Úrlausnir

Vinnsla persónuupplýsinga hjá Þjóðskrá Íslands

18.11.2013

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli um lögmæti upplýsingaöflunar Þjóðskrár Íslands um veitt samþykki kvartanda fyrir því að eiginkona viðkomandi hefði gengist undir tæknifrjóvgun og hvort líta bæri á þær upplýsingar sem viðkvæmar persónuupplýsingar. Persónuvernd úrskurðaði að vinnslan hefði samrýmst lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Úrskurður

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 12. nóvember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2013/999:

 I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

1.

Tildrög máls

Þann 27. ágúst 2013 barst Persónuvernd með tölvupósti kvörtun frá [A] (hér eftir nefnd[…] kvartandi), varðandi útgáfu fæðingarvottorðs hjá Þjóðskrá Íslands. Í kvörtuninni segir m.a. að kvartandi telji starfshætti Þjóðskrár Íslands hvað varðar persónuupplýsingar ekki samrýmast lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá kemur fram að við útgáfu fæðingarvottorðs til handa [barni] kvartanda hafi Þjóðskrá Íslands óskað eftir afriti af samþykki kvartanda, um að eiginkona hennar hefði gengist undir tæknifrjóvgun, frá læknasetrinu Art Medica en kvartandi hafði hvorki verið frædd um umrædda upplýsingaöflun né hafði hún veitt samþykki sitt fyrir henni.

 2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 3. september 2013, var Þjóðskrá Íslands boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sérstaklega var óskað upplýsinga um það hvort umrædd miðlun frá Art Medica til Þjóðskrár hefði farið fram og á hvaða heimild í 8., og eftir atvikum 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, umrædd vinnsla byggðist.

Svarbréf Þjóðskrár barst þann 25. september 2013, dags. 24. s.m. Þar kemur m.a. fram að Þjóðskrá Íslands annist almannaskráningu samkvæmt lögum nr. 54/1962, m.a. útgáfu fæðingarvottorða sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Um málavexti segir m.a. að Þjóðskrá berist upplýsingar um börn sem fæðist hér á landi frá ljósmæðrum til samræmis við 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu. Í slíkri tilkynningu kemur fram nafn foreldra barns og fari svo eftir lögum og hjúskaparstöðu foreldra hvort og hvernig foreldri barns er skráð, t.d. hvort faðir teljist sjálfkrafa faðir barns að lögum. Í bréfinu er vísað til 6. gr. barnalaga nr. 76/2003 en þar er fjallað um foreldri barns sem getið er með tæknifrjóvgun en þar segir í 2. og 3. mgr.:

[...] Kona sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun telst foreldri barns sem þannig er getið. Sama á við um konur sem skráð hafa sambúð sína í Þjóðskrá.

Maður sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun telst faðir barns sem þannig er getið. Sama á við um mann og konu sem skráð hafa sambúð sína í Þjóðskrá. [...].

Í svarbréfi Þjóðskrár kemur einnig fram að þegar stofnuninni berst tilkynning frá ljósmóður þar sem fram kemur að barn eigi tvær mæður þurfi að ganga úr skugga um hvort 2. mgr. 6. gr. barnalaga eigi við svo unnt sé að skrá barnið réttilega og að sú skráning sé í samræmi við lög. Á fæðingarskýrslu fyrir barn kvartanda voru nefndar tvær mæður sem skráðar voru giftar í þjóðskrá. Sú sem fæðir barnið sé sjálfkrafa móðir þess en þar sem tvær mæður séu tilgreindar á fæðingartilkynningu geti hin ekki verið foreldri þess nema 2. mgr. 6. gr. barnalaga eigi við. Aðeins ein heilbrigðisstofnun hefði leyfi hér á landi til að framkvæma tæknifrjóvgun en það væri Art Medica samkvæmt 2. gr. laga nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa til stofnfrumurannsókna. Af þeirri ástæðu teldi Þjóðskrá Íslands sér skylt að afla upplýsinga um hvort sú móðir sem ekki fæddi barn, teldist foreldri þess samkvæmt lögum, en án slíkra upplýsinga gæti Þjóðskrá ekki haldið rétta skrá líkt og lög gerðu kröfu um né gefið út fæðingarvottorð þar sem réttir foreldrar eru skilgreindir. Hefði Þjóðskrá því óskað eftir staðfestingu frá Art Medica um það að barn kvartanda hefði verið getið með tæknifrjóvgun samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa til stofnfrumurannsókna nr. 55/1996, en sú framkvæmd væri í samræmi við þágildandi verklagsreglur hjá Þjóðskrá Íslands.

