Úrlausnir

Óumbeðin fjarskipti, IP-tölur

29.6.2010

Kvartandi taldi að annar en hann sjálfur hafi skráð hann á netpóstlista. Til þess að vita hver hefði skráð hann hefði bæði þurft að vita hvaða IP-tala var notuð og vita um skráðan eiganda eða notanda vistfangs IP-tölunnar. Persónuvernd útskýrði ákvæði fjarskiptalaga, en samkvæmt þeim lögum hafa fjarskiptafyrirtæki mjög takmarkaðar heimildir til að veita slíkar upplýsingar.

Persónuvernd vísar til fyrri bréfaskipta í tilefni af kvörtun yðar, dags. 19. janúar 2010, yfir að hafa fengið óumbeðin fjarskipti frá Eddu útgáfu. Þér eruð með bannmerkingu í Þjóðskrá og á símaskrá. Þér kváðust ekki hafa skráð yður í „netklúbb“ útgáfunnar.

Sá hluti kvörtunarinnar er lýtur að verkefnasviði Póst- og fjarskiptastofnunar var framsendur henni. Sá þáttur er lýtur að tilliti til bannmerkinga var hins vegar tekinn til nánari athugunar hjá Persónuvernd og með bréfi, dags. 22. mars 2010, greindi Persónuvernd yður frá niðurstöðu þeirrar athugunar. Athugunin leiddi í ljós að útgáfan hvorki notar né kaupir netföng af þriðja aðila heldur eingöngu póstföng sem skráð eru á vefsíðu fyrirtækisins. Hafði útgáfan afmáð nafn yðar og netfang af sínum skrám. Taldi Persónuvernd því ekki vera efni til frekari meðferðar máls enda mætti vænta þess að Póst- og fjarskiptastofnunin fjallaði efnislega um málið á grundvelli laga nr. 81/2003 um fjarskipti.

Ekki liggur fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun hafi efnislega leyst úr framangreindu ágreiningsatriði. Með bréfi dags. 20 maí sl. framsendi hún málið hins vegar aftur til Persónuverndar. Í því bréfi segir:

„[...]Póst- og fjarskiptastofnun barst bréf frá [K] þar sem fram koma athugasemdir af hálfu kvartanda er lúta m.a. að því hvernig staðið var að skráningu kvartanda á umræddan póstlista Eddu, þ.m.t. hvernig upplýsingar um yður bárust útgáfunni sem og það álitaefni er snýr að því hvort Edda sé að viðhafa eftirlit varðandi tölvupóstnotkun yðar. Í ljósi þess að hér er ma.a. um að ræða vinnslu persónuupplýsinga er það mat stofnunarinnar að þau álitaefni sem hér áreynir, falli ekki undir verkssvið PFS skv. lögum nr. 81/2003 né lög nr. 69/2003. Verður að telja að álitaefnið geti hugsanlega fallið undir verkssvið Persónuverndar, í samræmi við lög nr. 77/2000 um Persónuvernd og meðferð persónuuplýsinga. Í ljósi ofangreinds framsendir PFS þann hluta kvörtunarinnar er lýtur að vinnslu persónuupplýsinga til Persónuverndar í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“

Af bréfi Póst- og fjarskiptastofnunar má ráða að ósvarað sé þeim þætti erindis yðar er lýtur að upplýsingum um skráningu nafns yðar á umræddan póstlista Eddu. Af því tilefni er tekið fram að almennt getur sá sem heldur úti slíkri síðu sem hér um ræðir aðeins séð hvaða ip-tala stendur að baki færslu en ekki tengt töluna við notanda. Til þess þarf jafnan einnig upplýsingar frá viðkomandi fjarskiptafyrirtæki (e. „Internet Service Provider“) sem í flestum tilfellum eru fjarskiptafyrirtæki hér á landi. Í lögum um fjarskipti nr. 81/2003 eru ákvæði hér að lútandi.

Í 1.-3 mgr. 42. gr. þeirra laga er ákvæði um heimild fjarskiptafyrirækis til að varðveita og miðla upplýsingum um fjarskipti. Þar er gert ráð fyrir að fjarskiptafyrirtæki megi varðveita slíkar upplýsingar í sex mánuði í þágu rannsókna sakamála og almannaöryggis. Þó er fjarskiptafyrirtækjum heimilt að vinna úr þannig gögnum vegna markaðssetningar fjarskiptaþjónustu eða framboðs á virðisaukandi þjónustu að því leyti sem nauðsynlegt er fyrir slíka þjónustu eða markaðssetningu - en aðeins með samþykki áskrifanda. Ekki liggur fyrir að framangreind skilyrði séu uppfyllt. Þá segir í 1. mgr. 47. gr. sömu laga að fjarskiptafyrirtæki sem veita almenna fjarskiptaþjónustu skuli gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja öryggi þjónustunnar og koma í veg fyrir að óviðkomandi fái aðgang að þeim. Í 6. og 7. mgr. 47. gr. segir:

„Öllum sem starfa við fjarskiptavirki, hvort sem um er að ræða starfsmenn fjarskiptafyrirtækja eða aðra, er skylt, bæði meðan þeir gegna starfi og eftir að þeir hafa látið af því, að halda leyndu fyrir óviðkomandi aðilum öllu því sem um fjarskiptavirkin fer, hvort sem um er að ræða efni skeyta eða samtala eða hvort fjarskipti hafa átt sér stað og á milli hverra.
Ekki má án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá skeyti, önnur skjöl eða annála um sendingar sem um fjarskiptavirkin fara eða hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau. Fjarskiptafyrirtæki er þó rétt og skylt að veita lögreglu, í þágu rannsóknar sakamáls, upplýsingar um hver sé skráður eigandi ákveðins símanúmers og/eða eigandi eða notandi vistfangs IP-tölu. Um aðgang lögreglu að upplýsingum um fjarskipti skal að öðru leyti fara samkvæmt lögum um meðferð sakamála.“

Samkvæmt framansögðu verður ekki, á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu, og að virtum ákvæðum 42.-47. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003, séð að skilyrði séu til þess að Edda útgáfa - og það fjarskiptafyrirtæki sem hún er í viðskiptum við - geti veitt yður upplýsingar um hver sé skráður eigandi og/eða notandi vistfangs IP-tölu sem notað var við skráningu yðar í netklúbb Eddu. Tekið er fram að litið hefur verið svo á að ríkir almannahagsmunir eða einstaklingshagsmunir verði að krefjast þess að slíkum rannsóknaraðgerðum sé beitt, sbr. dóm Hæstaréttar frá 13. júní 2001 í máli nr. 193/2001.

Með vísun til framangreinds þykja ekki vera forsendur til frekari meðferðar Persónuverndar á máli þessu. Verður það því fellt niður.





Var efnið hjálplegt? Nei