Úrlausnir

Úrskurðir og álit - Morðmál.

15.1.2003

Þess var óskað að Persónuvernd fjallaði um lögmæti umfjöllunar um morðmál sem birtist í dagblaði.

Með bréfi, dags. 4. október sl., óskaði Oddný Mjöll Arnardóttir hdl. þess fyrir hönd umbjóðenda sinna, A og B, að Persónuvernd fjallaði um lögmæti umfjöllunar um morðmál sem birtist í DV. Í niðurlagi bréfs Oddnýjar Mjallar segir:

Þess er krafist að Persónuvernd fjalli um málið og láti uppi það álit sitt að umfjöllun DV sem birtist laugardaginn 21. september 2002 undir fyrirsögninni "Myrti ókunna konu í stundarbrjálæði" og var merkt upphafsstöfunum D, sé ólögmæt og standist ekki ákvæði 1. og 4. tl. 1. mgr. 7. gr. pul. Þess er krafist að Persónuvernd láti uppi það álit sitt að brotið hafi verið sérstaklega ámælisvert.

Með bréfi, dags. 21. október sl., bauð Persónuvernd DV að tjá sig um málið og hinn 28. s.m. barst stofnuninni síðan tölvupóstur frá blaðamanninum sem skrifaði greinina, D. Aftur bauð Persónuvernd DV að tjá sig um málið með bréfi, dags. 5. nóvember sl., þar sem láðst hafði að senda blaðinu gögn málsins. Í þetta skipti var D einnig boðið að tjá sig. Svar barst ekki innan þess frests sem veittur var, en hann rann út hinn 19. nóvember sl. Með bréfi, dags. 3. desember sl., bauð Persónuvernd Oddnýju Mjöll síðan að tjá sig um tölvupóst D og hefur stofnuninni nú borist bréf frá henni, dags. 11. s.m.

I.

Atvik málsins eru þessi: Hinn 21. september sl. birtist í DV grein, skrifuð af D, undir fyrirsögninni "Myrti ókunna konu í stundarbrjálæði". Í greininni er fjallað um morð sem framið var árið 1988. Ekki er þar getið nafns konunnar sem myrt var, C, dóttur A og B eða annarra. Hins vegar er öllum atvikum, þ.á m. tíma og staðsetningu, lýst með nákvæmum hætti. Í greininni segir meðal annars að morðinginn hafi haft samfarir við konuna, en hann hélt því fram þegar réttað var í máli hans. Í dómi Hæstaréttar segir hins vegar: "Skýrslur ákærða um samskipti hans við hina látnu, eftir að þau voru orðin ein, eru ekki trúverðugar, og verða þær ekki lagðar til grundvallar." Þá segir í héraðsdóminum: "Ekki var sýnt fram á að konan hefði haft samfarir fyrir andlátið."

  II.

Í bréfi Oddnýjar Mjallar Arnardóttur hdl., dags. 4. október sl., segir:

