Úrlausnir

Álit Persónuverndar um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni lögaðila

Mál nr. 2017/956

9.4.2018

Persónuvernd hefur gefið út álit um að vinnsla fjárhagsupplýsinga um Eykt hf. hjá Creditinfo Lánstrausti hf. hafi samrýmst lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og starfsleyfi Persónuverndar til handa félaginu. 

Álit

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 8. mars 2018 var veitt svohljóðandi álit í máli nr. 2017/956:

 

I.
Málsmeðferð

 

1.
Tildrög máls

Þann 21. júní 2017 barst Persónuvernd kvörtun frá Eykt ehf. (hér eftir nefnt kvartandi), vegna vinnslu Creditinfo Lánstrausts hf. á fjárhagsupplýsingum um félagið. Í kvörtuninni segir m.a. að lánshæfismat kvartanda hjá Creditinfo hafi lækkað úr tveimur í fjóra, þrátt fyrir að staða félagsins hafi batnað milli ára, þar á meðal eiginfjárhlutfall félagsins.

 

2.
Fylgigögn með kvörtun

Með kvörtun fylgdu meðal annars samskipti milli kvartanda og Creditinfo þar sem deilt er um réttmæti og áreiðanleika lánshæfismats kvartanda hjá félaginu. Kemur fram að fjármálastjóri kvartanda hafði samband við Creditinfo til að kanna orsök þess að lánshæfismat félagsins hafði farið versnandi. Í svari Creditinfo, dags. 7. febrúar 2017, við fyrirspurn félagsins segir meðal annars að hlutverk Creditinfo sé að meta líkur þess að fyrirtæki fari á skrá félagsins um fjárhagsmálefni og lánstraust, þ.e. svokallaða vanskilaskrá. Hluti af því mati felist í uppflettingum innheimtufyrirtækja í skránni, en samkvæmt svari Creditinfo var það stærsta breytan til lækkunar hjá kvartanda.

 

Með bréfi til Creditinfo, dags. 14. febrúar 2017, sem fylgdi með kvörtuninni, mótmælti kvartandi mati Creditinfo á lánshæfi sínu á þeim grundvelli að það væri rangt, villandi og gæfi ekki rétta mynd af fjárhag sínum. Segir meðal annars í bréfinu að allar kennitölur í rekstri kvartanda hafi farið batnandi, þar á meðal eigið fé félagsins. Félagið hafi verið stofnað árið 1992 og sé í dag einn stærsti byggingaverktaki landsins. Í bréfinu segir jafnframt að kvartandi telji ástæðu þess að innheimtuaðilar fletti sér upp í skrá Creditinfo um fjárhagsmálefni og lánstraust ekkert hafa að gera með lánshæfi eða fjárhagsstöðu félagsins, enda sé krafa í flestum tilfellum greidd þegar uppfletting eigi sér stað. Ástæða uppflettinganna sé sú að kvartandi greiði ekki samkvæmt greiðsluseðlum í gegnum heimabanka heldur beint með millifærslum. Af þeim sökum lendi kröfur hjá innheimtuaðilum þegar kröfuhöfum hafi láðst að fella niður kröfu eða þegar krafa sé í ágreiningi. Einnig segir að kvartandi kjósi að greiða ekki seðilgjald vegna greiðsluseðla, enda beri  honum engin skylda til greiðslu slíks gjalds, en hann telji það einnig vera meðal ástæðna þess að kröfur hafi mögulega lent hjá innheimtuaðilum. Þá er því haldið fram að vinnsla Creditinfo á upplýsingum um fjárhagsmálefni samrýmist ekki lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sér í lagi 25. og 26. gr. laganna, sem og ákvæðum reglugerðar nr. 246/2001, um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust. Í lok bréfsins er þess krafist að Creditinfo leiðrétti lánshæfismat kvartanda þannig að uppflettingar í skrá Creditinfo hafi ekki áhrif á matið.

