Úrlausnir

Hljóðritun einkasamtala og miðlun þeirra

Mál nr. 2022030544

14.6.2023

Persónuverndarlögin gilda eingöngu um upplýsingar um einstaklinga. Þau gilda ekki þegar einstaklingar vinna upplýsingar til einkanota. Í þessu tilfelli var það mat Persónuverndar að upptökurnar hafi einungis verið til einkanota.

----

Persónuvernd úrskurðaði í máli þar sem kvartað var yfir hljóðritun einkasamtala og miðlun þeirra. Nánar tiltekið var kvartað yfir því að nágranni hafi hljóðritað einkasamtöl og sent kvartanda og öðrum upptökur af þeim í tölvupósti.

Niðurstaða Persónuverndar var sú að ekki hafi verið sýnt fram á að umræddum upptökum hefði verið miðlað til annarra en kvartanda sjálfrar og hafi meðferð persónuupplýsinganna því einvörðungu verið ætlaðar til persónulegra nota og féll vinnslan því utan efnislegs gildissviðs laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Ákvörðun


um kvörtun yfir hljóðritun einkasamtala og miðlun þeirra í máli nr. 2022030544:

I.
Málsmeðferð

Hinn 11. mars 2022 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir kvartandi) yfir hljóðritun [B] á einkasamtölum kvartanda og miðlun þeirra.

Persónuvernd bauð [B] að tjá sig um kvörtunina með bréfum, dags. 13. júlí 2022, 17. ágúst s.á. og 20. september s.á. en engin svör hafa borist. Með símtali þann 3. nóvember 2022 óskaði Persónuvernd staðfestingar kvartanda á því að hljóðritununum hefði verið miðlað til óviðkomandi aðila. Persónuvernd barst svar kvartanda með tölvupósti þann 11. s.m.

1.
Sjónarmið kvartanda

Kvartandi, sem býr í fjölbýlishúsi, byggir á að nágranni hennar, [B], hljóðriti einkasamtöl hennar, flokki þau og sendi henni og öðrum upptökur af þeim með tölvupósti. Henni hafi borist tölvupóstur frá [B] þann 6. janúar 2022 ásamt hljóðritun merktri „Tal 006“ sem innihélt hljóðritun einkasamtala kvartanda á heimili hennar þar sem greina mátti hvert orð. Hún hafi óskað eftir að hljóðritununum yrði eytt en [B] hafi neitaði því. Í tölvupósti kvartanda til Persónuverndar þann 11. nóvember 2022 kom fram að hún hefði ekki getað staðfest, að beiðni Persónuverndar, að hljóðritunum hefði verið miðlað til annarra. Þá kemur fram í svörum kvartanda að deilur hennar og [B] hafi staðið yfir um nokkurt skeið, m.a. vegna hljóðvistar í húsinu.

2.
Sjónarmið [B]

Líkt og að framan greinir óskaði Persónuvernd ítrekað eftir afstöðu [B] til kvörtunar [A] en svör bárust ekki. Í þeim samskiptum var meðal annars vakin athygli á því að bærust engin svör yrði málið tekið til úrlausnar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

II.
Forsendur og niðurstaða

Persónuvernd úrskurðar í ágreiningsmálum er varða lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Í máli þessu er til umfjöllunar hljóðritun samtala og miðlun þeirra. Tekur kvörtunin því til vinnslu persónuupplýsinga. Almennt getur vinnsla af þessu tagi fallið undir gildissvið laganna og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. m.a. 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 39. gr. laganna.

Til þess er hins vegar að líta að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018 gilda lögin og reglugerð (ESB) 2016/679 ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota.

Í máli þessu er gengið út frá því að [B], sem er nágranni kvartanda í fjölbýlishúsi, hafi hljóðritað úr eigin íbúð einkasamtöl kvartanda og miðlað til hennar. Hefur því enda ekki verið andmælt af hálfu [B], sbr. kafla II.2 hér að framan. Ekkert í gögnum málsins eða svörum kvartanda bendir hins vegar til þess að hljóðritunum hafi verið miðlað til annarra en kvartanda sjálfrar.

Af gögnum málsins verður því ekki annað ráðið en að umrædd hljóðritun og miðlun hennar hafi einungis verið ætluð til persónulegra nota fyrir [B] í tengslum við deilur hennar og kvartanda um hljóðvist í húsinu.

Með vísan til framangreinds telst hljóðritun [B] og miðlun hennar til kvartanda fela í sér meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem einvörðungu voru ætlaðar til persónulegra nota. Telst undanþáguákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018, sbr. einnig c-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, því eiga við og fellur vinnslan þar með utan gildissviðs laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og valdsviðs Persónuverndar.

Er kvörtun [A] yfir hljóðritun einkasamtala og miðlun á upptöku af þeim því vísað frá.

Á k v ö r ð u n a r o r ð:

Kvörtun [A] yfir hljóðritun [B] á einkasamtölum hennar og miðlun á upptöku af þeim er vísað frá.

Persónuvernd, 14. júní 2023

Helga Sigríður Þórhallsdóttir                Rebekka Rán Samper



Var efnið hjálplegt? Nei