Úrlausnir

Birting persónuupplýsinga á vefsíðu Hæstaréttar Íslands

Mál nr. 2017/711

29.9.2017

Persónuvernd hefur úrskurðað um að vinnsla Hæstaréttar Íslands á persónuupplýsingum við birtingu dóms á heimasíðu réttarins hafi ekki samrýmst ákvæðum laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, sem í gildi voru þegar dómurinn var birtur. Þá samrýmist áframhaldandi netbirting umræddra upplýsinga ekki ákvæðum núgildandi laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 28. september 2017 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2017/711:

 

I.
Málsmeðferð

1.
Tildrög máls

Þann 3. maí 2017 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi) yfir birtingu hæstaréttardóms í málinu nr. [...] á vefsíðu Hæstaréttar Íslands. Dómurinn var kveðinn upp [...] 1999.

 

Í kvörtuninni segir að í tengslum við fréttaflutning af úrskurði Persónuverndar frá 16. júní 2017 (sbr. mál nr. 2016/1783 hjá stofnuninni), sem varðaði birtingu tveggja héraðsdóma um mál kvartanda á vefsíðunni domstolar.is, hafi honum borist ábending frá fréttamanni um að á heimasíðu Hæstaréttar væri fyrrgreindur dómur birtur í heild sinni. Dómurinn varðar skaðabótakröfu kvartanda gegn vátryggingafélagi vegna umferðarslyss sem hann lenti í árið [...]. Kvartandi er nafngreindur í dómnum, en í honum er meðal annars að finna upplýsingar um fjármál, örorku og sjúkrasögu kvartanda.

 

Kvartandi telur að með birtingu dómsins hafi Hæstiréttur brotið gegn æru hans og friðhelgi á heimildarlausan og ólögmætan hátt. Dómstólum og dómurum megi öðrum fremur vera kunnugt um viðkvæmni upplýsinganna og þýðingu þess að gera þær ópersónugreinanlegar áður en dómur er birtur á Netinu. Þá vekur kvartandi athygli á því að ekki sé um einsdæmi að ræða heldur megi finna fleiri dóma á vef Hæstaréttar, þar sem viðkvæmar persónuupplýsingar séu birtar um nafngreinda einstaklinga, þ.e. aðila máls og jafnvel vitni. Einnig séu dæmi um að láðst hafi að afmá persónugreinanlegar upplýsingar úr dómum, þegar einstaklingar hafi ekki verið nafngreindir. Kvartandi telur því ríkt tilefni til að Persónuvernd beiti úrræðum samkvæmt 40. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og kæri málið til lögreglu, ásamt ólögmætri birtingu persónuupplýsinga í öðrum dómum á vef Hæstaréttar. Bendir hann jafnframt á að birting dóma með viðkvæmum persónuupplýsingum geti orðið til þess að þeir sem telja á sér brotið leiti síður réttar síns fyrir dómi.

 

Kvartandi telur dómstólana, þ.e. Hæstarétt og héraðsdómstólana, hafa vanrækt þá skyldu sína að innleiða verklag og gæðaeftirlit sem tryggi að ávallt sé farið að lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sem og eigin reglum dómstólanna við birtingu dóma. Meginreglan um opinbera málsmeðferð og mikilvægi þess að upplýsingar um túlkun dómstóla á lögum og rétti séu aðgengilegar almenningi og lögmönnum krefjist hvorki nafnbirtingar né birtingar persónugreinanlegra upplýsinga í dómum. Þá sé birting dóma ekki stjórnarskrárbundin en friðhelgi einkalífs njóti hins vegar verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins sé eingöngu heimilt að takmarka friðhelgi einkalífs með sérstakri lagaheimild ef brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annarra.

 

2.
Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 2. júní 2017, var Hæstarétti Íslands boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Var þess jafnframt óskað að Persónuvernd yrði sent afrit af þeim reglum sem giltu um nafnleynd í útgáfu hæstaréttardóma þegar dómurinn, sem kvörtunin lýtur að var birtur, auk núgildandi reglna um sama efni. Í svarbréfi Hæstaréttar segir að núgildandi reglur um nafnleynd í útgáfu hæstaréttardóma séu frá 12. mars 2014, en fyrir þann tíma hafi verið í gildi reglur frá 17. desember 2002. Eftir því sem næst verði komist hafi ekki verið í gildi formlegar reglur um nafnleynd fyrir þann tíma, en stuðst hafi verið við ódagsettar verklagsreglur um nafnleynd í málum fyrir Hæstarétti. Ekki liggi fyrir upplýsingar um frá hvaða tíma þær séu. Bréfinu fylgdi afrit af fyrrgreindum reglum.