Með kvörtuninni fylgdi einnig svarbréf Creditinfo, dags. 16. febrúar 2017, við framangreindu bréfi kvartanda. Í bréfi Creditinfo segir að félagið hafi haft samband við hlutaðeigandi innheimtufyrirtæki og kannað réttmæti uppflettinganna og réttleika þeirra krafna sem lágu að baki uppflettingunum. Á grundvelli þeirra svara hafi Creditinfo eytt áhrifum tiltekinna uppflettinga, þar sem staðfest var af hálfu kröfuhafa að þær kröfur sem voru til innheimtu höfðu verið greiddar beint til kröfuhafa. Áhrifum annarra uppflettinga hafi ekki verið eytt þar sem kröfuhafi hafi þá staðfest að viðkomandi kröfur hafi verið í innheimtu gagnvart kvartanda. Eftir að áhrifum framangreindra uppflettinga hafi verið eytt hafi lánshæfismat kvartanda hækkað úr fjórum í þrjá. Þá segir að það sé á ábyrgð kröfuhafa að senda ekki uppgreiddar kröfur í innheimtu, en svo virðist sem umrædd innheimtufyrirtæki hafi ekki verið upplýst um uppgreiðslu krafnanna fyrr en Creditinfo spurðist fyrir um réttmæti þeirra. Hafi innheimtufyrirtækin því talið sig hafa lögvarða hagsmuni af því að fletta kvartanda upp í skrá Creditinfo.

Þá segir í kvörtun að í kjölfar svara Creditinfo hafi kvartandi kannað réttmæti þeirra krafna sem hafnað var að taka úr lánshæfismati kvartanda og farið yfir þær kröfur í bréfi til Creditinfo, dags. 27. febrúar 2017. Þar segir að um sé að ræða sjö kröfur sem ýmist voru greiddar, ekki komnar á gjalddaga eða í ágreiningi. Í bréfinu segir að upphæð þeirra krafna sem um ræðir séu það óverulegar að þær ættu með engum hætti að hafa áhrif á lánshæfi kvartanda, en hann greiði hundruð krafna í hverjum mánuði og velta hans sé um 5 milljarðar á ári. Þá mótmælir kvartandi því mati Creditinfo að innheimtufyrirtækin hafi haft lögvarða hagsmuni af uppflettingu kvartanda í skrá Creditinfo á grundvelli umræddra krafna.

Í svari Creditinfo til kvartanda, dags. 10. mars 2017, segir að sérfræðingar félagsins hafi farið yfir lánshæfismat kvartanda og sú breyting sem orðið hafi á lánshæfismati, þ.e. úr tveimur í þrjá, sé ekki tilkomin vegna uppflettinga innheimtufyrirtækja heldur sé breytingin tilkomin vegna breytna í ársreikningi félagsins.

Í bréfi, dags. 27. mars. 2017, frá kvartanda til Creditinfo segir að staða kvartanda hafi stórlega batnað milli ára og telji hann skýringar félagsins því ekki standast skoðun. Með bréfinu fylgdi minnisblað, dags. 14. s.m., frá endurskoðanda kvartanda, þar sem farið er yfir fjárhagslega stöðu kvartanda og þróun fyrirtækisins milli ára. Í minnisblaðinu segir að flestar kennitölur í rekstri hafi batnað milli ára og að erfitt sé að sjá hvaða upplýsingar úr ársreikningi félagsins hafi orðið til þess að lánshæfismat kvartanda hafi versnað eins og fullyrt hafi verið í bréfi Creditinfo, dags. 10. s.m. Þá var í bréfi kvartanda til Creditinfo óskað upplýsinga um hvaða breytur í ársreikningi kvartanda hefðu orðið þess valdandi að lánshæfismat hans lækkaði.

Creditinfo svaraði fyrirspurn kvartanda með bréfi, dags. 5. apríl s.á., en þar segir m.a. að félagið hafi uppfært lánshæfismatslíkan sitt, en uppfærslan hafi verið hluti af reglubundnu endurmati á því hvaða upplýsingar hafi forspárgildi um vanskil í framtíðinni og að hversu miklu leyti þær geri það. Þegar líkanið sé uppfært breytist vægi einstakra þátta og lánshæfiseinkunn einstakra félaga geti breyst án þess að breytingar séu gerðar á undirliggjandi upplýsingum. Þá segir að meðal þeirra þátta sem hafi neikvæð áhrif á lánshæfiseinkunn kvartanda séu greiðsluhegðun, atvinnugrein og ársreikningsupplýsingar (aukning skulda, afborgunarhlutfall), en meðal jákvæðra þátta megi nefna fjölda ára í rekstri og lausafjárhlutfall kvartanda.

