Úrlausnir

Krafa um eyðingu rangra upplýsinga hjá lögreglu

Mál nr. 2012/129

10.9.2012

Maður kvartaði til Persónuverndar yfir því að lögregla varðveitti rangar persónuupplýsingar um sig, þ.e. um  kæru fyrir meinta líkamsárás. Persónuvernd taldi ekki liggja fyrir að um rangar upplýsingar væri að ræða og því stæðu ekki lagaskilyrði til þess að mæla fyrir um eyðingu þeirra.

Ákvörðun


Hinn 20. ágúst 2012 tók Persónuvernd svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2012/129:

I.
Upphaf máls og bréfaskipti
Hinn 25. janúar 2012 barst Persónuvernd kvörtun, dags. 16. s.m., frá A (hér eftir nefndur „kvartandi“). Hann kvartar yfir því að lögreglan hafi ekki orðið við beiðni sinni um að fjarlægja úr málskrá upplýsingar um meinta líkamsárás af sinni hálfu.

Í kvörtuninni er lýst þeirri atburðarás sem varð tilefni skráningarinnar. Kemur fram að atburðirnir gerðust í fjölbýlishúsi þar sem kvartandi var búsettur árið 2003. Í sameignina hafi borist sígarettureykur úr íbúð nágranna kvartanda og hafi kvartandi sýnt óánægju sína með því að skella hurð sameiginlegs þvottahúss ögn fastar en venjulega. Nágranninn hafi tekið það óstinnt upp og um kvöldið ónáðað kvartanda með því að hringja útidyrabjöllunni og um nóttina með því að banka harkalega á dyrnar hjá honum. Kvartandi hafi vaknað og komið til dyra, en nágranninn hafi þá komið inn með ógnandi tilburðum og lagt hendur á kvartanda. Kvartandi hafi varist og komist undan. Um hálfu ári síðar hafi lögreglan haft samband við kvartanda vegna kæru nágrannans á hendur honum fyrir líkamsárás þann dag sem þessir atburðir gerðust. Það mál hafi verið fellt niður vegna sönnunarskorts. Árið 2010 hafi kvartandi komist að því við umferðareftirlit að hann væri enn skráður hjá lögreglu vegna málsins. Hann hafi farið fram á eyðingu upplýsinganna en lögregla hafi synjað þeirri beiðni. Um það segir í kvörtun:

„Ég veit sjálfur að málaskrá lögreglu er ekki sama og sakaskrá. Engu að síður veit ég ekki hvernig landið liggur hvað þetta varðar en hér þarf að hafa í huga nokkuð alvarlegar ásakanir í minn garð en líkamsárásir eru það jafnan. Ég hef sjálfur áhyggjur af gráum svæðum sem slíku kunna að tengjast og til að útskýra hvað ég á við hér vil ég nefna dæmi eins og það að tímarnir breytast og núna hafa t.d. bandarísk yfirvöld aðgang að miklum upplýsingum um farþega sem fara vestur um haf. Enginn veit hins vegar hvernig akkúrat þessi veruleiki sem ég vísa í hér mun þróast á komandi árum og áratugum. Annað dæmi sem má nefna er að sá sem sækir um starf öryggisvarðar hjá [...] þarf líka að skila yfirliti af málaskrá lögreglu – ekki aðeins sakaskrá.  [...]  Hér er því um að ræða nokkuð sem ég hef áhyggjur af og þess vegna legg ég hér fram formlega kvörtun.“


Með bréfi, dags. 12. apríl 2012, ítrekuðu með bréfi, dags. 7. maí s.á., veitti Persónuvernd Ríkislögreglustjóraembættinu færi á að tjá sig um framangreinda kvörtun. Svarað var með bréfi, dags. 21. maí 2012. Þar segir:

„A hafði samband við B, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá ríkislögreglustjóranum, í tölvupósti 26. apríl 2012 og krafðist þess að upplýsingum um hann yrði eytt úr skrám lögreglu. Daginn eftir ritaði hann embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu bréf þar sem óskað var eftir afriti af málsgögnunum og þau gögn bárust 28. apríl 2011. Eftir að hafa farið yfir gögnin hafði B símasamband við A og upplýsti hann um að samkvæmt reglum um málaskrá lögreglunnar væru ekki skilyrði til þess að eyða upplýsingum þaðan.

Í reglum um málaskrá lögreglunnar sem Ríkislögreglustjórinn setti og tóku gildi 29. janúar 2002 segir eftirfarandi í 2. gr.:
„Þegar lögregla hefur hafið rannsókn vegna vitneskju eða gruns um refsivert brot skal þegar skrá kærumálið og aðila þess í málaskrá.

