Úrlausnir

Samningur Lýsingar og Vörslusviptingar - mál nr. 2011/771

3.9.2012

Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta afgreiðslu tiltekinna mála, sem tengjast afhendingu persónuupplýsinga frá Lýsingu til Vörslusviptinga, á grundvelli vinnslusamninga milli þessara aðila, þar til fyrir liggur niðurstaða Fjármálaeftirlitsins um lögmæti umræddrar innheimtustarfsemi.

I.

Upphaf og efni máls

Bréfaskipti

Þann 28. júní 2011 barst Persónuvernd kvörtun A yfir vinnslu persónuupplýsinga um sig hjá vörslusviptingafyrirtæki. Nánar tiltekið lýtur málið að því hvort Lýsingu hf. hafi verið heimilt að afhenda persónuupplýsingar um hann til Vörslusviptinga ehf. (V). A segir að sér hafi orðið ljóst að upplýsingunum hafi verið miðlað þangað þegar haft hafi verið samband við hann símleiðis vegna innheimtu á skuld hans við Lýsingu hf.

 

1.

Bréfaskipti við Lýsingu

Með bréfi, dags. 8. júlí 2011, var skýringa Lýsingar hf. óskað. Var m.a. spurt hvort Lýsing hf. hefði gert vinnslusamninga við V í samræmi við 13. gr. laga nr. 77/2000. Í svari Lýsingar hf., dags. 22. ágúst 2011,  segir að hinn 19. desember 2006 hafi verið gerður samningur við V í samræmi við 13. gr. Þegar V hafi orðið gjaldþrota hafi Lýsing hf. samið við Vörslusviptingar-LMS ehf. (VSL) sem hafi tekið við rekstrinum. Sá samningur hafi verið sérstaklega staðfestur þann 12. ágúst 2011.


2.

Samskipti við Vörslusviptingar

Persónuvernd óskaði skýringa VSL og í svari félagsins til Persónuverndar, dags. 19. september 2011, er staðfest að Lýsing hf. hafi notið innheimtuþjónustu V og VSL.

Í heimsókn Persónuverndar til VSL hinn 17. janúar 2012 var staðfest að upphaflega hefði V fengið persónuupplýsingar um A frá Lýsingu hf. Bæði V og VSL hefðu unnið með þær upplýsingar fyrir Lýsingu hf. í því skyni að gera innheimtu hjá A og svipta hann vörslum lausafjár. Að sögn VSL leit það á A sem „gerðarþola“ sinna innheimtuaðgerða en það sendi skýrslur um allar sínar innheimtuaðgerðir til Lýsingar hf.

Hinn 16. mars 2012 greindi A Persónuvernd síðan frá að hafin væri löginnheimta hjá sér. Hann hefði verið boðaður í þinghald þar sem úrskurða ætti um kröfu Lýsingar hf. um að bifreið yrði tekin af honum með aðfarargerð.


3.

Bréfaskipti við FME

Í ljósi framangreinds óskaði Persónuvernd svara Fjármálaeftirlitsins (FME) um lögmæti innheimtustarfsemi V og VSL í ljósi innheimtulaga nr. 95/2008. Kvaðst Persónuvernd telja Fjármálaeftirlitið vera hið sérhæfða stjórnvald til þess að fjalla um það.

Í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins, dags. 20. mars 2012, var greint frá því að hvorki V né VSL hefðu fengið leyfi til innheimtustarfsemi. Persónuvernd sendi Fjármálaeftirlitinu aftur bréf, dags. 12. apríl 2012, og óskaði svara um hvernig eftirlitið hefði í hyggju að bregðast við. Í svari til Persónuverndar, dags. 17. apríl sl., sagði FME m.a. að ef fyrirtæki stundaði innheimtu sem félli undir innheimtulög bæri því að sækja um innheimtuleyfi til FME. Niðurstaða skoðunar þess hafi hins vegar ekki verið sú að tilefni væri til að grípa til aðgerða, enda væru engar vísbendingar um V eða VSL stunduðu starfsleyfisskylda starfsemi sem heyrði undir verksvið FME. FME spurði hvort Persónuvernd hefði gögn um slíkt undir höndum.

Persónuvernd sendi þá bréf til Fjármálaeftirlitsins, dags. 18. apríl 2012, og með því þau gögn sem tilheyrðu kvörtun A. Í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins, dags. 22. maí 2012, segir m.a. að á grundvelli þeirra gagna hafi það ákveðið að taka til skoðunar ákveðna þætti í starfsemi V og VSL.

II.

Ákvörðun

 Eins og mál þetta snýr að Persónuvernd lýtur það að lögmæti afhendingar á persónuupplýsingum um A frá Lýsingu hf. til V, en hún fór fram á grundvelli samnings um innheimtuþjónustu. Niðurstaða Persónuverndar um það hvort gerð þess samningsins, og þar með sú afhending persónuupplýsinga sem fram fór samkvæmt honum, hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 77/2000 mun væntanlega ráðast af niðurstöðu FME um lögmæti umræddrar innheimtuþjónustu V. Mun Persónuvernd þar af leiðandi taka mál þetta til efnismeðferðar þegar niðurstaða FME um framangreint liggur fyrir.



Var efnið hjálplegt? Nei