Úrlausnir

Úrskurður um dagbók skólastjóra – 2013/626

27.3.2014

Persónuvernd hefur úrskurðað um að meðferð skólastjóra á persónuupplýsingum um kvartanda og barn hennar hafi ekki samrýmst lögum nr. 77/2000.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 13. mars 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2013/626:

 

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

1.

Tildrög máls

Þann 10. maí 2013 barst Persónuvernd kvörtun frá [M] (hér eftir nefnd kvartandi), dags. 8. s.m., vegna meðferðar skólastjóra [B], [K], á persónuupplýsingum um sig og [barn] hennar. Nánar tiltekið laut kvörtunin að því að skólastjóranum hefði verið óheimilt að skrá og varðveita persónuupplýsingar um kvartanda og [barn] hennar, sem er fyrrum nemandi skólans, í einkadagbók í tölvu í [B].


Í kvörtuninni segir m.a. að í máli kvartanda sem var til meðferðar hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu á tímabilinu […] hafi skólastjórinn lagt fram skráningar úr dagbók sinni til skýringar á máli sínu í svarbréfum til ráðuneytisins. Kvartandi telur að skráning skólastjóra á viðkvæmum persónuupplýsingum um hana og [barn] hennar[, [A], í dagbók sé ómálefnaleg og tilefnislaus og öryggis sé ekki gætt við skráninguna því að verið sé að skrá viðkvæmar persónuupplýsingar um hana og [barn] hennar að tilefnislausu[.] Auk þess hafi skráning þessara upplýsinga farið fram með leynd án þess að hún hafi átt kost á því að leiðrétta rangar færslur.

 

Með erindi kvartanda fylgdi útprentun af þeim hluta kvörtunar hennar sem áður hafði verið send til mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem laut að persónuverndarsjónarmiðum, en kvörtun hennar til ráðuneytisins varðaði skólavist [barns] hennar í skólanum […]. Þá fylgdi einnig með kvörtun [M] afrit af bréfi skólastjórans til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. […] (ár kemur ekki fram), ásamt fylgiskjölum með því bréfi þar sem annars vegar er vitnað til færslna úr dagbók skólastjóra [B], frá tímabilinu […] til […], og hins vegar hluta af texta úr tölvupósti sem skólastjórinn sendi foreldrum skólans um atvik er kom upp í skólanum og tengdist [barni] kvartanda.

 

Meðal þeirra færslna sem koma fram í dagbók skólastjórans:

„[…]

[A] varð [ótt] í lok útivistartíma hjá [Z].[...]

[…]

[...] Mataræði [A] er út í hött, hamborgarar á kvöldin, franskar í morgunmat. Mætir alltaf of seint.

[…]

[A] var illa [stemmt] í dag, viðurkennir að [það] sé of [feitt]. Fundur með mömmu [þess] og sálfræðingi á fimmtudag. Var hjá sálfræðingi í dag, fer til fótalæknis innan tíðar.

[…]

Nemendaverndarráðsfundur eftir hádegi. Ekkert breytist hjá [A]. [M] móðir [þess] var marin á vanga á fundi hér. Nauðsynlegt að hafa fullt samráð við BUGL a.m.k. tvisvar á misseri vegna lyfja o.fl.“

Sama dag afhenti kvartandi einnig Persónuvernd ódagsett afrit af síðustu blaðsíðu ákvörðunar mennta- og menningarmálaráðuneytisins í máli hennar, en þar segir m.a.:

„Loks farið þér fram á það að ráðuneytið vísi dagbókarskráningum skólastjóra [B], sem bárust ráðuneytinu með bréfi hans, dags. […]., til Persónuverndar vegna gruns um að lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, hafi verið brotin. Í dagbókarfærslum skólastjóra er að finna skráningar um persónulegar upplýsingar. Sumar þeirra upplýsinga sem þar eru skráðar teljast viðkvæmar í skilningi laga nr. 77/2000 og vandséð að mati ráðuneytisins að þær tengist allar skólagöngu [A] með málefnalegum hætti. Ráðuneytið telur hins vegar rétt að þér beinið þessum hluta erindis yðar beint til Persónuverndar, sem hefur það lögbundna hlutverk að annast framkvæmd þeirra laga.“