Einnig segir í kvörtun að kvartandi hafi sótt nýja skýrslu með lánshæfismati Creditinfo þann 8. maí 2017, en þá hafi lánshæfiseinkunn hans verið tveir, en lánshæfiseinkunn kvartanda hafi þá aftur breyst um tvo flokka, þ.e. fyrst úr tveimur í fjóra og síðar úr fjórum í tvo, án þess að nýjar fjárhagsupplýsingar hafi legið fyrir eða nokkrar sjáanlegar breytingar hafi átt sér stað.

Að auki segir að kvartandi telji lánshæfismat Creditinfo gefa ranga og villandi mynd af lánshæfi sínu og að upplýsingar um uppflettingar í vanskilaskrá gefi enga mynd af líklegum vanskilum hans og í besta falli sé um mjög villandi upplýsingar að ræða. Þá segir að kvartandi telji að vinnsla Creditinfo á upplýsingum um hann samrýmist ekki 25. og 26. gr. laga nr. 77/2000 og að með vísan til 28. gr. sömu laga mótmæli hann vinnslu upplýsinga um sig. Þá vísar kvartandi jafnframt til 1. mgr. 3. gr. fyrrnefndrar reglugerðar nr. 246/2001, um að einungis sé heimilt að vinna með upplýsingar sem eðli sínu samkvæmt hafa afgerandi þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða.

Þá segir að lokum í kvörtun að sem ábyrgðaraðila beri Creditinfo að tryggja að uppfletting sé réttmæt og ganga úr skugga um að svo sé áður en slík uppfletting hafi áhrif á lánshæfismat fyrirtækja.

 

3.
Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 19. júlí 2017, var Creditinfo boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svar barst Persónuvernd með bréfi, dags. 21. ágúst s.á. Í svarbréfinu segir m.a. að lánshæfismat Creditinfo sé tölfræðilegt reiknilíkan sem byggi á margvíslegum gögnum sem hafi mismikið vægi, s.s. upplýsingum úr skrá Creditinfo um fjárhagsmálefni og lánstraust, upplýsingum um greiðsluhegðun, upplýsingum úr ársreikningum, auk þess sem stærð og aldur félags geti haft áhrif á einkunn þess. Þá segir að það liggi í hlutarins eðli að tölfræðileg spá um atburði í framtíðinni verði að byggja á sögulegum upplýsingum, s.s. skilvísi og greiðslusögu, en alls staðar þar sem lánveitendur noti lánshæfismat séu sögulegar upplýsingar nýttar í þeim tilgangi að auka áreiðanleika þess mats. Út frá lánshæfismatinu séu fyrirtæki flokkuð á kvarðanum eitt til tíu, en fyrirtæki í flokki eitt séu líklegust til að standa við skuldbindingar sínar en þau í flokki tíu ólíklegust.

Lögmenn í innheimtustarfsemi, innheimtuaðilar, sem og aðrir áskrifendur sem geri áskriftarsamninga við Creditinfo, gangist undir skilmála um notkun upplýsinga úr gagnagrunni félagsins. Innheimtuaðilar hafi lögvarða hagsmuni af því að sækja stöðu og fylgjast með stöðu þeirra aðila á skrá félagsins um fjárhagsmálefni og lánstraust sem séu skuldarar að ógreiddum kröfum í innheimtu. Berist Creditinfo kvörtun eða ábending þess efnis að hinn skráði telji að lögvarðir hagsmunir hafi ekki verið til staðar við notkun upplýsinga úr skrám félagsins sé slíkt kannað hjá viðkomandi áskrifanda og tryggt að þær séu leiðréttar og þeim eytt, sbr. 25. gr. laga nr. 77/2000 og 5. gr. reglugerðar nr. 246/2001, hafi lögvarðir hagsmunir ekki verið til staðar. Þá sé áhrifum uppflettinga sem ekki eigi rétt á sér eytt þannig að þær hafi ekki áhrif á lánshæfismat viðkomandi.