Í eftirfarandi tilvikum skal skrá aðila máls sem kærðan:
Í málum þar sem aðili hefur verið yfirheyrður með réttarstöðu sakbornings
Í málum sem ljúka má með sektarboði lögreglustjóra
Í málum þar sem lögð hefur verið fram skrileg kæra á viðkomandi“
Í málinu sem um er rætt var lögð fram skrifleg kæra á A. Hann var í framhaldinu yfirheyrður vegna ætlaðs brots með réttarstöðu sakbornings. Málið var í framhaldinu rannsakað og kallað eftir ýmsum gögnum. Að lokinni rannsókn var ákveðið á ákærustigi að vísa málinu frá sökum erfiðrar sönnunarstöðu. Sú ákvörðun var af lögmanni kæranda kærð til ríkissaksóknara sem staðfesti ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík. Vegna framangreinds telur ríkislögreglustjórinn ekki rétt að eyða persónuupplýsingum um A úr skrám lögreglu.“


Með bréfi, dags. 15. maí 2012, ítrekuðu með bréfi, dags. 28. júní s.á., var kvartanda veitt færi á að tjá sig um framangreint svar Ríkislögreglustjóraembættisins. Hann svaraði með tölvubréfi hinn 2. júlí 2012. Hann segir m.a. að rangt sé að embættið hafi haft samband við sig símleiðis heldur hafi sér aðeins verið greint frá því í tölvupósti að upplýsingum yrði ekki eytt. Einnig segir í svari kvartanda að miðað við viðbrögð Ríkislögreglustjóraembættisins sé áherslan þar lögð á þrönga lagahyggju þar sem formið skipti máli en innihaldið ekki og kunni það að stangast á við grunnviðmið réttarríkisins um að innihald máls skipti meira máli en form þess. Hann segir að kæran á hendur sér hafi verið röng, en í því sambandi vísar hann til þess að í tvígang hafi því verið að hafnað að gefa út ákæru, þ.e. fyrst af lögreglu og síðar af ríkissaksóknara í kjölfar kæru réttargæslumanns kæranda. Þá gerir kvartandi athugasemd við þá fullyrðingu Ríkislögreglustjóraembættisins að hann hafi verið boðaður til yfirheyrslu þar sem hann hafi haft réttarstöðu sakbornings. Í þessu sambandi segir:

„Eins spyr ég hvort lögreglan megi ekki boða fólk í viðtal án þess að það þurfi að flokka viðmælendur svona kyrfilega og án þess að efni málsins skipti máli, heldur bara formið og þá er spurning hvaða form það er? Jú, að berist kæra er maður sekur þangað til sakleysi er sannað og væri maður augljóslega saklaus væri maður ekki boðaður í viðtal hjá lögreglu og sé mál fellt niður þar sem ekki eru taldar líkur á sakfellingu, væri það samt engin sönnun á sýknu, heldur einungis til marks um að sönnunargögn væru ekki til staðar, en meintur sakborningur væri þannig séð jafn sekur og fyrr vegna kærunnar, án tillits til þess hvort sönnunarkrafan væri erfið eða ekki. Hér þarf að hafa í huga að þótt kæra hafi borist var ekki búið að gefa út ákæru og það var enginn kominn inn í dómshús í réttarhald. Svona þröng lagahyggja á fyrstu stigum rannsóknar er því mjög varhugaverð að mínu mati og mögulega brýtur hún gegn grundvallarréttarsjónarmiðum og þá ekki einungis því að efni máls gildi fremur en form þess.“

Í framhaldi af þessu fjallar kvartandi um það þegar hann fór til lögreglu eftir að hafa verið boðaður þangað. Telur hann samskiptin hafa verið þeim hætti að ekki hafi verið um að ræða yfirheyrslu. Lögreglumaður hafi sagt honum að hann þyrfti að hitta sig því ella fengist málið ekki út af borðinu. Þá segir m.a.:

„Ég rökstyð mál mitt ennfremur með þeim staðreyndum málsins að um var að ræða formlega kæru gagnvart mér og þar sem um formlega kæru gagnvart mér var að ræða þurfti að svara henni og þess vegna var ég boðaður í formlegt viðtal hjá lögreglumanninum sem ræddi bara einn við mig á lögreglustöðinni [...], og þar þurfti ég að hafna þeim ásökunum sem bornar voru á mig í kærunni og lögreglumaðurinn sagði mér líka að hafna bótakröfu kærandans sem hann orðaði eitthvað á þá leið að þegar svona fífl leggja fram kæru er jafnan sótt um bætur frá viðkomandi og svo fullyrti hann líka við mig að þetta væri bara auli sem ætti ekkert að vera að kæra.“


II.
Forsendur og niðurstaða

1.
Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að hér ræðir um meðferð persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

2.
Svo að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil þarf ávallt að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000. Svo að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil þarf einnig að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 9. gr. sömu laga. Upplýsingar um grun um refisverðan verknað eru viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna.