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 4. júní 2013, var [K], skólastjóra [B], boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar og meðfylgjandi fylgigagna til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einkum var þess óskað að fram kæmi hvort hann hefði skráð persónuupplýsingar um kvartanda og/eða barn hennar í einkadagbók í tölvu og hver tilgangurinn væri með slíkum skráningum. Einnig var óskað upplýsinga um hvort viðkvæmar persónuupplýsingar um kvartanda væru skráðar í meintum dagbókarskráningum, í skilningi 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Hefði hann skráð persónuupplýsingar þyrfti að koma fram hvaða heimild hann byggði vinnsluna á, skv. ákvæði 8. gr. laga nr. 77/2000, sem og 9. gr. laganna, ef um viðkvæmar persónuupplýsingar væru að ræða. Var svars óskað eigi síðar en 25. júní 2013, en engin svör bárust. Var erindið því ítrekað með bréfi, dags. 16. júlí 2013 og svarfrestur veittur á ný til 8. águst sl.

 

Persónuvernd barst svarbréf [K], dags. 6. ágúst sl., þann 12. s.m. Þar segir að hann hafi í raun engu við að bæta við þau gögn sem lægju fyrir í málinu og hann hefði áður sent mennta- og menningarmálaráðuneytinu og hann vænti að kvartandi hefði sent Persónuvernd. Varðandi dagbók hans segir:

„Ég held dagbók um eitt og annað sem situr mér í kolli í dagslok, kannski ekki upp á hvern dag, en býsna marga. Dagbókin er mér til upprifjunar og áminningar. Ég kannast ekki við að hafa skráð þar neitt sem er á nokkurn hátt meiðandi eða í bága við lög.“

 

Með bréfi, dags. 16. ágúst sl., var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við fram komnar skýringar [K] til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi kvartanda, dags. 21. ágúst sl. segir m.a. að með svarbréfi sínu hafi [K] viðurkennt að hafa skráð þessar færslur í dagbók og því eigi lög nr. 77/2000 við um þær. Þá telur hún að svar hans leiði að því líkur að skráningar í dagbók skólastjóra varðandi [A] séu ekki einsdæmi og að svipaðar skráningar séu til um önnur börn án þess að foreldrar viti af þeim. Telur hún hættulegt að skrá viðkvæmar persónuupplýsingar um mörg börn í einu skjali og að mikil hætta sé á að upplýsingarnar verði afritaðar og afhentar öðrum, líkt og gerðist í bréfi skólastjórans til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þá geti foreldrar ekki leiðrétt villur og rangfærslur ef þeir vita ekki af skráningum. Loks er hún ósammála þeirri fullyrðingu skólastjórans að skráningarnar séu ekki meiðandi, en einnig telur hún að sumar séu sumar rangar.

 

Óskaði Persónuvernd eftir nánari upplýsingum frá skólastjóra [B] með bréfi, dags. 24. september sl. Meðal annars benti Persónuvernd á að stofnunin yrði að meta hvort meðferð upplýsinga um kvartanda og [A] hefði verið í samræmi við lög nr. 77/2000, ákvæði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og reglugerð nr. 897/2009 um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín.

 

Áður en Persónuvernd barst svarbréf frá [K] barst stofnuninni annað bréf frá kvartanda, dags. 30. september sl., þar sem bent er á gögnin geti ekki verið talin einvörðungu til persónulegra nota skólastjórans þar sem hann sendi þau óumbeðinn til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þá kom jafnframt fram í bréfi kvartanda að skólastjórinn hefði, í svarbréfi sínu til Persónuverndar, vísað til þess að þetta væru minnispunktar hans, en svo notaði hann þau sem sönnunargögn við meðferð máls hjá ráðuneytinu. Loks benti kvartandi á að umrædd gögn hefðu ekki verið notuð til að taka neinar ákvarðanir um [A]. Því væri hér um vinnslu persónuupplýsinga að ræða að mati kvartanda.

 

Þann 11. október sl. barst Persónuvernd svarbréf [K], dags. 8. s.m. Í því segir að ákveðnar skyldur hvíli á honum sem ómögulegt væri að uppfylla nema með ritun minnispunkta í formi dagbókar og væru minnispunktarnir í dagbókinni einkum ritaðir honum til upprifjunar og áminningar auk þess sem þeir gætu mögulega skipt miklu máli við töku ákvarðana. Væru minnispunktarnir, og þar með dagbókin, ekki ætlaðir öðrum til aflestrar enda hefði hann einn aðgang að þeim.

