Úrlausnir

Öflun tollstjóra á upplýsingum um skipverja - mál nr. 2012/1480

7.6.2013

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli manns sem kvartaði yfir upplýsingaöflun tollstjóra á fylgiblaði með eyðublaði um skipverja og vörur þeirra um borð í skipi. Taldi maðurinn óljóst hver tilgangur fylgiskjalsins væri og hver bæri ábyrgð á því. Persónuvernd taldi vinnsluna vera í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga og gerði því ekki athugasemdir við vinnsluna. 

Úrskurður


Hinn 28. maí 2013 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2012/1480:

I.
Grundvöllur máls
Málavextir og bréfaskipti


1.
Tildrög máls
Þann 14. desember 2012 barst Persónuvernd kvörtun frá A (hér eftir nefndur kvartandi), áhafnarmeðlimi skips, yfir ómerktu eyðublaði sem Tollgæslan í Reykjavík krefur áhafnarmeðlimi um að fylla út við komu til landsins. Umrætt eyðublað fylgdi með eyðublaði þar sem skrá ber allar vörur er áhafnarmeðlimir hafa meðferðis til lands að verðmæti a.m.k. 24.000 kr, merkt „Skipverjalista - Skrá yfir skipverja og vörur þeim tilheyrandi um borð í skipi“. Taldi kvartandi aftur á móti ekki ljóst hver tilgangurinn væri með hinu ómerktu fylgiblaði og hver bæri ábyrgð á því. Á hinu ómerkta eyðublaði átti nánar tiltekið að skrá nafn áhafnarmeðlims, vörulýsingu og verðmæti vöru.

Með bréfi til kvartanda, dags. 15. janúar 2013, greindi Persónuvernd frá því að það væri skilningur stofnunarinnar að kvörtunin lyti að því að kvartandi hafði ekki fengið fullnægjandi fræðslu frá Tollgæslunni í Reykjavík, þ.e. um tilgang vinnslu persónuupplýsinga á hinu ómerkta eyðublaði, í skilningi 20. gr. laga nr. 77/2000. Var sá skilningur stofnunarinnar staðfestur með tölvupósti, dags. 22. janúar 2013.

2.
Bréfaskipti
Með bréfi, dags. 24. janúar 2013, var embætti Tollstjóra boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi Tollstjóra, dags. 19. febrúar 2013, segir m.a. um heimild til vinnslu:

„Meginregla tollalaga nr. 88/2005 er sú að hver sá sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota er tollskyldur og skal greiða toll af hinni innfluttu vöru, nema annað sé tekið fram, sbr. 3. gr. tollalaga.[...] Í 1. mgr. 5. gr. segir að af vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins skuli greiða toll eins og mælt er fyrir í tollskrá í viðauka I með lögunum.[...]
Í 5. gr. reglugerðar nr. 630/2008 kemur fram að skipverjum og flugverjum, búsettum hér á landi, sé heimilt að flytja ákveðinn varning inn tollfrjáls sem nánar er kveðið á um í 1. og 2. tl. 1. mgr. sömu greinar. Ákveðin upplýsingaskylda hvílir á þeim sem koma til landsins frá útlöndum og skulu þeir ótilkvaddir gera Tollstjóra grein fyrir tollskyldum vörum sem þeir hafa meðferðis svo og þeim hlutum sem eru háðir sérstökum innflutningstakmörkunum og innflutningsbanni, sbr. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar[ nr. 630/2008]. Þá er sérstaklega kveðið á um það í 3. mgr. 12. gr. sömu reglugerðar að þeir sem eru í áhöfn aðkomufars skuli gera grein fyrir varningi skv. 1. mgr. á sérstöku eyðublaði, hvort sem flytja á hann í land eða nota hann um borð í fari, og jafnframt framvísa vörum sem eru háðar innflutningstakmörkunum eða innflutningsbanni.
Með vísan í ofangreint eru skipverjar látnir gera grein fyrir þeim varningi sem þeir hafa meðferðis á þar til gerðum skipverjalista, þ.e. skrá yfir skipverja og vörur þeim tilheyrandi um borð í skipi.“

Um tilgang hins ómerkta fylgiblaðs segir:

„Ástæða þess að skipverjar eru látnir fylla út fylgiskjal með fyrrgreindum skipverjalista er sú að þegar núverandi skipverjalisti var tekinn í notkun, fyrir um fimm árum, var honum breytt úr A3 eyðublaði yfir í A4 eyðublað með minna plássi fyrir útlistun á verslunarvarningi skipverja. Til að bregðast við því að litlum upplýsingum er hægt að koma fyrir í umræddum reitum eru skipverjar látnir fylla út fylgiskjal svo hægt sé að fá upplýsingar frá þeim um þann varning sem um ræðir og þeim ber skylda til að upplýsa um, sbr. 4. mgr. 27. gr. tollalaga og 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 630/2008.“

Með bréfi, dags. 22. febrúar 2013, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar Tollstjóra til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi kvartanda, dags. 20. mars 2013, segir m.a. að það hafi verið að frumkvæði starfsmanna Tollgæslunnar í Reykjavík að láta áhafnarmeðlimi fylla út hið ómerkta eyðublað, en kvartandi telur það ekki ljóst hvaða heimild stjórnvald hefur til þess og hver hafi tekið þá ákvörðun. Þá telur kvartandi skýringar Tollstjóra, um breytingar á skipverjalista fyrir fimm árum, vera ófullnægjandi. Þá komi ekki fram hvar upplýsingar eru geymdar og þykir honum svör Tollstjóra benda til þess að það framkvæmi skipulagða vöktun.

