Úrlausnir

Kennitölur á framhliðum vinnustaðaskírteina

1.11.2010

Persónuvernd tók til skoðunar notkun vinnustaðaskírteina. Hún telur að þurfi starfsmenn alltaf að hafa skírteinin sýnileg sé eðlilegt að hafa kennitölu aðeins á bakhlið korts, en ekki framhlið.

Vegna erindis sem Persónuvernd barst frá starfsmönnum á vinnustað óskaði Persónuvernd eftir afstöðu Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) annars vegar um það hvaða upplýsingar beri að skrá á starfsmannaskírteini og hins vegar hvernig starfsmenn skuli bera umrædd skírteini, þ.e. hvort krafa sé gerð um að starfsmenn hafi skírteinin sýnileg viðskiptavinum og í hvaða tilgangi.

Í 3. gr. laga nr. 42/2010 um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum segir að atvinnurekandi skuli sjá til þess að hann sjálfur og starfsmenn hans fái vinnustaðaskírteini er þeir hefja störf. Atvinnurekanda og starfsmönnum hans ber að hafa vinnustaðaskírteinin „á sér“ við störf sín. Á vinnustaðaskírteini skal koma fram nafn og kennitala atvinnurekanda eða annað auðkenni hans og nafn og kennitala viðkomandi starfsmanns ásamt mynd af starfsmanni. Samtökum aðila vinnumarkaðarins er heimilt að semja um nánari útfærslu vinnustaðaskírteina í samningum sín á milli.

Í svarbréfi ASÍ og SA kom m.a. fram að í lögum nr. 42/2010 um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum er gerð krafa um að vinnustaðaskírteini hafi að geyma nafn og kennitölu starfsmanns ásamt mynd og upplýsingum um atvinnurekanda. Samkomulag ASÍ og SA geri ekki kröfu til þess að vinnustaðaskírteini sé sýnilegt við vinnu en starfsmanni beri hins vegar að framvísa skírteini sé þess óskað af eftirlitsfulltrúa, sbr. 4. gr. laganna. Í bréfi ASÍ og SA segir enn fremur að vinnustaðaskírteini séu einnig notuð sem auðkenniskort og aðgangskort hjá fyrirtækjum og sé því oft gerð krafa um að þau séu sýnileg viðskiptavinum. Fram til þessa hafi kennitala starfsmanns ekki verið sýnileg á slíkum kortum og í einhverjum tilvikum hafi fyrirtæki ákveðið að skrá kennitölu starfsmanns á bakhlið umræddra skírteina. Með þeim hætti uppfylli kortin skilyrði laganna en gagnist jafnframt sem auðkenniskort fyrirtækis.

Í niðurstöðu Persónuverndar sagði að af framangreindu mætti ráða að hvorki lögin né samkomulag ASÍ og SA geri kröfu um að vinnustaðaskírteini séu höfð sýnileg viðskiptamönnum, heldur einungis að atvinnurekandi og starfsmenn hafi þau á sér til að sýna eftirlitsmönnum ef svo ber undir.

Persónuvernd gerði ekki athugasemd við efnislegt samkomulag ASÍ og SA. Hún taldi hins vegar, með hliðsjón af 10. gr. laga nr. 77/2000, að kennitala starfsmanns skyldi höfð á bakhlið korts, en ekki framhlið þess.




Var efnið hjálplegt? Nei