Úrlausnir

Birting ljósmyndar á samfélagsmiðlinum Facebook

Mál nr. 2017/1182

8.3.2018

Persónuvernd hefur úrskurðað að birting föður á mynd af barni sínu á samfélagsmiðlinum Facebook, gegn andmælum barnsins, hafi ekki samrýmst lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 8. mars 2018 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2017/1182:

I.

Málsmeðferð

 

1.

Tildrög máls

Þann 15. september 2017 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir kvartandi) vegna birtingar föður [A], [B], á mynd af [A] á samfélagsmiðlinum Facebook. Í kvörtuninni kemur fram að kvartandi, sem er 15 ára [...], vilji ekki að [umrædd mynd] sé birt á tímalínu [B] á Facebook og notuð sem opnumynd þar.

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 18. september 2017, var [B] boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svari [B], sem barst Persónuvernd í tölvupósti 4. október 2018, segir meðal annars að hann standi við þá skoðun sína að kvartanir yfir birtingu fyrrgreindrar myndar séu „enn ein tálmun“ á því að hann og [A] fái að eiga eðlileg samskipti og umgengni. Þá er í tölvupóstinum að finna hlekk á blaðagrein þar sem fjallað er um vanlíðan barna vegna deilna foreldra þeirra, meðal annars í samhengi við tálmun á umgengni.

Með bréfi, dags. 28. nóvember 2017, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar [B] til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svari kvartanda, sem barst Persónuvernd í tölvupósti 12. desember 2017, segir að ekki sé um tálmun að ræða. [A vilji] ekki að [umrædd mynd] sé notuð sem opnumynd á Facebook-síðu [B], sérstaklega ekki þar sem hún sé opin og hver sem er geti skoðað hana. Þá sé einnig birt mynd af [A] annars staðar á síðunni sem [A] vilji ekki heldur að sé birt á opinni síðu.

II.

Forsendur og niðurstaða

 

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Samkvæmt framangreindu telst birting myndar af persónugreinanlegum einstaklingi á Netinu vera rafræn vinnsla persónuupplýsinga.

Í 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000 segir að lögin gildi ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota. Við mat á því hvort birting föður kvartanda á mynd af [A] á Facebook-síðu sinni falli undir þessa undanþágu frá gildissviði laganna þarf að meta hvort birtingin feli eingöngu í sér vinnslu persónuupplýsinga til persónulegra nota. Umrædd Facebook-síða er opin almenningi, en auk þess er myndin af kvartanda notuð sem opnumynd. Opnumyndir eru ávallt aðgengilegar almenningi og ekki er boðið upp á þann möguleika að takmarka aðgang að þeim. Eins og hér háttar til, og í ljósi þeirra sjónarmiða sem rakin eru í niðurlagi kafla 3.1.1 í áliti nr. 5/2009 um samfélagsmiðla frá vinnuhópi fulltrúa persónuverndarstofnana samkvæmt 29. gr. persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB, þykir því ekki fært að líta svo á að vinnslan taki aðeins til persónuupplýsinga sem ætlaðar eru til persónulegra nota og er því hér um að ræða vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000 og þar með valdsvið Persónuverndar. Til þess er þó jafnframt að líta að samkvæmt 5. gr. laganna má víkja frá ákvæðum þeirra til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar. Í ljósi skýrrar óskar kvartanda um að ljósmynd af [kvartanda] sé ekki birt á forsíðu Facebook-síðu [B] telur Persónuvernd hins vegar ekki vera hér ástæðu til beitingar þessa ákvæðis og hefur það því ekki áhrif við úrlausn málsins.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst [B] vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.

2.

Lögmæti vinnslu

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að samrýmast einhverri af kröfum 8. gr. laga nr. 77/2000. Þá verður vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, sbr. 8. tölul. 2. gr. sömu laga, að samrýmast einhverju af viðbótarskilyrðum 9. gr. laganna. Í því tilviki sem hér um ræðir verður ekki litið svo á að um sé að ræða persónuupplýsingar sem talist geti viðkvæmar eða viðkvæms eðlis, en myndin sem mál þetta snýst um er andlitsmynd af kvartanda.

Samkvæmt 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 er vinnsla persónuupplýsinga heimil sé hún nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem vernda ber samkvæmt lögum vegi þyngra. Þótt telja verði að ábyrgðaraðili geti átt lögmæta hagsmuni af því að birta mynd af barni sínu þykir engu að síður ljóst að réttindi kvartanda vegi hér þyngra, sbr. framangreint, enda hefur [A] lýst því yfir að [A] sé [andsnúin(n)] vinnslunni. Verður því ekki talið að myndbirtingin geti stuðst við heimild í 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 er vinnsla persónuupplýsinga heimil á grundvelli samþykkis hins skráða. Persónuvernd telur að vinnsla af því tagi, sem hér um ræðir, geti einkum stuðst við þetta heimildarákvæði. Samþykki hins skráða, þ.e. kvartanda, er hins vegar ekki til að dreifa í þessu tilviki, svo sem fyrr greinir. Þá þykir ekki heldur fært að styðja myndbirtinguna við þær heimildir sem tilgreindar eru í 2.-6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða Persónuverndar að birting ábyrgðaraðila á mynd af kvartanda á Facebook-síðu ábyrgðaraðila, þrátt fyrir andmæli kvartanda, samrýmist ekki 8. gr. laga nr. 77/2000. Ber honum því að fjarlægja myndina eigi síðar en 3. apríl 2018.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Birting [B] á mynd af [A] á Facebook-síðu [B] samrýmist ekki 8. gr. laga nr. 77/2000. Skal hann fjarlægja myndina af Facebook-síðu sinni eigi síðar en 3. apríl 2018.



Var efnið hjálplegt? Nei