Fréttir

Rafræn vöktun af hálfu Íþrótta- og sýningahallarinnar hf. í Laugardalshöll

28.2.2023

Persónuvernd hefur komist að niðurstöðu vegna frumkvæðisathugunar varðandi rafræna vöktun af hálfu Íþrótta- og sýningahallarinnar hf. í rými Laugardalshallar. Upphaf málsins mátti rekja til fréttaflutnings þess efnis að virkar eftirlitsmyndavélar væru til staðar í rými Laugardalshallar þar sem börn, sem tóku þátt í knattspyrnumóti, höfðu gistiaðstöðu. Takmarkaðist frumkvæðisathugunin ekki við vinnslu persónuupplýsinga á umræddu knattspyrnumóti heldur afmarkaðist hún við það þegar aðrir en rekstraraðili hússins fengu það til afnota í tengslum við viðburðahald.

Niðurstaða Persónuverndar var sú að vinnsla persónuupplýsinga, sem til verða við rafræna vöktun Íþrótta- og sýningahallarinnar hf. á viðburðum í Laugardalshöll, samrýmist ekki ákvæðum persónuverndarlöggjafarinnar um vinnsluheimildir og meginreglum um málefnalegan tilgang og gagnsæi. Þá brjóti fyrirtækið einnig gegn ákvæðum um fræðsluskyldu og skyldu til að gera viðvart um vöktunina með merkingum.

Persónuvernd lagði fyrir Íþrótta- og sýningahöllina hf. að láta af rafrænni vöktun í Laugardalshöll nema ef mat á vinnslu persónuupplýsinga leiði í ljós að eignavörslu- og öryggishagsmunir félagsins gangi framar einkalífshagsmunum gesta hússins. Persónuvernd lagði einnig fyrir Íþrótta- og sýningahöllina hf. að uppfæra merkingar til samræmis við gildandi reglur um rafræna vöktun.

Ákvörðun Persónuverndar.Var efnið hjálplegt? Nei