Úrlausnir

Dagbók grunnskólanemanda

28.12.2011

Persónuvernd barst kvörtun móður yfir því að skólastjóri hafi fengið í hendur rafræna dagbók dóttur sinnar, en dóttirin er nemandi við viðkomandi grunnskóla. Var málið fellt niður þar sem málið sætir nú áfrýjun til Hæstaréttar.

1.

Persónuvernd hefur borist erindi yðar, f.h. B og ólögráða dóttur hennar, A, dags. 5. júlí 2011. Það varðar miðlun skólastjórans í grunnskólanum [X] á persónuupplýsingum úr dagbók A, en hún er nemandi við skólann. Þar segir m.a. eftirfarandi:

„Til mín hefur leitað B [...] og falið mér f.h. ólögráða dóttur hennar A[...] að beina til Persónuverndar tilkynningu varðandi meðferð skólastjóra grunnskólans á [X] á viðkvæmum persónuupplýsingum A, en A var nemandi í skólanum skólaveturinn [...]. Brotið tengist kæru A á hendur eiginmanni skólastjórans vegna kynferðisbrots, mál héraðsdóms Norðurlands vestra í máli [...], kveðinn upp [...]. Dómurinn er aðgengilegur á heimasíðu dómstólsins en hann sætir nú áfrýjun til Hæstaréttar af hálfu ákæruvaldsins. Í dóminum kemur jafnframt fram að skólastjórinn ræddi efni dagbókarinnar við tilgreinda aðila og afhenti hana til ríkissaksóknara, þar sem hún taldi hana innihalda upplýsingar sem nauðsynlegt væri að koma á framfæri í þeim tilgangi til að styðja við málsvörn eiginmanns hennar. Meðferð skólastjórans á einkamálefnum A sem lýst er í dóminum er gróft brot á grundvallarreglu um friðhelgi einkalífs, en það blasir við að einkadagbók unglingsstúlku, inniheldur viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi 2. gr. sbr. 9. gr. laga um persónuvernd nr. 77/2000. Efni dagbókarinnar varðar í engu þá atburði er urðu tilefni kæru til lögreglu. Telur undirrituð að skólastjórinn hafi þegar gerst brotleg er hún tók við dagbókinni, sem henni hafi verið óheimilt skv. lögum um grunnskóla og lögum um persónuvernd og í kjölfarið hafi áframhaldandi varsla og meðferð hennar á dagbókinni varðað við ákvæði II. kafla laga um persónuvernd, nr. 77/2000 sbr. og 12. gr. grunnskólalaga. Brotið er alvarlegt með tilliti til stöðu sem skólastjóri hefur gagnvart nemanda, og að brotið var fram í þágu einkahagsmuna. Er farið fram á að Persónuvernd fjalli um erindið í samræmi við 2. og 3. mgr. 37. gr. laga um persónuvernd.“

2.
Með vísan til þess að framangreindur dómur sætir nú áfrýjun til Hæstaréttar Íslands getur Persónuvernd ekki sem stjórnvald aðhafst af tilefni málsins og tekið efnislega afstöðu til þess. Er það því fellt niður að svo stöddu.
Þegar dómur er fallinn getið þér eftir atvikum borið málið undir Persónuvernd, enda hafi rétturinn ekki tekið efnislega afstöðu til þess atriðis sem um er deilt. Þá er bent á að þegar og ef til þess kemur þarf að afmarka kvörtunarefni með skýrum hætti og tilgreina nánar þá aðgerð sem talin er hafa farið gegn ákvæðum laga nr. 77/2000.



Var efnið hjálplegt? Nei