Úrlausnir

Persónuleikapróf sem hluti af framhaldsskólaskírteini – 2013/1192

24.3.2014

Persónuvernd hefur tekið ákvörðun þess efnis að framhaldsskólalög teljist ekki fela í sér heimild til vinnslu persónuupplýsinga um annað en námsmat og vitnisburð nemenda í umsögn á prófskírteini þeirra.

Ákvörðun

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 13. mars 2014 var tekin svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2013/1192:

 

1.

Málavextir og bréfaskipti

Persónuvernd barst, með bréfi dags. 7. október 2013, erindi [A], skólameistara [Z]. Í því kom fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði kynnt stjórnendum framhaldsskólans kröfur um að nemendur sem lykju framhaldsskólaprófi fengju prófskírteini sem innihéldi upplýsingar um almenna þekkingu, leikni og hæfni viðkomandi nemanda og að umræddar kröfur styddust við blaðsíður 48 og 59 í almennum hluta Aðalnámskrár framhaldsskóla 2011. Í bréfi skólameistarans kom einnig fram að hann teldi erfitt að greina þá hæfni, sem hér væri um rætt, frá lífsskoðunum, gildismati og þankagangi einstaklings sem erfitt væri að veita án þess að safna viðkvæmum persónuupplýsingum, sbr. 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, um lífsskoðanir nemenda. Teldi […]skólinn sér ekki heimilt að vinna með slíkar upplýsingar nema á grundvelli heimildar í 9. gr. sömu laga.

 

Bréfi skólameistarans fylgdi afrit af svarbréfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins til hans, dags. 8. ágúst 2013, um sama efni. Af því bréfi virðist mega ráða að aðalnámskrá framhaldsskóla 2011 kveði á um markmið og fyrirkomulag skólastarfs á framhaldsskólastigi, sbr. 21. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla, en í henni komi fram að framhaldsskólaprófum ljúki með „útgáfu prófskírteinis þar sem kemur fram hæfniþrep námsloka, umsögn um almenna þekkingu, leikni og hæfni nemandans, upptalningu áfanga, einkunnir eftir því sem við á og skrá um þátttöku nemandans í viðfangsefnum tengdum framhaldsskólaprófinu“.

 

Loks fylgdi bréfi skólameistarans jafnframt sýnishorn af tillögum, frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, um umsagnir sem geti fylgt framhaldsskólaprófsskírteini af fyrsta hæfniþrepi.

 

Með bréfi, dags. 12. desember 2013, óskaði Persónuvernd skýringa frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu um það á hvaða heimild í 8. gr., og eftir atvikum 9. gr., laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, það teldi standa fyrir umræddri vinnslu auk þess sem stofnunin bauð ráðuneytinu að tjá sig um vinnsluna að öðru leyti. Var ósk Persónuverndar ítrekuð með bréfi, dags. 13. janúar sl., en í bréfinu kom fram að hefðu engin svör borist fyrir 27. janúar 2014 yrði málið tekið til efnislegrar meðerðar hjá stofnuninni.

 

Með bréfi, dags. 22. janúar sl., óskaði mennta- og menningarmálaráðuneytið eftir fresti til að svara bréfi Persónuverndar. Í bréfi ráðuneytisins kom fram að ráðuneytið teldi sér fært að svara stofnuninni innan tveggja vikna. Með bréfi dags. 24. janúar sl., sem jafnframt var sent með tölvubréfi þann sama dag, veitt Persónuvernd umbeðinn frest til 5. febrúar 2014 og tilkynnti jafnframt að málið yrði þá tekið til ákvörðunar.

                                                  

Engin frekari svör bárust.

2.

Forsendur og niðurstaða

2.1.

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

 

Með vísan til framangreinds er ljóst að veiting umsagnar um almenna þekkingu, leikni og hæfni nemenda á skírteini um framhaldsskólapróf er vinnsla persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.

 

2.2.

Sérhver vinnsla almennra persónuupplýsinga um einstaklinga verður að samrýmast einhverju af skilyrðum 8. gr. laga nr. 77/2000. Ef vinna á með viðkvæmar persónuupplýsingar verður að auki að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 9. gr. sömu laga. Af sýnishorni af drögum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu að tillögum um umsagnir sem gætu fylgt framhaldsskólaprófsskírteinum af fyrsta hæfniþrepi, sem fylgdi erindi skólameistarans, má ráða að ætlast sé til þess að slíkar umsagnir skuli taka til þess hvort nemendur geti „tjáð hugsanir sínar og tilfinningar í rökréttu samhengi“, hafi tileinkað sér „jákvætt viðhorf til náms“, hafi „skýra sjálfsmynd“ og taki „ábyrga afstöðu til eigin velferðar - líkamlegrar og andlegrar“. Þrátt fyrir að með fyrirhugaðri vinnslu virðist ekki ætlunin að vinna með lífsskoðanir viðkomandi nemenda mun vera fyrirhugað að leggja mat á þær skoðanir. Slíkt mat getur því tekið til viðkvæmra persónuupplýsinga um nemendur í skilningi 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

 

Að auki verður öll vinnsla persónuupplýsinga að fullnægja grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um gæði gagna og vinnslu. Þar er mælt fyrir um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); að þær skuli vera nægilegar og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.); að þær skuli vera áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum, en persónuupplýsingar, sem séu óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skuli afmá eða leiðrétta (4. tölul.); og að þær skuli varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á hina skráðu lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu (5. tölul.).

 

2.3.

