Úrlausnir

Spurningalisti á spítala - mál nr. 2012/470

7.8.2012

Persónuvernd hefur lokið máli konu sem var ósátt við notkun spurningalista á LSH. Af svörum LSH mátti ráða að um var að ræða vinnslu vegna læknismeðferðar og að gripið hafi verið til ráðstafana til að bæta fræðslu til sjúklinga. Konan gerði ekki athugasemdir og var þá ákveðið að láta málið niður falla.

1.
Persónuvernd barst kvörtun yðar þann 22. mars 2012 yfir spurningalista um beinþéttni, sem óskað var eftir að þér svöruðuð þegar þér komuð í beinþéttnimælingu á Landspítala. Í kvörtuninni og fylgibréfi við hana segir m.a. að kvartað sé yfir framkomu þess starfsmanns sem lagði spurningalistann fyrir.

Með bréfi, dags. 20. apríl 2012, tilkynnti Persónuvernd Landspítala-háskólasjúkrahúsi um framangreinda kvörtun og óskaði skýringa. Í svarbréf Landspítalans, dags. 2. maí 2012, segir m.a.:

„Kvörtun A snýr að því að hún hafi hvorki fengið nægilegar upplýsingar um tilgang og varðveislu spurningalista sem henni var ætlað að svara fyrir beinþéttnimælingu né hafi hún verið upplýst um hvort henni væri skylt eða valfrjálst að svara listanum. Þá kemur fram að henni hafi verið ætlað að svara honum á almenningssvæði. Í bréfi Persónuverndar er einnig spurt nánar út í tilgang listans svo sem hugsanlega notkun hans til vísindarannsókna.
Hvað varðar kvörtun A þá er því til að svara að til þessa hafa upplýsingar um tilgang og varðveislu listans fyrst og fremst verið gefnar munnlega. Tilgangur listans er eingöngu að bæta niðurstöðu beinþéttnimælingarinnar, þannig verður úrlesturinn einungis gagnlegur ef tölulegar niðurstöður eru settar í samhengi við þekkta áhættuþætti fyrir beinþynningu. Jafnframt er tilvísandi lækni send ráðlegging um hvernig megi bæta ástand einstaklingsins sem vísað var í mælinguna. þess má geta að fyrir flestar aðrar myndgreiningarrannsóknir er læknum sem biðja um rannsóknina ætlað að fylla út í beiðni fjölmargar klínískar upplýsingar en hér er sú upplýsingagjöf sett á þann einstakling sem rannsakaður er.
Ábending A er réttmæt og hefur spurningalistanum nú verið breytt þannig að það stendur skýrt á honum að einstaklingi sé ekki skylt að svara honum, en þá verði rannsóknin ekki eins markviss. Einnig að listanum verði fargað þegar búið er að setja þær upplýsingar sem mikilvægar eru fyrir túlkun niðurstaðna í rafræna sjúkraskrá. Þá er harmað að húsnæði spítalans skuli ekki mæta betur kröfum um persónuvernd, en það stendur til bóta með nýju spítalabyggingunni.
Hvað varðar spurningu Persónuverndar um tilgang listans er því til að svara að niðurstöðu spurningalistans eru færðar í rafræna sjúkraskrá og varðveittar þannig. Þegar vísindarannsóknir hafa verið gerðar hafa þær jafnan byggt á sérhönnuðum spurningalistum sem samþykktir hafa verið af Vísindasiðanefnd og kynntir Persónuvernd og er þá alltaf leitað skriflegs samþykkis þátttakenda.“

Yður var veitt tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum við framkomnar skýringar Landspítalans með bréfi, dags. 16. maí 2012. Engar athugasemdir bárust.

2.
Af framangreindum skýringum ábyrgðaraðila vinnslunnar, Landspítala-háskólasjúkrahúss, má ráða að um hafi verið að ræða vinnslu sem var nauðsynleg vegna læknismeðferðar. Þá hefur vegna ábendingar yðar verið gripið til ráðstafana til að bæta fræðslu til sjúklinga vegna umrædds spurningalista. Bent er á viðbrögð við kvörtunum yfir framkomu þess sem leggur fram spuringalista er liður í stjórnun hjá LSH en falla utan verkefnasviðs Persónuverndar. Með vísun til framangreinds verður ekki aðhafst frekar af tilefni kvörtunar yðar nema Persónuvernd berist sérstök og rökstudd ósk þess efnis.


Var efnið hjálplegt? Nei