Úrlausnir

Úrskurður um miðlun læknisvottorðs

21.9.2010

Persónuvernd hefur úrskurðað um lögmæti þess þegar yfirmaður framsendi læknisvottorð manns til samstarfsmanna hans.

Persónuvernd sagði heilsufarsupplýsingar á læknisvottorðum vera viðkvæmar persónuupplýsingar í lagaskilningi. Þótt umrætt læknisvottorð hafi ekki tilgreint sérstaka sjúkdómsgreiningu - heldur aðeins að viðkomandi væri óvinnufær með öllu - hafi framsending vottorðsins þurft að samrýmast einhverju af heimildarákvæðum laga um meðferð persónuupplýsinga. Það gerði hún ekki og því taldi Persónuvernd hana hafa verið óheimila.

Úrskurður

Hinn 14. september 2010 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2010/617:

I.

Kvörtun og bréfaskipti

1.

Þann 20. júlí 2010 barst Persónuvernd kvörtun J, hdl. fyrir hönd Ó(hér eftir nefndur kvartandi) yfir vinnslu persónuupplýsinga um hann á vegum bæjarstjóra Seltjarnarness. Nánar til tekið var kvartað yfir því að bæjarstjórinn hafði dreift læknisvottorði kvartanda til samstarfsmanna hans. Í kvörtun segir:

Af hálfu umbjóðanda míns er þess krafist að Persónuvernd komist að þeirri efnislegu niðurstöðu, að bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar, [Á], hafi verið óheimilt, á grundvelli laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, að miðla persónuupplýsingum með framsendingu læknisvottorðs umbjóðanda míns með tölvupósti til ákveðinna starfsmanna Seltjarnarnesbæjar þann 27.janúar 2010.

[...]

Umbjóðandi minn gegnir starfi framkvæmdastjóra tækni- og umhverfissviðs Seltjarnarnesbæjar. Frá því í janúar síðastliðnum hefur umbjóðandi minn glímt við veikindi vegna meints eineltis af hálfu bæjarstjóra og leitar þann 26. þess mánaðar til heimilislæknis síns, [Ö}, Heilsugæslunni Seltjarnarnesi. Ráðleggur téður læknir umbjóðanda mínum að taka sér hvíld frá vinnu og gefur út læknisvottorð til atvinnurekanda vegna fjarvista, sbr. fskj.1. Þar kemur fram að umbjóðandi minn sé með öllu óvinnufær vegna sjúkdóms. Umrætt vottorð berst bæjarstjóra frá [M] hdl., lögmanni Seltjarnarnesbæjar, sem undirritaður sendi þeim síðarnefnda með tölvupósti 27.janúar fyrir hönd umbjóðanda míns, sbr.fskj.2.“.

Kvörtuninni fylgdi afrit af læknisvottorði kvartanda, dags. 26. janúar 2010. Einnig fylgdu afrit af tölvupósti lögmanns kvartanda, J hdl., til lögmanns Seltjarnarnesbæjar, M hdl., dags. 27. janúar, afrit af tölvubréfi Á, bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar, til G og annarra starfsmanna Seltjarnarnesbæjar, dags. 27. janúar 2010; afrit af bréfi lögmanns kvartanda til lögmanns Seltjarnarnesbæjar, dags. 25. febrúar 2010 og loks afrit af svarbréfi lögmanns Seltjarnarnesbæjar til lögmanns kvartanda, dags. 18. mars 2010.

2.

Með bréfi, dags. 5. ágúst 2010, kynnti Persónuvernd bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar kvörtunina og bauð bæjarstjóra að tjá sig um kvörtunina. Svarbréf bæjarstjóra er dags. 11. ágúst 2010. Í því segir:

Meðfylgjandi er svar lögfræðings bæjarins varðandi þetta mál sent lögfræðingi [Ó] 10. mars, 2010.

[G], starfar sem verkefnastjóri hjá bænum og ber ábyrgð á starfsmannamálum. Eins og fram kemur í þeim tölvupósti sem ég sendi á [G] og lykilstarfsmenn tækni- og umhverfissviðs bið ég [G] einnig að halda fund með þeim strax daginn eftir til að fara yfir stöðu verkefna á sviðinu og næstu skref.

