Úrlausnir

Upplýsingar um fyrnda kröfu

7.10.2011

Maður kvartaði yfir varðveislu fjarskiptafyrirtækis á persónuupplýsingum um fyrnda kröfu á hendur sér. Fyrir lá bréf frá Póst- og fjarskiptastofnun. Í fjarskiptalögum er ekki sérregla um bann við slíkri varðveislu. Persónuvernd leit m.a. til hagsmuna fyrirtækis af því að hafa yfirsýn yfir eigin fjármál og viðskiptasögu - og taldi hagsmuni hins skráða, af því að upplýsingunum yrði eytt, ekki vega þyngra. Ekki var tekin afstaða til þess hvernig fjarskiptafyrirtækið mætti nota upplýsingarnar.

Úrskurður

Hinn 22. júní 2011 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2011/148:

I.
Málavextir og bréfaskipti
Hinn 3. febrúar 2011 barst Persónuvernd kvörtun A (hér eftir nefndur „kvartandi“), dags. 3. febrúar s.á., þar sem kvartað er yfir varðveislu Símans hf. á upplýsingum um fyrnda kröfu á hendur honum. Í kvörtuninni segir:

„Undirritaður fór þess á leit við Símann hf. að opnaður yrði viðskiptamannareikningur á kennitölu undirritaðs. Starfsmaður Símans svaraði því til að það væri ekki mögulegt vegna kröfu sem Síminn hf. telur sig eiga og skráð er í viðskiptamannakerfi Símans undir kennitölu undirritaðs. Kröfuna yrði að greiða áður en opnaður yrði viðskiptamannareikningur.

Umrædd kröfuréttindi eru frá árinu 1999 og eru fallin niður fyrir fyrningu sbr. 3. gr. laga nr. 14/2005.

Þess má geta að umrædd kröfuréttindi eru ekki skráð í vanskilaskrá Lánstrausts.“

Einnig segir í kvörtuninni:

„Undirritaður óskar eftir því að Persónuvernd skeri úr um hvort umrædd skráning fyrndra kröfuréttinda í viðskiptamannakerfi Símans hf. samræmist lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 þá sérstaklega 8. og 9. grein tilvitnaðra laga.

Undirritaður óskar jafnframt eftir því, komist Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að umrædd skráning samræmist ekki lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, að Símanum hf. verði gert að eyða umræddum upplýsingum úr viðskiptamannaskrá sinni.“

Með kvörtuninni er hjálagt tölvubréf Símans hf. til kvartanda, sent 26. janúar 2011, þar sem fram kemur sá skilningur hans að varðveisla upplýsinga um kröfuna sé heimil. Þó svo að ekki sé hægt að halda kröfunni í löginnheimtu sé hægt að synja um þjónustu á grundvelli hennar. Kvartanda sé velkomið að greiða inn á kröfuna.

Með bréfi, dags. 16. febrúar 2011, var Símanum hf. veitt færi á að tjá sig um framangreinda kvörtun. Svarað var með bréfi, dags. 7. mars 2011. Þar segir:

„Síminn fellst á að umrædd krafa, sem er að rekja til skuldar vegna ógreiddra reikninga kvartanda frá júlí 1999 til maí 2001, sé með vísan til 3. gr. þágildandi laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, fallin úr gildi fyrir fyrningu, sbr. 1. gr. laganna, og af þeim sökum sé Símanum óheimilt að innheimta kröfuna.

Síminn fellst hins vegar ekki á að varðveisla upplýsinga um vanskil kæranda samrýmist ekki lögum nr. 77/2000 og að Símanum sé af þeim sökum skylt að afmá þær úr skráningarkerfi sínu. Í því sambandi vísar Síminn til þess að í réttaráhrifum fyrningar felst að réttindi falla niður á þann hátt að kröfuhafi glatar rétti sínum til að krefjast efnda. Krafan nýtur þannig ekki lengur almennrar lögverndar en er eftir sem áður til á þann hátt að þó að skuldarinn verði ekki þvingaður til efnda með opinberum aðgerðum getur eftir sem áður hvílt á honum siðferðileg skylda til að efna kröfuna. Slíkar kröfur hafa á erlendu fræðimáli verið nefndar obligatio naturalis.

Þá verður jafnframt að telja varðveislu upplýsinga um vanskil eða greiðslusögu kæranda á framangreindu tímabili í vanskilaskrá Símans heimila á grundvelli 7. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 þar sem slík vinnsla sé nauðsynleg til að Síminn geti, sem ábyrgðaraðili, gætt lögmætra hagsmuna sinna, enda verður ekki fallist á að grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem vernda ber samkvæmt lögum, vegi þyngra. Slík skrá þjónar þeim tilgangi að gera fyrirtækjum í atvinnurekstri kleift að koma í veg fyrir að stofnað verði til áframhaldandi viðskipta við þá einstaklinga sem ekki hafa staðið í skilum í fyrra viðskiptasambandi við viðkomandi fyrirtæki. Verður að telja mikilvægt að fyrirtæki í atvinnurekstri geti gripið til slíkra úrræða enda byggir slík synjun á málefnalegum grundvelli og þjónar þeim tilgangi einum að vernda hagsmuni fyrirtækisins.

