Úrlausnir

Úrskurður vegna mynda af meintum búðaþjófum hjá Högum hf.

21.12.2010

 

Úrskurður

Hinn 7. desember 2010 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2010/452:

1.

Málavextir og bréfaskipti

1.

Þann 7. maí 2010 barst Persónuvernd kvörtun konu yfir notkun mynda af henni í verslun Zöru í Kringlunni. Athugun á því máli leiddi ekki í ljós að til væru myndir af henni þar og taldi Persónuvernd þá ekki vera efni til sérstakrar umfjöllunar um mál konunnar. Var það þá fellt niður. Við rannsókn þess máls hafði hins vegar komið í ljós að hjá Högum fór fram umtalsverð vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, þ.e. mynda af fólki sem talið var hafa hnuplað úr verslunum, og að Hagar hefðu m.a. sent slíkar myndir til Zöru. Ákvað Persónuvernd þá að kanna það nánar. Er því um frumkvæðismál að ræða sem afmarkast við miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga frá Högum til annarra aðila. Málið lýtur ekki að öðrum atriðum, s.s. því hvort vöktunin sjálf hafi samrýmist lögum, eða hvort ákvæði laga nr. 77/2000 hafi að öðru leyti verið uppfyllt, þ. á m. ákvæði um tilkynningarskyldu eða öryggisráðstafanir.

2.

Persónuvernd óskaði skýringa Haga með bréfi, dags. 3. júní 2010. Óskaði hún sérstaklega eftir upplýsingum um það hvaða vinnsla persónuupplýsinga hefði farið fram um fólk sem Hagar teldu hafa tekið vörur ófrjálsri hendi og hvernig staðið væri að þeirri vinnslu. Vigdís Ó. Sveinsdóttir, hdl. svaraði fyrir hönd Haga hf. með bréfi, dags. 24. júní 2010. Þar segir:

„[...] Þegar viðskiptavinir eða starfsfólk í verslunum Haga verður uppvíst að þjófnaði í einhverjum af verslunum félagsins, eru upplýsingar um viðkomandi færðar á þar til gert upplýsingaeyðublað. Á upplýsingaeyðublaðið eru skráðar upplýsingar um viðkomandi, nafn, heimilisfang, kennitala og málsatvik. Eyðublað þetta er fyrst og fremst útfyllt til ákveðinnar hagræðingar fyrir lögreglu, sem fær afhent afrit þegar þeir óska eftir frekari upplýsingum. Eyðublaðið er síðan afhent öryggisdeild Haga sem heldur utan um öll þjófnaðarmál sem koma upp í verslunum félagsins, fylgir þeim eftir hjá lögreglu og eftir atvikum hjá dómstólum. Eyðublöðin eru geymd í þar til gerðum möppum þar sem unnt er að ganga að þeim vísum þegar frekari upplýsinga um málið er óskað af hálfu lögreglu, eða upplýsingar berast til Haga um að ákæra verði gefin út í málinu og félaginu veittur sá kostur að koma að bótakröfu í málinu. Fulltrúum Persónuverndar var á fundi með Högum, dags. 18. júlí 2005, sýnd framangreind eyðublöð og hvernig þau væru geymd.“

Til að rannsaka málið nánar fóru starfsmenn Persónuverndar í heimsóknir þann 12. ágúst. Voru verslunin Zara í Kringlunni og öryggisdeild Haga heimsótt. Í ljós kom að í tölvu í verslun Zöru í Kringlunni var margar myndir að finna. Þá var einnig stórt safn mynda að finna hjá öryggisdeild Haga. Um var að ræða myndir úr eftirlitsmyndavélum. Í versluninni Zöru var rætt við yfirmenn. Að þeirra sögn höfðu myndirnar verið sendar þangað með rafrænum hætti frá Högum sem sagt var að héldi utan um upplýsingar um einstaklinga sem talið var að hefðu hnuplað úr verslunum. Hjá Högum var rætt við Þ, hæstaréttarlögmann, og G, yfirmann öryggisdeildar, og veittu þeir upplýsingar um umrædda vinnslu með myndir af grunuðu fólki.