Þegar undirrituð sendi viðhengið með kom ekkert þar fram varðandi veikindin sjálf og taldi því undirrituð að með því að senda það með kæmu fram réttar upplýsingar um að starfsmaður væri tímabundið frá vegna sjúkdóms.

Ef frekari upplýsinga er þörf vinsamlegast hafið samband.

Í því bréfi lögfræðings sem bæjarstjórinn vísar til í framangreindu bréfi, dags. 10. mars 2010, segir m.a.:

[...] 1. Af hálfu umbj. míns er því alfarið mótmælt að sending tölvupósts bæjarstjóra þann 27. janúar s.l. hafi á nokkurn [hátt] brotið gegn ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga eða ákvæðum almennra hegningalaga. Upplýsingar sem fram koma í læknisvottorði eru almenns eðlis og tilgreina einvörðungu að umbj. þinn sé óvinnufær sökum sjúkdóms en sú vineskja hefur í reynd legið fyrir hjá samstarfsfólki umbj. þíns um nokkurn tíma. Í læknisvottorði er hvorki að finna sérstakar upplýsingar um heilsufar eða lýsingu sjúkdóms umbj. þíns né aðrar upplýsingar sem ætla má að meðhöndla beri með sérstakri varúð lögum samkvæmt [...]

Með bréfi, dags. 1. september 2010, gaf Persónuvernd J, lögmanni kvartanda, kost á að tjá sig um framangreint svar bæjarstjórans. Með tölvupósti, dags. 6. september sl., skýrði J Persónuvernd frá því að hann sæi ekki ástæðu til að koma með andsvör við bréfi bæjarstjórans enda kæmi ekkert nýtt þar fram. Óskaði hann þess að Persónuvernd tæki málið til úrskurðar.

Þann 7. september 2010 beindi Persónuvernd fyrirspurn til lögmanns kvartanda varðandi málarekstur um framangreint ágreiningsmál fyrir dómi. Tilefnið voru fréttir í fjölmiðlum um að kvartandi hefði í hyggju að leggja málið fyrir dóm. Lögmaðurinn svaraði samdægurs. Í svari hans sagði:

Ég get staðfest að umrætt ágreiningsefni er ekki til úrlausnar hjá dómstólum. Það eina sem nú er komið til kasta dómstóla er matsbeiðni umbj. míns, Ó, vegna meints eineltis á vinnustað.

Persónuvernd óskaði þá afdráttarlausara svars um hvort kvartandi liti svo á að framsending umrædds læknisvottorðs hafi verið dæmi um það hvernig meint einelti hafi birst. Sagði að skýrt yrði að vera hvort umrætt atvik myndi með einhverjum hætti koma til skoðunar í málinu. Í svari lögmannsins, dags. sama dag, sagði að ágreiningur um sendingu vottorðsins væri ekki fyrir dómstólum. Síðan sagði:

Matsbeiðni vegna eineltis hefur verið send héraðsdómi, en ekki hefur enn verið dómkvaddur matsmaður. Ég veit ekki hvort matsmaður muni fjalla sérstaklega um vottorðið, en ljóst er að meint einelti er aðallega komið til vegna samskipta á vinnustað. Hins vegar er alveg ljóst að matsmaður mun ekki á nokkurn hátt fjalla um hvort sending læknisvottorðsins brjóti gegn persónuverndarlögum. Þá er einnig alls óvíst hvort ágreiningur um meint einelti verði nokkurn timann borinn undir dómstóla.

