Úrlausnir

Vöktun í kaffiaðstöðu starfsmanna Snælands video

29.6.2010

Persónuvernd barst kvörtun vegna vöktunar á vinnustað, m.a. í kaffistofaðstöðu. Þegar Persónuvernd fór þangað í vettvangsheimsókn var stillingu myndavélar breytt, þ.e. vélar sem beindist að kaffiaðstöðu starfsmanna. Að öðru leyti voru ekki talin efni til sérstakra aðgerða Persónuverndar vegna umræddrar vöktunar.

Ákvörðun

I.

Grundvöllur máls og málavextir

1.

Ábending um rafræna vöktun

Persónuvernd vísar til fyrri bréfaskipta af tilefni ábendingar sem stofnuninni barst um vöktun á starfsstöð Snælands video í Staðarbergi í Hafnarfirði, en samkvæmt ábendingunni var m.a. kaffiaðstaða starfsmanna vöktuð. Var því haldið fram að myndavélar væru notaðar til að fylgjast með starfsmönnum umfram þörf.

Með bréfi, dags. 19. desember 2009, óskaði Persónuvernd skýringa Snælands video. Fyrirtækið svaraði með tölvubréfi hinn 30. desember 200. Þar segir:

„Í verslun okkar í Staðarbergi starfrækjum við öryggiskerfi sem er uppsett og vottað af Securitas. Líkt og með önnur sambærileg öryggiskerfi er kerfi þetta hugsað í þágu öryggis starfsfólks okkar sem og með eignavörslu okkar í huga. Tölvan sem notast er við er læst inn á skrifstofurými verslunarinnar en aðeins eigendur fyrirtækisins hafa aðgang að þeirri skrifstofu. Tölvan er eingöngu notuð í þeim tilgangi að þjóna öryggiskerfinu. Engin önnur vinna fer fram í tölvunni.

Í versluninni eru til staðar límmiðar sem gefa til kynna að öryggisvöktun sé til staðar.

Myndavélarnar eru á eftirtöldum stöðum:

2 myndavélar eru staðsettar í videosal, þar sem myndböndin eru til staðar.

4 myndavélar eru staðsettar fyrir ofan sjóðsvélarnar í versluninni.

1 myndavél er staðsett við ísafgreiðslu. 

1 myndavél er staðsett við sjoppuafgreiðslu.

1 myndavél er staðsett í framleiðslueldhúsi

1 myndavél er við bakdyr.

Það er algjör fásinna að halda því fram að öryggiskerfið sé notað í þeim tilgangi að fylgjast með starfsfólki, þær eru eingöngu notaðar í þeim tilgangi sem ræddur var hér að ofan.

Það skal tekið fram að við höfum séð um rekstur þessa fyrirtækis í 25 ár, aldrei höfum við lent í því að gögn úr öryggismyndavélum hafi „lekið“ út úr húsi eða þau notuð í öðrum tilgangi en hér hefur verið greint frá. 

Einnig skal það tekið fram að sá starfsmaður sem lagði inn þessa kvörtun til ykkar er að hætta í starfi hjá okkur, þessi sami starfsmaður hafði haft í hótunum við okkur um að haft yrði samband við ykkur. 

Líkt og endranær eru þið meira en velkomin í verslun okkar og gæti ég tekið á móti þér og farið með þér yfir uppsetningu og fleira ef þú óskar eftir því. 

Þar sem við notumst við kassakerfi í verslunum okkar er nýbúið að taka út allt tölvukerfið okkar og fara yfir öryggisstillingar.“

2.

Vettvangsheimsókn

Bréfaskipti í kjölfar hennar

Þann 19. mars 2010 fóru fulltrúar Persónuverndar í vettvangsheimsókn og athuguðu fyrirkomulag vöktunar á umræddri starfsstöð. Til svara af hálfu fyrirtækisins voru H og S.

Í ljós kom að á starfsstöðinni eru tólf eftirlitsmyndavélar, þar af níu í verslunarrými. Af þeim eru þrjár sem vísa beint á sjóðsvélar, ein sem vísar á peningaskáp, ein sem vísar á ísafgreiðslu og ein sem vísar á sjoppuafgreiðslu. Einnig eru þrjár myndavélar baka til, þ. á m. ein sem beindist að útidyrahurð og um leið að kaffiaðstöðu starfsmanna. Í heimsókninni var henni snúið þannig að hún sneri að útidyrahurðinni en ekki að kaffiaðstöðunni. Myndavélarnar eru allar staðsettar þannig að auðveldlega má sjá þær. Þá eru merkingar um vöktunina á veggjum. Í rými inn af kaffiaðstöðu er tölva sem birtir á skjá myndir úr öllum tólf eftirlitsmyndavélunum.