Heimild Símans til að synja kæranda um frekari alþjónustu byggir á grein 3.4. í almennum skilmálum fyrirtækisins um fjarskiptaþjónustu sem settir eru á grundvelli 37. gr. laga nr. 81/2003 og máttu vera kæranda kunnir. Þar kemur efnislega fram að hafi Síminn fallist á niðurfellingu á réttmætri viðskiptakröfu sinni vegna alþjónustu á hendur áskrifanda, sé fyrirtækinu heimilt að synja viðkomandi um frekari alþjónustu, nema umrædd viðskiptaskuld sé gerð upp. Verður ekki séð að framangreint ákvæði sé í andstöðu við lagaákvæði á sviði fjarskipta.“

Með bréfi, dags. 9. mars 2011, var kvartanda veitt færi á tjá sig um framangreint bréf Símans. Svarfrestur var veittur til 24. mars s.á. Ekki barst svar innan þess tíma, en í símtali hinn 31. s.m. var fresturinn framlengdur til 7. apríl 2011. Ekki barst hins vegar svar fyrir þann tíma. Með bréfi til kvartanda, dags. 18. maí s.á., var honum greint frá því að ef svar bærist ekki fyrir 26. s.m. yrði litið svo á að hann hefði fallið frá kvörtun sinni. Þann dag barst svar frá kvartanda, dasg. 23. maí 2011. Þar segir:

„Undirritaður fór þess á leit við Persónuvernd að Símanum hf. (hér eftir nefndur „S“) yrði gert að afmá úr gagnagrunni sínum upplýsingar er varða kröfu á hendur undirrituðum sem fallin er niður fyrir fyrningu, enda telur undirritaður að slík skráning eigi sér ekki stoð í lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Í svarbréfinu kemur fram að S fellst á að umrædd krafa sé fallin úr gildi fyrir fyrningu sbr. 3. gr. laga nr. 14/1905 og njóti ekki lengur lögverndar. S telur jafnframt að varðveisla upplýsinga líkt og hér um ræðir eigi sér stoð í 7. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.

Á það verður ekki fallist þar sem í frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2000 kemur fram í athugasemdum um 7. tl. 1. mgr. 8. gr. að skilyrt sé að hagsmunir ábyrgðaraðila séu lögvarðir. Hagsmunir þeir er S telur sér heimilt að gæta eru ekki lögvarðir og falla því ekki undir tilvitnaða grein.

Ekki verður heldur á það fallist að skráning sem þessi sé málefnaleg. Vísað er til umfjöllunar um 7. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 hér að ofan. Því til viðbótar er rétt að fram komi að fyrirtækjum standa til boða önnur og málefnalegri úrræði til að tryggja viðskipti sín s.s. vanskilaskrá Creditinfo og/eða tryggingafé ýmiskonar.

Því ítrekar undirritaður beiðni sína um að S verði gert að eyða umræddum upplýsingum úr gagnagrunni sínum.“

Með bréfi til Póst- og fjarskiptastofnunar, dags. 22. júní 2011, óskaði Persónuvernd umsagnar hennar um hvort í viðskiptaskilmála fjarskiptafyrirtækja, sbr. 37. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003, mætti færa ákvæði um synjun um veitingu alþjónustu þegar fyrirtæki hefur fellt niður kröfu á hendur þeim sem hennar beiðist vegna fyrningar. Póst- og fjarskiptastofnun svaraði með bréfi, dags. 19. júlí 2011. Þar segir m.a.:

„Í þessu sambandi vill PFS benda á að allir eiga rétt á alþjónustu, þ.e. ákveðinni lágmarks fjarskiptaþjónustu á viðráðanlegu verði. Aðgangur að fjarskiptaþjónustu er mikilvægur í nútímaþjóðfélagi og eru samfélagslegir hagsmunir fólgnir í því að fólk hafi slíkan lágmarks aðgang. Má þar til að mynda nefna mikilvægi þess að allir geti náð sambandi við neyðarnúmerið 112.

