Úrlausnir

Myndbirting á samfélagsmiðlinum Facebook

Mál nr. 2016/1644

25.4.2017

Persónuvernd vísaði frá kvörtun yfir birtingu föður á mynd af barni sínu á samfélagsmiðlinum Facebook. Persónuvernd taldi ekki fært að úrskurða í málinu á grundvelli upplýsinga móður barnsins um skoðun þess á myndbirtingunni. Með hliðsjón af eðli álitaefnisins og aldri barnsins var talið nauðsynlegt að kvörtun kæmi fram frá því sjálfu vegna myndbirtingarinnar.

Ákvörðun

 

I.

Málsmeðferð

 

1.

Tildrög máls

Þann 14. nóvember 2016 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefnd kvartandi) yfir birtingu myndar af [barni] hennar, [B], á Facebook-síðu föður [B], [C]. Í kvörtuninni kemur meðal annars fram að barnið sé mótfallið myndbirtingunni og hafi margbeðið föður sinn um að fjarlægja myndina. Þá sé kvartandi, sem sé forráðamaður barnsins, einnig mótfallinn myndbirtingunni.

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 18. janúar 2017, var [C] boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svar [C] barst Persónuvernd í tölvupósti þann 28. febrúar 2017. Í svarinu kemur fram að Facebook-síðan sé læst og einungis ætluð fjölskyldu og vinum. [C] líti á þessa kvörtun sem enn eina tálmun á því að hann og [B] fái að eiga eðlileg samskipti og umgengni. Þá sjái hann ekki rök eða ástæðu til þess að fjarlægja myndina.

Með bréfi, dags. 24. mars 2017, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum við framkomin svör [C] til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi kvartanda eru mótmæli gegn myndbirtingunni ítrekuð og meðal annars vísað til friðhelgi einkalífs barnsins og lögbundins réttar þess. Ekki hafi legið fyrir samþykki barnsins né forráðamanns þess (þ.e. kvartanda) fyrir birtingunni. Barnið hafi minnst fjórum sinnum komið á framfæri við föður sinn ósk um að myndin verði fjarlægð eða friðhelgistillingum á Facebook-síðu föður breytt. Faðirinn hafi svarað beiðnunum með því að vísa til þess að um væri að ræða ósk móður en ekki barnsins sjálfs. Að lokum kemur fram í bréfinu að kvartandi telji sig sem forráðamann í fullum rétti til að gæta að friðhelgi og persónuvernd [B] og að hún telji myndbirtinguna brjóta gegn stjórnarskrárvörðum rétti [B] til friðhelgi einkalífs síns. Barnið eigi rétt á að njóta vafans gagnvart friðhelgi og rétti fullorðinna til að birta opinberlega myndir af öðrum einstaklingum.

II.

Forsendur og niðurstaða

 

Kvörtunin var tekin til umræðu á fundi stjórnar Persónuverndar þann 25. apríl 2017. Á fundinum var meðal annars upplýst að myndin sem málið snerist um væri notuð sem opnumynd á Facebook-síðu [C]. Þá hefði skoðun Persónuverndar leitt í ljós að Facebook-síðan væri ekki læst, eins og fullyrt hefði verið, heldur birtist myndin hverjum þeim sem opnaði síðuna.

Á fundinum kom fram sú afstaða stjórnar Persónuverndar að stofnuninni væri ekki fært að úrskurða í málinu á grundvelli upplýsinga móður um skoðun [B] á myndbirtingunni. Sú afstaða var á því byggð að þegar ákvörðun, sem varðar ólögráða barn, er tekin um persónuleg málefni þess hefur barnið rétt á að vera með í ráðum, að teknu tilliti til aldurs þess og þroska. Með hliðsjón af eðli álitaefnisins og aldri [B] var því talið nauðsynlegt að kvörtun kæmi fram frá [B] vegna myndbirtingarinnar.

Með vísan til framangreinds var ákveðið að vísa kvörtuninni frá og var skrifstofu Persónuverndar falið að senda aðilum málsins bréf þess efnis.



Var efnið hjálplegt? Nei