Fréttir

Persónuvernd hefur fellt niður athugun sína á framkvæmd íslenskra dómstóla við birtingu persónuupplýsinga í dómum á Netinu

20.4.2022

Persónuvernd hefur sent dómstólum landsins bréf og tilkynnt að stofnunin hafi fellt niður frumkvæðisathugun sína á framkvæmd dómstólanna við birtingu persónuupplýsinga í dómum á Netinu með vísan til dóms Evrópudómstólsins frá 24. mars 2022 í máli nr. C-245/20. Dómurinn varðar undanþágu frá valdsviði eftirlitsyfirvalda samkvæmt evrópsku persónuverndarreglugerðinni, sem vísar til þess þegar dómstólar fara með dómsvald sitt. Í niðurstöðu dómsins segir að vinnsla persónuupplýsinga framkvæmd af dómstólum í sambandi við upplýsingastefnu þeirra (e. in context of their communication policy) varðandi mál sem þeir hafa til meðferðar falli utan valdsviðs eftirlitsyfirvalda samkvæmt reglugerðinni.

Dóm Evrópudómstólsins má lesa hér.

Efni: Tilkynning um niðurfellingu athugunar Persónuverndar á framkvæmd íslenskra dómstóla við birtingu persónuupplýsinga í dómum á Netinu

Persónuvernd vísar til fyrri samskipta vegna frumkvæðisathugunar stofnunarinnar á framkvæmd íslenskra dómstóla við birtingu persónuupplýsinga í dómum á Netinu.

Með vísan til dóms Evrópudómstólsins frá 24. mars síðastliðnum í máli nr. C-245/20 hefur Persónuvernd fellt niður framangreinda athugun og lokað málinu í málaskrá stofnunarinnar.

I.

Verkefnum Persónuverndar er lýst í 39. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þar segir meðal annars að stofnunin annist eftirlit með framkvæmd laganna, reglugerðar (ESB) 2016/679, sérákvæða í lögum sem fjalla um vinnslu persónuupplýsinga og annarra reglna um efnið. Frumkvæðisathuganir stofnunarinnar byggjast á 3. mgr. sömu greinar þar sem segir að hún geti fjallað um einstök mál og tekið í þeim ákvörðun að eigin frumkvæði.

Kveðið er á um efnislegt gildissvið laga nr. 90/2018 og reglugerðar (ESB) 2016/679 í 4. gr. laganna. Þar segir í 4. mgr. að lögin og reglugerðin gildi ekki um vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram þegar dómstólar fara með dómsvald sitt. Þá segir í 3. mgr. 55. gr. reglugerðarinnar að eftirlitsyfirvöld skuli ekki vera til þess bær að hafa eftirlit með vinnsluaðgerðum dómstóla þegar þeir fara með dómsvald sitt.

Í athugasemdum við 4. gr. frumvarps að lögum nr. 90/2018 segir að tilvísun í 4. mgr. til dómsvaldshugtaksins þýði að undanþágan eigi ekki við um starfsemi dómstóla sem falli ekki beint undir dómsvald þeirra, þar á meðal þegar um ræðir birtingu dóma á Netinu og er meðal annars vísað til úrskurðar Persónuverndar frá 16. júní 2017 í máli nr. 2016/1783.

Sambærilegt ákvæði og nú er í 4. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018 var ekki í eldri persónuverndarlögum nr. 77/2000 en með vísan til ákvæða stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvalds taldi Persónuvernd sig þó ekki bæra til að fjalla efnislega birtingu persónuupplýsinga í dómum á Netinu þar sem um ræddi ákvarðanir sem teknar væru af dómurum eða dómstólaráði, sem starfaði í umboði dómara, sbr. frávísun máls nr. 2011/1339 hjá stofnuninni. Frá þessari framkvæmd var vikið með fyrrgreindum úrskurði Persónuverndar 16. júní 2017 í máli nr. 2016/1783. Var það meðal annars rökstutt með vísan til þess að þótt valdsvið Persónuverndar gæti ekki náð til vinnslu dómstóla á persónuupplýsingum þegar þeir færu með dómsvald sitt, væri það mat stofnunarinnar að birting dóma á Netinu fæli ekki í sér dómsathöfn. Ætti það jafnframt við þótt ákvörðun um nafnleynd og úrfellingu persónuupplýsinga væri tekin af dómara. Slík ákvörðun lyti enda ekki að efni dómsins sjálfs heldur einungis að því hvaða upplýsingar skyldu birtar á Netinu.