Um heimild til vinnslunnar segir að stofnunin telji hana styðjast við 3. og 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 en Þjóðskrá beri skylda til að halda almannaskrá og gefa út vottorð sem byggi á þeirri skráningu. Mikilvægt væri að skráning barns í þjóðskrá væri byggð á réttum upplýsingum, þ.á m. hverjir væru réttilega skráðir foreldrar barns að lögum en Þjóðskrá gæti ekki tryggt réttleika skráa sinna hefði hún ekki þær upplýsingar sem lægju að baki skráningu foreldra og forsjáraðila barna. Taldi Þjóðskrá að ekki væri um að ræða vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga í skilningi 8. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 77/2000 og því ætti 9. gr. laganna ekki við um vinnsluna.

Að lokum kemur fram í bréfi Þjóðskrár að stofnunin hafi, í kjölfar athugasemda kvartanda, tekið umrætt vinnsluferli til endurskoðunar hjá stofnuninni. Þar til skýrari verklagsreglur hefðu verið settar í samvinnu við Art Medica, og með hliðsjón af áliti Persónuverndar á umræddri miðlun og vinnslu upplýsinga, muni konur í skráðri sambúð eða hjúskap sjálfar þurfa að miðla upplýsingum um samþykki sitt fyrir tæknifrjóvgun til Þjóðskrár en ekki verði óskað eftir umræddum upplýsingum frá Art Medica.

Með bréfi, dags. 30. september sl., var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar Þjóðskrár Íslands til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til þess að Þjóðskrá hafi breytt verklagsreglum sínum, varðandi öflun upplýsinga um konur sem samþykkt hafa að tæknifrjóvgun færi fram á eiginkonum sínum, óskaði stofnunin sérstaklega eftir afstöðu kvartanda til þess hvort [hún] teldi ágreining enn vera til staðar milli hennar og Þjóðskrár og ef svo væri, í hverju hann fælist.

 Svarbréfi kvartanda barst með tölvupósti þann 2. október sl. Þar sagði m.a.:

„Felst ágreiningurinn m.a. í eftirfarandi:

1.   Þjóðskrá mótmælir þeirri afstöðu undirritaðrar að um viðkvæmar persónuupplýsingar sé að ræða en úr því er nauðsynlegt að skera.

2.    Þjóðskrá hefur ekki upplýst undirritaða með nokkrum hætti um breyttar verklagsreglur né svarað erindum og því er ósannað að verklag sé breytt hjá stofnuninni hvað undirritaða varðar.

3.    Þó að verklagi sé breytt í þá veru sem Þjóðskrá lýsir er enn um að ræða mismunun á grundvelli kynhneigðar að mínu mati þar sem sama verklag er í raun viðhaft sem felst í því að aðeins samkynhneigð pör þurfi að sanna samþykki glasafrjóvgunar en ekki gagnkynhneigð pör sem gengið hafa í gegnum sams konar ferli. Lögum samkvæmt er bannað að framkvæma glasafrjóvgun nema með samþykki og skyldi því slíkt samþykki óþarft og ekki viðhöfð slík gagnaöflun gagnvart einum þjóðfélagshóp“

Með bréfi, dags. 18. október sl., upplýsti Persónuvernd kvartanda um að stofnunin hefði framsent hluta kvörtunar hennar, n.t.t. sem lýst er í liðum 2. og 3. hér að ofan, til Þjóðskrár Íslands þar sem stofnunin hefði ekki vald til að skera úr um það, hvort stjórnvald hefði mismunað skjólstæðingum sínum á grundvelli kynhneigðar og að úrlausn slíkra mála félli utan valdmarka stofnunarinnar.

 II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

Af framangreindu er ljóst að öflun upplýsinga um samþykki kvartanda fyrir því að eiginkona hennar hafi gengist undir tæknifrjóvgun, fellur úrlausn ágreiningsmáls þessa undir úrskurðarvald Persónuverndar, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000.

