Úrlausnir

Miðlun sálfræðings á upplýsingum til lögreglu um meint kynferðisbrot gegn börnum – 2013/1225

31.3.2014

Persónuvernd hefur úskurðað um að sálfræðingi hafi verið heimilt að afhenda lögreglu og sérstökum fjárhaldsmanni barna kvartenda greingargerð um börnin vegna rannsóknar á sakamáli og framlagningar einkaréttarkröfu í sama sakamáli.

Úrskurður

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 13. mars 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2013/1225:

 

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

1.

Tildrög máls

Þann 15. október 2013 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] og [B] (hér eftir nefndir kvartendur), dags. þann 14. s.m., vegna meðferðar [C], sálfræðings hjá [Z] sálfræðistofu, á persónuupplýsingum um [börn] þeirra. Nánar tiltekið laut kvörtunin að meintri miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga um [börn] kvartenda í greinargerð sálfræðingsins til þriðja aðila, nánar tiltekið til skipaðs fjárhaldsmanns [barna] þeirra og til lögreglunnar auk þess sem kvartendur voru ósáttir við að hafa ekki fengið sent afrit af umræddri greinargerð hennar, sbr. einnig tölvupóst kvartenda til Persónuverndar frá 19. nóvember 2013.


Með erindi kvartenda fylgdu afrit af bréfi sálfræðingsins til [B], dags. 10. júlí 2013, bréfi [D], hrl., skipaðs fjárhaldsmanns [barna] kvartenda, til sálfræðingsins, dags. 26. júní 2013, og skipunarbréfi [D], hrl., frá sýslumanninum [...], dags. [...].


Í bréfi sálfræðingsins til [B], dags. 10. júlí 2013, segir:

„Eins og þér er kunnugt um hefur Lögregluembættið [...] sem fer með rannsókn máls á meintum brotum [X] gegn [börnum] þínum, óskað eftir gögnum frá mér um málið. Skipaður réttargæslumaður [barnanna] hefur einnig farið fram á slíkt hið sama. Þegar þessir opinberu aðilar fara fram á að unnin sé greinargerð sem liður í lögreglurannsókn og væntanlegu dómsmáli, verð ég sem sálfræðingur að sinna þeirri beiðni. Meðfylgjandi er beiðni [D] hrl. vegna þessa og skipunarbréf hennar frá Sýslumanni.

Greinargerð þessi snýr að mati á líðan hjá [börnum] þínum, mati á afleiðingum meintra brota gerandans og hvaða afleiðingar ég telji að þetta hafi til framtíðar hjá [þeim]. Í síðasta viðtali hjá mér varstu skýr með það viðhorf að mæta ekki með [þau] til slíks mats til mín. Ég hef ekki miklar forsendur til að meta ástand [eldra barns þíns] m.t.t. til þessa, en hef nægar upplýsingar til að skila greinargerð vegna afleiðinga háttsemi [X] á líðan [yngra barns þíns]. Krafa um miskabætur [því] til handa, tekur að einhverju leyti mið af þessu mati.

Ég vil taka fram að þegar beiðni berst frá fyrrnefndum aðilum, undir þessum kringumstæðum, þá er það í forgangi ofar þeim trúnaði sem annars ríkir í allri vinnu sálfræðinga.“

Í bréfi [D], hrl., skipaðs fjárhaldsmanns [barna] kvartenda, til sálfræðingsins, dags. 26. júní 2013, segir m.a.:

„Samkvæmt skipunarbréfi [sýslumannsins [...] hef ég heimild til að setja fram einkaréttarkröfu skv. XXVI. kafla laga nr. 88/2008 og fylgja þeirri kröfu eftir fyrir dómi ef ákært verður í málinu. Ég hef nú þegar sett fram miskabótakröfur í málinu fyrir hönd beggja [barnanna], en bótakröfurnar eru dagsettar 28. maí 2013. Ekki liggur enn fyrir hvort ákæra verður gefin út í málinu.