Persónuvernd sendi Högum bréf, dags. 6. september 2010, þar sem þess var sérstaklega óskað að skýrt yrði með hvaða hætti vinnsla Haga samrýmdist 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Svar barst frá K hdl.,dags.16. september 2010. Í bréfinu segir m.a.:

„Líkt og áður hefur komið fram þá sækir umbjóðandi minn heimild sína til vinnslu persónuupplýsinga m.a. í 7. tl. 8. gr. og 7. tl. 9. gr. pul. Það er mat umbjóðanda míns að hann geti hvorki rökstutt né afmarkað kröfu sína, eftir atvikum fyrir dómstólum, án þess að áðurlýst vinnsla og meðferð upplýsinga fari fram þegar upp kemst um þjófnaðarbrot. Af þessu leiðir að umbjóðandi minn telur ljóst að 2. mgr. 9. gr. pul eigi ekki við í máli þessu sem nú er til meðferðar hjá stofnuninni, líkt og haldið hefur verið fram af hennar hálfu.

Þá skal einnig bent á 2. mgr. 7. gr. reglna um rafræna vöktun, nr. 837/2006, sem kveður á um undanþágu frá 90 daga reglunni um varðveislu gagna vegna rafrænnar vöktunar. En telja verður að reglan feli í sér heimild til þess að varðveita upplýsingar lengur ef það er vegna fyrirliggjandi réttarágreinings, sbr. 7. tl. 9. gr. pul.

Þannig telur umbjóðandi minn að honum sé heimilt lögum samkvæmt að varðveita upplýsingar og gögn vegna meintra þjófnaðarbrota, a.m.k. þar til endanleg niðurstaða fyrir héraðsdómi liggur fyrir.“

Persónuvernd óskaði enn skýringa með bréfi dags. 15. október 2010. Í því sagði m.a.:

„Við bréfaskipti og í vettvangsheimsókn kom í ljós að umrædd vinnsla fer að mestu fram hjá Högum hf. Þar og í verslunum sem tengjast Högum hf. fer fram umfangsmikil vinnsla viðkvæmra persónupplýsinga um fólk sem grunað er um að hafa tekið varning ófrjálsri hendi.

Undir hatti Haga hf. eru reknar margar verslanir. Á heimasíðu Haga eru m.a.  nefnd Hagkaup, Bónus, Bananar, Hýsing, Aðföng, Ferskar kjötvörur, Debenhams, Karen Millen, All Saints, Warehouse, Topshop, Zara, Oasis, Dorothy Perkins, Coast, Evans, Útilíf, Jane Norman og Day.

 

Afmarka þarf hver framangreindra fer með hlutverk ábyrgðaraðila að því er varðar framangreinda vinnslu, eins og það hugtak er skilgreint í 4. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 (sem „sá aðili sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna“).

Af því tilefni er þess hér með óskað að Persónuvernd berist frá Högum hf. upplýsingar um framangreint þannig að ráða megi hver ber ábyrgð á vinnslu í skilningi 4. tölul. 2. gr. laganna. Er þess óskað að í svarinu komi fram hvort einhverjar framangreindar verslanir séu reknar af Högum hf. eða hvort sjálfstæð hlutafélög eða einkahlutafélög standi að rekstri þeirra – og þá hvaða félög reka hvaða verslanir. Er þess óskað að þá komi fram hvort og hvernig þau hafa komið að töku ákvarðana um framangreinda vinnslu. Sé eitthvert þeirra ekki ábyrgðaraðili er óskað afrits vinnslusamninga, sbr. 13. gr. laga nr. 77/2000, þar sem það á við. Ef einhver framangreindra aðila kemur ekkert að slíkri vinnslu sem mál þetta varðar er þess einnig óskað að það komi fram. Þá þarf að koma fram hvort miðlað hafi verið viðkvæmum persónuupplýsingum til annarra félaga en þeirra sem eru í eigu Haga hf.“

Svar barst frá lögmanni Haga, dags. 9. nóvember 2010. Þar var farið yfir erindi Persónuverndar, upplýst um ábyrgðaraðila vinnslu, veitt nánari lýsing á vinnslu og lögmæti hennar. Var þar bæði lýst rafrænni og handvirkri þjófnaðarskrá Haga og rafrænu eftirliti. Í bréfinu segir m.a.:

„Að beiðni Persónuverndar upplýsist um eftirfarandi:

Noron ehf. (100% dótturfélag): Rekur verslunina Zara, bæði í Kringlunni og í Smáralind

DBH Ísland ehf. (100% dótturfélag): Rekur verslunina Debenhams í Smáralindinni.

