Úrlausnir

Birting upplýsinga á heimasíðu stjórnvalds - mál nr. 2012/867

19.4.2013

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli manns sem taldi að stjórnvald hefði birt persónugreinanlegar upplýsingar um sig á heimasíðu sinni. Að mati Persónuverndar varð ekki séð að mögulegt hafi verið að greina hvaða einstaklingur það væri sem sendi umrædd bréf til stofnunarinnar. Birtingin fól því ekki í sér miðlun persónuupplýsinga um einstakling og fellur því utan gildissviðs laga nr. 77/2000. 

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 9. apríl 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2012/867:

 

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

1.

Tildrög máls

Þann 5. mars 2012 barst Persónuvernd, með tölvupósti, erindi A (hér eftir nefndur kvartandi), varðandi birtingu samskipta hans sem stjórnarformanns Samtaka X við Z (stofnun) á heimasíðu stofnunarinnar [...]. Í erindi kvartanda var farið fram á að Persónuvernd legði mat á hvort birting samskiptanna bryti í bága við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Með tölvubréfi, dags. 27. júlí 2012, svaraði Persónuvernd fyrirspurn kvartanda varðandi framangreint. Þar kom m.a. fram að ekki væri ljóst hvort að hann óskaði almennra upplýsinga um það hvort birting samskipta framangreindra aðila á netinu geti talist fara í bága við lög nr. 77/2000 eða hvort hann óskaði eftir því að málið yrði tekið til formlegrar meðferðar hjá stofnuninni og líta mætti á erindi hans sem kvörtun til stofnunarinnar yfir birtingu persónuupplýsinga um hann.

Þá gerði stofnunin grein fyrir helstu lögum og reglum sem líta yrði til í framangreindu tilviki. Enn fremur var kvartanda gerð grein fyrir því að teldi hann að Z hefði með ólögmætum hætti miðlað persónuupplýsingum um hann, gæti hann kvartað til Persónuverndar. Stofnuninni yrði þá að berast staðfesting þess efnis um að hann óskaði eftir formlegri meðferð hjá stofnuninni og líta bæri á erindið sem kvörtun. 

Svarbréf kvartanda barst með tölvubréfi, dags. 29. júlí 2012. Þar kemur m.a. fram að kvartandi óski eftir því að Persónuvernd taki formlega til skoðunar þá kvörtun hans, að Z hafi gerst brotleg við persónuverndarlög með því að birta bréf hans fyrir hönd X á vef Z.

Um málavexti segir enn fremur:

„Ég tek fram að í bréfaskiptum forstjóra Z við undirritaðan sagðist hann ætla að birta svör Z til X á vefnum, en ekki bréf undirritaðs fyrir hönd X til Z.

 Stofnunin birtir bréfin með því að þurrka út nöfn höfunda bréfsins, en  augljóst er hins vegar að forsvarsmenn X höfðu sent fyrirspurnirnar,  þ.e. formaður og varaformaður stjórnar X. Þótt tilraunin hafi  mistekist er ásetningur Z augljóslega sá að gera lítið úr  trúverðugleika samtakanna, m.a. með að vísa í samtökin innan gæsalappa  og fara að öðru leyti háðslega um erindi samtakanna til Z.  Óska ég  eftir því að Persónuvernd úrskurði hvort slíkt samræmist persónuverndarlögum.“

2.

Bréfaskipti

við Z

Með bréfi, dags. 14. ágúst 2012, var Z tilkynnt um framangreinda kvörtun og veittur kostur á að tjá sig um hana til samræmis við ákvæði 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var frestur veittur til 29. s.m.

Með tölvupósti, dags. 28. ágúst 2012, óskaði Z eftir fresti til að svara bréfi stofnunarinnar. Var sá frestur veittur til 10. september s.á.