Um vanskil áskrifenda fjarskiptaþjónustu er fjallað í 39. gr. fjarskiptalaga. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að loka fyrir tal- og farsímaþjónustu vegna vanskila fyrir símtöl, önnur en þau sem bera yfirgjald. Af ákvæðinu má leiða að óheimilt sé að loka fyrir tal- og farsímaþjónustu ef skilyrði ákvæðisins eru ekki lengur fyrri hendi enda er það í samræmi við ofangreint sjónarmið um mikilvægi þess að aðgangur að fjarskiptaþjónustu sé ekki takmarkaður.“

Einnig segir í bréfi Póst- og fjarskiptastofnunar:

„Getur PFS ekki lagt annan skilning í ávkæði 39. gr. fjarskiptalaga en til þess að heimilt sé að loka fyrir tal- eða farsímaþjónustu, eða hafna viðskiptum um slíka þjónustu, þurfi viðkomandi að vera í vanskilum við fjarskiptafyrirtæki. Þar sem það er óumdeild að umrædd krafa Símans er fyrnd verður ekki séð að kvartandi sé í vanskilum við fyrirtækið og því telur PFS að Símanum sé óheimilt að hafna því að veita honum umrædda fjarskiptaþjónustu.

Telur PFS að ekkert standi því í vegi að fjarskiptafyrirtæki geti sett ákvæði í viðskiptaskilmála sína að fyrirtækið áskilji sér rétt til að synja aðila um þjónustusamning sé hann í vanskilum með tal- eða farsímaþjónustu. Til þess að slíkt ástand geti varað þarf skuldin að vera til staðar og fjarskiptafyrirtækið að halda kröfum sínum lifandi.“

II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að hér ræðir um meðferð persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

2.
Óumdeilt er að skráning umræddra upplýsinga var lögmæt í upphafi. Til úrlausnar er hins vegar hvort varðveisla upplýsinganna, eftir að umrædd krafa fyrndist, teljist lögmæt. Sú varðveisla þarf, eins og öll vinnsla persónuupplýsinga, að fullnægja einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000. Samkvæmt 7. tölul. 1. mgr. þeirrar greinar er vinnsla persónuupplýsinga heimil sé hún nauðsynleg til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.

Einnig verður við vinnslu persónuupplýsinga að vera farið að öllum grunnkröfum 7. gr. laga nr. 77/2000, þ. á m. um að upplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og á þann veg að öll meðferð þeirra samrýmist vönduðum vinnsluháttum persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); að þær skuli vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.); og að þær skuli varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á skráða aðila lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu (5. tölul.).

Það að einstaklingar og lögaðilar vinni með upplýsingar varðandi vanefnda löggerninga, sem þeir sjálfir hafa átt aðild að, getur helgast af lögmætum hagsmunum, sbr. fyrrgreint ákvæði 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Þeir hagsmunir felast m.a. í því að hafa yfirsýn yfir eigin fjármál og viðskiptasögu og geta litið til hennar þegar ákveðið er hvort stofnað skuli til viðskipta og á hvaða kjörum. Af því leiðir jafnframt að viðkomandi aðila verður þá talið heimilt að varðveita upplýsingar um vanefndan samning nema eitthvað sérstakt komi til, s.s. lagaákvæði um eyðingu.

Fyrir liggur umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar þess efnis að fjarskiptafyrirtækjum sé óheimilt að synja um alþjónustu þegar þau hafa fellt niður köfu á hendur þeim sem hennar beiðist vegna fyrningar. Til þess er hins vegar að líta að jafnvel þótt fyrirtæki sé óheimilt að synja um tiltekin viðskipti á grundvelli viðskiptasögu getur talist lögmætt að taka tillit til hennar með öðrum hætti, s.s. við ákvörðun um hvort viðkomandi skuli eiga kost á sérstökum ívilnandi kjörum.

Í athugasemdum við framangreint ákvæði 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. í greinargerð með því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, segir að hagsmunir þurfi að vera lögvarðir. Af hálfu kvartanda kemur fram sá skilningur að orðalag ákvæðisins beri því að skilja svo að þar sem krafan sé fyrnd séu hagsmunir af varðveislu hennar ekki lengur lögvarðir þar sem efnda verði ekki krafist fyrir dómi. Til þess er hins vegar að líta að sé málefnaleg ástæða til varðveislu tiltekinna upplýsinga getur varðveislan verið lögvarin í þeim skilningi að ekki verði lagt fyrir viðkomandi að eyða upplýsingunum.

Telja verður að af því séu lögmætir hagsmunir að umræddar upplýsingar séu varðveittar. Ekki verður séð að hagsmunir hins skráða af því að upplýsingunum sé eytt séu þess eðlis að þeir vegi þyngra. Þá verður ekki séð að sérstakar ástæður aðrar leiði til þess að upplýsingunum beri að eyða, né heldur að varðveislan brjóti í bága við ákvæði 7. gr. laga nr. 77/2000. Verður Símanum hf. því talið heimilt að varðveita upplýsingarnar með stoð í framangreindu ákvæði 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna. Hins vegar skal tekið fram að með þeirri niðurstöðu er ekki tekin afstaða til þess hvenær Símanum hf. sé heimilt að nota upplýsingarnar.


Ú r s k u r ð a r o r ð:

Símanum hf. er heimilt að varðveita upplýsingar um fyrnda kröfu sína á hendur A vegna þjónustu sem ekki var greitt fyrir.



Var efnið hjálplegt? Nei