers konar fræðslu kvartanda hefði verið veitt, um að hann væri að leigja sjónvarpsefni af Skjánum en ekki Símanum, þegar hann leigði sjónvarpefni í gegnum Sjónvarp Símans t.d. með skjáskoti af viðmóti því sem birtist kvartanda og öðrum notendum við leigu á sjónvarpsefni.

 

Svarbréf Skipta hf., barst Persónuvernd með tölvubréfi þann 25. apríl sl. en því fylgdi sýnishorn, s.k. skjáskot, af því viðmóti sem birtist notendum Sjónvarps Símans við leigu á sjónvarpsefni. Af umræddu sýnishorni má ráða að við leigu á sjónvarpsefni, í þessu tilviki kvikmynd, er tilgreint hver sé söluaðili þess ásamt upplýsingum um útgáfuár og lengd sjónvarpsefnis með orðunum „Söluaðili: Skjárinn“.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

 

Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

 

Kvörtun þessi lýtur annars vegar að símtali frá Skjánum ehf. til kvartanda í markaðssetningarskyni en hann var bannmerktur í Þjóðskrá. Hins vegar lýtur kvörtun þessi að miðlun persónuupplýsinga um kvartanda frá Símanum hf. til Skjásins án samþykkis kvartanda. Af framangreindu er ljóst að vinnsla Skjásins fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.

 

2.

Lögmæti vinnslu

2.1.

Lagaákvæði um andmæli og bannskrá

Svo að vinna megi með persónuupplýsingar verður ávallt að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Í 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. segir að sú vinnsla sé heimil sem sé nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem vernda ber samkvæmt lögum vegi þyngra. Vinnsla í þágu markaðssetningar hefur verið talin geta þjónað lögmætum hagsmunum, og þá geta samrýmst þessu ákvæði, enda hafi verið gætt hagsmuna þeirra sem hlut eiga að máli. Til þess þarf m.a. að virða ákvæði um andmælarétt.

 

Um andmæli gegn vinnslu persónuupplýsinga í markaðssetningarstarfsemi gildir ákvæði 2. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Samkvæmt henni heldur Þjóðskrá Íslands skrá yfir þá sem ekki vilja að unnið sé með persónuupplýsingar um sig af aðilum sem stunda markaðssetningarstarfsemi. Hefur sú skrá verið kölluð bannskrá. Þeir sem nota skrár með nöfnum, heimilisföngum, netföngum, símanúmerum og þess háttar, eða miðla þeim til þriðja aðila í tengslum við slíka starfsemi, skulu, áður en slík skrá er notuð í slíkum tilgangi, bera hana saman við bannskrá til að koma í veg fyrir að markpóstur verði sendur eða hringt verði til einstaklinga sem hafa andmælt slíku. Fyrir liggur að kvartandi var bannmerktir í þjóðskrá. Hefur Síminn hf., f.h. Skjásins ehf., staðfest að hringt hafi verið í kvartanda fyrir mistök þrátt fyrir að hann hafi verið bannmerktur í Þjóðskrá.

 

Með vísan til framangreinds var brotið gegn framangreindu ákvæði 2. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000 þegar Skjárinn hringdi í kvartanda og bauð honum áskrift að Skjánum þann 13. október 2013.

 

2.2.

Miðlun upplýsinga milli Símans hf. og Skjásins ehf.