Í 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 er mælt fyrir um að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu. Þá segir í 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna að vinna megi með viðkvæmar persónuupplýsingar þegar til þess stendur sérstök lagaheimild. Við mat á því hvort til staðar sé slík heimild verður að líta til i-liðar 1. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Samkvæmt henni skal ríkislögreglustjóri halda málaskrá um kærur sem lögreglu berast um afbrot með öllum nauðsynlegum upplýsingum sem mál varða. Að auki segir í 226. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að lögreglu sé heimilt að skrá og varðveita upplýsingar um brotaferil einstakra manna og atriði sem varða einkahagi þeirra.

Af þessum ákvæðum laga nr. 77/2000, og fyrrnefndum ákvæðum lögreglulaga og laga um meðferð sakamála, leiðir að lögreglu var bæði rétt og skylt að færa upplýsingar um umrætt atvik á málaskrá og varðveita. Kemur þá til skoðunar hvort eyða megi þeim samkvæmt sérákvæðum.

3.
Sérákvæði um eyðingu persónuupplýsinga eru í 25. og 26. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Í 25. gr. laganna er mælt fyrir um skyldu til leiðréttingar og eyðingar rangra og villandi persónuupplýsinga og ná ákvæði hennar til vinnslu persónuupplýsinga í þágu löggæslu og sakamála.  Í 12. gr. reglugerðar nr. 322/2001 er sambærilegt ákvæði.

Forsenda þess að framangreind ákvæði eigi verið er að um rangar eða villandi persónuupplýsingar sé að ræða. Óumdeilt er hins vegar að kvartandi var í raun kærður fyrir líkamsárás. Það liggur fyrir og verða upplýsingar um það því ekki taldar vera rangar.

Auk þess má benda á að lögreglu var rétt og skylt að skrá upplýsingar um þá kæru samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum i-liðar 1. mgr. 5. gr. lögreglulaga og 226. gr. laga um meðferð sakamála. Þá ber að hafa í huga að upplýsingar í málaskrá lögreglu, sem skráðar eru samkvæmt þessum ákvæðum, eru ekki til þess ætlaðar að fela í sér staðfestingu á því að kærður einstaklingar sé sekur eða saklaus af þeirri háttsemi sem hann er sakaður um. Þær geta því ekki talist rangar, villandi eða ófullkomnar af þeirri ástæðu að vafi sé um hvort hann hafi í raun gerst sekur um þá háttsemi.

Samkvæmt framangreindu verður ekki mælt fyrir um eyðingu upplýsinga um umrædda kæru á grundvelli ákvæðis 25. gr. laga nr. 77/2000. Tekið er fram að þótt gera verði þá kröfu að skráning upplýsinga um kærur gefi rétta mynd af kæruefninu, vitnisburði einstaklinga og öðrum atriðum liggur ekki fyrir að umrædd skráning hafi brotið gegn þeirri kröfu.

Ákvæði 26. gr. laga nr. 77/2000 eru um eyðingu og bann við notkun persónuupplýsinga sem hvorki eru rangar né villandi.Ákvæði hennar gilda ekki um lögreglu og verður því ekki litið til þeirra við úrlausn máls þessa.

4.
Samkvæmt framangreindu, og með vísun til skyldu stjórnvalda samkvæmt meginreglu 7. gr. laga nr. 66/1985, um Þjóðskjalasafn Íslands, til að varðveita gögn sín, og að öðru leyti með vísun til þess sem fram hefur komið í máli þessu, verður ekki mælt fyrir um eyðingu umræddra persónuupplýsinga. Með vísan til þess eru ekki efni til frekari afskipta af máli þessu og verður það fellt niður.

Á k v ö r ð u n a r o r ð:

Lögreglu er ekki skylt að eyða upplýsingum um kæru á hendur A fyrir meinta líkamsárás. Málið er fellt niður.



Var efnið hjálplegt? Nei