Úrlausnir

Markpóstur sendur sambýliskonu

21.11.2011

Persónuvernd barst kvörtun yfir markpósti frá Frumherja. Notaðar voru upplýsingar um sambýliskonu kvartanda, en það var ekki hún sjálf sem kvartaði. Í ljós kom að kvartandi hafði ekki umboð hennar til að fara með málið fyrir hennar hönd. Var það þá fellt niður.

ÁKVÖRÐUN


Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 12. október 2011 var fjallað um mál nr. 2011/877 og tekin eftirfarandi ákvörðun :

I.
Upphaf máls og bréfaskipti

1.
Upphaf og grundvöllur máls
Persónuvernd barst erindi A, dags. 12. ágúst 2011, varðandi markpóst frá Frumherja. Í kvörtuninni segir m.a.:

„Ég nenni ekki að gera neina formlega kvörtun eins og er, en mig langar til að forvitnast um það hvort að sé í lagi það sem Frumherji virðist gera. Það er að fletta upp í bifreiðaskrá, gagnagrunni um bílaeigendur og senda þeim póst. Bréfið kemur opið og með upplýsingum um eiganda og heimilisfang, og bíltegund. Og svo sannarlega hefur þessi eigandi aldrei verið viðskiptavinur fyrirtækisins. [...]“

2.
Bréfaskipti við Umferðarstofu
Með bréfi til Umferðarstofu, dags. 8. september 201,1 óskaði Persónuvernd eftir upplýsingum um notkun ökutækjaskrár í markaðssetningarskyni. Í bréfi Persónuverndar sagði m.a.:

„[...] Hlutverk Umferðarstofu er afmarkað í 112. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Það er m.a. annast skráningu ökutækja og aðra umsýslu varðandi skráningu ökutækja, gerð þeirra og búnað. Henni er heimilt að fela öðrum framkvæmd verkefna sem henni tilheyra, samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Á vefsíðu Umferðarstofu segir m.a.:
Umferðarstofa er ábyrgðaraðili að ökutækjaskrá og ákveður tilgang með vinnslu upplýsinga úr skránni, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Umferðarstofa annast miðlun á upplýsingum úr ökutækjaskrá til vinnsluaðila. Vinnsluaðili er sá sem hefur gert samning við Umferðarstofu um vinnslu upplýsinganna og miðlun þeirra áfram til notenda. Með vinnslu er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með upplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn.
Samkvæmt framangreindu er Umferðarstofa ábyrg[ð]araðili í skilningi 4. tölul. 2. gr. - og vinnur Frumherji á ábyrgð Umferðarstofu.
Með vísun til framangreinds er skýringa Umferðarstofu óskað að því er varðar notkun skrárinnar í þágu markaðssetningar. Er þess m.a. óskað að fram komi með hvaða hætti bannmerki í Þjóðskrár eru virt. Þess er vinsamlegast óskað að svör berist fyrir 22. september n.k.“

Í svarbréfi Umferðarstofu, dags. 13. september 2011, kemur m.a. fram að upplýsingum um hópa eigenda og umráðamanna ökutækja, s.s. um nöfn, heimilisföng og póstnúmer aðila, sé dreift samkvæmt skrá útgefinni af Umferðarstofu og að þeir sem kunni að óska eftir því að losna undan slíkum sendingum geti óskað eftir því að fá nafnleynd í ökutækjaskrá. Þá segir enn fremur:
„Starfsreglur Umferðarstofu um upplýsingaveitu úr ökutækjaskrá eru settar á grundvelli 112. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 4. gr. reglugerðar um skráningu ökutækja nr. 751/2003. Í starfsreglunum segir í ákvæði 5.1. m.a. eftirfarandi:
Eigendalistar: Heimilt er að veita upplýsingar um hópa eigenda og umráðamanna ökutækja...Leitarskilyrði við vinnsluna mega aðeins vera þær upplýsingar sem eru tilgreindar með opinn aðgang í 7. gr. Upplýsingar sem birtast í niðurstöðu mega aðeins vera nöfn, heimilisföng og póstnúmer aðila og upplýsingar sem eru með opinn aðgang. Þó mega aldrei fara saman upplýsingar um fastanúmer, skráningarnúmer og verksmiðjunúmer annars vegar og nöfn, heimilisföng eða póstnúmer hins vegar. Skylt er að fram komi á áberandi stað í útsendu efni að því sé dreift samkvæmt skrá útgefinni af Umferðarstofu og að þeir sem kynnu að óska eftir því að losna undan slíkum sendingum framvegis geti óskað eftir því að fá nafnleynd í ökutækjaskrá. Viðtakanda er heimilt að nota upplýsingarnar í eigin þágu, en óheimilt er að miðla þeim til þriðja aðila eða birta opinberlega nema með leyfi Umferðarstofu.
Við upplýsingaveitur úr ökutækjaskrá í þágu markaðssetningar, t.d. varðandi þá markpósta Frumherja sem hér um ræðir, er alfarið tekið mið af ofangreindu ákvæði. [...] Bréfin innihalda upplýsingar um nafn, heimilisfang og bíltegund, en það er í fullu samræmi við framangreindar starfsreglur. Hvað varðar bannmerki í þjóðskrá er það að segja að slík merki eru og hafa ávallt verið virt við upplýsingaveitu úr ökutækjaskrá. [...]“

3.
Bréfaskipti við málshefjanda
Þann 22. ágúst barst Persónuvernd tölvubréf A. Þar fylgdi hann eftir upphaflegu erindi sínu, dags. 12. ágúst 2011. Þar sagði:

„Hæ, ég sendi þetta fyrir 10 dögum og engin athug[a]semd komin? Viljið þið ekki svara þessu eða er svona mikið að gera?“
Persónuvernd svaraði 7. september og sagði:
„Persónuvernd hefur borist erindi frá þér varðandi notkun á ökutækjaskrá í þágu markaðssetningar. Fyrsta skref við meðferð málsins er að skrifa Umferðarstofu, sem ber ábyrgð á ökutækjaskrá, og óska skýringa. Þér verður sent afrit af því þar sem litið er á þig sem aðila máls. Ef þú vilt það ekki þarftu að láta okkur vita. Um verður að ræða almenn bréf (ekki tölvupóst) og þess vegna vantar okkur einnig að vita heimilisfangið þitt.

