Úrlausnir

Kvörtun yfir rafrænni vöktun nágranna vísað frá

Mál nr. 2020010587

30.9.2021

Persónuvernd barst kvörtun yfir eftirlitsmyndavél á húsi nágranna kvartenda. Kvartendur töldu líkur á að myndsvið myndavélarinnar næði inn í hús þeirra og bakgarð. Við meðferð málsins upplýstu kvartendur Persónuvernd um að fleiri eftirlitsmyndavélar hefðu verið settar á hús nágranna þeirra. Samkvæmt skjáskotum af myndsviði eftirlitsmyndavéla á húsi nágranna kvartenda náði það ekki út fyrir lóð nágrannanna. Þar sem rafræn vöktun, sem nær einvörðungu til einkalóðar viðkomandi, fellur utan gildissviðs persónuverndarlöggjafarinnar og þar með valdsviðs Persónuverndar var kvörtuninni vísað frá.

Ákvörðun


Hinn 22. september 2021 tók Persónuvernd svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2020010587 (áður 2019020227):

I.

Málsmeðferð

Hinn 30. apríl 2019 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] og [B] (hér eftir kvartendur) yfir eftirlitsmyndavél á húsi nágranna þeirra, [C]og [D], að [E]. Töldu kvartendur að mögulegt væri að myndsvið vélarinnar næði inn í hús þeirra og bakgarð. Kvörtuninni fylgdi mynd af myndavélinni.

Með bréfi 2. maí 2019 var [C]og [D] boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Þau svöruðu með bréfi 13. maí 2019. Kváðu þau myndavélina vera gervimyndavél sem ekki safnaði gögnum. Persónuvernd spurði [C] og [D] frekar út í myndavélina með bréfi 14. júní sama ár. Kvartendur sendu Persónuvernd athugasemdir sínar við svör [C]og [D] með bréfi 25. sama mánaðar. Eftir ítrekanir Persónuverndar 12. desember 2019 og 3. mars 2020 svöruðu [C] og [D] spurningum Persónuverndar með tölvuskeytum 24. og 26. mars 2020. Í tölvuskeytunum segir að umrædd myndavél sé ótengd en að þau hyggist tengja hana og bæta við tveimur vélum hið minnsta. Þau muni gæta þess í hvívetna að myndavélarnar sem settar verði upp nái eingöngu út að lóðarmörkum fasteignar þeirra og að svæði sem almenningur geti farið um verði kirfilega merkt með þeim hætti að skýrt verði að þar fari fram rafræn vöktun. Gögn sem sýni myndsvið vélanna verði send Persónuvernd. Tölvuskeytunum fylgdi meðal annars skjáskot úr myndavél á húsi þeirra og ber það með sér að myndsvið vélarinnar hafi nær eingöngu náð til götunnar og annarra húsa þar í kring, þá helst [F], húss kvartenda.

Með bréfi 30. mars 2020 óskaði Persónuvernd eftir að fá send skjáskot úr öllum eftirlitsmyndavélum við [E]. Erindið var ítrekað 4. maí sama ár og aftur 25. júní sama ár, þar sem einnig var óskað staðfestingar á því hvort myndavélin, sem upphafleg kvörtun varðaði, hefði verið tengd.

[C] og [D] sendu Persónuvernd tölvuskeyti 12. júlí 2020 þar sem þau kváðu myndavélarnar enn ekki hafa verið settar upp og að þau myndu senda Persónuvernd skjáskot úr þeim þegar það hefði verið gert. Þá hefði myndavélin, sem upphaflega hefði verið kvartað yfir, ekki verið tengd.

Kvartendur sendu Persónuvernd tölvuskeyti 20. október 2020 og upplýstu að daginn áður hefðu að minnsta kosti tvær nýjar myndavélar verið settar upp að [E] sem beindust að húsi þeirra og garði. Meðfylgjandi voru myndir sem kvartendur tóku úr garði sínum af myndavélunum. Með tölvuskeyti 9. júlí 2021 upplýstu kvartendur um að bæst hefði við eftirlitsmyndavél við útidyrahurð að [E] og að þau teldu myndsvið hennar ná yfir til eignar þeirra. Erindinu fylgdu myndir af myndavélinni. Með tölvuskeyti 6. ágúst 2021 upplýstu kvartendur Persónuvernd um að enn á ný hefði bæst við eftirlitsmyndavél að [E]. Sú væri í glugga hússins þar sem útsýni væri yfir garð þeirra að [F]. Þá væri komin ný myndavél á svalirnar að [E] sem vísaði á bílastæði hinum megin við húsið.

Með bréfi 19. ágúst 2021 bauð Persónuvernd [C] og [D] að tjá sig um framangreint og óskaði eftir svörum við nánar tilgreindum spurningum. Þau svöruðu með tölvuskeyti 12. september sama ár. Meðfylgjandi skeytinu voru skjáskot af myndsviði dyrabjöllunnar og fjögurra annarra myndavéla við húsið. Þau sýna að myndsvið vélanna nær ekki út fyrir lóð [E].

Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna þótt ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í ákvörðun þessari.

II.

Niðurstaða

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. c-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, gilda lögin og reglugerðin ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota.
Rafræn vöktun sem nær einvörðungu til einkalóðar viðkomandi hefur samkvæmt framangreindum ákvæðum verið talin falla utan gildissviðs laganna og reglugerðarinnar.
Með hliðsjón af þeim upplýsingum og gögnum, sem Persónuvernd hefur aflað og að framan greinir, nær rafræn vöktun við [E] einvörðungu til lóðarinnar við húsið. Af þeim sökum fellur hún utan gildissviðs laga nr. 90/2018 og reglugerðar (ESB) 2016/679. Með vísan til 1. mgr. 39. gr. laganna fellur vöktunin þar með einnig utan valdsviðs Persónuverndar og verður kvörtuninni því vísað frá.

Á k v ö r ð u n a r o r ð:

Kvörtun [A]og [B] yfir rafrænni vöktun við hús nágranna þeirra, [C] og [D], að [E] er vísað frá Persónuvernd.

Persónuvernd, 22. september 2021

 

Helga Þórisdóttir                            Valborg SteingrímsdóttirVar efnið hjálplegt? Nei