Úrlausnir

Umbeðin leiðrétting gerð á niðjatalsupplýsingum

8.5.2012

K hafði kvartað yfir því að á tiltekinni vefsíðu væri þess ekki getið að M væri hennar fyrrverandi eiginmaður. Hér reyndi á reglur um leiðréttingarskyldu ábyrgðaraðila. Hann féllst á að gera breytinguna og var málið þá fellt niður.

Efni:
Kvörtun yfir röngum upplýsingum á vefsíðu.
Lyktir máls




1.
Kvörtun og bréfaskipti
Með tölvubréfi, dags. 28. nóvember 2011, barst Persónuvernd erindi yðar yfir skráningu persónuupplýsinga um yður á tiltekinni vefsíðu. Þar segir m.a.:

„!!!!Endurtekið enn og aftur. Ég hef kært þetta til ykkar áður en án árangurs!!!
· Réttur minn er að skráðar persónulegar upplýsingar á netinu séu réttar.
· Ég þarf að kvarta yfir að skráðar persónulegar upplýsingar um mig eru rangar á netinu.
· Þegar mínu nafni er slegið inn á netið (google)  þá  birtist (nánast sem fyrirsögn) að ég  er ,,maki manns" (það stendur ekki ,,fyrrum maki“ eða annað….)
· Það er rangt og ég hef ekki verið ,,maki þessa manns“  í yfir 20 ár og þekki ekkert í dag.
· Þegar ég fletti upp nöfnum annarra manna þá hoppar ekki upp sem fyrirsagnir:  ,,(rangir)makar".
· Ég hef ætlað að vera þátttakandi  á ,,online date línu"  en ekki geta orðið virk vegna þess  að rangar upplýsingar birtast á netinu  þar sem stendur   að viðkomandi  (ég ) er í  ,,maki manns“ .
Ef ekki verður hægt að koma þessu í lag í gegnum ykkur  þá mun ég verða tilneydd  að kæra þetta á öðrum stöðum.“

Athugun Persónuverndar á síðunni leiddi í ljós að A er ábyrgðaraðili hennar. Persónuvernd sendi honum bréf, dags. 11. janúar 2012, og spurði um afstöðu hans til þess að breyta upplýsingum um hjúskaparstöðu yðar. Persónuvernd ítrekaði ósk sína um svör með bréfi, dags. 30. janúar.  Þá sendi hún honum tölvupóst, dags. 3. apríl sl. Hann svaraði með tölvubréfi, dags. 8. apríl. Þar segir m.a.:

„Ég hef verið erlendis og ekki náð að skoða póstinn minn um nokkurn tíma. Ég bið velvirðingar að hafa ekki svarað bréfinu.
Það er alveg sjálfsagt að lagfæra þessa birtingu um viðkomandi einstakling á heimasíðunni og ég hef í dag þegar bætt orðinu "fyrrverandi" í viðkomandi færslu, skv. því sem farið er fram á í skeyti þínu.
Vinsamlega upplýstu mig um ef einhverjar fleiri kröfur eru gerðar að hálfu Persónuverndar vegna þessa máls og ég mun breyta vefsíðunni: [...] í samræmi við það.“

2.
Ákvörðun um niðurfellingu máls
Í 25. gr. laga nr. 77/2000 segir að hafi verið skráðar rangar, villandi eða ófullkomnar persónuupplýsingar, og geti umræddur annmarki haft áhrif á hagsmuni hins skráða, skuli ábyrgðaraðili sjá til þess að upplýsingarnar verði leiðréttar, þeim eytt eða við þær aukið.
Nú hefur ábyrgðaraðili orðið við erindinu og breytt upplýsingum um hjúskaparstöðu yðar á umræddri vefsíðu. Í ljósi framangreinds er ekki til staðar ágreiningur sem skera þarf úr eða fjalla um frekar. Er máli þessu því lokið.



Var efnið hjálplegt? Nei