Persónuvernd staðfesti, með tölvubréfi þann 10. september 2010, þann skilning á svarinu að þess mætti vænta að gögn um vottorðið, og framsendingu þess, yrðu á meðal gagna sem dómkvaddur matsmaður kæmi til með að nota, sbr. 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Lögmaður kvartanda svaraði með tölvupósti, dags. 12. þ.m. Þar segir:

Umrætt læknisvottorð, ásamt fjölda annarra vottorða og greiningum, verða send væntanlegum matsmanni enda er honum ætlað að meta andlega heilsu umbj. míns. Ég hafði hins vegar ekki ráðgert að senda matsmanni tölvupóst bæjarstjóra, [Á], dags. 27. janúar 2010, þar sem hún áframsendir umrætt læknisvottorð umbj. míns til annarra starfsmanna hjá Seltjarnarnesbæ. Matsmanni er því ekki ætlað að fjalla um þessa tölvupóstsendingu sérstaklega. Ég ítreka það sem áður hefur komið fram um að a) matsmanni er ekki ætlað að meta hvort sending læknisvottorðs brjóti gegn persónuverndarlögum og b) ágreiningur um sendingu vottorðsins hefur ekki verið borinn undir dómstóla. Ég vænti þess að kvörtun umbj. míns verði tekin til efnislegrar meðferðar eins fljótt og kostur er.

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

2.

Af því sem fyrir liggur í máli þessu taldi Persónuvernd mega ætla að gögn um framsendingu umrædds læknisvottorðs yrðu meðal þeirra gagna sem nýtt yrðu af dómkvöddum matsmanni í tengslum við rekstur ágreiningsmáls um einelti fyrir dómstóli. Störf dómkvaddra matsmanna eru þáttur í málsmeðferð fyrir dómi og er ekki ráð fyrir því gert að stjórnvöld skeri úr málum sem á sama tíma hafa verið borin undir dómstóla. Í tölvubréfi lögmanns kvartanda, dags. 12. þ.m., kemur hins vegar fram að hann hyggist ekki senda matsmanni gögn um þá framsendingu bæjarstjóra á læknisvottorði sem mál þetta varðar. Kemur það því til úrlausnar Persónuverndar.

3.

Svo að vinna megi með persónuupplýsingar verður ávallt að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000. Sé um að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar þarf að auki að vera fullnægt einhverju þeirra viðbótarskilyrða sem greind eru í 9. gr. sömu laga.

Að mati Persónuverndar verður ekki talið að það að greina samstarfsmönnum frá fjarveru eins starfsmanns sakir veikinda teljist vera miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000. Gæti slíkt eftir atvikum stuðst við 7. tölulið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Upplýsingar á læknisvottorðum eru hins vegar viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laganna, sbr. c-lið 8. tölul. 2. gr. laganna. Þótt umrætt læknisvottorð kvartanda hafi ekki tilgreint sérstaka sjúkdómsgreiningu, heldur aðeins að hann var óvinnufær með öllu, verður samkvæmt því að líta svo á að um viðkvæmar persónuuupplýsingar sé að ræða í skilningi laga nr. 77/2000, og því hafi miðlun læknisvottorðsins þurft að eiga sér stoð í einhverju ákvæða 1. mgr. 9. gr. laganna.

Bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar hefur ekki bent á eða skýrt með hvaða hætti nokkurt þeirra skilyrða sem talin eru í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 hafi getað átt við um umþrætta framsendingu á læknisvottorði kvartanda. Þá hefur ekkert komið fram í öðrum gögnum máls er sýni að bæjarstjóra hafi verið nauðsynlegt að senda öðrum starfsmönnum bæjarins læknisvottorð kvartanda sérstaklega. Verður því ekki ráðið að nokkru þeirra skilyrða sem talin eru upp í 1. mgr. 9. gr. hafi verið fullnægt. Þarf þegar af þeirri ástæðu ekki að skoða hvort framsending vottorðsins hafi samrýmst einhverju af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. laganna.

Með vísun til framangreinds er það niðurstaða Persónuverndar að framsending læknisvottorðs kvartanda til samstarfsmanna hans, þann 27.janúar 2010, hafi verið óheimil.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Miðlun Seltjarnarnesbæjar á læknisvottorði Ó til annarra starfsmanna Seltjarnarnesbæjar, þann 27.janúar 2010, var ekki heimil.





Var efnið hjálplegt? Nei