Úrlausnir

Eftirlitsmyndavél í bifreið í fjölbýlishúsi

22.6.2012

Persónuvernd hefur fellt niður mál einstaklinga sem töldu nágranna sinn vakta bílageymslu fjölbýlishúss með eftirlitsmyndavél, staðsettri í bifreið. Ekki lá fyrir sönnun um tilvist vélarinnar. Í ljósi þess, og þar sem Persónuvernd hafði ekki frekari úrræði til að kanna staðreyndir málsins, var það fellt niður.

Efni: Niðurfelling máls varðandi eftirlitsmyndavél við [...]

Persónuvernd vísar til fyrri bréfaskipta af tilefni kvörtunar í nafni húsfélagsins að [...], dags. 29. nóvember 2011, yfir að eftirlitsmyndavél hafi verið sett í bíla sem leggja í bílastæði A við [...].

A hefur andmælt tilvist umræddrar eftirlitsmyndavélar, nú síðast í bréfi til Persónuverndar hinn 1. júní 2012. Í símtali við X hdl. hinn 3. apríl s.á., sem komið hefur fram fyrir hönd húsfélagsins, var bent á að ekki lægi fyrir sönnun á tilvist vélarinnar. Þá væri atvikum svo háttað að árangur vettvangskönnunar réðist af því hvort bíll, sem eftirlitsmyndavél kynni að hafa verið komið fyrir í, væri á staðnum þegar könnunin færi fram. Í ljósi þessa gæti sönnun einkum farið fram með þeim hætti að kvartendur sendu gögn sem sýndu fram á tilvist vélar, s.s. ljósmynd. Í framhaldi af þessu sendi Persónuvernd lögmanninum bréf, dags. 4. apríl 2012, þar sem honum var bent á að þegar orð standa gegn orði geta úrræði stofnunarinnar að lögum til að upplýsa mál verið takmörkuð. Var honum veitt færi á athugasemdum, en þær bárust ekki.

Ítrekað var bent á framangreinda leið til sönnunar með bréfi til lögmannsins, dags. 8. maí 2012, þar sem veitt var færi á að koma að gögnum sem væru til þess fallin að sýna fram á tilvist umræddrar vélar. Þá fóru starfsmenn frá Persónuvernd í umrædda bílageymslu hinn 31. s.m. – þrátt fyrir að óvíst væri um árangur vettvangskönnunar, eins og að framan er lýst. Í bílageymslunni hittu starfsmennirnir fyrir þau B og C sem komið hafa fram fyrir hönd húsfélagsins. Á vettvangi var ekki að sjá bíl þar sem komið hafði verið fyrir eftirlitsmyndavél, en hins vegar kom fram að til væru ljósmynd og myndskeið sem sýnt gætu fram á tilvist vélarinnar. Leiðbeindi Persónuvernd um að gögnunum yrði komið til stofnunarinnar og var það gert hinn 12. júní 2012.

Mál þetta var rætt á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 13. júní 2012. Hún taldi ekki unnt að sjá af myndskeiðinu að hér væri um rafræna vöktun að ræða. Þá var heldur ekki unnt að sjá slíkt af ljósmyndinni sem er mjög óskýr. Í ljósi þessa varð niðurstaðan sú að ekki lægi fyrir sönnun á því að atvik væru með þeim hætti sem greinir í kvörtun. Þar sem Persónuvernd hefur ekki frekari úrræði að lögum til kanna staðreyndir málsins ákvað því stjórn stofnunarinnar að fella mál þetta niður vegna sönnunarskorts og fela skrifstofu að senda aðilum málsins bréf þess efnis.



Var efnið hjálplegt? Nei