Í svarbréfinu segir að eftir að kvartandi hafi gert athugasemdir við uppflettingar innheimtufyrirtækjanna hafi Creditinfo haft samband við hlutaðeigandi fyrirtæki til að ganga úr skugga um réttmæti uppflettinganna og réttleika gagnanna. Tvö af þremur innheimtufyrirtækjum hafi staðfest að kröfur sem lágu að baki uppflettingum á kvartanda í skrá Creditinfo hafi þá verið búið að greiða beint til kröfuhafa, en á grundvelli þeirra upplýsinga hafi áhrifum þessara uppflettinga verið eytt. Áhrifum vegna einnar kröfu hafi hins vegar ekki verið eytt þar sem viðkomandi innheimtufyrirtæki hafi staðfest að kröfur á hendur kvartanda hafi verið til innheimtu og enn verið ógreiddar þegar fyrirspurn Creditinfo var svarað.

 

Þá segir jafnframt í bréfinu:

 

„Það verður að teljast á ábyrgð kröfuhafa að senda ekki uppgreiddar kröfur í innheimtu. Það verklag sem viðhaft er hjá kvartanda, þ.e. að greiða ekki útgefna greiðsluseðla, virðist hafa valdið því að kröfur voru ekki felldar niður í kröfupotti bankanna og sendar sem ógreiddar til innheimtuaðila. Í framangreindum tilfellum sem hér um ræðir, a.m.k. í einhverjum þeirra, virðist vera að innheimtufyrirtækin hafi ekki verið upplýst um uppgreiðslu krafnanna fyrr en framangreindar fyrirspurnir bárust frá Creditinfo og telja innheimtufyrirtækin sig því vera með lögvarða hagsmuni af því að fletta viðkomandi félagi upp í VOG vanskilaskrá.“

 

Í bréfinu segir einnig að ástæða þess að lánshæfismat kvartanda lækkaði haustið 2016 hafi verið vegna uppfærslu á reiknilíkani lánshæfismats Creditinfo. Í upphafi árs 2017 hafi lánshæfiseinkunn kvartanda verið fjórir, en eftir að áhrifum uppflettinga tveggja innheimtufyrirtækja var eytt hafi forsendur matsins breyst og hafi lánshæfiseinkunn kvartanda lækkað úr fjórum í þrjá. Þá hafi lánshæfiseinkunn kvartanda lækkað þann 15. apríl 2017 úr þremur í tvo og hafi ástæðan verið sú að ákveðnar greiðsluhegðunarupplýsingar höfðu ekki lengur áhrif á matið.

Með bréfi, dags. 2. október 2017, var kvartanda veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomin svör Creditinfo. Svar kvartanda barst með bréfi, dags. 19. s.m. Í bréfinu er því m.a. mótmælt að uppflettingar innheimtuaðila í skrá Creditinfo séu sögulegar upplýsingar um lántaka og að notkun slíkra upplýsinga auki áreiðanleika lánshæfismats, heldur þvert á móti. Einnig segir að þær upplýsingar sem mestu máli skipti fyrir lánshæfi fyrirtækja séu upplýsingar úr ársreikningum og árshlutauppgjörum, en í fyrrnefndu minnisblaði frá endurskoðanda kvartanda, dags. 14. mars 2017, komi fram að staða félagsins hafi batnað milli ára. Þá segir að ef uppfletting eigi að hafa áhrif á lánshæfismat fyrirtækja þá standist það enga skoðun að varpa ábyrgð á þann sem flett er upp að fá uppflettinguna afmáða. Eigi uppflettingin að hafa slík áhrif ætti það að vera á ábyrgð Creditinfo að tryggja að uppflettingin sé réttmæt, þannig að um raunveruleg vanskil hafi verið að ræða.

 

 

II.
Forsendur og niðurstaða

 

1.
Gildissvið laga nr. 77/2000 Afmörkun máls
Ábyrgð á vinnslu

Gildissvið laga nr. 77/2000 miðast við það að unnið sé með upplýsingar um einstaklinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. tölul. 2. gr. laganna. Í 2. mgr. 45. gr. laganna er hins vegar að finna undantekningu frá þessari afmörkun gildissviðs, en þar segir meðal annars að í reglugerð skuli mælt fyrir um heimild til söfnunar og skráningar upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust fyrirtækja, svo og annarra lögaðila, í því skyni að miðla til annarra upplýsingum um það efni. Hefur verið sett reglugerð á grundvelli þessa ákvæðis, sbr. einnig 1. mgr. 45. gr. laga nr. 77/2000, þ.e. reglugerð nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. þeirrar reglugerðar er söfnun og skráning upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila, í því skyni að miðla þeim til annarra, óheimil án starfsleyfis sem Persónuvernd veitir. Hefur stofnunin veitt fjárhagsupplýsingastofunni Creditinfo slík starfsleyfi varðandi lögaðila, sbr. nú leyfi, dags. 23. desember 2016 (mál nr. 2016/1822), en leyfið er bundið því skilyrði að við meðferð upplýsinganna sé í einu og öllu farið að ákvæðum áðurnefndrar reglugerðar nr. 246/2001.