 

Með bréfi, dags. 30. júní 2017, var kvartanda boðið að tjá sig um fyrrgreint svarbréf Hæstaréttar Íslands, dags. 16. júní 2017. Athugasemdir kvartanda bárust Persónuvernd 27. júlí s.á. Þar bendir kvartandi á að þrátt fyrir kvörtunina hafi Hæstiréttur hvorki fjarlægt dóminn sem um ræðir af heimasíðu sinni né afmáð úr honum persónugreinanlegar upplýsingar. Á heimasíðu réttarins sé einnig að finna dóm í máli nr. [...], sem kveðinn var upp [...] 2016, þar sem kvartandi hafi verið málsaðili, en í honum megi finna persónuupplýsingar ásamt nákvæmum tilvísunum í aðra dóma sem snert hafi málefni kvartanda. Að öðru leyti áréttar kvartandi sjónarmið sem rakin voru í kvörtun.

 

II.
Forsendur og niðurstaða

 1.

Dómur sá, sem kvörtunin nær til, var sem fyrr segir kveðinn upp [...] 1999, þ.e. í gildistíð laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Samkvæmt 31. gr. þeirra laga hefði það komið í hlut Tölvunefndar að fjalla um það hvort umrædd birting persónuupplýsinga hefði samrýmst lögunum. Persónuvernd tók við hlutverki Tölvunefndar þegar lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, tóku gildi hinn 1. janúar 2001 og fjallar því um málið, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000. Þar sem birtingin fór hins vegar fram í gildistíð laga nr. 121/1989 fer um efnisúrlausn málsins eftir þeim lögum og öðrum þeim sérlögum sem málið varða. 

 

Persónuvernd hefur áður, í úrskurði sínum frá 16. júní 2017 (sbr. mál nr. 2016/1783 hjá stofnuninni), komist að þeirri niðurstöðu að birting persónuupplýsinga í dómum héraðsdómstóla á vefsíðunni domstolar.is heyri undir valdsvið Persónuverndar. Var það meðal annars rökstutt með vísan til þess að þó að valdsvið Persónuverndar gæti ekki náð til vinnslu dómstóla á persónuupplýsingum þegar þeir fari með dómsvald sitt, þá feli birting dóma á Netinu sem slík ekki í sér dómsathöfn. Á það jafnframt við þó að ákvörðun um nafnleynd og eyðingu persónuupplýsinga úr dómum sé tekin af dómara. Slík ákvörðun lýtur enda ekki að efni dómsins sjálfs heldur einungis að því hvaða upplýsingar skuli birtar á Netinu. Persónuvernd telur sömu rök eiga við um birtingu á dómum Hæstaréttar Íslands á heimasíðu réttarins. Þá er þess að geta að samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla fer um tilhögun útgáfu dóma Hæstaréttar eftir ákvörðun réttarins að fengnu samþykkidómsmálaráðherra. Styður þetta enn frekar þá niðurstöðu að birting dóma feli ekki í sér dómsathöfn.

 

2.
Lögmæti vinnslu

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, var eigi heimilt, án sérstakrar heimildar í öðrum lögum, að skýra frá upplýsingum þeim sem nefndar voru í 1. mgr. 4. gr. laganna, nema með samþykki hins skráða eða einhvers er heimild hafði til að skuldbinda hann. Var þar meðal annars um að ræða upplýsingar um heilsuhagi, sbr. c-lið 1. mgr. 4. gr. laganna. Kemur þá til skoðunar hvort heimilt var, samkvæmt öðrum lögum sem í gildi voru þegar fyrrgreindur dómur var kveðinn upp, að birta upplýsingar um heilsuhagi kvartanda með birtingu dómsins á heimasíðu Hæstaréttar.

 

Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla var mælt fyrir um að dómar Hæstaréttar skyldu gefnir út. Um tilhögun útgáfunnar færi eftir ákvörðun Hæstaréttar að fengnu samþykki dómsmálaráðherra. Líta verður svo á að birting dóma á heimasíðu Hæstaréttar feli í sér útgáfu þeirra. Samkvæmt svarbréfi Hæstaréttar, dags. 16. júní 2017, voru hins vegar engar reglur um tilhögun útgáfunnar, sem hlotið höfðu samþykki dómsmálaráðherra, í gildi á umræddum tíma, sbr. framangreint. Kemur þá til skoðunar hvort ákvæði laga nr. 15/1998 um dómstóla, þess efnis að dómar Hæstaréttar skyldu gefnir út, hafi falið í sér heimild til þeirrar birtingar sem hér um ræðir.

