Úrlausnir

Birting lista yfir hundaeigendur

7.10.2011

Persónuvernd hefur svarað fyrirspurn Reykjavíkurborgar um hvort henni sé heimilt að birta lista yfir hundaeigendur. Í svarinu kemur fram að ákvæði upplýsingalaga, um rétt almennings til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum sem varða tiltekið mál, eigi ekki við um skrá yfir þá sem fengið hafa leyfi til hundahalds. Er Reykjavíkurborg leiðbeint um að meta hvort skilyrði 8. gr. pvl. séu uppfyllt.

Efni: Birting skrár yfir hundaeigendur


I.
Erindi Reykjavíkurborgar
Persónuvernd vísar til erindis umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar, dags. 18. maí 2011. Þar segir m.a.:

„Undirrituð óskar eftir áliti Persónuverndar á því hvort lög um persónuvernd nr. 77/2000 með síðari breytingum, heimili að setja megi hundaskrá Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á heimasíðu eftirlitsins. Þar gæti komið fram heimilisfang, nafn hundaeiganda og skráningarnúmer hunds svo eitthvað sé nefnt. Verið er að endurskoða hundasamþykkt fyrir Reykjavík þessa dagana og kom þessi hugmynd upp þar. Talið er að slík birting geti aukið öryggi, upplýst borgarbúa um hvar hundar eru skráðir og aukið ábyrgð hundaeigenda. Einnig er þeirri spurningu varpað til Persónuverndar ef ofangreind birting er heimil hvernig gera ætti hundaeigendum ljóst að slíkar upplýsingar um þá væru aðgengilegar almenningi. Að lokum er óskað eftir áliti á rétti almennings til upplýsinga um slík atriði skv. upplýsingalögum nr. 50/1996 með síðari breytingum en fyrirspurnir um skráningu hunda eru algengar hjá heilbrigðiseftirlitinu.“

II.
Svar Persónuverndar
Hér á eftir fara svör Persónuvernd við spurningum Reykjavíkurborgar. Ekki er um að ræða endanlega bindandi svör um lögmæti vinnslu, enda gæti Persónuvernd síðar þurft að úrskurða um ágreining vegna hennar. Reykjavíkurborg til leiðbeiningar er hins vegar farið yfir þau sjónarmið sem líta ber til.

1.
Svo að vinna megi með persónuupplýsingar verður að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í 7. tölul. 1. mgr. þeirrar greinar segir að vinna megi með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.

Í bréfi Reykjavíkurborgar kemur fram að tilgangur umræddrar birtingar er m.a. sá að auka öryggi við hundahald og ábyrgð hundaeigenda. Í því felast lögmætir hagsmunir sem meta verður andspænis hagsmunum af því að upplýsingar um hundaeign einstaklinga séu ekki birtar.

2.
Sé það mat Reykjavíkurborgar að hagsmunir af birtingu vegi þyngra en andstæðir hagsmunir reynir á hvort fræða beri viðkomandi einstaklinga um birtinguna. Slíkt mætti t.d. gera með texta á eyðublöðum fyrir umsóknir um hundahald. Hér ræðir hins vegar einnig um birtingu upplýsinga um þá sem þegar hafa fengið leyfi og þá er ekki unnt að beita þeirri aðferð.

Í 20. gr. laga nr. 77/2000 ræðir um fræðslu sem veita ber hinum skráða þegar persónuupplýsinga um hann er aflað hjá honum sjálfum, t.d. með viðtöku útfylltrar umsóknar. Ákvæðið miðast við það tímamark þegar upplýsinga er aflað. Þegar um ræðir þá sem þegar hafa fengið leyfi á ákvæðið því ekki við.

Samkvæmt 21. gr. laga nr. 77/2000 ber þeim sem aflar persónuupplýsinga um hinn skráða frá öðrum en honum sjálfum almennt að gera honum viðvart um þá upplýsingaöflun. Þetta ákvæði á ekki við í umræddu tilviki þar sem ekki ræðir um öflun upplýsinga frá þriðja aðila heldur birtingu upplýsinga sem þegar hefur verið aflað.

Þrátt fyrir að framangreind ákvæði eigi ekki við með beinum hætti getur Reykjavíkurborg verið skylt að veita fræðslu á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. þess efnis að vinnsla skuli vera sanngjörn og samrýmast vönduðum vinnsluháttum. Í því felst m.a. að vinnsla á að vera gagnsæ gagnvart skráða, en það getur m.a. haft í för með sér að honum skuli veitt fræðsla, t.d. með kynningarbréfi. Hvort slík skylda sé til staðar fer eftir eðli vinnslu og upplýsinga, t.d. hvort vinnsla tiltekinna persónuupplýsinga geti verið íþyngjandi gagnvart hinum skráða. Þá skiptir máli hversu mikil fyrirhöfn er því samfara að veita fræðslu í samanburði við eðli vinnslunnar.

3.
Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er rætt um rétt almennings til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum sem varða tiltekið mál. Af 2. mgr. 2. gr. leiðir að persónuupplýsingaskrár, t.d. yfir alla þá sem fengið hafa leyfi til hundahalds, falla ekki þar undir. Hins vegar ber Reykjavíkurborg skylda til að afhenda gögn í einstökum málum þegar farið er fram á það nema  5. gr. upplýsingalaga banni afhendingu, þ. á m. þegar um er að ræða gögn um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.




Var efnið hjálplegt? Nei