Úrlausnir

Mál til meðferðar hjá annarri stofnun (PFS)

12.10.2011

A kvartaði yfir því að vinnuveitandi hafi skoðað tölvupósthólf hennar. Lögmaður hennar gerði þá kröfu að Persónuvernd tæki málið til efnislegrar meðferðar þótt að það væri til meðferðar hjá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS). Var niðurstaða Persónuverndar sú að málið yrði ekki tekið til meðferðar meðan það væri hjá PFS, m.a. í ljósi skörunar á verksviðum þessara stofnana. Að lokinni umfjöllun PFS myndi Persónuvernd eftir atvikum taka það til úrskurðar.

Ákvörðun


Hinn 17. ágúst 2011 tók stjórn Persónuverndar svohljóðandi ákvörðun:

1.
Kvörtun

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2011, barst Persónuvernd kvörtun X, hdl., f.h. A, (hér eftir nefnd „kvartandi“). Hún kvartar yfir háttsemi fyrrverandi vinnuveitanda síns sem er Karl K. Karlsson hf. (hér eftir nefnt „ábyrgðaraðili“). Í kvörtuninni kemur fram að hún telur að B, stjórnarformaður félagsins, hafi brotið gegn lögum nr. 77/2000 og 9. gr. reglna nr. 837/2006 um rafræna vöktun með því að skoða tölvupóst hennar án þess að gefa henni færi á að vera viðstaddri. Þá er þess krafist að Persónuvernd mæli fyrir um stöðvun á frekari skoðun á tölvupóstinum að viðlögðum sektum.

Með bréfi, dags. 11. mars 2011, var ábyrgðaraðila boðið að tjá sig um þessa kvörtun. Þá var sérstaklega óskað upplýsinga um hvort rétt væri að tölvupóstur kvartanda hafi verið skoðaður með þeim hætti sem lýst er í kvörtuninni og á hvaða heimild það hefði þá byggst.

Svarbréf Z, hdl., f.h. ábyrgðaraðila, dags. 13. apríl 2011, barst Persónuvernd þann 15. apríl s.á. Þar segir m.a.:

„ [...]Póst- og fjarskiptastofnun hefur krafið umbjóðendur mína um ítarlegar upplýsingar vegna þeirra atriða sem greint er frá í kvörtun A til Persónuverndar. Upplýsingum og gögnum hefur nú þegar verið komið á framfæri við stofnunina.
Með vísan til þeirrar grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins að sama úrlausnarefni skuli eingöngu vera til meðferðar hjá einu stjórnvaldi í senn, er þess óskað að Persónuvernd snúi sér fyrst til Póst- og fjarskiptastofnunar áður en umbjóðendur mínir verða krafðir svara, til að stofnanirnar geti samræmt aðkomu sína að málinu og ákveðið því réttan farveg. Því verði ekki, að minnsta kosti að svo stöddu, farið fram á frekari upplýsingar frá umbjóðendum mínum en þegar hafa verið veittar Póst- og fjarskiptastofnun. Fer undirritaður vinsamlegast fram á það við Persónuvernd að málinu verði beint í framangreindan farveg [...]“

Með bréfi, dags. 14. apríl 2011, var kvartanda gerð grein fyrir því að Persónuvernd teldi, með vísun til þess að málið væri til úrlausnar hjá Póst- og fjarskiptastofnun, ekki tímabært að taka afstöðu til þess. Svarbréf lögmanns kvartanda, dags. 28. apríl 2011, barst Persónuvernd þann 29. apríl s.á. Þar segir meðal annars:

„Með bréfi þessu er upplýst, að f.h. umbj. míns hafa Póst- og fjarskiptastofnun verið sendar athugasemdir við bréfi KKK til stofnunarinnar [...]. Í athugasemdum umbj. míns til Póst- og fjarskiptastofnunar er bent á þá staðreynd, að fullyrðingar KKK til stofnunarinnar séu með öllu rangar og tilhæfulausar. Tölvupóstur umbj. míns hjá KKK var skoðaður heimildarlaust og efni hans var notað til að hefja tilhæfulaust stjórnsýslumál gegn umbj. mínum hjá Neytendastofu. [...] Skýringar KKK til PFS á því hvernig fyrirtækið komst yfir tölvupóstsamskiptin eru beinlínis rangar og engum gögnum studdar.

Þess utan bendir umbj. minn á að kvörtun hennar til Persónuverndar lýtur að því að ákvæði laga um persónuvernd, nr. 77/2000 og reglur, sem settar hafa verið á grundvelli þeirra, hafi verið brotin. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. annast Persónuvernd framkvæmd þeirra laga. Kvörtun umbj. míns til Póst- og fjarskiptastofnunar lýtur að því að ákvæði laga um fjarskipti, nr. 81/2003, hafi verið brotin. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. þeirra laga hefur Póst- og fjarskiptastofnun eftirlit með framkvæmd þeirra laga. Umbj. minn hefur væntingar um áframhaldandi meðferð málsins hjá Persónuvernd, um það hvort brotið hafi verið gegn lögum nr. 77/2000 og reglum settum á grundvelli þeirra, sé ekki háð því hvort Póst- og fjarskiptastofnun telji að ákvæði laga nr. 81/2003, hafi verið brotin.“

Með bréfi, dags. 23. júní 2011, óskaði Persónuvernd staðfestingar frá Póst- og fjarskiptastofnun á að framangreint mál væri þar til meðferðar og hvenær áætlað væri að meðferð þess lyki. Þá óskaði Persónuvernd einnig eftir upplýsingum um hvaða ákvæði í fjarskiptalögum málið varðaði þannig að stofnunin gæti tekið afstöðu til þess hvort rétt væri að bíða eftir afgreiðslu Póst- og fjarskiptastofnunar eða taka málið til meðferðar.