 

Með bréfi, dags. 17. október sl. var kvartanda gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til Persónuverndar, m.t.t. framangreinds svarbréfs skólastjórans, dags. 8. s.m. Í svarbréfi hennar, dags. 23. október sl., ítrekar hún þau sjónarmið er komu fram í fyrra svarbréfi hennar frá 30. september 2013.


Með bréfi, dags. 29. október sl., óskaði Persónuvernd aftur eftir frekari upplýsingum frá [K] um umræddar skráningar, n.t.t. um það hvernig skráningin hefði verið í samræmi við ákvæði 7. gr. laga nr. 77/2000, einkum 1., 3. og 4. tölul. ákvæðisins, en einnig var áréttuð fyrri beiðni stofnunarinnar um að fram kæmi hvaða heimild hann byggði umrædda vinnslu persónuupplýsinga á, sbr. 1. mgr. 8., og e.t.v. 9., gr. laga nr. 77/2000.

 

Í svarbréfi [K], dags. 19. nóvember sl., áréttaði hann fyrri svör sín um að umræddar dagbókarfærslur væru eingöngu ritaðar til persónulegra afnota og að hann einn hefði aðgang að þeim og þær væru ekki ætlaðar öðrum til yfirlestrar. Þá ítrekaði [K] að á honum hvíldu ákveðnar skyldu samkvæmt lögum nr. 91/2008 um grunnskóla sem honum væri ómögulegt að uppfylla nema með ritun minnispunkta. Dagbókarfærslurnar væru með öðrum orðum persónulegt vinnugagn sem [K] teldi ekki falla undir lög nr. 77/2000, sbr. 2. mgr. 3. gr. þeirra. Þá kom fram í bréfinu að [K] hefði talið sér skylt að senda menntamálaráðuneytinu umrædda punkta í ljósi eftirlits ráðuneytisins með störfum skólastjóra samkvæmt lögum um grunnskóla. Þá vísaði [K] til ábyrgðar hans sem skólastjóra gagnvart eftirlitsaðilum eins og menntamálaráðuneytinu samkvæmt 14., 17. og 19. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og tók fram að hann teldi það ábyrgðarleysi ef skólastjóri ritaði ekki persónulega punkta sér til áminningar og upprifjunar. Loks tók [K] fram að ef Persónuvernd teldi minnispunktana falla undir lög nr. 77/2000 þá teldi hann þá hafa verið í samræmi við 7.-9. gr. laganna og að ekki hefði verið gengið lengra með ritun þeirra en efni stóðu til í ljósi þeirra hagsmuna sem um ræddi, n.t.t. hagsmuni nemanda, foreldris og skólans.

 

Var kvartanda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við framangreint svarbréf með bréfi, dags. 25. nóvember sl. Í svarbréfi kvartanda, dags. 28. nóvember sl., kom fram að hún teldi engin lög kveða á um skyldu skólastjóra til að halda persónulega minnispunkta. Hins vegar mæltu mörg lög fyrir um skyldu fólks til að skrá gögn vegna starfa sinna. Slík skráning væri hins vegar vegna starfsskyldu viðkomandi starfsmanns en væru ekki persónulegar. Sagði kvartandi að skylda skólastjóra til þess að halda utan um mál barna væri ekki persónubundin heldur embættisskylda hans. Þá benti kvartandi á að skráning persónuupplýsinga þyrfti að fara fram í skýrum tilgangi og að persónulegar færslur skráningaraðila gætu ekki verið persónulegar heldur ættu ætíð að fara fram í tengslum við störf eða skyldu viðkomandi. Vandséð væri hvernig ráðuneytinu væri skylt að hafa eftirlit með persónulegum gögnum fólks og telur ósamræmi vera í svörum skólastjórans um það að dagbókarfærslurnar séu persónulegs eðlis annars vegar og falli undir eftirlitsskyldu menntamálaráðuneytisins hins vegar. Að lokum sagðist kvartandi aldrei hafa mótmælt því að skólastjóri héldi utan um gögn og atriði varðandi [A] enda væri það lögbundið. Hins vegar teldi hún ekki mikið öryggi felast í því að haldið væri utan um mál margra barna í sama skjalinu jafnvel þótt skólastjóri hefði slíkt skjal í tölvu sinni.