Svarbréf Z, dags. 7. september 2012, barst Persónuvernd þann 12. s.m.  Er þar fyrst og fremst kvartað yfir málsmeðferð Persónuverndar, m.a. að kvartandi hafi ekki fyllt út og undirritað sérstakt kvörtunareyðublað. Þá telur Z rökstuðning vanta fyrir kvörtununum og það sé óljóst hver kvartandi sé. Einnig telur Z að málið sé ekki tækt til meðferðar þar sem sambærilegt mál sé til meðferðar hjá Umboðsmanni Alþingis.

Þá segir í bréfi Z:

„ [...]Einu upplýsingarnar sem birtar eru í umræddum bréfum eru upplýsingar um nafn og netfang samtakanna, en þar sem um lögaðila er að ræða þá gilda lög nr. 77/2000 ekki um birtingu á þeim hluta upplýsinganna. [...]

 

Z bendir á að engar persónuupplýsingar er að finna um A á tilgreindri síðu. Í 1. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 77/2000, kemur skýrt fram að upplýsingarnar þurfa að vera rekjanlegar beint eða óbeint til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Umrædd bréf bera vissulega með sér að einhver skrifi fyrir hönd umræddra samtaka en hver það er sem skrifar er ekki rekjanlegt nema að því marki sem umræddur aðili hefur sjálfur kosið að birta annars staðar.[...]

 

Að lokum skal það áréttað að engar persónuupplýsingar er að finna um kvartanda á umræddum vef, ekki er tilgreint með nákvæmum hætti yfir hverju sé kvartað, ekki er vísað til þess bréf sem innihaldi persónuupplýsingarnar, umrædd samtök hafa sjálf birt persónuupplýsingar um starfsmenn Z, kvörtunin er ekki skrifleg og er þegar til meðferðar hjá öðru stjórnvaldi. [...]“

Með bréfi, dags. 8. október 2012, óskaði Persónuvernd eftir staðfestingu Umboðsmanns Alþingis á því að kvartandi hefði leitað til embættisins vegna sambærilegs máls. Svarbréf Umboðsmanns, dags. 23. október 2012, barst Persónuvernd þann 24. s.m. Þar kemur m.a. fram að embættinu hafi borist kvörtun hans, fyrir hönd Samtaka X, en hún lúti m.a. að birtingu bréfaskipta samtakanna við Z. Þá kemur einnig fram í bréfi Umboðsmanns að kvörtun til Umboðsmanns Alþingis geti almennt ekki haft þau áhrif að á störf stjórnvalda að þeim sé rétt að bíða með afgreiðslu erinda sem fyrir því liggja meðan umboðsmaður tekur afstöðu til kvörtunarinnar, hvort sem að kvörtunin varði starfsemi viðkomandi stjórnvalds eða annars stjórnvalds.

Þann 15. október 2012 bárust Persónuvernd frekari svör frá Z. Þar er ítrekuð fyrri afstaða Z um að umræddar upplýsingar hafi verið birtar án persónuauðkenna. Þá bendir Z á að um ætlað samþykki A sé að ræða þar sem honum hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða birtingu en gerði ekki athugasemdir við hana. Auk þess hafi kvartandi sjálfur sagst ætla birta bréfin á vefsvæði samtakanna.  Enn fremur bendir Z á að birtingu á umræddum bréfum hafi lokið fyrir þó nokkru þar sem þau hafi ekki haft fréttagildi lengur, og megi í því sambandi velta fyrir sér hvort gildissvið laganna nái á annað borð yfir þessar upplýsingar. Að lokum fer Z fram á að umræddri kvörtun verði vísað frá vegna formgalla auk þess sem ekki sé tilefni til frekari aðgerða efnislega.

Með bréfi, dags. 25. október 2012, veitti Persónuvernd Z frekari skýringar á efni framkominnar kvörtunar, m.a. um hver væri kvartandi og yfir hverju væri kvartað. Enn fremur kom fram af hálfu stofnunarinnar að þar sem umboðsmaður Alþingis væri ekki stjórnvald væri ekki hægt að líta svo á að kvörtunin væri til meðferðar hjá öðru stjórnvaldi, en auk þess hafi kvörtun til umboðsmanns almennt ekki þau áhrif á störf stjórnvalda að þeim sé rétt að bíða með afgreiðslu erinda sem fyrir því liggja. Þá var Z gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum við framkomna kvörtun. 