Þegar metið er hvort lagaheimild fyrir umræddri vinnslu sé til staðar samkvæmt 8. og eftir atvikum 9. gr. laga nr. 77/2000 og hvort hún samrýmist að öðru leyti grunnkröfum 7. gr. laga nr. 77/2000, þarf meðal annars að líta til þess að […]skólar eru stjórnvöld og lúta því lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Það, hversu skýr slík lagaheimild þarf að vera, ræðst af eðli persónuupplýsinga hverju sinni. Í lögum nr. 77/2000 er mælt fyrir um heimild til að vinna með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila, vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds, sbr. 3., 5. og 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna og um heimild til að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar ef sérstök heimild stendur til vinnslunnar samkvæmt öðrum lögum, sbr. 2. tl. 1. mgr. 9. gr. laganna. Vinnsla stjórnvalda á persónuupplýsingum getur talist heimil samkvæmt þessum ákvæðum – en þó ávallt að því gefnu að hún samrýmist hlutverki viðkomandi stjórnvalds eins og það er skilgreint í lögum.

 

Í 21. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, er fjallað um aðalnámskrá framhaldsskóla. Þar segir að ráðherra setji aðalnámskrá framhaldsskóla sem kveði á um markmið og fyrirkomulag skólastarfs á framhaldsskólastigi. Í 2. mgr. 21. gr. segir að í almennum hluta aðalnámsskrár séu útfærðir starfshættir og markmið framhaldsskóla. Þá er talið upp í 10 stafliðum hvað almennur hluti aðalnámskrár skuli meðal annars innihalda en það er eftirfarandi:

a. ákvæði um uppbyggingu námsbrautarlýsinga og um vægi kjarnagreina framhaldsskóla,
b. skilyrði um hvernig markmið einstakra áfanga og námsbrauta og lokamarkmið náms skulu skilgreind,
c. viðmið um námskröfur og námsframvindu,
d. reglur um námsmat og vitnisburð,
e. skilgreining á vinnustaðanámi og reglur um fyrirkomulag vinnustaðanáms,
f. reglur um mat á starfsnámi og skilgreiningu færnimarkmiða,
g. reglur um raunfærnimat, jafngildingu náms og mat á námi þegar nemendur flytjast milli skóla eða námsbrauta,
h. almennar reglur um skólanámskrár,
i. ákvæði um mat á skólastarfi,
j. almennar reglur um réttindi og skyldur nemenda og meðferð ágreiningsmála.

 

Í d-lið 2. mgr. 21. gr. laganna kemur fram að almenni hluti aðalnámskrár skuli innihalda reglur um námsmat og vitnisburð. Í athugasemdum með því ákvæði frumvarps til laga um framhaldsskóla er varð óbreytt að d-lið 2. mgr. 21. gr. laganna kemur fram að greinin svari til 21. gr. í þágildandi lögum en í 1. ml. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla var kveðið á um að í aðalnámskrá skyldi „mælt fyrir um námsmat, þar með talin próf og vitnisburð“. Í athugasemdum með 21. gr. frumvarps til laga nr. 80/1996 kom fram að í aðalnámskrá skyldu vera „ákvæði um námsmat í framhaldsskólum, almennt námsmat og lokamat. Hvers konar mati skuli beitt og hvaða námskröfur skuli gera til nemenda til að geta lokið tilteknum áföngum náms eða til lokaprófa“.

 

Í 30. gr. sömu laga segir að almennt námsmat í framhaldsskóla sé í höndum kennara, undir umsjón skólameistara og að slíkt mat byggist á markmiðum skólastarfs sem kveðið er á um í aðalnámskrá og skólanámskrá. Í athugasemdum við 30. gr. í frumvarpi sem varð að lögum nr. 92/2008 um framhaldsskóla segir nýmæli sé í lögunum um að skólameistari hafi umsjón með námsmati.

 

Í því tilviki sem erindi skólameistarans lýtur að mun ætlunin að vinnsla persónuupplýsinga um almenna þekkingu, leikni þeirra og hæfni nemenda skuli meðal annars felast í því að lagt verði mat á hvort nemandi geti „tjáð hugsanir sínar og tilfinningar í rökréttu samhengi“, hafi tileinkað sér „jákvætt viðhorf til náms“, hafi „skýra sjálfsmynd“ og taki „ábyrga afstöðu til eigin velferðar - líkamlegrar og andlegrar“. Slíkt mat er eðlisólíkt hefðbundnu námsmati og vitnisburði samkvæmt d-lið 2. mgr. 21. gr. laga nr. 92/2008, áður 3. mgr. 21. gr. laga nr. 80/1996 og tekur til annarra persónuupplýsinga en virðist mega ráða af því lagaákvæði að vinna skuli með.

 

Ætla má að þær upplýsingar sem hér um ræðir og mennta- og menningarmálaráðuneytið krefst að fylgi prófskírteinum nemenda við brautskráningu úr framhaldsskóla geti falið í sér einhvers konar persónuleikapróf. Sé litið til eðlis upplýsingannageta þær, að einhverju marki, talist viðkvæms eðlis, en vinnsla slíkra upplýsinga gæti falið í sér talsverða íhlutun í einkalíf hins skráða sem varið er í 71. gr. stjórnarskrárinnar.

 

Er það mat Persónuverndar í ljósi framangreinds og með vísan til lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins að ákvæði laga nr. 92/2008 hafi ekki að geyma heimild nægilega skýra heimild fyrir vinnslu annarra persónuupplýsinga nemenda, sem brautskráðir eru með framhaldsskólapróf, um annað en námsmat og vitnisburð þeirra.

 

Á k v ö r ð u n a r o r ð :

Ákvæði laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, fela ekki í sér heimild til vinnslu persónuupplýsinga um annað en námsmat og vitnisburð þeirra nemenda, sem brautskráðir eru með framhaldsskólapróf, í umsögn á prófskírteini þeirra.




Var efnið hjálplegt? Nei