Persónuvernd óskaði loks eftir frekari upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu með bréfi, dags. 14. janúar 2014, um mál kvartanda sem var til meðferðar hjá ráðuneytinu. Nánar tiltekið óskaði Persónuvernd eftir upplýsingum um efni þess máls, málavexti þess ásamt upplýsingum um hvenær það hófst og hvenær því lauk sem og upplýsingum um hvort ráðuneytið hefði óskað eftir því að fá send gögn frá skólastjóra [B] úr umræddri dagbók hans um kvartanda og/eða barn hennar við meðferð málsins hjá ráðuneytinu.


Persónuvernd barst svarbréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 4. febrúar sl., þann 5. s.m. Í því kom fram að ráðuneytið hefði ekki óskað eftir því að fá send gögn frá skólastjóra [B] úr umræddri dagbók hans um kvartanda og/eða barn hennar við meðferð málsins hjá ráðuneytinu. Með svarbréfi ráðuneytisins fylgdi afrit af bréfi ráðuneytisins til kvartanda, dags. […], en ráðuneytið hafði fengið samþykki kvartanda fyrir afhendingu þess til Persónuverndar. Í umræddu fylgiskjali kom fram að ráðuneytinu hefði borist upphaflegt erindi kvartanda í [á árinu 2011] þar sem óskað væri eftir áliti ráðuneytisins á því hvort kennsla [barns] kvartanda í [B] […] hefði verið í samræmi við lög nr. 91/2008 um grunnskóla, reglugerð nr. 585/2011 um nemendur með sérþarfir í grunnskóla og reglugerð nr. 584/2010 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum. Sér í lagi hefði kvartandi leitað eftir áliti ráðuneytisins á því hvort kennsla [barns] hennar hefði samræmst þeim rétti nemenda að komið væri til móts við námsþarfir þeirra, sem og hvort löglega hefði verið staðið að [töku stjórnvaldsákvörðunar B um A].

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

 

Skólastjóri [B] hefur m.a. vísað til þess að umræddar skráningar í dagbók hans hafi einungis verið persónulegir punktar hans og ætlaðir til persónulegra nota fyrir hann, og því félli umrædd skráning ekki undir gildissvið laga nr. 77/2000, sbr. ákvæði 2. mgr. 3. gr. þeirra laga. Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000 gilda lögin ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota. Með framangreindu ákvæði er t.d. átt við einkabréfaskipti, færslu dagbókar og meðferð upplýsinga sem tengjast tómstundamálum, sbr. það sem segir í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi er varð að lögum nr. 77/2000. Einnig segir í athugasemdum með ákvæðinu að það sem ráði úrslitum um það hvort persónuupplýsingar varði eingöngu einkahagi einstaklings eða séu ætlaðar til persónulegra nota, sé hvort vinnslan varði aðeins hreina einkahagi eða ekki.

 

Í ljósi framangreinds falla skráningar í dagbók skólastjóra [B] um kvartanda og [barn] hennar ekki undir ákvæði 2. mgr. 3. gr. laganna, enda voru ekki eingöngu skráðar þar upplýsingar sem vörðuðu einkahagi skólastjórans. Þá hefur heldur ekki komið fram að umræddar upplýsingar hafi eingöngu verið ætlaðar til persónulegra nota, sbr. 2. mgr. 3. gr., heldur þvert á móti til upprifjunar við störf hans sem skólastjóri auk þess sem hann teldi að punktar hans gætu skipt máli við töku ákvarðana í starfi, eins og skólastjórinn hefur sjálfur bent á með bréfi sínu, dags. 8. október sl., auk þess sem hann sendi mennta- og menningarmálaráðuneytinu skráningar úr dagbókinni við meðferð máls er varðaði [barn] kvartanda. Er því ljóst að sú vinnsla persónuupplýsinga sem mál þetta varðar er ekki undanþegin gildissviði laga nr. 77/2000.

 

Af framangreindu leiðir að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000, enda skráði skólastjóri [B] persónuupplýsingar um kvartanda og [barn] hennar í dagbók sem hann hélt í tölvu sinni við skólann.

 

2.