Í því máli sem er hér til meðferðar er annars vegar kvartað yfir skráningu krafna í skrá Creditinfo um fjárhagsmálefni og lánstraust lögaðila sem er eins og áður segir háð leyfi Persónuverndar. Hins vegar er jafnframt kvartað yfir áhrifum uppflettinga innheimtuaðila á skýrslu Creditinfo um lánshæfi kvartanda, þ.e. lánshæfiseinkunn hans. Hér verður að líta til 1. mgr. 1. gr. fyrrnefndrar reglugerðar nr. 246/2001 þar sem fjallað er um gildissvið hennar, en þar segir meðal annars að hún taki ekki til starfsemi sem felist í útgáfu skýrslna um lánshæfi. Þá er til þess að líta að gildissviðsafmörkun reglugerðinnar felur í sér nánari útfærslu á því hvenær vinnsla upplýsinga um lögaðila falli undir lög nr. 77/2000 á grundvelli fyrrnefnds ákvæðis 2. mgr. 45. gr. sömu laga. Fellur sú vinnsla upplýsinga um kvartanda sem felst í útgáfu skýrslna um lánshæfi lögaðila samkvæmt þessu utan gildissviðs þeirra laga, reglugerðar nr. 246/2001, starfsleyfis Persónuverndar til handa Creditinfo til vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust lögaðila og þar með verksviðs Persónuverndar eins og það er skilgreint í 37. gr. laga nr. 77/2000. Í samræmi við það er hér ekki tekið til úrlausnar hvort sú tiltekna vinnsla hafi samrýmst lögum.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar er þó til þess að líta að slík vinnsla upplýsinga um lögaðila og hér um ræðir fellur eingöngu undir þau tilteknu ákvæði laga nr. 77/2000, sem talin eru upp í 2. mgr. 45. gr. laganna, og er umrætt skilgreiningarákvæði ekki þar á meðal. Má engu að síður hafa hér hliðsjón af því og þeim sjónarmiðum sem liggja því að baki. Ber þá að líta svo á að hlutaðeigandi innheimtuaðilar beri ábyrgð á þeirri vinnslu sem felst í miðlun upplýsinga um kröfur þeirra á hendur kvartanda til skráningar hjá Creditinfo. Creditinfo ber hins vegar ábyrgð á þeirri vinnslu sem felst í varðveislu upplýsinganna í upplýsingakerfi fyrirtækisins og því að gera þær aðgengilegar þar. Þar sem ekki er kvartað yfir öðrum en Creditinfo vegna þessarar vinnslu tekur Persónuvernd ekki til úrlausnar álitaefni varðandi réttmæti skráninganna, þ. á m. um hvort þar ræði um álitaefni sem falli undir valdsvið stofnunarinnar, heldur einungis hvort Creditinfo hafi farið að skyldum sínum sem skráskrárhaldari skrár um fjárhagsmálefni og lánstraust.

Um vald Persónuverndar til að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum er fjallað í 2. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000. Það ákvæði kemur ekki fyrir í áðurgreindri upptalningu 2. mgr. 45. gr. sömu laga. Í ljósi þess hlutverks Persónuverndar að gefa leyfi til umræddrar vinnslu ber hins vegar að telja það falla undir starfssvið stofnunarinnar að veita álit um þau einstöku álitaefni sem á reynir við vinnsluna. Er það og gert í máli þessu.