Þær upplýsingar sem fram koma í greininni eru persónugreinanlegar, þótt ekki sé um nafngreiningu að ræða, þar sem öllum aðstandendum hinnar myrtu er fullljóst af atvikalýsingu, staðsetningu og tímasetningu málsins um hvaða einstaklinga er að ræða. Ekki breytir neinu í því sambandi að sá einstaklingur sem upplýsingarnar verða raktar til er látinn, sbr. 1. tl. 1. mgr. 2. gr. pul., en tilgangurinn með því að skilgreina upplýsingar um látið fólk sem persónuupplýsingar hlýtur m.a. að vera sá að vernda aðstandendur látins fólks fyrir umfjöllun um einkamálefni þess sem valdið geti aðstandendum óþarfa sársauka. Bent er á að þær persónuupplýsingar er fram koma í greininni um dóttur umbj. m. eru að hluta til viðkvæmar persónuupplýsingar skv. skilgreiningu 8. tl. 1. mgr. 2. gr. pul., þar sem fjallað er um kynlíf hennar og kynhegðun í greininni. Þótt efnisákvæði 9. gr. pul. eigi ekki strangt til tekið við, sbr. 5. gr. laganna, er ljóst að eðli máls samkvæmt ber að fara sérstaklega varlega og gæta sérstakrar tillitsemi í umfjöllun um viðkvæmar persónuupplýsingar. Það er afstaða umbj. m. að umfjöllun þessi sé almennt séð ólögmæt þar sem hún feli í sér brot gegn friðhelgi einkalífs þeirra. Umfjöllunin rifjar upp atvik sem hafa valdið umbj. m. ómældum sársauka og harmi. Höfundi greinarinnar og ritstjórn DV átti að vera fullljóst að birting greinarinnar myndi valda umbj. m. sársauka og raska tilfinningum þeirra, en hverjum manni hlýtur að vera ljós sá harmur sem það veldur foreldrum þeirra sem falla fyrir morðingja hendi að ýfð séu upp þau sár með ósmekklegri og óþarfri umfjöllun. Er sérstaklega alvarlegt að eins og sjá má af hinni umdeildu grein er umfjöllun DV um málið án nokkurs sýnilegs tilgangs annars en þess að fjölmiðillinn geri sér ógæfu og harm umbj. m. að féþúfu. Í því sambandi er sérstaklega bent á að um er að ræða 14 ára gamalt dómsmál og hefur umfjöllun um það nú því ekkert fréttagildi og snertir ekki opinbera lýðræðislega umræðu á nokkurn hátt. Umfjöllun DV í hinni umdeildu grein er því í sjálfu sér og almennt séð brot á friðhelgi umbj. m. og í andstöðu við 1. tl. 1. mgr. 7. gr. pul.

Við hið almenna brot gegn friðhelgi einkalífs umbj. m. bætist einnig sérstakt bort gegn pul. sem byggist á óvönduðum vinnubrögðum við vinnslu hinnar umdeildu greinar þar sem fjallað er um kynhegðun hinnar látnu. Í upphafi greinarinnar segir: "Það sem gerðist var..." og er greinin öll rituð í þeim stíl að blaðamaðurinn sé að greina frá óyggjandi sönnuðum staðreyndum. Síðar í greininni segir: "Þegar þau höfðu snætt eggjabrauðið lögðust þau í rúm konunnar og hún fór að mestu úr fötunum og þau höfðu samfarir sem var ekki lokið þegar konan ýtti manninum frá sér og vildi hætta svo nánum samskiptum." Í fyrsta lagi fullyrðir blaðamaðurinn þarna um staðreyndir sem áttu að eiga sér stað þegar hin látna og brotamaðurinn voru orðin ein. Þessar fullyrðingar eru fullkomlega ósannaðar og eru einungis hafðar eftir brotamanninum í málinu. Er brot blaðamannsins sérstaklega alvarlegt þar sem fram kemur skýrum orðum í dómi Hæstaréttar sem greinin virðist unnin upp úr að: "Skýrslur ákærða um samskipti hans við hina látnu, eftir að þau voru orðin ein, eru ekki trúverðugar, og verða þær ekki lagðar til grundvallar."...Þessu til viðbótar kemur fram í héraðsdóminum að: "Ekki var sýnt fram á að konan hefði haft samfarir fyrir andlátið." ...Er þetta dæmi um mjög óvönduð og ámælisverð vinnubrögð í umfjöllun um dómsmál og getur ekki staðist efniskröfur 1. og 4. tl. 1. mgr. 7. gr. pul. Er brotið sérstaklega ámælisvert þar sem fjallað er um viðkvæmar persónuupplýsingar án nokkurra tengsla við opinbera lýðræðislega umræðu. Á grundvelli þessara óforsvaranlegu vinnubragða er dregin upp neikvæð mynd af hinni látnu sem fallin er til þess að vanvirða minningu hennar, valda aðstandendum hennar óþarfa sársauka og raska þannig friðhelgi einkalífs fórnarlambsins og aðstandenda þess.

