Úrlausnir

Markpóstur frá Sjálfstæðisflokknum

9.12.2010

Kveðinn hefur verið upp úrskurður um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi brotið gegn reglum um markpóst með því að senda hann til einstaklinga sem voru með bannmerki í Þjóðskrá.

 

Úrskurður

Þann 7. desember 2010 kvað stjórn Persónuverndar upp eftirfarandi úrskurð í máli nr. 2010/497:

I.

Tildrög máls og bréfaskipti

Þann 31. maí 2010 barst Persónuvernd kvörtun B, hér eftir nefnd kvartandi, yfir markpósti sem henni var sendur í aðdraganda að borgarstjórnarkosningum vorið 2010. Kvörtunin snéri að pósti frá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem var merktur kvartanda með nafni og heimilisfangi Í kvörtuninni sagði m.a.:

„Í dag barst mér markpóstur undirritaður af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Póstur þessi var merktur mér nafni og heimilisfangi og póstsendur mér. Ég á ekki í neinum persónulegum samskiptum við téða Hönnu og er ekki í neinum félagsskap sem tengir okkur saman. Ég geri ráð fyrir að nafn mitt og heimilisfang séu fengin úr Þjóðskrá. Í Þjóðskrá er ég á lista yfir þá sem frábiðja sér markpóst sbr. 28. gr. laga nr. 77/2000.

Ég tel því að samkvæmt lögum nr. 77/2000 hafi téðri Hönnu verið óheimilt að nota upplýsingar um mig, fengnar úr þjóðskrá til þess að senda mér umræddan markpóst.“

Með bréfi, dags. 24. ágúst 2010, tilkynnti Persónuvernd Hönnu Birnu Kristjánsdóttur um kvörtunina og bauð henni að koma fram með andmæli sín. Þá óskaði Persónuvernd einnig eftir skýringum á því hvernig þess hefði verið gætt að virða bannmerkingu þeirra, sem óskað hefðu eftir að vera ekki á útsendingarskrá, í samræmi við 28. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Samkvæmt símtali við Hönnu Birnu, dags. 26. ágúst 2010, var umræddur markpóstur sendur út af Sjálfstæðisflokknum og kvaðst Hanna Birna ekki komið þar nærri. Var þá óskað svara frá Sjálfstæðisflokknum og barst svar þann 15. nóvember sl. Segir að samkvæmt vinnureglum Sjálfstæðisflokksins skuli þess sérstaklega gætt við vinnslu útsendingarlista að þeir innihaldi enga einstaklinga sem bannmerktir eru hjá Þjóðskrá í samræmi við ákvæði 28. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá segir í svarbréfinu:

„[...] Í samræmi við lögin og innri reglur Sjálfstæðisflokksins var útsendingarlisti vegna umrædds markpósts án allra einstaklinga sem bannmerktir eru í Þjóðskrá. Sá listi var sendur til þriðja aðila sem tekið hafði að sér að annast prentun og dreifingu markpóstsins. Við vinnslu verkefnisins virðist sem misgáningur hafi valdið því að viðkomandi prentsmiðja studdist við eigin úsendingarlista, unninn úr Þjóðskrá, sem tók til allra kvenna í Reykjavík á aldrinum 20-67 ára og þar af leiðandi einnig til þeirra einstaklinga sem bannmerktir eru í Þjóðskrá. Um mannleg mistök var því að ræða og staðfestist hér með að það var ekki ætlun Sjálfstæðisflokksins í þessu tilfelli frekar en öðrum að senda markpóst til einstaklinga sem bannmerktir eru í Þjóðskrá.

Þrátt fyrir að umrædd mistök hafi átt sér stað hjá þriðja aðila og Sjálfstæðisflokknum ekki kunnugt um þau fyrr en dreifingu markpóstsins var lokið, tekur flokkurinn að sjálfsögðu fulla ábyrgð á þeim. Flokkurinn biður því hlutaðeigandi, í þessu tilviki [B], velvirðingar á þessum mistökum og því ónæði sem umræddur markpóstur kann að hafa valdið henni. Um leið og þakkað er fyrir ábendinguna er vert að nefna að Sjálfstæðisflokkurinn hefur þegar gripið til ráðstafana í því skyni að fyrirbyggja mistök af þessu tagi í framtíðinni. “

Með bréfi, dags. 26. nóvember 2010, sendi Persónuvernd kvartanda afrit af bréfi flokksins og bauð kvartanda að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

II.

Ákvörðun

Efnislegt gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nær til vinnslu persónuupplýsinga. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Af athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. er fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Samkvæmt framansögðu var um að ræða vinnslu persónuupplýsinga þegar markpóstur var sendur til kvartanda til að kynna framboð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur til borgarstjóra.

Í 28. gr. laga nr. 77/2000, með áorðnum breytingum, er fjallað um andmælarétt hins skráða gegn notkun á nafni sínu vegna starfs í þágu markaðssetningar. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur m.a. fram að ábyrgðaraðilar sem starfa í beinni markaðssókn, og þeir sem nota skrár með nöfnum, heimilisföngum, netföngum, símanúmerum og þess háttar, eða miðla þeim til þriðja aðila í tengslum við slíka starfsemi, skuli hindra að markpóstur verði sendur eða hringt verði til einstaklinga sem hafa andmælt slíku. Rúm túlkun á hugtakinu markaðssetning er forsenda þess að ákvæði 28. gr. nái verndarmarkmiði sínu. Því er talið að undir hugtakið markaðssetning falli öll vinnsla við beina markaðssókn, þ.e. beina sókn að skilgreindum hópi einstaklinga í þeim tilgangi að hafa áhrif á þá, skoðanir þeirra eða hegðun. Oftast er það gert til að selja þeim vöru og þjónustu en með beinni markaðssókn er einnig átt við sókn sem fram fer til að afla fylgis við tiltekna menn og málefni. Útsending á kynningarefni um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, í þeim tilgangi að afla fylgis við Sjálfstæðisflokkinn í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna í maí 2010, telst því hafa farið fram í þágu markaðssetningar í skilningi framangreinds ákvæðis.

Samkvæmt framangreindu braut Sjálfstæðisflokkurinn gegn ákvæði 2. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000 með því að senda, í aðdraganda borgarstjórnarkosninga vorið 2010, markpóst til kvartanda, B, þrátt fyrir að hún hefði fengið nafn sitt skráð á Bannskrá Þjóðskrá og þannig andmælt vinnslu persónupplýsinga um sig í markaðssetningartilgangi.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Sjálfstæðisflokknum var óheimilt að senda markpóst til B í aðdraganda borgarstjórnarkosninga vorið 2010.Var efnið hjálplegt? Nei