Úrlausnir

Miðlun upplýsinga um konur sem fengu brjóstafyllingar - mál nr. 2012/583

6.11.2012

Persónuvernd hefur fellt niður mál í tengslum við miðlun upplýsinga til landlæknis um konur sem fengið hafa brjóstafyllingar. Tveir læknar höfðu sent landlæknisembættinu lista með upplýsingum um konurnar. Annar læknirinn hafði eingöngu sent fæðingarár þeirra og tegund púða. Taldi Landlæknisembættið ekki tilefni til að eyða þeim upplýsingum. Hinn læknirinn hafði sent persónugreinanlegar upplýsingar. Var þeim upplýsingum eytt úr upplýsingakerfi Landlæknisembættisins. Taldi Persónuvernd því ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna málsins.

Efni: Miðlun upplýsinga til landlæknis um konur sem fengið hafa brjóstafyllingar

Persónuvernd vísar til bréfs stofnunarinnar til Landlæknisembættisins, dags. 7. september 2012, sem sent var af tilefni viðtals við [A]. Í því viðtali er haft eftir honum að tveir lýtalæknar hafi strax orðið við beiðni landlæknis, dags. 5. janúar 2012, um upplýsingar um konur sem fengið hafa brjóstafyllingar frá 2000 til dagsins í dag. Með bréfi, dags. 30. mars 2012, greindi Persónuvernd frá þeirri niðurstöðu sinni að heimild skorti til miðlunar þessara upplýsinga til landlæknis. Í framangreindu bréfi Persónuverndar, dags. 7. september s.á., var þess óskað að Landlæknisembættið upplýsti hvort rétt væri að umræddum upplýsingum hefði verið miðlað til þess frá fyrrnefndum, tveimur lýtalæknum og  – ef svo væri – hvort upplýsingarnar væru enn varðveittar hjá embættinu.

Landlæknisembættið svaraði með bréfi, dags. 20. september 2012. Þar er staðfest að tveir lýtalæknar hafi orðið við upplýsingabeiðni landlæknis. Annar þeirra hafi hins vegar ekki sent persónugreinanlegar upplýsingar heldur aðeins upplýsingar um fæðingarár þeirra kvenna sem gengust undir brjóstastækkunaraðgerðir hjá honum frá 1. september 2007, auk þess að upplýsa um hvaða tegundir brjóstapúða hann notaði. Í ljósi þessa hafi ekki verið talin ástæða til að eyða þeim upplýsingum sem bárust frá þessum lækni, en upplýsingunum frá hinum lækninum, sem voru persónugreinanlegar, hafi verið eytt úr upplýsingakerfi Landlæknisembættisins. Hjálagt með bréfi þess var afrit af annars vegar hinum ópersónugreinanlegu upplýsingum sem bárust frá öðrum lækninum, sbr. bréf hans til embættisins, dags. 20. janúar 2012, og hins vegar staðfestingu embættisins, dags. 15. febrúar s.á., á móttöku upplýsinga frá hinum lækninum, auk staðfestingar þess til læknisins, dags. 30. apríl s.á., á að upplýsingunum hafi verið eytt.

Hér með tilkynnist að með vísan til framangreindra svara og gagna telur Persónuvernd ekki tilefni til að aðhafast frekar af tilefni þess sem fram kemur í fyrrnefndu viðtali við [A].Var efnið hjálplegt? Nei