Sólhöfn ehf. (100% dótturfélag): Rekur allar aðrar tískuverslanir í eigu Haga hf.“

Einnig segir í bréfinu:

„Í ljósi framangreinds upplýsist að áðurnefnd fyrirtæki í eigu Haga hf. eru ekki ábyrg fyrir vinnslu persónuupplýsinga sem fjallað er um í bréfi þessu, sbr. nánar í kafla III, og teljast þau ekki vera ábyrgðaraðilar í skilningi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Ábyrgðaraðili umræddrar vinnslu er félagið Hagar hf.“

Þá segir ennfremur í bréfinu:

„Í bréfi stofnunarinnar, dags. 15. október s.l., er óskað svara við því hvort Hagar hf. hafi miðlað viðkvæmum persónuupplýsingum til annarra félaga en þeirra sem eru í eigu þess. Í þessu sambandi skal tekið fram að umbjóðanda mínum er mikið í mun að starfsemi hans sé í samræmi við lög og reglur, ekki síst reglur er snerta persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Umbjóðandi minn hefur þannig enga hagsmuni af því að dreifa persónuupplýsingum sem kunna að vera í fórum hans til annarra óviðkomandi aðila. Með bréfi þessu upplýsist að umbjóðandi minn hefur ekki og mun ekki dreifa persónuupplýsingum til annarra fyrirtækja sem eru honum óviðkomandi þannig að brjóti gegn lögum og reglum í þeim efnum.“

Um lögmæti vinnslunnar segir:

„Um lögmæti umræddrar vinnslu skal tekið fram að ofangreind vinnsla telst vera vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, sbr. b-liður, 8. tl. 2. gr. pul. Vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga er óheimil nema uppfyllt sé eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. pul. og enn fremur eitthvert af skilyrðum 9. gr. pul. Í þessu sambandi skal vísað til 7. tl. 8. gr. og 7. tl. 9. gr. laganna. Í síðast nefnda ákvæðinu kemur fram að vinnslan sé heimil ef hún er nauðsynleg til þess að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja.

Telja verður að framangreind vinnsla, eins og henni hefur verið lýst í kafla þessum, sé rafræn vöktun í skilningi laganna, sbr. 6. tl. 2. gr. pul. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. er heimilt að safna efni sem til verður við rafræna vöktun ef nánar tilgreind skilyrði eru uppfyllt og telur umbjóðandi minn að þau séu uppfyllt.

Í fyrsta lagi þarf vöktunin að vera nauðsynleg og fara fram í öryggis- og eignavörsluskyni. Í þessu sambandi skal tekið fram að umrædd vöktun er umbjóðanda mínum nauðsynleg til þess að verja eigur sínar og tryggja öryggi starfsmanna og viðskiptavina. Þjófnaður meðal starfsmanna og viðskipavina í verslunum Haga hf. er gríðarlegur og hefur færst mikið í aukana síðast liðin ár. Áður hefur Persónuvernd verið bent á að skipulagðir erlendir glæpahópar komi hingað til lands tímabundið í þeim eina tilgangi einum að stela úr verslunum hér á landi. Einnig er mikið um þjófnaði hjá fíkniefnaneytendum og hafa þeir haft í hótunum bæði við starfsfólk og viðskiptavini verslana og telur umbjóðandi minn nauðsynlegt að vara við slíkri hættu og reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir hana, sé þess kostur.