Sem sérstakur fjárhaldsmaður [barnanna] tek ég hér með undir kröfur lögreglustjórans [...], sem fer með rannsókn málsins, um að þú látir í té vottorð/greinargerð um þá meðferð sem þú hefur haft [börnin] í, að svo miklu leyti sem sú meðferð lýtur að meintu broti sakborningsins [X] gegn þeim, enda tel ég slíkt vottorð nauðsynlegt til að fylgja bótakröfunum eftir fyrir dómi.“

Loks segir í skipunarbréfi sérstaks fjárhaldsmanns [barna] kvartenda, dags. 24. apríl 2013, að [D], hrl., sé skipaður sérstakur fjárhaldsmaður beggja ólögráða [barna] kvartenda með vísan til 6. mgr. 51. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Þá segir að [D] hafi samkvæmt skipunarbréfinu heimild til þess að setja fram einkaréttarkröfu skv. XXVI. kafla laga nr. 88/2008, enda muni það liggja fyrir að fastir lögráðamenn hinna ólögráða munu hafa eigin hagsmuna að gæta við slíkan erindisrekstur.

 

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 26. nóvember 2013, var [C], sálfræðingi, boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar og meðfylgjandi fylgigagna til samræmi við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einkum var þess óskað að fram kæmi hvort hún hefði sent greinargerð sína, sem kvörtunin laut að, til þriðja aðila, og ef svo væri, hvert var hún send og í hvaða tilgangi. Hefði greinargerðin verið send þriðja aðila var þess einnig óskað að hún tilgreindi hvaða heimild hún byggði þá miðlun persónuupplýsinga á skv. ákvæði 8. laga nr. 77/2000, sem og ákvæði 9. gr. sömu laga ef um viðkvæmar persónuupplýsingar væru að ræða.

 

Áður en Persónuvernd barst svarbréf frá sálfræðingnum barst stofnuninni tölvupóstur frá kvartendum þann 8. desember 2013 þar sem stofnuninni var bent á að innanríkisráðuneytið hefði ógilt skipun [D], hrl., sem sérstaks fjárhaldsmanns [barna] þeirra. Með tölvupóstinum fylgdi afrit af umræddum úrskurði innanríkisráðuneytisins, dags. 28. nóvember 2013.

 

Í svarbréfi sálfræðingsins til Persónuverndar, dags. 11. desember 2013, segir að hún sé sjálfstætt starfandi sálfræðingur og sinni málefnum barna og unglinga á sálfræðistofu sinni, [Z], í Reykjavík. Afskiptum hennar af [börnum] kvartenda hófst í nóvember 2012, en tilvísunarástæða beggja [barnanna] var vanlíðan vegna langvarandi eineltis. Í mars 2013 hafi yngr[a barnið] skýrt frá meintu [ofbeldi] þar sem [X] hafði ítrekað brotið gegn sér. Umræddur [aðili] væri [...] og hafði því verið tíður gestur á heimili þeirra. Bendir sálfræðingurinn á að málið hafi verið tilkynnt til Barnaverndar og vinnsluferli þess hafist. Voru [bæði börnin boðuð] í viðtal í Barnahúsi, en móðirin var afar ósátt við að málið hefði verið tilkynnt og sýndi enga samvinnu á rannsóknarstigi.

 

Um miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga til þriðja aðila segir sálfræðingurinn:

„Eftir viðtalið í Barnahúsi fór málið úr höndum Barnaverndar og áfram til lögreglu. Um miðjan maí [2013] barst mér beiðni frá Lögregluembættinu [...] um mat á afleiðingum háttsemi [X] gagnvart [börnunum], mati á sálrænu ástandi þeirra, framtíðarhorfum, trúverðugleika þeirra og atvikalýsingu eins og kostur er. Embættið lagði áherslu á að ég myndi verða við þeirri beiðni, vegna rannsóknarhagsmuna og hagsmuna [barnanna]. Ljóst var að ég sem sálfræðingur þeirra sem hafði haft [þau] í meðferð, hafði yfir greinargóðum upplýsingum að ráða sem gagnast gæti rannsókninni. Þar sem málið var komið á borð lögreglu, er hér um að ræða mál sem fellur undir lög um meðferð sakamála og lögin kveða jafnframt á um að mönnum sé skylt, ef þeir eru kvaddir til þess, að veita lögreglu lið í þágu rannsóknar. Samhliða þessu barst mér beiðni frá [D] hrl. og taldi hún greinargerð mína forsendu fyrir þeirri miskabótakröfu sem hún svo setti fram.