Svarbréf Póst- og fjarskiptastofnunar, dags. 30. júní 2011, barst Persónuvernd þann 4. júlí s.á. en þar segir meðal annars:

„PFS staðfestir hér með að umrætt mál er til meðferðar hjá stofnuninni. Hefur kvörtunin verið send til umsagnar til Karls K. Karlssonar og hafa athugasemdir fyrirtækisins borist vegna hennar. Þær athugasemdir sem bárust voru sendar í umsögn til kvartanda og hefur svar jafnframt borist þaðan. Þá var Karli K. Karlssyni gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir kvartanda og hefur svarbréf þess efnis borist.
Þar sem málið snýst að hluta til um sönnunaratriði mun PFS þurfa að rannsaka þau atriði sem aðilar eru ekki sammála um varðandi málavexti. Að því loknu má búast við að PFS taki ákvörðun í málinu, sjái stofnunin ekki ástæðu til að gefa málsaðilum færi á að gera athugasemdir við niðurstöðu rannsóknar stofnunarinnar.
PFS telur ofangreint mál hugsanlega varða 9. mgr. 47. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti sem kveður á að um óheimilt sé að skrá hjá sér eða notfæra sér á nokkurn hátt upplýsingar sem viðkomandi hefur borist með fjarskiptamerkjum fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar. Samkvæmt ákvæðinu ber viðkomandi að tilkynna sendanda um að upplýsingarnar hafi ranglega borist sér.
Mun PFS upplýsa Persónuvernd um það þegar málinu verður lokið innan stofnunarinnar eins og Persónuvernd hefur áður óskað eftir.“

2.
Ákvörðun

Mál þetta lýtur að ágreiningi um það hvort tölvupóstur A, sem varðveittur er í pósthólfi, sem hún hafði hjá Karli K. Karlssyni hf., hafi verið skoðaður með þeim hætti að farið hafi í bága við fyrirmæli laga og settra reglna.  Þá er þess krafist að Persónuvernd mæli fyrir um stöðvun á frekari skoðun á póstinum að viðlögðum sektum.

2.1
Í ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eru ákvæði um viðurlög við því að raska bréfaleynd.  Samkvæmt 228. gr. þeirra, með áorðnum breytingum, varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári  ef maður hnýsist í bréf, skjöl, dagbækur eða önnur slík gögn sem hafa að geyma upplýsingar um einkamálefni manna og hann hefur komist yfir gögnin með brögðum,  opnað bréf, farið í læsta hirslu eða beitt annarri áþekkri aðferð. Þá segir í 229. gr. sömu laga að hver sá sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Í. 242. gr. laganna er afmarkað hvaða brot sæta saksókn, hvaða brot sæta ákæru ef sá krefst þess, sem misgert var við og hvenær sá einn sem misgert er við getur höfðað mál út af broti. Það á m.a. við um brot gegn 228. og 229. gr. laganna. Það er ekki á forræði Persónuverndar að fjalla um refsimál eða skera úr um það hvort brotið hafi verið gegn almennum hegningarlögum. Það er hlutverk dómstóla. Þá hefur Persónuvernd ekki heimild til að beita stjórnvaldssektum.

2.2.
Að öðru leyti en að framan er rakið kann umrætt ágreiningsmál að falla undir verksvið Persónuverndar. Fyrir liggur hins vegar að það er nú til efnislegrar úrlausnar hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Hefur sú stofnun greint Persónuvernd frá því að það varði hugsanlega 9. mgr. 47. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti sem kveður á um að óheimilt sé að skrá eða notfæra sér á nokkurn hátt upplýsingar sem borist hafa með fjarskiptamerkjum fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar.

Að lögum skarast verksvið Persónuverndar og Póst- og fjarskiptastofnunar. Skörunin stafar af því að ákvæði um sömu álitaefni er bæði að finna í lagaákvæðum sem Persónuvernd hefur eftirlit með og ákvæðum sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með. Orsök þessa er sú að þegar tilskipun Evrópubandalagsins um vinnslu persónuupplýsinga og verndun einkalífs í fjarskiptum var innleidd hér á landi var eftirlit að öllu leyti falið Póst og fjarskiptastofnun, þ. á m. með ákvæðum um persónuvernd. Eftirlit með hinum almennu reglum laga nr. 77/2000 er hins vegar á hendi Persónuverndar. Þessu fylgir sá vandi að í málum varðandi brot á ákvæðum IX. kafla fjarskiptalaga reynir iðulega einnig á almennar reglur laga nr. 77/2000 sem gilda ávallt þar sem sérákvæðum IX. kafla fjarskiptalaga sleppir og eru þeim að öðru leyti til fyllingar. Það ákvæði sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur vísað til - þ. e. 9. mgr. 47. gr. laga nr. 81/2003 - er í umræddum kafla fjarskiptalaganna.

2.3.
Með vísan til framangreinds, og almennra reglna stjórnsýsluréttarins um valdmörk stjórnvalda og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, eru ekki efni til þess að Persónuvernd fjalli um málið meðan það er til meðferðar hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Þegar sú stofnun hefur lokið afgreiðslu á málinu af sinni hálfu mun Persónuvernd kanna hvort það falli undir gildissvið laga nr. 77/2000 - og þar með hennar verksvið - enda berist henni um það sérstök ósk kvartanda, A.



Var efnið hjálplegt? Nei