Í öðru lagi er skilyrði að það efni sem til verður við vöktun verði ekki unnið frekar eða afhent öðrum án samþykkis þess sem upptaka lýtur að nema Persónuvernd kveði á um annað. Innihaldi upptaka hins vegar upplýsingar um slys eða refsiverðan verknað er heimilt að afhenda hana lögreglu án samþykkis þess eða þeirra sem upptakan er af. Í þeim tilfellum skal þess jafnframt gætt að öllum öðrum eintökum af efninu verði eytt.“

Þá segir í bréfinu:

„Í bréfi Persónuverndar, dags. 15. október 2010, er því haldið fram að myndum af tilteknum einstaklingum, sem grunaðir eru um þjófnað sé dreift til allra hlutaðeigandi verslana í eigu Haga hf. Þessari fullyrðingu mótmælir umbjóðandi minn sem alrangri og skal bent á að umbjóðandi minn rekur samtals 80 verslanir víðs vegar um landið, m.a. tískuvöruverslanir og matvöruverslanir, og því fer fjarri lagi að myndefni sé dreift víðs vegar um landið líkt og Persónuvernd virðist halda fram. Hið rafræna eftirlit fer fram í þeim tilgangi einum að viðhafa fyrirfram ákveðið og afmarkað eftirlit í verslunum Haga hf. til þess að koma í veg fyrir þjófnaðarbrot og gæta almenns öryggis í verslunum. Ef eftirlitsmyndavélar væru ekki til staðar væri algjör ómöguleiki fyrir umbjóðanda minn að kæra þjófnaðarmál og fá útgefna ákæru þar sem sönnun teldist vart vera fyrir hendi. Að auki telur umbjóðandi minn mikil varnaðaráhrif fólgin í því að viðhafa eftirlit með eftirlitsmyndavélum.

Myndefni sem til verður vegna rafrænnar vöktunar umbjóðanda míns er eingöngu afhent lögreglu vegna gruns um refsiverðan verknað. Umbjóðandi minn telur þó rétt að upplýsa Persónuvernd um að í einhverjum tilvikum hefur öryggisdeild Haga hf. sent út viðvaranir vegna síbrotamanna/kvenna og tiltekinna glæpahópa. Nánar tiltekið er um að ræða myndir af síbrotamönnum sem eru sendar til verslana sem eru á „starfssvæði“ viðkomandi síbrotamanns samkvæmt fyrri reynslu í þeim efnum. Myndirnar eru þvert á móti ekki sendar til allra verslana í eigu Haga hf.“

Í niðurlagi bréfsins segir:

„Það er staðreynd að þjófnaður er ört vaxandi vandamál, ekki síst í fyrirtækjum umbjóðanda míns. Áður hefur verið fjallað um það hversu mikill tími og vinna af hálfu starfsmanna umbjóðanda míns fer í það að upplýsa og reyna að koma í veg fyrir þjófnað í verslunum.

Samfara þessu hefur umbjóðandi minn þurft að bera mikinn kostnað sem er í beinum tengslum við þjófnaði í verslunum hans. Sá kostnaður er fyrst og fremst fólginn í mikilli vörurýrnun hjá verslununum auk mikils kostnaðar í tengslum við öryggismál. Þannig hefur umbjóðandi minn gríðarlega hagsmuni af því að koma í veg fyrir þjófnaðarbrot, ekki síst fjárhagslega. Í þessu sambandi skal tekið fram að afskriftir Haga hf. vegna vörurýrnunar sem rekja má beint til þjófnaðar veltur á hundruðum milljóna ár hvert. Þannig er ljóst að tjón umbjóðanda míns vegna þjófnaðarbrota er gríðarlegt og eru forvarnir í þeim efnum meðal annars til þess fallnar að halda vöruverði niðri.

Þá er ekki síður mikilvægt að viðhafa eftirlit í þágu öryggis. En það hafa komið upp tilvik þar sem beinlínis hefur skapast hættuástand í verslunum, bæði meðal starfsmanna og viðskiptavina, í formi hótana og líkamsmeiðinga. Umbjóðandi minn telur mikilvægt að sporna við slíku, eftir atvikum koma í veg fyrir það, sé þess kostur.

Með vísan til alls framangreinds er ljóst að umbjóðandi minn hefur lögmæta hagsmuni af því að viðhafa ákveðið eftirlit í verslunum Haga hf. m.a. til þess að gæta öryggis starfsmanna og viðskiptavina ásamt því að koma í veg fyrir tjón sem hlýst af þjófnaðarbrotum. Með bréfi þessu hefur umbjóðandi minn gert tilraun til þess að lýsa þeirri vinnslu sem á sér stað í tengslum við rafræna vöktun í þágu eftirlits. Segja má að vinnslan fari fram einkum með tvennum hætti, annars vegar eru haldnar skrár um þjófnaði, sem unnið er að koma í rafrænt form, og hins vegar er um að ræða rafræna vinnslu sem fer fram með myndavélaeftirlitskerfum, en þeim kerfum hefur verið gerð ítarleg skil í bréfi þessu.