Þessir aðilar eru málinu ekki óviðkomandi að mati undirritaðrar.

Í síðasta viðtali sem [yngra barn kvartenda] sótti, upplýsti ég [B] undir lok viðtals um þessa beiðni og að ég teldi mér skylt að verða við henni. Ég óskaði eftir því að hún kæmi með [bæði börnin] til mín til athugunar, en hún tók mjög illa í það og reiddist mjög.“

 

Varðandi þann lið kvörtunarinnar sem varðar að kvartendur hafi ekki fengið afrit af greinargerð hennar segir í svarbréfinu:

„Greinargerð mín var send Lögregluembættinu [...] eins og að ofan greinir. Fljótlega eftir það barst mér erindi frá Embætti landlæknis þar sem [kvartendur] höfðu sent embættinu formlega kvörtun þess eðlis að ég hafi rofið trúnað og þyrfti leiðsögn um rétta starfshætti. Í svari mínu til Landlæknis lét ég greinargerðina fylgja með.

Þessi greinargerð inniheldur sálfræðilegt mat á líðan, ástandi og aðstæðum [yngra barns kvartanda] auk þess sem hún inniheldur mikilvægar upplýsingar sem falla undir tilkynningaskyldu til Barnaverndar. Óskaði ég eftir því að Landlæknisembættið kæmi þeirri tilkynningu í réttan farveg. Ég tel það ekki þjóna hagsmunum [barnanna] að foreldrar þeirra fái afrit af greinargerðinni. Get ég rökstutt það betur, sé þess krafist.“

 

Loks byggir sálfræðingurinn umrædda miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga á ákvæðum 3., 4., 6. og 7. tölul. 1. mgr. 8. gr., 4., 7. og 8. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 og ákvæðum 17. og 18. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn, þar sem fjallað er um undantekningar frá meginreglunni um trúnaðar- og þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna.

 

Með bréfi, dags. 7. janúar 2014, var kvartendum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við framkomið svarbréf sálfræðingsins. Í svarbréfi kvartenda, dags. þann 15. s.m., segir m.a. að þau telji svarbréf sálfræðingsins vera fullt af staðreyndavillum og útúrsnúningum. Benda kvartendur á að þeir leituðu að eigin frumkvæði til sálfræðingsins sem sjálfstætt starfandi sálfræðings, en ekki sem fulltrúa Barnaverndarnefndar, lögreglu eða ríkissaksóknara. Þá fengu [börn] kvartenda þjónustu sálfræðingsins [á árunum 2012 og 2013]. Var málið kært til Barnaverndarnefndar […] og til lögreglu [á árinu 2013]. Þann [...] 2013 hafði ákvörðun verið tekin af héraðsdómara um skýrslutöku fyrir dómi í Barnahúsi og réttargæslumaður, [D] hrl., jafnframt skipaður. Barst málið til ríkissaksóknara í [...] 2013.

 

Benda kvartendur sérstaklega á að engin skrifleg gögn styðji þá fullyrðingu sálfræðingsins að lögreglan hafi óskað eftir greinargerð frá henni um [börn] þeirra. Ekki sé heldur vitað hvaðan lögreglan hafi fengið upplýsingar um að þessi sálfræðingur væri með upplýsingar um [börn] þeirra eða hvaða upplýsingar sálfræðingurinn afhenti lögreglu. Þá telji kvartendur að það geti ekki verið að lögreglan eða sýslumaður hafi þurfti sérstakan fjárhaldsmann til þess að biðja um þessar upplýsingar. Af framangreindum sökum fara kvartendur fram á að Persónuvernd kalli eftir frekari upplýsingum frá lögreglu eða sýslumanninum [...], en þá hljóti að koma fram hvort beiðnin til sálfræðingsins hafi verið skrifleg og á hvaða lagagrundvelli hún hafi verið sett fram. Einnig fara kvartendur fram á að Persónuvernd afli frekari upplýsinga frá sálfræðingnum um hvaða aðilum hún hafi afhent upplýsingar um [börn] þeirra. Árétta kvartendur að afhending greinargerðarinnar hafi ekki einungis brotið gegn lögum nr. 77/2000, heldur einnig 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

 