Svarbréf Z, dags. 7. nóvember 2012, barst Persónuvernd þann 8. s.m. Þar segir m.a.:

„[...] Þess ber að geta að Samtök X eru ekki greiðandi [...] hjá Z, heldur aðili sem hefur opinberlega talið sig talsmann allra [...]greiðenda. Kvartandi hefur ekki kvartað undan birtingu umræddra upplýsinga við Z. Þannig kaus hann að andmæla ekki birtingu þegar honum var tjáð að hún væri fyrirhuguð og tilkynnti hann við sama tilefni að samtökin myndu sjálf birta umrædd samskipti. Í bréfi síðar til stofnunarinnar þakkar kvartandi fyrir birtinguna. 

Umrædd samskipti við X þóttu fréttnæm þar sem í fyrsta skipti áttu að hafa verið stofnuð samtök sem ætlað væru til að standa vörð um hagsmuni allra [...]greiðenda, sbr. fréttatilkynningar og aðrar opinberar yfirlýsingar samtakanna. Hefur stefna stjórnar stofnunarinnar verið að upplýsa [...] greiðendur eftir föngum á heimasíðu stofnunarinnar enda lítur stjórn svo á að heimasíðan eigi að vera upplýsandi vettvangur þar sem fram koma helstu tíðindi er varða [...]greiðendur, auk almennra upplýsinga. Var umrædd birting því viðhöfð í fréttaskyni, þ.e. til að upplýsa þá sem heimsækja heimasíðu stofnunarinnar um starfsemi hennar. 

X var tilkynnt um að fyrirhugað væri að birta samskiptin með tölvupósti þann 20. júní sl., kl. 10.44. Einni klukkustund og fimmtíu mínútum síðar barst erindi frá A, fyrir hönd samtakanna, þar sem hann gerir ekki athugasemdir við umrædda birtingu og segir raunar að samtökin muni sjálf birta samskipti við Z. Þar kvartar hann ekki undan birtingunni heldur gerir athugasemdir við efnisleg svör stjórnar Z [...]. Hefur hvorki fyrr né síðar borist athugasemd til Z vegna umræddrar birtingar. Hefði slík beiðni borist frá X eða forsvarsmönnum samtakanna, um að samskiptin væru ekki birt á heimasíðu stofnunarinnar, hefði að sjálfsögðu orðið við slíkri beiðni af hálfu stofnunarinnar, enda væri hún byggð á málefnalegum grundvelli. Birting fyrirspurnanna og svör við þeim var því í góðri strú, sbr. framangreint. [...] 

Að Z verður ekki séð að hér sé um upplýsingar sem sanngjarnt eða eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna þar sem upplýsingarnar voru gerðar ópersónugreinanlegar og aðilinn gaf samþykki sitt fyrir birtingunni. Auk þess verður að líta til þess að umrædd birting var í fréttaskyni til upplýsinga fyrir  [...]greiðendur.“ 

Þá tekur Z fram að að mati hennar teljist ekki vera uppi ágreiningur í málinu þar sem að kvartandi hafi ekki leitað til stofnunarinnar um að umrædd bréf yrðu fjarlægð af heimasíðunni [...].

 

3.

Bréfaskipti

við kvartanda

Með bréfi, 17. desember 2012, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar Z til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var frestur í því sambandi veittur til 2. janúar 2013.

Svarbréf kvartanda barst Persónuvernd með tölvupósti þann 18. desember 2012.

Hvað varðar efni kvörtunar og samþykki kvartanda fyrir birtingu segir þar m.a.:

„Áður en lengra er haldið er rétt að árétta að X eru ekki að kvarta til Persónuverndar í máli þessu, heldur stjórnarformaður samtakanna, A [...].