Umbjóðandi minn telur ennfremur að áðurlýst vinnsla sé lögmæt og að eftirlit í verslunum Haga hf. sé í samræmi við lög og aðrar reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Telji Persónuvernd hins vegar að eitthvað megi betur fara, s.s. með því að breyta verklagi í tengslum við eftirlitið sjálft, er umbjóðandi minn reiðubúinn til þess að starfa með stofnuninni og eftir atvikum koma á fund með starfsmönnum til þess að ræða þessi mál frekar og finna lausnir í því sambandi.

Af gefnu tilefni telur umbjóðandi minn rétt að árétta að efni þessa bréfs er trúnaðarmál og er þess óskað að það komist ekki í hendur annarra aðila en starfsmanna Persónuverndar.“

Í bréfi Persónuverndar til Haga hf., dags. 19. nóvember sl., sagði:

„Það er skilningur Persónuverndar á umræddu bréfi að :

- Hagar hf. telji sig vera ábyrgðaraðila umræddrar vinnslu og að

- Hagar hf. hafi miðlað umræddum upplýsingum til Noron ehf., DBH Íslands ehf. og Sólhafnar ehf.“

Hinn 29. nóvember 2010 barst svarbréf Lögmanna Höfðabakka, dags. 25. nóvember 2010. Í því er áréttað að Hagar hf. skuli teljast ábyrgðaraðili ofangreindrar vinnslu en engar frekari efnislega athugasemdir gerðar. Þann 5. desember sendi Persónuvernd tölvupóst til lögmannsins og áréttaði, m.a. með vísan til upplýsinga- og stjórnsýslulaga, að ekki yrði unnt að líta svo á að bréf hans væri leyndarskjal. Mætti vænta þess þegar efnisleg afstaða yrði tekin í málinu, að litið yrði m.a. til umrædds bréfs. Var tekið fram að úrskurðir Persónuverndar eru birtir á heimasíðu hennar.

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirka vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna. Vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna.

Af framangreindu er ljóst að miðlun mynda af einstaklingum, þ.e. mynda sem teknar hafa verið við rafræna vöktun, og taldar eru bera með sér að viðkomandi hafi tekið vörur ófrjálsri hendi, er rafræn vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga. Hún fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.

2.

Í ofangreindu svarbréfi lögmanns Haga, dags. 10. nóvember 2010, er að finna eftirfarandi yfirlýsingu: „Ábyrgðaraðili umræddrar vinnslu er félagið Hagar hf.“ Það að Hagar skuli teljast ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu er einnig áréttað í ofangreindu svarbréfi Lögmanna Höfðabakka, dags. 25. nóvember 2010. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 telst ábyrgðaraðili að vinnslu persónuupplýsinga vera sá sem ákveður tilgang vinnslunnar, þann útbúnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2000 segir að átt sé við þann sem hefur ákvörðunarvald um vinnslu persónuupplýsinga og að jafnvel þótt slíkur aðili feli öðrum meðferð upplýsinganna beri hann ábyrgðina, svo fremi hann hafi áfram ákvörðunarvaldið. Með vísun til framangreinds lítur Persónuvernd svo á að Hagar hf. beri ábyrgð á þeirri vinnslu sem um ræðir í máli þessu en ekki aðrir aðilar, þ. á m. þau félög sem Hagar hf. miðluðu hinum viðkvæmu persónupplýsingum til.

3.