Í framhaldi af vettvangsheimsókninni sendi Persónuvernd Snælandi video bréf, dags. 28. apríl 2008, þar sem nánari skýringa var óskað. Þá var þess óskað að fyrirtækið:

rökstyddi hvers vegna talið væri nauðsynlegt að beina sex eftirlitsmyndavélum að afgreiðslu umræddrar videoleigu (þ.e. myndavélar sem beinast að sjóðsvélum, peningaskáp og sjoppuafgreiðslu);

upplýsti hvort tekið væri upp hljóð samfara þeirri vöktun sem fyrirtækið viðhefur;

og greindi frá afstöðu sinni til þess að eftirlitsmyndavél, sem beinist að innanverðri bakdyrahurð umræddrar videoleigu, væri færð til þannig að hún væri staðsett beint andspænis hurðinni þannig að óvaktað svæði í grennd við borð og stól í kaffiaðstöðu stækkaði.

Snæland video svaraði með tölvubréfi hinn 10. maí 2010. Þar segir:

„Í framhaldi af bréfi frá ykkur dagsettu þann 28. apríl síðastliðinn sendi ég ykkur svar við þeim þrem spurningum sem þið óskuðuð svara við. 

1. Í versluninni eru staðsettar þrjár sjóðsvélar og einn peningaskápur, ein vél vaktar hvert þeirra og hefur eingöngu það hlutverk, þær vélar hafa mjög þrönga sýn. Hinar tvær vélarnar þjóna tilgangi eftirlitsmyndavéla við afgreiðsluna í versluninni.

2. Ekkert hljóð er tekið upp.

3. Eftirlitsmyndavélin er hugsuð til að hafa eftirlit með útgangi verslunarinnar og er hún uppsett þannig í dag að hún þjónar einungis því hlutverki og nær hún ekki til frekara sjónsviðs og því ekki neinn tilgangur í því að efna til kostnaðar á því að færa hana. Hafa ber í hug að þessi tiltekna vél upplýsti hjá okkur innbrot um daginn, ef þessi tiltekna vél hefði ekki verið til staðar hefði innbrotið ekki verið upplýst, og þá um leið ekki annað innbrot í aðra verlsun sem átti sér stað sömu nótt.“

II.

Afstaða Persónuverndar til erindis

1.

Rafræn vöktun

Lagaumhverfi

Um rafræna vöktun er að finna reglur í bæði lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglum nr. 837/2006 settum með stoð í 5. mgr. 37. gr. þeirra laga.

Eins og fram kemur í 2. mgr. 1. gr. reglnanna getur vöktun farið fram á margs konar hátt og með margs konar búnaði, þ. á m. með eftirlitsmyndavélum. Svo að vöktun megi fara fram verður tilgangurinn með henni að vera málefnalegur, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/2000. Eins og kveðið er á um í sama ákvæði laganna er vöktun svæðis, þar sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði (t.d. á vinnustað), jafnframt háð því skilyrði að hennar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fer fram.

Víðar í lögunum er vikið að vöktun. Má þar nefna 2. mgr. 9. gr. laganna, sbr. lög nr. 81/2002, um varðveislu vöktunarefnis með viðkvæmum persónuupplýsingum, s.s. um refsiverða háttsemi, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna. Þar er mælt fyrir um skilyrði fyrir slíkri varðveislu, m.a. að efni, sem til verður við vöktunina, verði ekki afhent öðrum eða unnið frekar nema með samþykki þess sem upptaka er af eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar; heimilt sé þó að afhenda lögreglu efni með upplýsingum um slys eða refsiverðan verknað, en þá skuli þess gætt að eyða öllum öðrum eintökum af efninu.

Meðferð persónuupplýsinga sem til verða í tengslum við vöktun verður, auk framangreinds, m.a. að samrýmast meginreglum 7. gr. laga nr. 77/2000, þ. á m. þeim reglum að persónuupplýsingar skulu unnar með með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra skal samrýmast vönduðum vinnsluháttum persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær skulu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); að þær skulu vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.); og að þær skulu varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á skráða aðila lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu (5. tölul.). Draga má efni þessara reglna saman í eina grunnreglu þess efnis að vinnsla persónuupplýsinga skuli vera sanngjörn og ekki umfram það sem nauðsynlegt er í þágu lögmæts og málefnalegs tilgangs.