Með hliðsjón af þessum athugasemdum við undanþáguákvæði 4. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018 hefur Persónuvernd hingað til litið svo á að það heyri undir valdsvið hennar, samkvæmt lögunum, að fjalla um birtingu persónuupplýsinga í dómsúrlausnum á Netinu.

II.

Hinn 24. mars 2022 kvað Evrópudómstóllinn upp dóm í máli nr. C-245/20 sem varðaði undanþágu frá valdsviði eftirlitsyfirvalda samkvæmt 3. mgr. 55. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, sem vísar til þess þegar dómstólar fara með dómsvald sitt. Í málinu var fjallað um afhendingu dómstóls á dómskjölum til blaðamanns. Í niðurstöðu dómsins segir að vinnsla persónuupplýsinga framkvæmd af dómstólum í sambandi við upplýsingastefnu þeirra (e. in context of their communication policy) varðandi mál sem þeir hafa til meðferðar, þar á meðal að veita blaðamönnum tímabundinn aðgang að dómskjölum til þess að geta fjallað um málin í fjölmiðlum, falli utan valdsviðs eftirlitsyfirvalda samkvæmt 3. mgr. 55. gr. reglugerðarinnar. Áréttað er í dóminum að skýrt sé að miðlun persónuupplýsinga úr dómskjölum til blaðamanna, til þess að þeir geti greint frá gangi dómsmála eða varpað ljósi á niðurstöður að öðru leyti, sé tengd beitingu dómstóla á dómsvaldi sínu. Eftirlit yfirvalds, sem standi utan dómsvaldsins, með þessari vinnslu persónuupplýsinga væri því til þess fallið að grafa almennt undan sjálfstæði dómstólanna.

Með hliðsjón af þessari niðurstöðu og tilvísun Evrópudómstólsins til vinnslu persónuupplýsinga í sambandi við upplýsingastefnu dómstóla lítur Persónuvernd nú svo á að stofnunin sé ekki bær til að fjalla um vinnslu persónuupplýsinga sem er framkvæmd af dómstólum í sambandi við birtingu dóma á Netinu, sbr. 3. mgr. 55. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.

Að því virtu er athugun Persónuverndar á framkvæmd dómstóla við birtingu persónuupplýsinga í dómum á Netinu felld niður.

Af niðurstöðu Evrópudómstólsins má einnig leiða að samkvæmt 4. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018 gildi lögin og reglugerð (ESB) 2016/679 ekki að íslenskum rétti um vinnslu persónuupplýsinga sem er framkvæmd af dómstólum í sambandi við birtingu dómsúrlausna á Netinu. Það má þó ráða af fjölda ákvæða reglugerðarinnar, sbr. og 20. lið formálsorða hennar, að henni er ætlað að gilda um vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram þegar dómstólar fara með dómsvald sitt þótt valdsvið eftirlitsyfirvalda eigi ekki að ná til þeirrar vinnslu. Persónuvernd leggur því áherslu á að meginreglur persónuverndarlög­gjafarinnar verði áfram hafðar að leiðarljósi við þá vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram þegar dómstólar fara með dómsvald sitt.

F.h. Persónuverndar,

Þórður Sveinsson                Valborg Steingrímsdóttir

Samrit bréfs sent Hæstarétti, Landsrétti, héraðsdómstólum landsins og Félagsdómi. Afrit sent dómsmála­ráðuneytinu og dómstólasýslunni til upplýsinga.



Var efnið hjálplegt? Nei