A svaraði samdægurs og gaf upplýsingar um heimilisfang sitt. Þá óskaði Persónuvernd eftir upplýsingum um það hvort hann væri á bannskrá Þjóðskrár. Hann svaraði samdægurs og greindi frá því að hann væri ekki á bannskrá. Þá sagði hann m.a.:

„....en það var reyndar ekki ég sem fékk þennan póst heldur sambýliskona mín sem er skráð fyrir bílnum. ....“

Persónuvernd spurði þá hvort hann kæmi fram fyrir hönd sambýliskonunnar. Einnig var spurt hvort hún væri á bannskrá. A svaraði 13. september 2011 og sagði m.a.:

„...Sambýliskona mín er samþykk því að ég komi fram fyrir hennar hönd gerist þess þörf.... “

Með tölvubréfi, dags. 15. september 2011, benti Persónuvernd kvartanda á að sambýliskona hans þyrfti sjálf að staðfesta að hún heimilaði honum að koma fram fyrir sína hönd. Svar barst sama dag, þar sem fram kom m.a.:

„Ég kýs að halda henni fyrir utan þetta eins þú veist vel að ég hef gert frá upphafi. Hún kemur hér fram sem skjólstæðingur minn í mesta lagi og vil ég gæta trúnaðar. Pósturinn sem um ræðir kom á mitt heimili og tel ég að það sé nóg fyrir þig til að kanna málið.....“
Kvartanda var þá bent á að þar sem málið lyti að vinnslu persónuupplýsinga um konuna hefði hún forræði á málinu.  Persónuvernd þyrfti að berast staðfesting hennar sjálfrar. Að öðrum kosti væri, vegna aðildarskorts, ekki unnt að vinna málið frekar. Engin viðbrögð bárust.

II.
Ákvörðun stjórnar Persónuverndar

1.
Í lögum nr. 77/2000 eru hinum skráða, þ.e. þeim sem persónuupplýsingar eru um, tryggð ýmis réttindi. Sem spegilmynd af þeim hvílir samsvarandi skylda á ábyrgðaraðila Honum ber að virða réttindi hins skráða – m.a. rétt hans til aðgangs að upplýsingum um sig, til að fá rangar upplýsingar leiðréttar eða þeim eytt. Þá ber honum að virða andmæli hins skráða þ. á m. gagnvart notkun persónuupplýsinga um sig í þágu markaðssetningar. Telji hinn skráði að á sér hafi verið brotinn sá réttur sem honum er tryggður í lögunum getur hann leitað til Persónuverndar - eða veitt öðrum umboð til að koma fram fyrir sína hönd.

2.
A hefur talið sig aðila máls vegna þess að umræddur markpóstur kom inn á hans heimili. Um hugtakið aðili máls er m.a. fjallað í dómi Hæstaréttar, í máli nr. 83/2003, dags. 19. júní 2003. Þar segir m.a.

....gefa lögskýringargögn til kynna að aðildarhugtak í stjórnsýslumálum beri að skýra rúmt, þannig að ekki sé einungis átt við þá, sem eiga beina aðild að máli heldur einnig þá sem hafa óbeinna hagsmuna að gæta. Ekki er til einhlítur mælikvarði í þessum efnum og líta ber til hvers tilviks fyrir sig. Almennt er sá talinn aðili að máli, sem á einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta. Þannig eru þeir, sem bera fram kærur eða kvartanir yfirleitt taldir aðilar að stjórnsýslumáli, enda eigi þeir slíkra hagsmuna að gæta við úrlausn þess.

Samkvæmt aðildarhugtakinu þarf einstaklingur, til að geta talist vera aðili máls, að eiga einstaklegra, verulegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn í því. Það ræðst aftur af því hvaða svið stjórnsýslunnar um er að ræða. Að því er varðar svið persónuverndar og vinnslu persónuupplýsinga fellur þetta tvennt - að vera hinn skráði og að vera aðili máls - oftast saman. Í þeim tilvikum sem það gerir það ekki er ástæðan jafnan sú að hinn skráði nýtur grundvallarréttar sem er óháður því hvort hann hafi verið aðili máls. Sá réttur er persónubundinn sem þýðir að annar getur ekki farið með þann rétt nema hafa til þess alveg sérstaka heimild.

Samkvæmt 37. gr. laga nr. 77/2000 getur Persónuvernd fjallað um einstök mál samkvæmt erindi þess sem telur að ekki hafi verið unnið með persónuupplýsingar um sig í samræmi við lögin, reglur sem settar hafa verið samkvæmt þeim eða samkvæmt einstökum fyrirmælum. Hún getur einnig fjallað um mál að eigin frumkvæði.

Hvorki liggur fyrir kvörtun frá hinum skráða í máli þessu, né aðila sem hinn skráði hefur veitt heimild til að fara með sinn rétt. Þá hefur Persónuvernd ekki ákveðið að taka málið upp sem frumkvæðismál. Eru þar með ekki lagaskilyrði til frekari efnislegrar umfjöllunar um það og er það því fellt niður.



Var efnið hjálplegt? Nei