Í tölvupósti D frá 28. október sl. segir:

Gögn sem notuð voru við samningu greinarinnar eru dómar Hæstaréttar og héraðsdóms í umræddu máli eins og þeir eru öllum aðgengilegir í bókasöfnum. Engin nöfn aðstandenda voru birt og reynt eftir megni að forðast lýsingar sem tengt gætu atburði þessa við persónur en rétt götuheiti var notað.

Ef Persónuvernd telur vinnubrögð af þessu tagi "sérlega ámælisverð" þurfa fjölmiðlar á Íslandi allir að endurskoða vinnubrögð sín og takmarka þarf aðgang að gögnum réttarkerfisins.

Í bréfi Oddnýjar Mjallar Arnardóttur, dags. 11. desember sl., segir:

Undirrituð telur ekki ástæðu til að tjá sig sérstaklega um athugasemdir blaðamannsins umfram það sem fram kemur í bréfi undirritaðrar til yðar, dags. 4. október 2002, en þar kemur skýrt fram að það er einkum hin beinlínis ranga frásögn blaðamannsins sem er sérstaklega alvarleg í málinu.

  III.
Álit Persónuverndar   1.

Þær upplýsingar, sem unnið var með í umræddri grein, eru persónuupplýsingar, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga þar sem hugtakið persónuupplýsingar er skilgreint sem "[s]érhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi [skáletrun Persónuverndar]." Þó að nafns hinnar látnu hafi ekki verið getið má ætla að þeir sem til hennar þekktu hafi mátt vita að greinin fjallaði um hana, enda var öllum aðstæðum, þ.á m. tíma og staðsetningu, lýst með nákvæmum hætti. Liggur því fyrir að gerð og birting umræddrar greinar fól í sér vinnslu persónuupplýsinga. Í 2. málsl. 5. gr. laga nr. 77/2000 segir: "Þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi gilda aðeins ákvæði 4. gr., 1. og 4. tölul. [1. mgr.] 7. gr., 11.- 13. gr. og 24., 28., 42. og 43. gr. laganna." Af þessu leiðir að framangreind vinnsla persónuupplýsinga lýtur ákvæðum laga nr. 77/2000 aðeins að takmörkuðu leyti.

Af þeim ákvæðum, sem vísað er til í 2. málsl. 5. gr., eru það einkum 1. og 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. sem hér geta átt við eftir efni sínu. Samkvæmt 1. tölul. skal þess gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu, meðal annars, unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. Samkvæmt 4. tölul. skal þess meðal annars gætt að þær persónuupplýsingar, sem unnið er með, séu áreiðanlegar.

Lögum nr. 77/2000 er hvorki ætlað að girða fyrir né banna gerð blaðagreina eða annars efnis um sakamál sem raunverulega hafa orðið og öllum er kunnugt um. Hins vegar leiða reglur laganna til þess að efnistök verða að samrýmast grundvallarsjónarmiðum um friðhelgi einkalífs. Í 1. mgr. 1. gr. laganna segir þannig, meðal annars, að markmið þeirra sé "að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs."

  2.

Við úrlausn þessa máls reynir á mörk tjáningarfrelsis og einkalífsréttar. Skal því, áður en lengra er haldið, vikið nokkrum orðum að valdi Persónuverndar til að skera úr um hvort rétturinn til tjáningarfrelsis hafi verið misnotaður á kostnað réttarins til friðhelgi einkalífs.

Kveðið er á um grundvallarregluna um tjáningarfrelsi í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Lög nr. 77/2000 verður að skýra með þeim hætti að þau brjóti ekki gegn þessari grundvallarreglu. Tjáningarfrelsið er þó ekki án undantekninga þar sem það getur skarast við grundvallarregluna um rétt manna til friðhelgi einkalífs, sem verndaður er af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og getur það í vissum tilvikum þurft að víkja fyrir þeim rétti.

