Úrlausnir

Leit í handtösku - mál nr. 2012/672

20.11.2012

Persónuvernd hefur svarað kvörtun konu yfir því að dyravörður á skemmtistað leitaði í handtöskunni hennar. Slík leit var ekki talin vinnsla persónuupplýsinga í skilningi laga. Því taldi Persónuvernd ekki vera skilyrði til þess að hún fjallaði um málið. Leiðsögn var veitt.

Efni: Kvörtun yfir Nasa vegna háttsemi dyravarðar

Persónuvernd vísar til kvörtunar yðar, dags. 14. maí 2012, yfir skemmtistaðnum Nasa. Í kvörtuninni segir:

„Ég fór á GusGus tónleika hjá Nasa laugardaginn 12. maí. Þegar ég kem inn segir karlkyns dyravörður við annan kvenkyns dyravörð að hún eigi að leita í veskinu hjá mér og vinkonu minni. Við vorum ekki spurðar um leyfi heldur var bara rifið í veskið manns og leitað þar í. Ég tel brotið á rétti mínum til friðhelgi einkalífs þegar það er bara vaðið ofan í veskið mitt.“

Valdsvið Persónuvernar nær til þess að framfylgja lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þau lög gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna.

Kvörtun yður lýtur ekki að meðferð upplýsinga á skráðu formi. Af því leiðir jafnframt að Persónuvernd getur ekki tekið kvörtunina til meðferðar, enda fellur það utan valdsviðs hennar. Hins vegar skal áréttað að samkvæmt 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar má ekki leita í munum fólks nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Í 18. gr. reglugerðar nr. 585/2007, sbr. 6. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, er mælt fyrir um skilyrði þess að vera dyravörður. Meðal annars segir í reglugerðarákvæðinu að engir geti gegnt dyravörslu nema þeir sem lögreglustjóri samþykkir.

Af framangreindu leiðir að telji menn dyravörð hafa farið offari er hægt að beina umkvörtunum til lögreglustjóra og er yður hér með leiðbeint um það.



Var efnið hjálplegt? Nei