II.
Forsendur og niðurstaða

1.
Gildissvið laga nr. 77/2000
Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

Af framangreindu er ljóst að öflun upplýsinga um nöfn og verlsunarvarning áhafnarmeðlima skips við komu til landsins fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.

2.
Lögmæti vinnslu
Í 8. gr. laga nr. 77/2000 eru almennar reglur um heimildir fyrir vinnslu persónuupplýsinga. Er vinnsla persónuupplýsinga heimil ef einhverjir þeirra þátta sem þar eru taldir upp eru fyrir hendi. Þegar stjórnvöld afla upplýsinga í tengslum við stjórnvaldseftirlit verður einkum talið að 5. og 6. og, eftir atvikum, 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna geti átt við um upplýsingaöflunina og eftirfarandi vinnslu upplýsinganna. Samkvæmt 3. tölul. er vinnsla heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu, samkvæmt 5. tölul. er vinnsla heimil sé hún nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna og samkvæmt 6. tölul. er vinnsla heimil sé hún nauðsynleg við beitingu opinbers valds.

Við vinnsluna þarf jafnframt að gæta að skilyrðum 1. mgr. 7. gr. laganna, þ. á m. að upplýsingar skulu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); að þær skulu vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.); og að þær skulu varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á skráða aðila lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu (5. tölul.).

Tollstjóri hefur vísað til ákvæða 1. og 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi, sem sett var á grundvelli 2. mgr. 6. gr. og 5. mgr. 27. gr. tollalaga nr. 88/2005. Samkvæmt téðum ákvæðum reglugerðarinnar hvílir upplýsingaskylda á skipverjum sem koma til landsins frá útlöndum og er nánar fjallað um þá upplýsingagjöf í 12. gr. reglugerðarinnar. Í ljósi þessa ákvæða telur Persónuvernd að ákvæði 3. tölul. og 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. séu uppfyllt. Var Tollstjóra því heimilt að afla upplýsinga frá kvartanda vegna tollheimtu og tolleftirlits.

3.
Fræðsluskylda ábyrgðaraðila
Samkvæmt ákvæði 20. gr. laga nr. 77/2000 skal ábyrgðaraðili upplýsa hinn skráða um tiltekin atriði þegar hann aflar persónuupplýsinga hjá hinum skráða sjálfum, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Að minnsta kosti verður ábyrgðaraðili að upplýsa um nafn og heimilisfang sitt (1. tölul.), tilgang vinnslunnar (2. tölul.) og eftir atvikum aðrar upplýsingar, að því marki sem þær eru nauðsynlegar (3.tölul.).

Þá segir í ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000 að ákvæði 16., 18.-21., 24., 26., 31. og 32. gr. laganna gildi ekki um vinnslu persónuupplýsinga sem varða almannaöryggi, landvarnir, öryggi ríkisins og starfsemi á sviði refsivörslu.

Samkvæmt ákvæði 4. tölul. 9. gr. löreglulaga nr. 90/1996 fara Tollstjóri, löglærðir fulltrúar hans og tollverðir með lögregluvald á sínu starfssviði og þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu. Í ljósi þess telur Persónuvernd að hér eigi við framangreint ákvæði 2. mgr. 3. gr. og því hafi ekki hvílt á Tollstjóra fræðsluskylda skv. 20. gr. laga nr. 77/2000.

Þó verður ávallt að gæta þess við meðferð persónuupplýsinga að þær séu m.a. unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000. Í þessu felst meðal annars að hinn skráði verður að eiga kost á fullnægjandi vitneskju um vinnslu persónuupplýsinga um sig, en í því getur falist að veita verði honum tiltekna fræðslu. Af gögnum málsins verður ráðið að kvartanda hafi mátt vera ljóst að umrætt fylgiblað væri á vegum Tollstjóra, sem og að tilgangur embættis hans með því væri að sinna lögbundnum skyldum. Verður því ekki séð að vinnslan hafi farið í bága við ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000.


Ú r s k u r ð a r o r ð:
Upplýsingaöflun Tollstjóra á fylgiblaði með eyðublaðinu „Skipverjalisti - Skrá yfir skipverja og vörur þeim tilheyrandi um borð í skipi“ var í samræmi við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.



Var efnið hjálplegt? Nei