Úrlausnir

Ósk lögmannsstofu um upplýsingar um aðila í greiðsluaðlögun - mál nr. 2012/429

22.11.2012

Persónuvernd hefur fellt niður mál í tengslum við ósk lögmannsstofu um að fá tiltekna greinargerð einstaklings í greiðsluaðlögun í hendur. Athugun Persónuverndar leiddi ekki í ljós að slík vinnsla persónuupplýsinga hafi farið fram og var málið því ekki tekið til úrskurðar. 

Ákvörðun


Hinn 19. nóvember 2012 tók Persónuvernd svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2012/429:

I.
Kvörtun og bréfaskipti
Hinn 19. mars 2012 barst Persónuvernd kvörtun frá A, dags. s.d., yfir að X lögmannsstofa hafi óskað eftir afriti af þeirri greinargerð sem fylgdi umsókn hans til umboðsmanns skuldara um greiðsluaðlögun. Segir í kvörtuninni að umsóknin hafi að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar, sem og að umrætt innheimtumál, eigi ekki rétt á sér þar sem innheimta sé óheimil á meðan á greiðsluaðlögunarferli stendur.

Kvartandi kveðst hafa greint framangreindri lögmannsstofu frá því að hann og kona sín væru í greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara, en hún farið fram á að hann sendi afrit af þeirri greinargerð sem fylgdi umsókninni til umboðsmanns. Ástæðan hafi verið sú að stofan vildi meta hvort líkur væru á að hann ætti rétt á þeim úrræðum sem boðið er upp hjá umboðsmanni.

Kvartandi kveður kröfuhöfum vera óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum meðan á þeirri frestun greiðslna stendur sem tekur gildi þegar umboðsmaður skuldara samþykkir umsókn um greiðsluaðlögun. Hann segir:

„Ég er ekki tilbúinn að afhenda neinni lögmannsstofu þessa greinargerð þar sem hún inniheldur mikið af viðkvæmum persónuupplýsingum um mig og B konuna mína. Þess má geta að við þurftum að skrifa upp á allskonar pappíra áður en við fórum í greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara til að gefa honum leyfi til að afla sér upplýsinga um okkur og fleira. Þessi greinargerð inniheldur persónuupplýsingar um okkar fjárhag, mitt heilsufar en ég lenti í vinnuslysi og erfiðum veikindum í kjölfarið og aðrar persónuupplýsingar sem ég vil ekki að hver sem er fari með og geymi.“

Með bréfi, dags. 31. maí 2012, var X lögmannsstofu veitt færi á að tjá sig um framangreinda kvörtun. Hún svaraði með bréfi, dags. 5. júní s.á. Þar segir:

„A hafði samband við stofuna með tölvupósti 15. mars sl. þar sem hann kvaðst vera í greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara með tilheyrandi greiðslufresti. Ekki reyndist unnt að afla staðfestingar um hvort greiðslufrestur væri enn fyrir hendi hjá Umboðsmanni skuldara þar sem sú stofnun kvaðst ekki gefa slíkar upplýsingar. Þá reyndist heldur ekki mögulegt að fá staðfestingu á greiðsluaðlögunarumleitunum A eftir kennitöluleit í Lögbirtingablaði. Í ljósi þess að hvorki reyndist unnt að afla upplýsinga um hvort greiðslufresturinn væri gildandi hjá Umboðsmanni skuldara né Lögbirtingablaði var talið rétt að veita honum sjálfum kost á að sýna fram á að umræddur frestur væri enn í gildi í því skyni að fresta innheimtu á hendur honum reyndist það rétt. Var því óskað eftir umræddri greinargerð þar sem engin önnur gögn virtust fyrir hendi sem sýnt gætu fram á greiðsluaðlögunarumleitanir A. A kvaðst ekki undu afhenda nefnda greinargerð og hefur lögmannsstofan greinargerðina því ekki undir höndum né heldur aðra staðfestingu á því að nefndur greiðslufrestur sé gildandi. Að mati lögmannsstofunnar er vandséð á hvaða hátt ofangreint málefni varðar Persónuvernd þar sem A er í sjálfsvald sett hvort hann lætur umræddar upplýsingar af hendi og með því að hafna beiðninni er málinu lokið að því er varðar gagnaöflun þessa. Rétt þykir að taka fram að engin staðfesting liggur fyrir um að viðkvæmar persónuupplýsingar sé að finna í greinargerðinni.“

Með bréfi, dags. 7. september 2012, var kvartanda veitt færi á að tjá sig um framangreint svar M lögmannsstofu. Hann svaraði með bréfi, dags. 22. október s.á. Þar segir:

