Úrlausnir

Birting úrskurða siðanefndar Hundaræktarfélag Íslands

13.7.2010

Svarað hefur verið fyrirspurn um heimild Hundaræktarfélags Íslands til að birta úrskurði siðanefndar þess í félagsblaðinu Sámi og á vefsíðu HRFÍ. Birting úrskurðar, þ.e. með nafni viðkomandi félagsmanns, var talin háð samþykki.

Í svari Persónuverndar segir:

„Persónuvernd vísar til bréfs, dags. 9. júní 2010, þar sem Hundaræktarfélag Íslands óskar eftir afstöðu Persónuverndar um hvort það mæli gegn lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga að birta úrskurði siðanefndar með nöfnum aðila í félagsblaðinu Sámi og á vefsíðu HRFÍ.

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um alla rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu sé upplýsingunum ætlað að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í 8. tölul. 2. gr. eru tíundaðar þær tegundir persónuupplýsinga sem teljast viðkvæmar en í b-lið ákvæðisins eru nefndar upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Af framangreindu er ljóst að nafnbirting úrskurða á heimasíðu félagsins getur talist til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000 og þarf þá að samrýmast ákvæðum þeirra.

Samkvæmt 9. gr. þeirra laga er vinnsla slíkra upplýsinga óheimil nema uppfyllt sé eitthvað af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. og enn fremur eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 9. gr. laganna. Í 5. tölul. 1. mgr. 9. gr. segir að vinnsla sé heimild sé hún framkvæmd af samtökum sem hafa stéttarfélagsleg markmið eða af öðrum samtökum sem ekki starfa í hagnaðarskyni, svo sem menningar-, líknar-, félagsmála- eða hugsjónasamtökum, enda sé vinnslan liður í lögmætri starfsemi samtakanna og taki aðeins til félagsmanna þeirra eða einstaklinga sem samkvæmt markmiðum samtakanna eru, eða hafa verið, í reglubundnum tengslum við þau. Í lokamálslið 5. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 er sérstaklega áréttað að ekki megi miðla upplýsingum áfram án samþykkis hins skráða.

Mál þetta var rætt á fundi stjórnar Persónuverndar í dag. Var það niðurstaða hennar að ekki þurfi að vera um að ræða samþykki í skilningi 7. tölul. 2. gr. laganna. Vægari kröfur megi gera til samþykkis í skilningi 5. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna. Þó verði að vera skýrt að hinn skráði félagsmaður hafi með ótvíræðum hætti samþykkt vinnsluna. Það getur t.d. gerst við inngöngu í félagið eða með því að félagsmaður samþykkir breytingu á lögum þess um birtingu nafngreindra upplýsinga. Það er þó skilyrði að atvik séu þannig að hinn skráði hafi án vafa haft vitneskju um vinnslu og ótvírætt samþykkt hana - með yfirlýsingu eða í verki.

Vinnsla persónuupplýsinga þarf enn fremur ávallt að vera í samræmi við alla töluliði 7. gr. laganna um gæði gagna og vinnslu. Þar kemur fram að við meðferð persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti (1. tölul.), að þær séu fengnar í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi (2. tölul.), að þær skuli vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslu (3. tölul.) og að þær skuli vera áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum (4. tölul.)“.




Var efnið hjálplegt? Nei