Ljóst er að hverjum ábyrgðaraðila er, á grundvelli 7. töluliðar 1. mgr. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, heimilt að verja hendur sínar með því að viðhafa almennt eftirlit í þágu öryggis og eignavörslu, s.s. með notkun eftirlitsmyndavéla, og getur eftir því sem þörf krefur miðlað til lögreglu upplýsingum um refsivert afhæfi, slys o.þ.h. Mál þetta lýtur að hins vegar að miðlun slíkra upplýsinga frá Högum hf. til nokkurra annarra hlutafélaga, n.t.t. til Noron ehf. (sem rekur Zöru í Kringlunni og í Smáralind), DBH Ísland ehf. (sem rekur verslunina Debenhams í Smáralind) og Sólhafnar ehf. (sem rekur ýmsar tískuverslanir).

Kveðið er á um heimildir fyrir vinnslu persónuupplýsinga í 8. gr. laga nr. 77/2000 og þurfa skilyrði þeirrar greinar að vera uppfyllt svo að vinnsla sé heimil. Ef um viðkvæmar persónuupplýsingar er að ræða þurfa einnig að vera uppfyllt skilyrði 9. gr. laganna. Hugtakið viðkvæmar persónuupplýsingar er skilgreint í 8. tölul. 2. gr. laganna. Meðal þess sem telst til viðkvæmra upplýsinga eru upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Myndefni, sem verður til í eftirlitsmyndavélum og sýnir meinta, refsiverða háttsemi, telst því til viðkvæmra persónuupplýsinga samkvæmt lögum nr. 77/2000. Af því leiðir að vinnsla þeirra upplýsinga þarf að samrýmast ákvæði 9. gr. laganna.

Af hálfu lögmanns Haga hefur m.a. verið vísað til 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 sem heimildar fyrir dreifingu mynda til annarra félaga. Það ákvæði lýtur hins vegar aðeins að vinnslu sem fram fer í því skyni að afmarka, setja fram og verja tiltekna kröfu vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja. Ekki liggur fyrir að umrædd vinnsla, þ.e. miðlun mynda af grunuðu fólki til nokkurra hlutafélaga, þ.e. til Noron ehf., DBH Ísland ehf. eða Sólhafnar ehf., hafi uppfyllt þetta skilyrði. Hefur enda ekkert komið fram um aðild þessara félaga að málarekstri þar sem þeim kynni að hafa verið nauðsynlegt að nýta umræddar upplýsingar. Þá liggur ekki fyrir að önnur heimildarákvæði 1. mgr. 9. gr. hafi verið uppfyllt.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. getur tiltekin vinnsla vegna rafrænnar vöktunar verið heimil enda þótt ekkert af ákvæðum 1. mgr. sé uppfyllt. Það er þó háð þeim skilyrðum sem þar greinir, þ. á m. því skilyrði að myndefni, sem til verður við vöktun verði ekki afhent öðrum eða unnið frekar nema með samþykki þess sem upptaka er af eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar. Heimilt er þó að afhenda lögreglu efni með upplýsingum um slys eða refsiverðan verknað, en þá skal þess gætt að eyða öllum öðrum eintökum af efninu. Að baki þessu ákvæði býr m.a. sú grunnregla íslensks réttar að uppljóstran sakamála og refsivarsla er á hendi lögreglu og það er t.d. ekki á valdi einstakra hlutafélaga að taka með einhverjum hætti að sér þetta hlutverk ríkisvaldsins. Ákvæði 2. mgr. 9. gr. laganna er og sett með tilliti til þeirra sjónarmiða sem liggja til grundvallar meginreglu 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um áreiðanleika vinnslu, en myndefni sem einn aðili telur veita tilefni til ályktunar um þjófnað eða lögbrot annars felur ekki ávallt í sér staðfestingu á að brot hafi í raun verið framið og getur við nánari rannsókn oft reynst óáreiðanlegt.

Samkvæmt framangreindu skortir Haga hf. heimild til að miðla til annarra félaga myndum af einstaklingum sem félagið telur bera með upplýsingar um meinta þjófnaði umræddra einstaklinga. Með vísun til 1. mgr. 40. gr. laga nr. 77/2000 leggur Persónuvernd fyrir félagið að láta af þeirri miðlun.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Högum hf. er óheimilt að miðla viðkvæmum persónuupplýsingum, þ.e. myndum af meintum þjófum, til annarra hlutafélaga, þ. á m. til Sólhafnar ehf., Noron ehf. og DBH ehf.

Ber Högum hf. að láta af slíkri miðlun.Var efnið hjálplegt? Nei