Ég vil benda á þó á ýmislegt í greinargerð Z sem fær ekki staðist rök né raunveruleikann.  Í greinargerðinni er staðhæft að undirritaður hafi ekki sett út á birtingu bréfa undirritaðs við Z, og jafnvel samþykkt birtinguna.  Í því sambandi vil ég benda á fylgiskjal 3 þar sem er að finna viðbrögð undirritaðs við hótunum Z þar sem ég segi skilmerkilega :  „Svör þín við fyrirspurnum  Z eru með öllu óviðunandi og telja samtökin þau ekki samrýmast vandaðri stjórnsýslu eða stjórnsýslulögum.“

Eins og sjá má á fylgiskjali 1 þá segir forstjóri Z eftirfarandi:  “Svör þessi og önnur sem stofnunin veitir, verða birt á heimasíðu stofnunarinnar, þannig að þau séu aðgengileg öllum þeim er málið varða.” 

Þótt þessi ásetningur forstjórans sé fullkomlega óeðlilegur og ólíðandi ber að nefna að hann birti ekki aðeins svör Z  við fyrirspurnum X heldur einnig allar fyrirspurnir, beiðnir og önnur bréfaskrif X til Z.  Þannig liggur fyrir að forstjórinn birti ekki bara svör stofnunarinnar eins og hann sagðist ætla að gera heldur einnig bréfaskrif forsvarsmanna X til Z.  Ég vil í þessu sambandi benda á að X voru ekki stofnuð fyrr en 3. maí 2012, en stofnunin birtir hins vegar bréfaskrif alveg til 25. apríl 2012 þá þegar samtökin voru ekki til heldur aðeins áform tveggja einstaklinga um að stofna samtökin.  Eins og sjá má á fylgiskjölum 2,9 og 10, birti Z ekki aðeins þau bréfaskrif sem komu eftirleiðis, heldur einnig þau bréfaskrif sem á undan komu.  Eins og sjá má á fylgiskjali 10, þá er um að ræða persónulegt bréf undirritaðs og félaga míns B til Z þar sem við óskum eftir samstarfi við stofnunina.  Þar segir m.a.:

„Eini tilgangur okkar með þessari upplýsingasöfnun er að setja okkur í samband við [...]greiðendur vegan fyrirhugaðrar stofnunar á X …. Það er einlæg von okkar að stofnunin geti orðið við þessari ósk okkar og einnig þegar fram líða stundir geti X átt got og gæfuríkt samstarf við Z.“

Hér er alveg ljóst að um persónulegt bréf er að ræða og hefði forstjór[a] Z átt að vera ljóst að Samtökin voru á þessum tímapunkti ekki stofnuð. “

II.

Forsendur og niðurstaða


Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

Á heimasíðu Z, [...], mátti finna afrit af samskiptum stofnunarinnar við X. Þau samskipti hafa nú verið fjarlægð af síðunni. Þá höfðu nöfn og stöðuheiti viðkomandi einstaklinga verið fjarlægð. Á einum stað er vísað til þess að forsvarsmaður félagsins hafi sent stofnuninni tiltekið bréf en ekki útlistað nánar hver sá forsvarsmaður sé eða hvaða hlutverki hann gegni hjá samtökunum. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu X sitja fimm einstaklingar í stjórn félagsins. Að mati Persónuverndar verður ekki séð að mögulegt hafi verið að greina hvaða einstaklingur það væri sem að sendi umrædd bréf til Z.

Að mati Persónuverndar verður því ekki séð að um persónuupplýsingar, skv. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, sé að ræða og fellur málið því utan verksviðs stofnunarinnar. 

Hins vegar vill Persónuvernd beina þeim tilmælum til Z að nýta umrætt tækifæri og yfirfara verkferla sína í tengslum við birtingar upplýsinga á heimasíðu sinni.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Birting Z á samskiptum sínum við X fól ekki í sér miðlun persónuupplýsinga og fellur því utan gildissviðs laga nr. 77/2000.



Var efnið hjálplegt? Nei