Úrlausnir

Ferðamálastofu ekki heimilt að birta lista yfir þá sem ekki hafa leyfi

21.4.2010

Ferðamálastofa óskaði eftir afstöðu Persónuverndar til þess hvort hún mætti birta mætti á heimasíðu sinni lista yfir aðila sem stunda leyfis- eða skráningarskylda starfsemi samkvæmt lögum nr. 73/2005 um skipan ferðamála en fullnægja ekki skilyrðum laganna um leyfi eða skráningu. Persónuvernd taldi vinnsluna ekki hafa nægilega lagastoð. Persónuvernd benti þó á að Ferðamálastofa má birta stjórnvaldsúrlausnir að undangenginni málsmeðferð í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993, t.d. um að stofan telji tiltekinn aðila hafa brotið gegn reglum um skráningar- og leyfisskyldu.

Efni: Listi yfir þá sem ekki hafa tilskilda skráningu eða leyfi

1.

Persónuvernd vísar til bréfs Ferðamálastofu frá 12. janúar 2010. Í bréfinu er spurt hvort birta megi á heimasíðu Ferðamálastofu lista yfir aðila sem stunda leyfis- eða skráningarskylda starfsemi samkvæmt lögum nr. 73/2005 um skipan ferðamála en fullnægja ekki skilyrðum laganna um leyfi eða skráningu. Í bréfinu segir nánar:

„Ferðamálastofu hafa borist margar ábendingar þess efnis að ferðaþjónustuaðilar stundi starfsemi sem er leyfis- eða skráningarskyld án þess að hafa til þess viðeigandi leyfi eða skráningu. Til að koma leyfis- eða skráningarmálum í betra horf hefur Ferðamálastofa hug á að birta á heimasíðu sinni skrá yfir leyfis- og skráningarskylda aðila og freista þess að slík birting leiði til þess að þeir sem stunda leyfis- eða skráningarskylda starfsemi án tilskilins leyfis eða skráningar sæki um viðeigandi leyfi eða skráningu. Tilgangurinn með slíkri birtingu er einnig að upplýsa fólk um hverjir hafi leyfi og hverjir ekki.

Með vísan til ofangreinds beinir Ferðamálastofa þeirri fyrirspurn til Persónuverndar hvort Ferðamálastofu sé heimilt að birta lista yfir leyfis- og skráningarskylda aðila á heimasíðu sinni og hvort leyfi Persónuverndar þurfi til birtingar slíks lista."

Með bréfi, dags. 26. febrúar 2010, óskaði Persónuvernd nánari skýringa. Í bréfinu er þess óskað að Ferðamálastofa greini frá því hvaða heimildir í 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 hún telji eiga við um umrædda vinnslu. Ferðamálastofa svaraði með bréfi, dags. 19. mars 2010. Þar segir m.a.:

„Eins og fram kom í bréfi Ferðamálastofu til Persónuverndar, dags. 12. janúar sl., birtir Ferðamálastofa lista yfir útgefin leyfi ferðaskipuleggjenda og ferðaskrifstofa og skráða starfsemi bókunar- og upplýsingamiðstöðva á heimasíðu sinni. Heimildin til birtingar slíkra upplýsinga er í 7. mgr. 8. gr. og 3. mgr. 11. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála. Ferðamálastofa fær fjölda ábendinga um aðila sem stunda skráningar- eða leyfisskylda starfsemi án þess að hafa til þess tilskilin leyfi eða skráningu. Eitt af hlutverkum Ferðamálastofu skv. 1. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála er útgáfa leyfa, skráning á starfsemi og eftirlit með að skilyrðum fyrir þeim sé fullnægt."

Vísað er til þess að með birtingu umrædds lista séu neytendur upplýstir um hverjir hafi tilskilin leyfi eða skráningu og þess freistað að þeir sem stunda rekstur án leyfis eða skráningar komi sínum málum á hreint svo komast megi hjá frekari aðgerðum skv. 26. gr. sem séu mjög íþyngjandi.

Um heimildir í 1. mgr. 8. gr. vísar Ferðamálastofa til 3. tölul. um nauðsyn til að fullnægja lagaskyldu, 4. tölul. um nauðsyn vegna brýnna hagsmuna hins skráða og 6. tölul. um nauðsyn vegna beitingar opinbers valds. Um heimildir í 1. mgr. 9. gr. vísar Ferðamálastofu til 6. tölul. um það þegar hinn skráði hefur sjálfur gert upplýsingar opinberar. Er það rökstutt með því að í langflestum tilvikum hafi aðili opnað heimasíðu með upplýsingum um starfsemi sína en aðeins þær upplýsingar verði birtar, þ.e. nafn viðkomandi aðila, heimilisfang, heimasíða, sími og netfang.

2.

Persónuvernd hefur það hlutverk að framfylgja lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þau gilda um upplýsingar um einstaklinga, sbr. skilgreiningu 1. tölul. 2. gr. laganna á persónuupplýsingum. Alla jafna gilda þau ekki um lögaðila, sbr. þó 2. mgr. 45. gr. laganna sem ekki verður séð að eigi við í því tilviki sem hér um ræðir. Til þess ber hins vegar að líta að í ákveðnum tilvikum geta upplýsingar um lögaðila verið það nátengdar tilteknum einstaklingi að á það geti reynt hvort þær skuli teljast persónuupplýsingar, t.d. þegar um ræðir lítið fyrirtæki og upplýsingar um það eru því nátengdar eigandanum (sbr. álit nr. 4/2007 um hugtakið persónuupplýsingar frá vinnuhópi forstjóra persónuverndarstofnana samkvæmt 29. gr. persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB).

Tekið skal fram að ekki verður á það fallist að við birtingu umrædds lista sé aðeins verið að birta upplýsingar sem þegar hafa verið gerðar opinberar, þ.e. af viðkomandi þjónustuveitanda á heimasíðu þar sem þjónustan er auglýst. Að auki er verið að birta upplýsingar, sem ekki hafa verið birtar áður, um að Ferðamálastofa telji tiltekinn aðila ekki fara að lögum og reglum.

Að því marki, sem hér ræðir um vinnslu upplýsinga um einstaklinga, verður hún að samrýmast einhverju af skilyrðum 8. gr. laga nr. 77/2000. Ef vinna á með viðkvæmar persónuupplýsingar verður að auki að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 9. gr. sömu laga. Upplýsingar um það hvort maður hafi verið grunaður um refsiverðan verknað eru viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna. Af 1. mgr. 26. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála er ljóst að umræddar upplýsingar geta talist viðkvæmar í þeim skilningi.

Stjórn Persónuverndar ræddi mál þetta á fundi sínum í dag. Komst hún að þeirri niðurstöðu að birting stjórnvalds á slíkum lista, sem hér um ræðir, verði að byggjast á sérstakri lagaheimild, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Slík lagaheimild liggur ekki fyrir og er ljóst að Persónuvernd hefur ekki valdsvið til að veita sérstakt leyfi til birtingar listans fyrst lagaheimild skortir. Ekki verður því séð að Ferðamálastofa geti birt umræddan lista á heimasíðu sinni.

Að lokum skal tekið fram að framangreint svar Persónuverndar tekur ekki til þess þegar Ferðamálastofa birtir stjórnvaldsúrlausnir að undangenginni málsmeðferð í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993, t.d. um að stofan telji tiltekinn aðila hafa brotið gegn reglum um skráningar- og leyfisskyldu.





Var efnið hjálplegt? Nei