Lögmæti vinnslu

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að fullnægja einhverju af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, og 1. mgr. 9. gr. laganna ef um viðkvæmar persónuupplýsingar er að ræða, svo hún teljist heimil. Þá verð[u]r öll vinnsla einnig að samrýmast öllum skilyrðum 7. gr. laga nr. 77/2000. Þar er meðal annars mælt fyrir um að þess skuli gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær séu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); auk þess að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.). Í þessum kröfum felst m.a. að aldrei megi ganga lengra við skráningu upplýsinga um einstaklinga en nauðsynlegt er og að vinnsla persónuupplýsinga skuli vera gagnsæ gagnvart hinum skráða.

 

Samkvæmt lögum nr. 91/2008 um grunnskóla, m.a. ákvæðum 6., 14., 15. og 19. gr., ber skólastjóri, sem forstöðumaður grunnskóla, ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn. Auk þess er honum falið að taka ýmsar stjórnsýsluákvarðanir um skólavist nemenda, t.d. varðandi skólaskyldu eða brottvikningu nemenda úr skóla samkvæmt lögunum. Þá skal grunnskóli stuðla að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda skv. 2. gr. laganna.

 

Þá segir einnig í ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 897/2009, um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín, að til nauðsynlegra upplýsinga um nemanda teljast m.a. persónuupplýsingar um heilsufar, sérþarfir, líkamlega og andlega getu til náms eða annars skólastarfs sem afla þarf við undirbúning ákvarðana um réttindi og skyldur nemenda samkvæmt lögum um grunnskóla eða til að sveitarstjórn, eða skólanefnd í umboði hennar og eftir atvikum skólastjórnendur, geti sinnt skyldum sínum samkvæmt þeim lögum. Þá segir einnig í sama ákvæði að persónuupplýsingar geti verið hvers konar skrifleg gögn svo sem skýrslur, greinargerðir og umsagnir eða gögn sem vistuð eru í tölvu og varða velferð og skólagöngu barns. Samkvæmt ákvæði 7. gr. reglugerðarinnar skal þess gætt við meðferð og öflun persónuupplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga samkvæmt fyrirmælum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og lögum um Þjóðskjalasafn Íslands nr. 66/1985. Þá skuli þess gætt að upplýsinga sem aflað er séu viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang þeirra, og að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum. Þá ber skólastjóri ábyrgð á meðferð og vörslu upplýsinga og að uppfylltar séu þær kröfur sem gerðar eru til ábyrgðaraðila samkvæmt lögum nr. 77/2000, sbr. ákvæði 9. gr. reglugerðarinnar.

 

Með hliðsjón af framangreindri ábyrgð sem skólastjóra grunnskóla er falið verður að telja málefnalegt að rita persónulega minnispunkta um ýmis atvik er koma upp í skólanum og varða nemendur skólans, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 897/2009, í skilningi 1. tölul. 7. gr., 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Af framangreindu leiðir að skráning tiltekinna persónuupplýsinga, í samræmi við 5. gr. reglugerðar nr. 897/2009, er talin lögmæt og málefnaleg. Engu að síður liggur fyrir í þessu máli að umrædd dagbókarskráning um kvartanda og barn hennar var umfram það sem lög nr. 91/2008 um grunnskóla og 5. gr. reglugerðar nr. 897/2009 gera ráð fyrir, t.d. skráning upplýsinga um meint mar á kinn kvartanda, og því verður að telja að slíkar skráningar í dagbók skólastjóra hafi ekki verið sanngjarnar eða málefnalegar í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000.

 

Þá afhenti skólastjóri [B] mennta- og menningarmálaráðuneytinu útprentaðar skráningar úr umræddri dagbók við meðferð máls kvartanda hjá ráðuneytinu án þess að ráðuneytið hefði óskað eftir þeim eða séð verði að þær hafi haft nokkra þýðingu fyrir meðferð málsins í ráðuneytinu. Af framangreindu leiðir að miðlun persónuupplýsinga úr dagbók skólastjórans hafi farið fram í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi en upphaflega stóð til með skráningu upplýsinga í hana, og var því meðferð hans á persónuupplýsingum um kvartanda og [barn] hennar úr umræddri dagbók ekki í samræmi við ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Skráning skólastjóra [B] á persónuupplýsingum um kvartanda og afhending á persónuupplýsingum um kvartanda og [barn] hennar til menntamálaráðuneytis samrýmdist ekki lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.



Var efnið hjálplegt? Nei