Úrlausnir

Miðlun upplýsinga um flugfarþega til Bandaríkjanna

1.9.2010

Gert hefur verið samkomulag milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda um flutning upplýsinga um flugfarþega til Bandaríkjanna. Samkomulagið er um að upplýsingarnar njóti sömu verndar og upplýsingar um flugfarþega sem miðlað er til Bandaríkjanna frá ríkjum Evrópusambandsins.

Persónuvernd hefur fjallað um samkomulagið og gerir ekki athugasemdir.

Bréf Persónuverndar til dóms- og mannréttindaráðuneytisins, dags. 29. júlí 2010.

Efni: Miðlun upplýsinga um flugfarþega til Bandaríkjanna

Persónuvernd vísar til fyrri samskipta varðandi viðræður við bandarísk stjórnvöld um vernd upplýsinga um flugfarþega. Um er að ræða upplýsingar sem þau fara fram á að flugfélög miðli til þeirra úr bókunarkerfum sínum þegar flogið er til Bandaríkjanna (svonefndar PNR-upplýsingar).

Flytja má persónuupplýsingar til annarra landa að því gefnu að þar sé veitt fullnægjandi persónuupplýsingavernd, sbr. 29. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þegar um ræðir ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins er sú sjaldnast raunin og teljast m.a. Bandaríkin ekki veita slíka vernd sem hér um ræðir. Engu að síður getur flutningur upplýsinganna verið heimill að því gefnu að fullnægt sé einhverju skilyrðanna sem mælt er fyrir um í 30. gr. laga nr. 77/2000.

Á meðal þeirra skilyrða er að flutningur persónuupplýsinga sé nauðsynlegur til efnda á þjóðréttarskuldbindingum, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 30. gr. Um nokkurt skeið hefur utanríkisráðuneytið átt í samskiptum við bandarísk stjórnvöld til að tryggja að persónuupplýsingar um flugfarþega, sem sendar eru frá íslenskum flugfélögum, njóti sömu verndar og slíkar upplýsingar frá flugfélögum í aðildarríkjum Evrópusambandsins, þ.e. samkvæmt samningi þess og Bandaríkjanna frá 26. júlí 2007, sbr. og ákvörðun Ráðherraráðs sambandsins frá 23. s.m. um heimild til að gera slíkan samning, tekna með stoð í 24. og 38. gr. stofnsáttmála þess.

Með tölvubréfi dóms- og mannréttindaráðuneytisins hinn 2. júlí 2010 barst Persónuvernd orðsending frá bandaríska sendiráðinu til utanríkisráðuneytisins með drögum að nótuskiptum milli þess og íslenskra stjórnvalda. Í orðsendingunni segir að ríkisstjórn Bandaríkjanna staðfesti að umræddar upplýsingar njóti verndar samkvæmt framangreindum samningi Bandaríkjanna og ESB. Þá segir m.a. að ríkisstjórn Íslands skuli tryggja að flugfélög, sem fljúga til Bandaríkjanna, geri upplýsingarnar aðgengilegar í samræmi við bandarísk lög.

Hinn 14. júlí 2010 barst Persónuvernd tölvubréf frá dóms- og mannréttindaráðuneytinu sem með fylgdu nótuskipti milli bandaríska sendiráðsins og íslenskra stjórnvalda sem hafa m.a. að geyma framangreind ákvæði. Nótuskiptin bera stimpil utanríkisráðuneytisins því til staðfestingar að fallist sé á þau. Sama dag barst Persónuvernd afrit af tölvubréfi dóms- og mannréttindaráðuneytisins til utanríkisráðuneytisins þar sem fram kemur sá skilningur að litið sé svo á nú hafi stofnast þjóðréttarskuldbinding til miðlunar umræddra upplýsinga.

Persónuvernd telur að í umræddum nótuskiptum felist slík þjóðréttarskuldbinding og að miðlun upplýsinganna eigi því stoð í 2. tölul. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 77/2000. Svo að heimilt sé að miðla persónuupplýsingum á grundvelli þess ákvæðis þarf, eins og endranær þegar unnið er með persónuupplýsingar, að vera fullnægt einhverju skilyrða 8. gr. laga nr. 77/2000. Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. er vinnsla persónuupplýsinga heimil þegar hún er nauðsynleg til að efna samning sem hinn skráði er aðili að. Persónuvernd telur þetta ákvæði eiga við um umrædda miðlun, en ljóst er að hún er forsenda þess að flugfélög geti efnt samning um að flytja mann til Bandaríkjanna.

Með vísan til framangreinds gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við umrædda miðlun persónuupplýsinga þegar einstaklingar ferðast flugleiðis til Bandaríkjanna með íslenskum flugfélögum.





Var efnið hjálplegt? Nei