 2.

Eðli upplýsinganna

Í máli þessu hefur kvartandi afmarkað ágreiningsefnið við það hvort upplýsingaöflun Þjóðskrár um veitt samþykki kvartanda, fyrir því að eiginkona hennar hafi gengist undir tæknifrjóvgun, hafi verið lögmæt og hvort líta beri á þær upplýsingar sem viðkvæmar persónuupplýsingar. Persónuvernd leysir úr ágreiningi um hvort persónuupplýsingar skuli teljast viðkvæmar eða ekki, sbr. 5. mgr. 9. gr. laganna.

Í 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 er að finna tæmandi talningu á því hvaða flokkar upplýsinga teljast viðkvæmir. Samkvæmt c-lið 8. tölul. 2. gr. teljast upplýsingar um heilsuhagi, þar á meðal um erfðaeiginleika, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun viðkvæmar persónuupplýsingar.

Hugtakið „heilsuhagir“ hefur verið túlkað rúmt og er ekki bundið við sjúkdóma eingöngu. Í 1. gr. laga nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna er tæknifrjóvgun skilgreind sem getnaður sem verður í framhaldi af tæknisæðingu eða glasafrjóvgun. Þá er einungis heimilt að framkvæma tæknifrjóvgun á heilbrigðisstofnun sem fengið hefur til þess leyfi ráðherra og undir eftirliti sérfræðinga í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp sbr. 1. mgr. 2. gr. sömu laga. Í athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögunum er talað um tæknifrjóvgunarmeðferð sem læknir taki ákvörðun um en hugtakið meðferð er einnig skilgreint í 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 sem rannsókn, aðgerð eða önnur heilbrigðisþjónusta sem læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður veitir til að greina, lækna, endurhæfa, hjúkra eða annast sjúkling. Upplýsingar um tæknifrjóvgunarmeðferð geta einnig, eftir atvikum, borið með sér upplýsingar um undirliggjandi heilsufarsleg vandamál þess sem undirgengst slíka meðferð.

Í ljósi framangreinds telur Persónuvernd að upplýsingar um að einstaklingur hafi farið í tæknifrjóvgunarmeðferð séu upplýsingar um heilsuhagi hans samkvæmt c-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 og teljist þar af leiðandi viðkvæmar persónuupplýsingar um þann tiltekna einstakling. Hins vegar er hér til úrlausnar hvort upplýsingar um veitt samþykki kvartanda, um að eiginkona hennar hafi farið í tæknifrjóvgun, teljist vera viðkvæmar persónuupplýsingar um kvartanda enda hefur hann óskað eftir úrlausn um vinnslu þeirra upplýsinga hjá Þjóðskrá Íslands sbr. kvörtun, dags. 27. ágúst 2013.

Er það mat Persónuverndar að upplýsingar um samþykki kvartanda, um að eiginkona hennar hafi undirgengist tæknifrjóvgunarmeðferð, teljist ekki viðkvæmar persónuupplýsingar um kvartanda þrátt fyrir að umræddar upplýsingar geti borið með sér viðkvæmar persónuupplýsingar um þriðja aðila, þ.e. maka hennar. Eftir stendur ágreiningur um lögmæti vinnslu Þjóðskrár Íslands sem lýtur að öflun upplýsinga um veitt samþykki kvartanda frá þriðja aðila.

3.

Lögmæti

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að eiga sér stoð í lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar er greint á milli almennra persónuupplýsinga og viðkvæmra. Talsvert strangari kröfur eru gerðar til lögmætis vinnslu persónuupplýsinga sem teljast viðkvæmar í skilningi laga nr. 77/2000 en til vinnslu annarra persónuupplýsinga. Svo að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil þarf hún að uppfylla eitthvert skilyrða 1. mgr. 8. gr. sem og eitthvert skilyrða 1. mgr. 9. gr. laganna.