Telja kvartendur að tilvísun sálfræðingsins til laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála standist ekki, enda sé í þeim lögum einungis fjallað um þá sem undanþegnir eru vitnaskyldu, skv. ákvæði b-liðar 2. mgr. 119. gr. laganna. Vísa kvartendur einnig til dóms Hæstaréttar nr. 408/2013, frá 8. október 2013, þar sem reyndi m.a. á hvort ákæruvaldinu hefði verið heimilt að leggja fram tiltekin skjöl á grundvelli 4. mgr. 134. gr. sakamálalaga, sbr. 2. mgr. 119. gr. sömu laga. Í málinu taldi Hæstiréttur að skjölin fælu ekki í sér trúnaðarupplýsingar í merkingu b-liðar 2. mgr. 119. gr.

 

Þá telja kvartendur að sálfræðingnum hafi verið óheimilt að afhenda greinargerð sína til sérstaks fjárhaldsmanns [barna] þeirra þar sem innanríkisráðuneytið ógilti skipun fjárhaldsmannsins með úrskurði [á árinu] 2013. Þá séu auk þess litlar líkur á því að bótakrafa verði lögð fram í málinu, enda þurfi að nást sakfelling í málinu til að svo sé heimilt, og geti því slíkar ástæður ekki réttlætt þau mannréttindabrot sem foreldrarnir hafa þurft að sæta í máli þessu.

 

Loks telja kvartendur að þeir eigi rétt á aðgangi að greinargerðinni, m.a. á grundvelli 4. og 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, enda virðist sálfræðingurinn líta á sig sem „bæði sjálfstætt starfandi sálfræðing og sjálfskipaða Barnaverndarnefnd“.

 

Með tölvupósti, mótteknum þann 19. febrúar 2014, upplýstu kvartendur Persónuvernd um að umrætt mál hefði verið sent aftur til lögreglunnar [...] frá embætti ríkissaksóknara til frekari rannsóknar.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Afmörkun úrlausnarefnis

Kvörtunin lýtur annars vegar að því hvort [C], sálfræðingi, var heimilt að afhenda greinargerð um [börn] kvartenda til lögreglunnar [...] og sérstaks fjárhaldsmanns [barna] þeirra. Hins vegar lýtur kvörtunin að því hvort kvartendur eigi rétt á að fá afrit eða aðgang að umræddri greinargerð.

 

2.

Gildissvið o.fl.

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

Af framangreindu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000, enda lýtur málið að greinargerð sálfræðings um [börn] kvartenda.

3.

Lögmæti vinnslu

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að samrýmast einhverri af kröfum 8. gr. laga nr. 77/2000. Þá verður vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, s.s. upplýsingar um heilsuhagi, kynlíf manna eða kynhegðan og upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður um refsiverðan verknað, sbr. 8. tölul. 2. gr. sömu laga, að samrýmast einhverju af viðbótarskilyrðum 9. gr. laganna.

 

Að auki verður öll vinnsla persónuupplýsinga að fullnægja grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um gæði gagna og vinnslu. Þar er mælt fyrir um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.) og að þær skuli vera nægilegar og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.).

 

Í VII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er fjallað um almennar reglur um rannsókn sakamála. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 52. gr. laganna er rannsókn sakamála í höndum lögreglu nema öðruvísi sé mælt fyrir í lögum. Markmið rannsóknar er að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 53. gr. laganna. Þá segir í 54. gr. að rannsaka skuli og afla allra tiltækra gagna um verknað þann sem um er að ræða, svo sem stað og stund og öll nánari atvik, sem ætla má að skipt geti máli. Er mönnum jafnframt skylt að veita lögreglu lið í þágu rannsóknar, ef þeir eru kvaddir til þess, skv. 1. mgr. 55. gr. Þá er það hlutverk dómara að meta sönnunargildi þeirra gagna sem ákæruvaldið hefur aflað á grundvelli framangreindra ákvæða, sbr. ákvæði 109. gr. sakamálalaga.

