Úrlausnir

Notkun AIS-kerfis

Mál nr. 2011/938

7.8.2012

Persónuvernd barst kvörtun vegna s.k. AIS-kerfis sem er notað til að sýna staðsetningu skipa og báta. Notkun kerfisins byggir á ákvörðun innaríkisráðuneytisins, sbr. reglugerð nr. 672/2006. Málið var ekki tekið til úrskurðar þar sem úrlausn álitaefna um stjórnskipulegt gildi reglugerða, s.s. um það hvort þær eigi sér næga lagastoð eða samrýmist mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, heyra undir dómstóla en ekki Persónuvernd.

Efni: Notkun AIS-kerfis


Persónuvernd vísar til fyrri bréfaskipta af tilefni erindis A og B frá 20. desember 2011 varðandi svonefnt AIS-kerfi, en það er kerfi sem notað er til að tilkynna um staðsetningu skipa og báta til Siglingastofnunar í þágu öryggis sæfarenda. Í erindinu eru gerðar athugasemdir við stjórnskipulegt gildi reglna um notkun kerfisins, m.a. í ljósi grunnreglna stjórnarskrárinnar um mannréttindi, eignarétt og atvinnufrelsi.

Sæfarendum er skylt að notast við kerfið samkvæmt 27. gr. reglugerðar nr. 672/2006 um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa, sbr. reglugerð nr. 565/2009, settrar af samgönguráðherra (nú innanríkisráðherra) með stoð í m.a. 4. mgr. 1. gr. laga nr. 47/2003 um eftirlit með skipum. Þá er mælt fyrir um umrætt kerfi í ákvörðun framkvæmdastjórnar EB frá 25. janúar 2005 nr. 2005/53/EB sem tekin er með stoð í e-lið 3. mgr. 3. gr. tilskipunar nr. 1999/5/EB. Bæði ákvörðunin og tilskipunin hafa verið teknar upp í EES-samninginn, sbr. ákvarðanir Sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2001 og 101/2005.

Með bréfi til innanríkisráðuneytisins, dags. 17. janúar 2012, óskaði Persónuvernd upplýsinga um:

  1. hversu víðtæk skuldbinding sé á Íslandi samkvæmt EES-samningnum til að notast við AIS-kerfið; og
  2. hvort, í ljósi umræddrar birtingar upplýsinga úr AIS-kerfinu á framangreindri vefsíðu, sé talið tilefni til að skylda eigendur minni báta til að notast við þetta kerfi eða hvort til greina komi að veita þeim kost á annars konar staðsetningarkerfi sem ekki hefur umrædda birtingu í för með sér.


Ráðuneytið svaraði með bréfi, dags. 16. febrúar 2012. Þar kemur fram að EES-samningurinn skuldbindi Ísland ekki til að setja upp AIS-kerfið í minni skipum, en engu að síður hafi verið ákveðið að gera það hér á landi til að tryggja og auka öryggi á hafinu kringum landið. Einnig segir m.a. að fjárhagslega sé óraunhæft að koma upp öðru kerfi fyrir minni skip og halda þannig úti tveimur kerfum. Sérfræðingar Siglingastofnunar Íslands þekki ekki til neins annars kerfis sem hægt væri að taka upp samhliða og því yrði að leggja í mikla vinnu við þróun þess.

Með bréfi, dags. 2. mars 2012, greindi Persónuvernd A frá svari innanríkisráðuneytisins. Hann svaraði hinn 29. s.m. og gerði ýmsar athugasemdir, m.a. að rökstuðning skorti fyrir því að fjárhagslega væri óraunhæft að fara í byggingu annars kerfis. Um það segir:

„Margs konar kostir eru í stöðunni svo sem Spot (sjá findmespot.eu) og ýmsar útfærslur af 3G sem gætu nægt minni bátum. Aukinheldur er nú þegar í notkun Inmarsat í fjölda stærri skipa sem gerir allt sem gera þarf (fyrir utan að veita óviðkomandi viðkvæmar upplýsingar) og margir smærri bátar myndu heldur kjósa en að vera undir stöðugu eftirliti óviðkomandi aðila (eins og nú er með AIS).“

Af framangreindu ákvæði 4. mgr. 1. gr. laga nr. 47/2003 leiðir að það fellur í hlut innanríkisráðuneytisins að ákveða hvers konar búnaður sé notaður til að tilkynna um staðsetningu skipa og báta í þágu öryggis sæfarenda. Persónuvernd getur ekki haggað reglugerðarákvæðum sem ráðuneytið setur á þeim grundvelli. Álitaefni um stjórnskipulegt gildi ákvæðanna, þ.e. hvort þau eigi sér næga lagastoð eða samrýmist mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, heyra undir dómstóla.

Með vísan til framangreinds mun Persónuvernd ekki taka efnislega afstöðu til þess og verður mál þetta fellt niður.



Var efnið hjálplegt? Nei