Fréttir

Sekt vegna öryggisveikleika í Heilsuveru

Mál nr. 2020061844

3.7.2023

Persónuvernd hefur lagt stjórnvaldssekt, að upphæð 12.000.000 króna, á embætti landlæknis vegna öryggisveikleika í upplýsingavefnum Heilsuveru. Embættið hafði tilkynnt um öryggisbrest þegar tveir einstaklingar náðu að sjá gögn sér óviðkomandi. Annars vegar var það vegna veikleika í skilaboðahluta Heilsuveru sem fól í sér að með breytingu á tengistreng gat innskráður notandi nálgast sér óviðkomandi skilaboð sem gátu verið persónugreinanleg. Hins vegar var það vegna veikleika sem gerði innskráðum notendum í mæðraverndarhluta Heilsuveru, sem fengið höfðu aðgang að sónarmynd úr sjúkraskrárkerfi annarrar af tveimur heilbrigðisstofnunum, kleift að sjá viðhengi annarra einstaklinga í sjúkraskrárkerfi viðkomandi stofnunar með breytingu á vefslóð. Framangreint var talið brjóta gegn upplýsingaöryggiskröfum. Viss atriði voru metin til málsbóta, þ. á m. þær öryggisráðstafanir sem viðhafðar eru í Heilsuveru almennt. Í ljósi meðal annars viðkvæms eðlis umræddra upplýsinga og misvísandi og efnislega rangra skýringa við rannsókn málsins var hins vegar komist að þeirri niðurstöðu um sektarálagningu sem fyrr greinir.

Ákvörðun Persónuverndar



Var efnið hjálplegt? Nei