 

Hlutverk réttargæslumanns er m.a. að setja fram einkaréttarkröfu fyrir hönd brotaþola, skv. XXVI. kafla sakamálalaga nr. 88/2008, sbr. 6. mgr. 51. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Ber honum, sem réttargæslumanni þess einstaklings, að koma á framfæri einkaréttarkröfu skv. 172. gr. sakamálalaga til lögreglu meðan á rannsókn máls stendur eða við ákæranda áður en ákæra er gefin út. Nánar tiltekið skal hann láta af hendi skriflega greinargerð um kröfu sína sem og þau gögn sem varða málatilbúnað kröfuhafa og ekki liggja þegar fyrir í sakamálinu, sbr. 173. laganna. Eru t.d. skýrslur sálfræðinga gjarnan lagðar fram til stuðnings slíkum bótakröfum og eru þær því meðal þeirra gagna sem lagðar eru fram í dómi. Í því samhengi ber að benda á að Hæstiréttur hefur m.a.s. lækkað bótafjárhæð til handa brotaþola á grundvelli þess að ekki lágu fyrir sérfræðileg gögn um afleiðingar brota ákærða á ólögráða þolendum kynferðisbrota hans, sbr. mál nr. 19/2009 frá 17. september 2009.

 

Samkvæmt ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 er vinnsla persónuupplýsinga, þ. á m. miðlun þeirra til þriðja aðila, heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila. Einnig getur vinnsla verið heimil sé hún nauðsynleg til að verja brýna hagsmuni hins skráða eða við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili, eða þriðji maður sem upplýsingum er miðlað til, fer með, sbr. 4. og 6. tölul. sama ákvæðis.

 

Þá er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga heimil standi sérstök heimild til hennar samkvæmt öðrum lögum en lögum nr. 77/2000, sé hún nauðsynleg til að verja verulega hagsmuni hins skráða eða annars aðila sem ekki er sjálfur fær um að gefa samþykki sitt, sbr. 2. og 4. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Jafnframt getur slík vinnsla verið heimil sé hún nauðsynleg til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja. Þá segir í athugasemdum um 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2000 að það sé ekki skilyrði að málið verði lagt fyrir dómstóla heldur nægi að vinnslan sé nauðsynleg til að styðja kröfu fullnægjandi rökum, en vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga í þessum tilgangi teljist hins vegar því aðeins vera lögleg að krafan verði hvorki afmörkuð né staðreynd með öðrum hætti.

 

Eins og mál þetta hefur verið rakið telur Persónuvernd að [C], sálfræðingi, hafi verið heimilt að afhenda greinargerð sína um [börn] kvartenda til lögreglunnar [...] vegna rannsóknar embættisins á meintu kynferðisbroti gegn [börnunum] á grundvelli 3. og 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.

 

Jafnframt telur Persónuvernd að sálfræðingnum hafi verið heimilt að afhenda sömu greinargerð til [D], hrl., sem skipaður var sérstakur fjárhaldsmaður [barnanna] á þeim tíma sem greinargerðin var afhent, til stuðnings bótakröfu fjárhaldsmannsins fyrir hönd [barnanna] í umræddu sakamáli, sbr. ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 4. og 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.

 

4.

Um aðgang að kvartenda að greinargerð sálfræðingsins

Um upplýsingarétt hins skráða, og undantekningar frá þeim rétti, er fjallað í ákvæðum 18. og 19. gr. laga nr. 77/2000. Aftur á móti segir í 2. mgr. 3. gr. laganna að umrædd ákvæði gildi ekki um vinnslu persónuupplýsinga sem varði t.d. starfsemi ríkisins á sviði refsivörslu.

 

Í máli þessu er sú greinargerð, sem kvörtun þessi lýtur að, nú meðal rannsóknargagna í sakamáli sem er til meðferðar hjá ákæruvaldinu. Í ljósi þessa telur Persónuvernd að hér eigi við framangreint ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000 og því eigi framangreind ákvæði 18. og 19. gr. laganna ekki við. Aftur á móti er í öðrum lögum og reglugerðum fjallað um aðgang að slíkum gögnum, s.s. lögum nr. 88/2008, en mat á aðgangi að slíkum gögnum heyrir ekki undir valdsvið Persónuverndar.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

[C], sálfræðingi, var heimilt að afhenda lögreglu og sérstökum fjárhaldsmanni [barna] kvartenda greinargerð um [börnin] vegna rannsóknar á sakamáli og framlagningu einkaréttarkröfu í sama sakamáli.

 



Var efnið hjálplegt? Nei