Úrlausnir

Myndbirting á heimasíðu fjölmiðils - mál nr. 2013/426

14.5.2013

Persónuvernd hefur vísað frá kvörtun manns vegna myndbirtingar á vefsíðu fjölmiðils og tengingu þeirrar myndar við leitarvél á netinu. Að mati Persónuverndar var umrædd mynd eingöngu birt í þágu fréttamennsku og því gildi eingöngu tiltekin ákvæði persónuverndarlaga. Ekkert lá fyrir um að myndbirtingin hefði verið ósanngjörn eða ómálefnaleg eða að hún hafi verið óáreiðanleg eða ófullkomin. Þá sé það hlutverk dómstóla að meta hvort beita skuli refsi- eða bótaábyrgð, en ekki Persónuverndar.

Reykjavík, 17. apríl 2013


Ákvörðun


I.
Persónuvernd barst kvörtun yðar, dags. 19. mars 2013, varðandi myndbirtingu á vefsíðunni www.mbl.is, sem og tengingu þeirrar myndar við www.google.com. Í kvörtuninni segir m.a.:

„Af mér er mynd á vef Morgunblaðsins, mbl.is, sem ég hef ekki áhuga á að sé birt. Ljósmyndin sem um ræðir er að mínu mati einkar persónuleg þar sem að hún sýnir ásýnd mína og hér í ofanálag undir nafni.
Ég hafði vingjarnlega samband við Morgunblaðið og bað um að myndin yrði fjarlægð en þeirri beiðni var neitað eða beiðni minni svarað með orðunum að það væri ekki hægt. Ástæðurnar sem Morgunblaðið gefur fyrir því að geta ekki fjarlægt myndina eru í megindráttum tvær; Sú fyrri er að netútgáfa blaðsins endurspeglar prentútgáfu blaðsins og því væri um fölsun að ræða[...] Hér ber að taka fram að netútgáfa blaðsins er ekki sambærileg prentútgáfunni og því vil ég segja að svar Morgunblaðsins þess efnis[...] sé ekki rétt.[...] Síðari ástæða þess að Morgunblaðið geti ekki fjarlægt myndina af mér er sú að ég „lét“ taka mynd af mér. Þrátt fyrir að ég hafi ekki beðið um að af mér yrði tekin mynd og að mér hafi ekki verið gerð grein fyrir því að sú mynd sem ég lét taka af mér yrði á veraldarvefnum um ókomin ár telur Morgunblaðið þetta ástæðu til þess að ekki sé hægt að taka myndina af vefnum.
[...]Varðandi myndbirtinguna á sínum tíma þá bað ég ekki persónulega um að ljósmyndari kæmi á viðburðinn heldur gerði safnið það. Ég bað ljósmyndarann að taka frekar mynd af verkunum en af mér en hann vildi fá okkur út og að við stilltum okkur upp.[...] Ég var viðkunnalegur við safnið, sem hafði kallað Morgunblaðið á svæðið, og tók þátt í uppstillingunni.[...] Þegar ég var beðinn um að stilla mér upp persónulega í stað þess að ljósmynda það sem uppstillt var til sýnis, verk mín, þá var mér ekki gerð grein fyrir því að þessi ljósmynd ætti eftir að vera til sýnis á internetinu um ókomin ár.
Seinni liður þessa máls varðar að umrædd ljósmynd birtist í leitarvél google, á heimasíðu google, en það er einungis af þeirri ástæðu að Morgunblaðið vistar myndina á veraldarvefnum og það nafntengt mér.“

Með kvörtun yðar fylgdi afrit af tölvupóstsamskiptum yðar við Morgunblaðið sumarið 2012. Þá komuð þér jafnframt því á framfæri munnlega við starfsmann Persónuverndar þann 19. mars sl. að þér þætti umrædd myndbirting ekki vera í þágu fréttamennsku, sbr. orðalag í ákvæði 5. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

II.
Samkvæmt ákvæði 5. gr. laga nr. 77/2000 er unnt að víkja frá ákvæðum laganna í þágu t.d. fjölmiðlunar. Nánar tiltekið segir í 1. málsl. ákvæðisins að slíkt eigi við að því marki sem það er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, og tjáningarfrelsis hins vegar, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Þá segir í 2. málsl. ákvæðisins að þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu t.d. fréttamennsku gildi aðeins tiltekin ákvæði laga nr. 77/2000, n.t.t. ákvæði 4. gr., 1. og 4. tölul. 7. gr., 11.-13. gr. og 24., 28., 42. og 43. gr.

Í því tilviki sem hér um ræðir liggur ljóst fyrir að sú mynd er birtist af yður á mbl.is var frá sýningu á verkum yðar í listasafni. Þá var myndin birt í tengslum við umfjöllun Morgunblaðsins um umrædda listasýningu, sem verður ekki talið óhóflegt miðað við tilgang fréttarinnar.

Í ljósi framangreinds er það mat Persónuverndar að myndin hafi einvörðungu verið birt í þágu fréttamennsku, og fellur því atvikið undir ákvæði 2. málsl. 5. gr. laga nr. 77/2000.

Af því leiðir að umfjöllun Persónuverndar einskorðast við þau ákvæði laga nr. 77/2000 sem tilgreind eru í 2. málsl. 5. gr, eins og áður segir. Ekkert ákvæðanna kemur til skoðunar í þessu tilviki, enda liggur ekki fyrir að Morgunblaðið hafi unnið með upplýsingarnar með ósanngjörnum eða ómálefnalegum hætti, eða að þær hafi verið óáreiðanlegar eða ófullkomnar, sbr. 1. og 4. tölul. 7. gr. Þá fellur það í hlut dómstóla að meta hvort beita skuli refsi- eða bótaábyrgð skv. ákvæðum 42. og 43. gr. laganna, en ekki Persónuverndar.

Loks leiðir af 2. málsl. 5. gr. laganna að Persónuvernd getur t.d. ekki metið heimild Morgunblaðsins fyrir myndbirtingunni, sbr. ákvæði 8. gr. laga nr. 77/2000, hvort þér hafi verið veitt fullnægjandi fræðsla, sbr. 20. gr. sömu laga, eða hvort Morgunblaðinu hafi verið heimilt að vista myndina á vefnum, nafntenga þér, svo að hún birtist í leitarvélum fyrirtækja á borð við Google.

Með vísun til alls ofangreinds hefur málinu verið vísað frá og tilkynnist það yður hér með.




Var efnið hjálplegt? Nei