 

2.
Lögmæti vinnslu

Eins og fyrr greinir segir í 2. mgr. 45. gr. laga nr. 77/2000 að í reglugerð skuli mælt fyrir um heimild til söfnunar og skráningar upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust fyrirtækja, svo og annarra lögaðila, í því skyni að miðla til annarra upplýsingum um það efni. Heimild til slíkrar starfsemi skal bundin leyfi Persónuverndar og um hana gilda einungis tiltekin ákvæði laganna eins og áður segir. Meðal þeirra ákvæða sem gilda eru 25. gr. um leiðréttingu og eyðingu rangra og villandi upplýsinga og 26. gr. um eyðingu og bann við notkun upplýsinga sem hvorki eru rangar né villandi. Ákvæði sambærilegt við 25. gr. laganna er að finna í í 5. gr. reglugerðar nr. 246/2001, en þar segir að ef fjárhagsupplýsingastofa hafi unnið upplýsingar sem séu rangar, villandi eða ófullkomnar, eða þegar persónuupplýsingar hafi verið skráðar án tilskilinnar heimildar, skuli hún sjá til þess að upplýsingarnar verði leiðréttar, þeim eytt eða við þær aukið ef umræddur annmarki geti haft áhrif á hagsmuni hins skráða. Þá segir í 3. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar að ef fjárhagsupplýsingastofu sé kunnugt um að sú krafa sem liggur skráningu til grundvallar hafi verið greidd eða komið í skil með öðrum hætti sé henni óheimilt að miðla upplýsingum um nafn viðkomandi. Sýni skráður aðili fjárhagsupplýsingastofu fram á að krafa hafi verið að fullu greidd eða komið í skil með öðrum hætti ber fjárhagsupplýsingastofunni að stöðva alla frekari miðlun upplýsinganna.

Ábyrgðaraðila ber að rækja þær skyldur sem fram koma í 25. gr. laga nr. 77/2000 að eigin frumkvæði þegar hann fær vitneskju um að skráðar hafi verið rangar eða villandi upplýsingar. Í málinu liggur fyrir að þegar Creditinfo barst athugasemd kvartanda við þær skráningar hjá fyrirtækinu, sem um ræðir í máli þessu, hafði fyrirtækið samband við hlutaðeigandi innheimtufyrirtæki, kannaði réttmæti skráninganna og eyddi þeim skráningum sem fyrir lá að ekki áttu rétt á sér. Þá liggur fyrir að kannað var í tengslum við einstakar uppflettingar á kvartanda í skrá Creditinfo um lögaðila hvort réttmætar kröfur lágu að baki uppflettingunum og áhrifum þeirra á lánshæfismat eytt þegar svo reyndist ekki vera. Verður með hliðsjón af framangreindu ekki talið að Creditinfo hafi brotið gegn 25. gr. laga nr. 77/2000, 5. gr. og 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 246/2001 eða starfsleyfi Persónuverndar til handa Creditinfo.

Í fyrrnefndri 26. gr. laga nr. 77/2000 segir að þegar ekki sé lengur málefnaleg ástæða til varðveislu upplýsinga skuli ábyrgðaraðili eyða þeim, en málefnaleg ástæða til varðveislu geti meðal annars byggst á fyrirmælum í lögum. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 246/2001 skal eyða jafnharðan úr skrám fjárhagsupplýsingastofu upplýsingum sem eru eldri en fjögurra ára nema annað sé sérstaklega heimilið í starfsleyfi frá Persónuvernd. Þá segir í 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar að fjárhagsupplýsingastofa skuli skrá upplýsingar um nafn og heimilisfang fyrirspyrjanda og hverjum fyrirspyrjandi hefur flett upp og að varðveita skuli þær upplýsingar í a.m.k. 2 ár. Liggur ekki fyrir að við varðveislu upplýsinga um kvartanda hafi verið brotið gegn þessum ákvæðum.

Með vísan til framangreinds er niðurstaða Persónuverndar sú að vinnsla Creditinfo á upplýsingum um Eykt ehf. hafi samrýmst lögum nr. 77/2000, reglugerð nr. 246/2001 og fyrrgreindu starfsleyfi til Creditinfo.

 

 

Á l i t s o r ð: 

Vinnsla Creditinfo Lánstrausts hf. á fjárhagsupplýsingum um Eykt ehf. samrýmdist lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, reglugerð nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust og starfsleyfi Persónuverndar til handa Creditinfo til vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust lögaðila, dags. 23. desember 2016.



Var efnið hjálplegt? Nei