Verkefnum Persónuverndar er lýst í 37. gr. laga nr. 77/2000. Þar segir meðal annars að Persónuvernd skuli úrskurða í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um vinnslu persónuupplýsinga. Að mati Persónuverndar verður ekki litið svo á að í þessu felist að hún hafi vald til að taka bindandi ákvörðun um það hvort einhver hafi skapað sér ábyrgð að lögum með misnotkun á stjórnarskrárbundnum rétti til tjáningarfrelsis. Er þá sérstaklega litið til þess að samkvæmt 2. málsl. 5. gr. laga nr. 77/2000 fellur vinnsla, sem einvörðungu fer fram í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi, utan ramma flestra ákvæða laganna, þ.á m. ákvæða 40. og 41. gr. sem veita Persónuvernd valdheimildir vegna vinnslu persónuupplýsinga. Að mati Persónuverndar fellur úrlausn slíkra mála undir valdsvið dómstóla. Í ljósi 6. tölul. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000, þar sem segir að Persónuvernd skuli, samkvæmt beiðni eða að eigin frumkvæði, tjá sig um álitaefni varðandi meðferð persónuupplýsinga, lítur stofnunin hins vegar svo á að henni beri að tjá sig um hvort við gerð umræddrar greinar hafi verið brotið gegn þeim ákvæðum laga nr. 77/2000 sem fjalla um vinnslu persónuupplýsinga í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi. Fer það álit hennar hér á eftir. Ekki verður þar tekin afstaða til þess hvort brotið hafi verið gegn lögum nr. 77/2000 með þeim hætti að telja megi sérstaklega ámælisvert eða refsivert.

  3.

Í dómi Hæstaréttar í máli þess sem myrti C segir: "Skýrslur ákærða um samskipti hans við hina látnu, eftir að þau voru orðin ein, eru ekki trúverðugar, og verða þær ekki lagðar til grundvallar." Þá segir í héraðsdóminum: "Ekki var sýnt fram á að konan hefði haft samfarir fyrir andlátið." Í grein D, sem er unnin upp úr þessum dómum, er hins vegar fullyrt að morðinginn og hin látna hafi haft samfarir eins og það sé ein af óumdeildum staðreyndum málsins.

Stjórn Persónuverndar fjallaði um mál þetta á fundi sínum þann 8. þ.m. Hún lagði, í fyrsta lagi, mat á það hvort með þessum efnistökum hafi verið fullnægt kröfu 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um að við vinnslu persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. Í ljósi markmiðsákvæðis 1. mgr. 1. gr. laganna verður að skilja þetta ákvæði 7. gr. þannig að í því felist að sýna verði hæfilega nærgætni þegar fjallað er um jafn viðkvæm mál og það sem hér um ræðir. Telur Persónuvernd grundvallarreglu 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi ekki hamla því að gerð sé krafa til þess að sýna nærfærni í umfjöllun um látinn einstakling. Er ljóst að gerð og birting slíks efnis, sem hér um ræðir, getur verið sérstaklega sársaukafull fyrir aðstandendur og aðra hlutaðeigandi, en tilefni þess að upplýsingar um látna einstaklinga eru skilgreindar sem persónuupplýsingar, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, er m.a. að vernda þá fyrir slíku. Persónuvernd telur því ljóst að með því að fullyrða að morðinginn og hin látna hafi haft samfarir, þrátt fyrir að það sé dregið í efa í héraðsdómi og dómi Hæstaréttar, hafi verið brotið gegn 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000.

Persónuvernd hefur, í öðru lagi, lagt mat á það hvort fullnægt hafi verið kröfu 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um að þess skuli gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu áreiðanlegar. Þar sem fullyrt var að morðinginn og hin látna hefðu haft samfarir þó að opinber gögn gæfu ekki tilefni til þess telur Persónuvernd ljóst að brotið hafi verið gegn ákvæðinu.

  4.

Samkvæmt framanrituðu er það því álit Persónuverndar að með umræddri grein hafi DV og D brotið gegn ákvæðum 1. og 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.



Var efnið hjálplegt? Nei