Fréttir

Sektir vegna skráningar upplýsinga frá eCommerce 2020 og Almennri innheimtu hjá Creditinfo Lánstrausti

Mál nr. 2020061901, 2022111927 og 2023050850

4.7.2023

Hinn 27. júní 2023 lauk Persónuvernd málum vegna skráningar upplýsinga frá eCommerce 2020 ApS um vanskil á svonefndum smálánum hjá fjárhagsupplýsingastofunni Creditinfo Lánstrausti hf. Neytendasamtökin höfðu kvartað yfir stofunni árið 2020 með vísan til lántökukostnaðar og reyndi á hvort í ljósi úrlausna þar til bærra aðila um ólögmæti hans hefði skráningin brotið gegn lögmætisskilyrði persónuverndarlöggjafarinnar.

Í kjölfar úrlausna frá dómstólum gat ekki lengur reynt á þetta atriði sérstaklega, en við athugun á lánaskilmálum eCommerce 2020 ApS á síðari stigum kom hins vegar í ljós að þar til seint í maí 2019 hafði vantað ákvæði í lánaskilmála um að við nánar tilgreind vanskil kæmi til vanskilaskráningar. Taldi Persónuvernd ljóst að umrædd skráning hefði einkum getað helgast af ákvæði sem þessu í samræmi við skilyrði í starfsleyfi Creditinfo Lánstrausts hf., en auk þess lá fyrir að skráðar höfðu verið kröfur að höfuðstól undir lágmarksfjárhæð samkvæmt skilmálum leyfisins.

Byggt var á því í úrskurði Persónuverndar í kvörtunarmálinu að fjárhagsupplýsingastofunni bæri að kanna hvort kröfur, sem henni væru sendar til skráningar, fullnægðu skráningarskilyrðum. Jafnframt taldi stofnunin að hvað umræddar kröfur snerti hefði Creditinfo Lánstraust hf. ekki farið nægilega að þeirri skyldu og var af því tilefni lögð sekt á fjárhagsupplýsingastofuna.

Við ákvörðun þar að lútandi og um fjárhæð sektarinnar var litið til fjölda hinna skráðu, þess að vinnslan tengdist kjarnastarfsemi stofunnar, þess að starfsemi stofunnar var ætlað að skila hagnaði, tafar á eyðingu skráninga eftir að misbrestur á skráningarskilyrðum kom í ljós, svo og hins sérlega íþyngjandi eðlis vinnslunnar, m.a. í tengslum við möguleika hinna skráðu á lánafyrirgreiðslu vegna íbúðakaupa eða ófyrirséðra útgjalda. Einnig var vísað til þess að skoðun, sem stofan gerði á umræddum skráningum, fór ekki fram fyrr en að fengnum ábendingum utanaðkomandi, en jafnframt var þó tekið tillit til þess að með skoðuninni var brugðist við ábendingunum af sjálfsdáðum þannig að skráningum var að endingu eytt. 

Með vísan til framangreinds og annars þess sem á reyndi í málinu var sektarfjárhæð ákvörðuð 37.856.900 krónur, þ.e. 2,5% af ársveltu Creditinfo Lánstrausts hf. samkvæmt síðasta ársreikningi.

Þá voru gefnar út ákvarðanir um álagningu sekta á eCommerce 2020 ApS og fyrrum innheimtaðila þess félags, A.I.C. ehf. (áður Almenna innheimtu ehf.), fyrir sendingu krafnanna til skráningar þrátt fyrir að áðurnefnt ákvæði í lánaskilmálum skorti. Byggt var meðal annars á sömu sjónarmiðum og fyrr greinir um fjölda hinna skráðu, það að starfsemin tengdist kjarnastarfsemi viðkomandi, það að hún fór fram fram í hagnaðarskyni og hið íþyngjandi eðli vinnslunnar. Einnig var hins vegar litið til þess að umsvif eCommerce 2020 ApS og A.I.C. ehf. höfðu dregist verulega saman frá því að atvik máls áttu sér stað, en að því virtu, auk annars sem á reyndi í málunum, nam sekt fyrrnefnda aðilans 7.500.000 krónum og þess síðarnefnda 3.500.000 krónum.

Úrskurður vegna kvörtunar Neytendasamtakanna yfir Creditinfo Lánstrausti hf

Ákvörðun varðandi eCommerce ApS

Ákvörðun varðandi A.I.C. ehf.Var efnið hjálplegt? Nei