Kvartandi hefur einnig kvartað yfir því að Síminn hafi miðlað persónuupplýsingum um hann til Skjásins í heimildarleysi, nánar til tekið að kvartandi hefði gerst áskrifandi að Sjónvarpi Símans. Þá hefur kvartandi neitað því í bréfaskiptum sínum vegna málsins að hann hafi nokkurn tíma verið viðskiptavinur Skjásins auk þess sem hann hafi hafnað öllum tilboðum sem honum bárust frá Skjánum sbr. tölvupóst kvartanda frá 16. desember 2013 og 17. febrúar 2014. Af hálfu Skjásins ehf. hefur hins vegar komið fram að Skjárinn selur efni í gegnum sjónvarpsviðmót Símans, t.d. kvikmyndir. Þegar viðskiptavinur kaupir efni og greiðir fyrir það í gegnum sjónvarpsviðmót Símans, í þeim tilvikum þegar Skjárinn er söluaðili, þá kaupir viðkomandi þjónustu af Skjánum en ekki Símanum og sendir Skjárinn reikning fyrir slíkri þjónustu sbr. tölvupóst frá Skjánum þann 7. febrúar sl. Þá er fram komið af hálfu Skjásins að kvartandi hafi leigt kvikmynd í gegnum Sjónvarp Símans á árinu 2013 og greitt fyrir þá leigu til Skjásins og að slík leiga sé hluti af þjónustu Skjásins. Er leigu fyrrnefndrar kvikmyndar ekki mótmælt af hálfu kvartanda, sbr. tölvubréf hans frá 7. apríl sl. en þar segir: „Sama tel ég gilda vegna leigu þessarar einu myndar sem leigð hefur verið af Skjánum; leiga þeirrar myndar er ekki löggilt ástæða fyrir því að skrá bannmerkt símanúmer mitt í gagnagrunn Skjásins.“

 

Í 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, segir að vinnsla sé heimil sé hún nauðsynleg til að efna samning sem hinn skráði er aðili að eða til að gera ráðstafanir að hans beiðni áður en samningur er gerður. Hér undir getur m.a. fallið sú vinnsla sem ábyrgðaraðili þarf að framkvæma í þágu viðskipta, þ.e. til að þau geti farið löglega fram. Er þá einkum átt við vinnslu með almennar upplýsingar, s.s. nafn viðsemjanda og kennitölu og önnur þau atriði sem almennt koma fram við reikningagerð. Í málinu liggur fyrir að kvartandi leigði sjónvarpsefni af Skjánum á árinu 2013 og gerðist viðskiptavinur félagsins. Af hálfu Skjásins hefur því verið haldið fram að kvartandi hafi valið að leigja kvikmynd af Skjánum, í gegnum Sjónvarp Símans og með því samþykkt að kaupa þjónustu af Skjánum. Hefur þeirri staðhæfingu ekki verið mótmælt sérstaklega af kvartanda. Óumdeilt er að þær kvikmyndir sem leigðar eru í gegnum sjónvarp Símans eru hluti af þjónustu Skjásins. Skjárinn er söluaðili sjónvarpsefnisins og eru notendur, þ.á m. kvartandi, upplýstir um það við leigu efnisins. Með leigu á fyrrnefndri kvikmynd keypti kvartandi þjónustu af Skjánum og gekkst með því í beint viðskiptasamband við Skjáinn. 

 

Með vísan til framangreinds verður umrædd vinnsla Skjásins ehf. á persónuupplýsingum kvartanda vegna viðskipta hans við félagið talin hafa farið fram í málefnalegum tilgangi og samrýmst að öðru leyti ákvæðum 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.

 

Í máli þessu liggur ekki fyrir að persónuupplýsingar um kvartandi hafi verið varðveittar lengur en málefnaleg ástæða er til. Engu að síður bendir Persónuvernd á ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/2000 en þar segir að þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita persónuupplýsingar skal ábyrgðaraðili eyða þeim. Samkvæmt 20. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, skal varðveita bókhaldsgögn og fylgiskjöl á tryggan og öruggan hátt í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs.  Málefnaleg ástæða til varðveislu upplýsinga getur m.a. byggst á fyrirmælum í lögum eða á því að ábyrgðaraðili vinni enn með upplýsingarnar í samræmi við upphaflegan tilgang með söfnun þeirra.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Skjánum var óheimilt að nota nafn og símanúmer [A] við úthringingar sem fram fóru þann 13. október 2013 í þeim tilgangi að bjóða honum áskrift að þjónustu Skjásins. Vinnsla Skjásins ehf. á persónuupplýsingum [A] að öðru leyti samrýmdist lögum nr. 77/2000.

 



Var efnið hjálplegt? Nei