„Ég og B konan mín sendum inn umsókn um greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni Skuldara þann [...] og var umsókn okkar staðfest þann sama dag og auglýst í lögbirtingablaðinu. Eftir að umsókn okkar var staðfest þá höfum við verið í reglulegu sambandi við UMS um okkar mál hjá UMS og nú síðast þann [...]. Við höfum sent inn mjög ítarlegrar greinargerðir sem eru upp á sirka 9 bls. hvor og svo aftur 3 greinargerðina um okkar mál í okt. Eins óskuðum við eftir skýringum um afhverju það hefur tafist svona lengi að afgreiða okkar umsókn. Ég hafði samband við UMS út af þessu máli núna í byrjun [...] og upplýstu þeir mig um að þeir gæfu ekki út neinar upplýsingar um skjólstæðinga sína og er það í samræmi við það sem kemur fram í bréfinu frá X lögmannsstofu. UMS sagði mér að það væri alveg skýrt að þessi staðfesting stæði þangað til annað kæmi í ljós í okkar málum. Eins fékk ég þær upplýsingar að það yrði auglýst sérstaklega í lögbirtingablaðinu ef okkar umsókn yrði hafnað. Í þessum tölvupóstsamskiptum á milli mín og X lögmannstofu þá sendi ég með staðfestingu um greiðsluaðlögun hjá UMS. Þrátt fyrir að lögmannsstofan væri með þessa staðfestingu þá var haldið áfram að biðja um frekari gögn. Eins og sjá má í tölvupósti þann [...] þá óskaði ég eftir hvaða heimild þeir hefðu að óska eftir þeirri greinargerð sem við sendum til UMS. Eins kemur alveg skýrt fram að í þeirri greinagerð er mjög mikið af viðkvæmum persónulegum upplýsingum sem við viljum ekki að fari af stað þar sem við vitum ekki hver er að skoða og í hvaða tilgangi. Því mótmæli ég því sem segir í bréfi frá X lögmannsstofu að það liggi ekki fyrir staðfesting um að viðkvæmar persónulegar upplýsingar sé að finna í greinargerðinni.

Að mínu mati þá var full ástæða til að senda þessa kvörtun inn til Persónuverndar þar sem X lögmannsstofa hafði enga heimild til að fá þessa greinargerð, og þrátt fyrir þá ósk um hvaða heimild þeir hefðu til að fá þessa greinargerð þá kom ekkert um hvaða heimild þeir höfðu, heldur þá kom frekari ósk um að fá greinargerð okkar, eins og sjá má í tölvupósti þann [...]. Við viljum ítreka það að það er mikið af viðkvæmum persónulegum upplýsingum í þessari greinargerð og viljum við ekki að hún fari eitthvað á flakk.
 
Og það sem alvarlegast er í þessu máli er þessi setning skv. lögmanninum þarf að skoða greinargerðina til að sjá hvort líklegt sé að þú fáir þetta úrræði hjá Umboðsmanni skuldara. Lögmaðurinn verður að geta sagt kröfuhafa hvaða líkur séu á greiðslu, enda mun þessi greinargerð verða lögð fram ef um nauðasamninga verður að ræða. Í fyrsta lagi þá er það ekki hlutverk X lögmannsstofu að meta hvort að ég fái þetta úrræði hjá UMS. Í öðru lagi þá mun ég aldrei leyfa það að þessi greinargerð okkar konunnar verði lögð fram ef um nauðasamninga verður að ræða. Ég efast um að nokkur maður myndi verða sáttur við slíkt. Eins stór efa ég það að lög á Íslandi leyfi slíkt.“

Í símtali við C hjá X lögmannsstofu hinn 15. nóvember 2012 kom fram að látið hefði verið af innheimtu þeirrar kröfu sem hér um ræðir. Kvartandi staðfesti það í símtali sama dag.

II.
Ákvörðun
Undir verksvið Persónuverndar falla ágreiningsmál um vinnslu persónuupplýsinga. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða. Hugtakið vinnsla er skilgreint í 2. tölul. 2. gr. sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn.

Mál þetta lýtur að kvörtun yfir ósk X lögmannsstofu um að fá tiltekna greinargerð í hendur. Slík afhending eða miðlun greinargerðarinnar hefði getað talist vera vinnsla í framangreindum skilningi. Athugun Persónuverndar á máli þessu hefur hins vegar ekki leitt í ljós að slík vinnsla hafi farið fram. Eins og hlutverk Persónuverndar er afmarkað í lögum liggur því ekki fyrir að skilyrði standi til að þess að hún fjalli um það frekar.  Þá fellur það utan hennar verksviðs að fjalla um það hvort tiltekin innheimtumál eigi rétt á sér.

Samkvæmt framangreindu eru ekki lagaskilyrði til þess að Persónuvernd fjalli frekar um mál þetta og verður það því fellt niður.Var efnið hjálplegt? Nei