 

Persónuvernd telur að þó að ákvæðið feli vissulega í sér skyldu til að birta hæstaréttardóma geti það ekki talist fela í sér sérstaka heimild til birtingar viðkvæmra persónuupplýsinga á borð við upplýsingar um heilsuhagi, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989. Er þá jafnframt litið til þess að ekki verður annað séð en að birting þess dóms, sem hér um ræðir, á heimasíðu Hæstaréttar hefði haft sama gildi gagnvart almenningi þó að persónuauðkenni hefðu verið afmáð úr honum fyrir birtinguna. Þá ber að geta þess að samkvæmt 5. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989 var heimilt að skýra frá upplýsingum ef eigi var unnt að rekja þær til ákveðinna einstaklinga.

 

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða Persónuverndar að birtingin hafi ekki samrýmst lögum nr. 121/1989.

 

Við mat á því hvort áframhaldandi netbirting umræddra upplýsinga geti átt stoð í núgildandi lögum nr. 77/2000 er höfð hliðsjón af niðurstöðu Persónuverndar í úrskurði stofnunarinnar frá 16. júní 2017, í máli nr. 2016/1783. Í samræmi við þá niðurstöðu telur stofnunin birtinguna þurfa að styðjast við sérstaka lagaheimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, sbr. einkum 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. sbr. c-lið 8. tölul. 2. gr. laganna. Reynir þá á 11. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, með síðari breytingum, þar sem segir að dómar Hæstaréttar skuli gefnir út ásamt þeim úrlausnum héraðsdómstóla sem við eiga hverju sinni. Um tilhögun útgáfunnar fari eftir ákvörðun Hæstaréttar að fengnu samþykki ráðherra. Við útgáfu dóma skuli nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga sem eðlilegt er að leynt fari eftir reglum sem rétturinn setur.

 

Núgildandi reglur um nafnleynd í útgáfu hæstaréttardóma, settar á grundvelli laga nr. 15/1998, voru samþykktar á fundi dómara Hæstaréttar Íslands 14. febrúar 2014. Í 2. gr. þeirra segir að nafnleyndar skuli gæta um aðila og vitni í einkamálum sem fjalla um viðkvæm persónuleg málefni, svo sem í málum sem varða læknamistök. Þá segir í 4. gr. þeirra að gæta skuli nafnleyndar í einkamálum og sakamálum um viðkvæmar heilsufarsupplýsingar, svo sem sjúkdómsheiti, nema tilgreining slíkra upplýsinga sé nauðsynleg forsenda í dómi Hæstaréttar. Persónuvernd telur ljóst að í dómnum sem hér um ræðir séu birtar upplýsingar um viðkvæm persónuleg málefni kvartanda, sem varða heilsuhagi hans. Með hliðsjón af þessum ákvæðum reglna Hæstaréttar og áðurnefndu ákvæði laga nr. 15/1998 telur Persónuvernd umrædda birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga um kvartanda ekki samrýmast lögum nr. 77/2000.

 

Með vísan til alls framangreinds er lagt fyrir Hæstarétt Íslands að afmá persónugreinanlegar upplýsingar um kvartanda úr þeirri útgáfu dóms í málinu nr. [...], sem birt er á heimasíðu réttarins, þar á meðal meðfylgjandi héraðsdómi í sama máli.

 

Kvartandi hefur lýst því í málinu að hann telji ríkt tilefni til beitingar úrræða samkvæmt 40. gr. laga nr. 77/2000, þar sem fjallað er um heimild Persónuverndar til að mæla fyrir um stöðvun vinnslu persónuupplýsinga o.fl., og til þess að kæra málið til lögreglu. Vísar kvartandi þar ekki einungis til birtingar á þeim dómi sem kvörtun hans tekur til heldur einnig annarra dóma, sem birtir eru á heimasíðu Hæstaréttar. Kvörtun þessi tekur einungis til birtingar eins nánar tiltekins dóms á heimasíðu Hæstaréttar Íslands, og hefur Persónuvernd, eins og að framan greinir, mælt fyrir um að persónuauðkenni skuli afmáð úr netútgáfu þess dóms, sbr. m.a. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 77/2000. Ekki verður hins vegar fallist á að tilefni sé til að Persónuvernd kæri mál þetta til lögreglu.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

 

Vinnsla Hæstaréttar Íslands á persónuupplýsingum um kvartanda við birtingu dóms í máli nr. [...] frá [...] 1999 samrýmdist ekki lögum nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Þá samrýmist áframhaldandi netbirting umræddra upplýsinga ekki ákvæðum laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Hæstiréttur Íslands skal, eigi síðar en 30. október 2017, senda Persónuvernd staðfestingu á því að persónugreinanlegar upplýsingar um kvartanda hafi verið afmáðar úr þeirri útgáfu dómsins, sem birt er á heimasíðu réttarins.



Var efnið hjálplegt? Nei