Nánari ákvæði um vöktun er að finna í framangreindum reglum nr. 837/2006. Í 4. gr. reglnanna er áréttuð sú regla 4. gr. laganna að vöktunin skal fara fram í málefnalegum tilgangi. Vöktun í þágu öryggis og eignavörslu er nefnd sem dæmi um slíkt. Í 6. gr. kemur fram að svo að vöktun, sem fram fer í því skyni að mæla vinnu og afköst starfsmanna, sé heimil þarf frekari skilyrðum en ella að vera fullnægt. Slík vöktun getur verið heimil:

þegar ekki er unnt að koma við verkstjórn nema með rafrænni vöktun;

þegar ekki er unnt að tryggja öryggi á viðkomandi svæði án vöktunarinnar, s.s. í ljósi laga og sjónarmiða um hollustuhætti og mengunarvarnir; og

þegar vöktunin er nauðsynleg vegna ákvæða kjarasamnings eða annars konar samkomulags um launakjör, s.s. þegar laun eru byggð á afkastatengdu, tímamældu launakerfi.

Ekki er útilokað að vöktun til eftirlits með vinnu og afköstum sé heimil í öðrum tilvikum. Í athugasemdum við 1. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 81/2002, sem breyttu lögum nr. 77/2000, segir um breytingu sem með lögunum var gerð á fyrrgreindu ákvæði 2. mgr. 9. gr.:

„Vera kann að fyrirtæki hafi sérstaka þörf fyrir að vakta svæði þar sem takmarkaður fjöldi fólks fer um að jafnaði, t.d. á vinnustað. Skilyrði um sérstaka nauðsyn getur t.d. verið uppfyllt ef vöktun er nauðsynleg til að tryggja öryggi starfsmanna eða hindra að hættuástand skapist. Almennt ber þó að túlka heimildir til vöktunar á vinnustað þröngt og gæta þess að virða einkalífsrétt starfsmanna, m.a. rétt þeirra til að halda út af fyrir sig félagslegum og persónulegum samböndum á vinnustað. Lögmæti vöktunar á vinnustað sem miðar að því að mæla gæði vinnu og afköst starfsmanna er m.a. háð því að starfsmenn hafi fengið nauðsynlega fræðslu um tilvist hennar, eftir atvikum við gerð ráðningarsamnings eða með öðrum sannanlegum hætti og að samkvæmt skipulags-, framleiðslu- eða öryggissjónarmiðum sé slíkrar vöktunar þörf. Dæmi um ómálefnalega vöktun, og þar með ólögmæta, er vöktun sem leiðir til þess að einstökum hópum manna verði mismunað, svo sem ef hún beinist að hópum á grundvelli skoðana þeirra, kynferðis, uppruna, kynþáttar eða þjóðernis. Vöktun í kirkjum, kapellum eða öðrum húsum sem ætluð eru til bænahalds og trúariðkunar felur í sér sérstaka hættu fyrir friðhelgi einkalífs. Sama á t.d. við um vöktun í mátunarklefum, á salernum, í hótelherbergjum, í káetum, á vínveitingahúsum o.s.frv.“

Í 5. gr. reglnanna segir:

„Við alla rafræna vöktun skal þess gætt að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn ber til miðað við þann tilgang sem að er stefnt. Skal gæta þess að virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Við ákvörðun um hvort viðhafa skuli rafræna vöktun skal því ávallt gengið úr skugga um hvort markmiðinu með slíkri vöktun sé unnt að ná með öðrum og vægari raunhæfum úrræðum.“

 

2.

Ákvörðun

Við alla vöktun skal þess gætt að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn ber til miðað við þann tilgang sem að er stefnt og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun. Samkvæmt því hefur m.a. verið talið að virða beri rétt starfsmanna til að halda út af fyrir sig persónulegum aðstæðum og félagslegum innbyrðis tengslum.

Gildandi reglur um rafræna vöktun á vinnustöðum gera ráð fyrir því að viðhafa megi rafræna vöktun til að mæla vinnu og afköst starfsfólks ef þess er sérstök þörf s.s. vegna þess að ekki sé unnt að koma við verkstjórn með öðrum hætti eða vegna þess að án vöktunarinnar sé ekki unnt að tryggja öryggi á viðkomandi svæði. Ekki hefur verið talið að slík sjónarmið eigi við um vöktun á svæðum sem starfsfólk hefur aðgang að í hvíldartíma, s.s. á snyrtingum, þar sem aðstaða er til fataskipta og á kaffistofum.

Stjórn Persónuverndar ræddi mál þetta á fundi sínum í dag, þ.e. þann þátt er lýtur að vöktun í kaffiaðstöðu starfsmanna á umræddri starfsstöð fyrirtækisins. Í ljósi þess að í vettvangsheimsókn sem fram fór þann 19. mars sl. var stillingu myndavélar sem beindist að kaffiaðstöðu starfsmanna breytt, og hún snýr nú að útidyrahurð en ekki að kaffiaðstöðunni, voru að svo stöddu ekki talin efni til frekari afskipta stofnunarinnar af umræddri vöktun.





Var efnið hjálplegt? Nei