Í máli því sem hér er til úrlausnar hefur kvartandi haldið því fram að vinnsla persónuupplýsinga, hvað varðar persónuupplýsingar um hana, hjá Þjóðskrá Íslands samrýmist ekki ákvæðum laga nr. 77/2000. Þar sem umræddar upplýsingar um veitt samþykki kvartanda teljast ekki viðkvæmar persónuupplýsingar um kvartanda er ekki tilefni til að taka til skoðunar viðbótarskilyrði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.

Þegar um ræðir vinnslu á vegum stjórnvalda reynir einkum á 3. og 6. tölul. 1. mgr. 8. gr., þess efnis að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu þess sem ábyrgð ber á vinnslunni eða sé nauðsynleg við beitingu opinbers valds.

Við vinnsluna þarf jafnframt að gæta að skilyrðum 1. mgr. 7. gr. laganna, þ. á m. að upplýsingar skulu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti; fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); að þær skulu vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.);

Í 3. gr. laga nr. 54/1962 um þjóðskrá og almannaskráningu er hlutverk Þjóðskrá Íslands afmarkað en þar kemur fram að Þjóðskrá annast almannaskráningu samkvæmt lögunum, útgáfu vottorða og skilríkja og annað það er lögin mæla fyrir um. Hlutverk sitt leysir Þjóðskrá Íslands af hendi með því m.a. að láta opinberum aðilum og almenningi í té upplýsingar og vottorð sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. Almannaskráning byggir m.a. á tilkynningum ljósmæðra um fæðingar sbr. 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna. Jafnframt byggir almannaskráning á upplýsingum sem Þjóðskrá Íslands aflar sér sjálf með eftirgrennslan eða sem henni berast á einn eða annan hátt, eftir því sem þörf krefur og heimildir leyfa sbr. 7. tölul. 1. mgr. 4. gr. Þá kemur fram í 5. gr. laganna að Þjóðskrá geti krafist þess af opinberum aðilum að þeir láti henni í té skýrslur samkvæmt 4. og 5. gr. laganna, þ.m.t. skýrslur ljósmæðra um barnsburð, og geti knúið hlutaðeigandi með dagsektum til að skila slíkum skýrslum innan tilskilins frests sbr. 1. mgr. 6. gr.

Ákvæði 3. gr. barnalaga nr. 76/2003 fjallar um ákvörðun um faðerni barns þegar almennum feðrunarreglum um börn hjóna og foreldra í skráðri sambúð sleppir. Í 2. mgr. 3. gr. segir að um foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun gilda ákvæði 6. gr. laganna. Í 1. mgr. 6. gr. segir að kona sem ali barn sem getið er við tæknifrjóvgun teljist móðir þess. Að sama skapi telst kona, sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni eða sambýliskonu, foreldri barns sem þannig er getið sbr. 2. mgr. 6. gr. Sams konar regla gildir um mann sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni en hann telst einnig foreldri barns sem þannig er getið sbr. 3. mgr. 6. gr. barnalaga.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, er óheimilt að framkvæma tæknifrjóvgun hér á landi nema fyrir liggi skriflegt og vottað samþykki þeirrar konu sem gengst undir tæknifrjóvgun og maka hennar. Þjóðskrá Íslands barst í þessu tilviki afrit af skýrslu frá ljósmóður um fæðingu barns kvartanda, þar sem kvartandi og eiginkona hennar voru tilgreindar sem foreldrar barns, en þær voru jafnframt skráðar giftar í þjóðskrá. Persónuvernd telur í ljósi þeirra víðtæku heimilda sem Þjóðskrá Íslands hefur til gagnaöflunar vegna almannaskráningar að umrædd vinnsla, er laut að öflun samþykkis kvartanda vegna útgáfu fæðingarvottorðs fyrir barn hennar og skráningu þess í þjóðskrá, hafi uppfyllt ákvæði 3. og 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. [laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga] enda hafi hún farið fram í málefnalegum tilgangi, nánar tiltekið til að rannsaka hvort lagaskilyrðum 2. mgr. 6. gr. barnalaga nr. 76/2003 væri fullnægt og til að tryggja rétta og áreiðanlega almannaskráningu.

 Ú r s k u r ð a r o r ð:

Öflun Þjóðskrár Íslands á upplýsingum um samþykki kvartanda skv. a-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 55/1996 samrýmdist lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.




Var efnið hjálplegt? Nei