Úrlausnir

Upplýsingamiðlun frá opinberri stofnun - mál nr. 2012/899

23.10.2012

Persónuvernd barst kvörtun tveggja manna vegna viðtala forstöðumanns ríkisstofnunar um þá við fjölmiðla. Í málinu reyndi í fyrsta lagi á valdmörk Persónuverndar. Var þegar vísað frá þeim þætti er laut að ágreiningi um misbeitingu tjáningarfrelsis og refsingu vegna brots á þagnarskyldu embættismanns. Um hinn þátt málsins sagði ríkisstofnunin að ekki hefði verið um að ræða miðlun persónuupplýsinga úr rafrænum skrám hennar. Í því ljósi þóttu Persónuvernd, m.t.t.  gildissviðs persónuupplýsingalaga og vegna sjónarmiða um sönnun, þá ekki vera lagaskilyrði til að fjalla frekar um málið. Var það fellt niður.

Persónuvernd hefur borist kvörtun X, Z og Y, f.h. A og B, dags. 23. júlí 2012, varðandi viðtöl [embættismann, E, hjá stofnuninni F] við fjölmiðla um kvartendur. Í kvörtuninni segir m.a.:

„[...]. Í tengslum við rannsókn máls þeirra, er tengist [...], kom [E], fram í fjölmiðlum, rauf þagnarskyldu sína og braut gróflega á réttindum umbj. okkar.[...] Var framkoma [E] í fjölmiðlum þannig að hann lýsti með beinum eða óbeinum hætti sekt umbj. okkar í málinu sem til rannsóknar var (og er).  [...] . Á þeim tíma sem [E], kom fram með þessum hætti í fjölmiðlum var mál umbj. okkar til rannsóknar og [...]. [...]. Eðli upplýsinganna sem [E] tíundaði í fjölmiðlum var þannig að honum bar, [...], að fara með þær skv. lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Um er að ræða mjög viðkvæmar persónuupplýsingar, skv. 8. tl. 2. [gr]. laga nr. 77/2000. Því verður að telja ljóst að [hann] braut gróflega á þagnar- og trúnaðarskyldu sinni gagnvart umbj. okkar og veitti um þá upplýsingar sem eru verndaðar af [...] og laga um persónuvernd nr. 77/2000. Grunur leikur á að brot [hans] sé með þeim hætti að varðað getur refsingu skv. 42. gr. laga nr. 77/2000.

[...] Skv. 1. gr. laga nr. 77/2000 er markmið laganna að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga og frjálst flæði þeirra á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Þær upplýsingar sem brot [E] gagnvart umbj. okkar varðar eru viðkvæmar persónuupplýsingar, skv. b-lið 8. tl. og 9. tl. 2. gr. laganna. [...]

Vegna ákvæðis [í lögum] eru engin tengsl á milli framferði [E] og tjáningarfrelsis enda [hann] í starfi forstöðumanns F og því óheimilt að tjá sig um mál umbj. okkar. Honum er einnig óheimilt að fjalla um málið þótt hann léti af því starfi [...]. [...].

[...]Í málinu kann að reyna á refsiþátt [E] en skv. 42. gr. laga nr. 77/2000 liggja fésektir eða fangelsisrefsing, allt að 3 árum, við brot gegn lögunum. Brot [hans] verða að teljast alvarleg og því kemur til álita að Persónuvernd fjalli um málið á þeim grunni.“

Með kvörtuninni fylgdu afrit nokkurra frétta. [...] Samkvæmt þeim er málið í eðli sínu tvíþætt. Annars vegar varðar það ummæli [E] sem tengjast beitingu tjáningarfrelsis samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar. Það er ekki verkefni Persónuverndar að skera úr málum þar sem deilt er um hvort menn hafi misbeitt tjáningarfrelsi og mun hún ekki taka það til úrlausnar. Þá er það ekki hennar hlutverk að ákvarða refsingar, eftir atvikum fyrir brot á þagnarskyldu, og mun hún af þeirri ástæðu ekki heldur fjalla um það atriði, sbr. niðurlag bréfs yðar. Er málinu að því leyti vísað frá. Hins vegar varðar það einnig miðlun persónuupplýsinga [...] sem ætla má að séu á rafrænum gögnum F. Það er hlutverk Persónuverndar að hafa eftirlit með framkvæmd laga nr. 77/2000 og hyggst hún taka það til skoðunar hvort umrædd miðlun frá F á persónuupplýsingum um kvartendur hafi samrýmst heimildarákvæðum þeirra.

Frestur til athugasemda við framangreint er til 10. september nk. Hafi engar athugasemdir þá borist verður málið tekið til meðferðar og F gefinn kostur á að tjá sig um það til samræmis við ákvæði 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.



Var efnið hjálplegt? Nei