Fréttir

Viðkvæmar persónuupplýsingar á heimasíðum. Bréf til dómsmálaráðherra

23.9.2009

Í framhaldi af nokkrum erindum sem Persónuvernd hafa borist, og lúta að birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga á heimasíðum, hefur hún sent dómsmálaherra bréf og kynnt hugmynd að tilteknu réttarúrræði.

 

Meðal þess sem reynt hefur á í framkvæmd Persónuverndar er lögmæti birtingar persónuupplýsinga á Netinu. Eins og fjallað er um hér að neðan getur meðferð mála þar að lútandi verið vandkvæðum háð. Með vísan til 3., 4. og 6. tölul. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga hefur stjórn Persónuverndar ákveðið að vekja athygli hæstvirts dómsmálaráðherra á tilteknum atriðum í því sambandi og leggja til úrræði sem beita má þegar efni er birt með ólögmætum hætti.

Við birtingu persónuupplýsinga á Netinu getur reynt á 5. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar segir:

„Að því marki sem það er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar má víkja frá ákvæðum laganna í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta. Þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi gilda aðeins ákvæði 4. gr., 1. og 4. tölul. 7. gr., 11.–13. gr. og 24., 28., 42. og 43. gr. laganna."

Valdheimildir Persónuverndar, sbr. 40. gr. laga nr. 77/2000, ná ekki til vinnslu sem eingöngu fer fram í þágu fréttamennsku og bókmennta eða lista. Þótt um annars konar vinnslu sé að ræða kunna atvik að vera þannig að þessum heimildum verður ekki beitt. Mál kunna að vera þannig að nauðsyn sé á rannsókn sem aðeins lögregla getur haft með höndum. Sem dæmi má taka að ekki liggi fyrir hver færði upplýsingar á Netið sem ólögmætt er að birta og sérstakra rannsóknarúrræða lögreglu er þörf til að upplýsa um það. Þá getur það valdið erfiðleikum við að framfylgja lögum ef vefsíða er vistuð á netþjóni erlendis þannig að hýsingaraðili sé ekki bundinn af íslenskum lögum. Jafnvel þótt fyrir liggi hverjir hér á landi hafa fært inn efni og, eftir atvikum, gerst brotlegir við lög getur því reynst örðugt í framkvæmd að koma því til leiðar að ólögmætt efni verði fjarlægt af Netinu.

Sem dæmi um hvernig reynt getur á þetta má nefna heimasíðuna ringulreid.org. Umræða skapaðist um að á spjallþráðum, sem þar var að finna, væru birtar upplýsingar um einstaklinga sem mjög óviðeigandi væri að birta. Þá væru birtar þar myndir af unglingum undir 18 ára aldri sem gætu falið í sér brot gegn ákvæðum 210. gr. hegningarlaga um refsingu vegna barnakláms. Svo fór að fjarskiptafyrirtækin Síminn hf. og Vodafone hf. lokuðu fyrir aðgang að síðunni vegna efnis hennar eftir að ýmis samtök, þ. á m. Barnaheill og Heimili og skóli, auk Barnaverndarstofu og lögregluembætta, höfðu farið fram á það.

Í tilvikum sem þessum getur verið rík þörf á að tiltekið efni sé tekið úr umferð þar sem með birtingu þess sé t.d. brotið gegn lögum nr. 77/2000, framangreindu ákvæði 210. gr. hegningarlaga eða 229. laganna þar sem mælt er fyrir um refsingu við því að skýra opinberlega frá einkamálefnum annars manns án þess að fyrir því séu nægar ástæður.

Einnig getur hins vegar reynt á álitaefni varðandi það hvort vega skuli þyngra rétturinn til friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, eða rétturinn til tjáningarfrelsis, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Það samrýmist betur við réttaröryggi að mælt sé fyrir um slíkt réttarúrræði í lögum og dómstólum falið að skera úr um hvenær skilyrði laga eru uppfyllt til að nota þau, heldur en að fjarskiptafyrirtæki eða aðrir taki ákvarðanir um mál er varða slík grundvallarréttindi.

Lagaákvæði um dómsmeðferð mætti útfæra með þeim hætti að í lög væri sett heimild fyrir dómstóla til þess að úrskurða að kröfu lögreglu eða þess sem misgert er við að fjarskiptafyrirtæki hér á landi skuli loka fyrir aðgang viðskiptavina að tiltekinni síðu þar sem ólögmætt efni kemur fram. Í lögum um slíka heimild dómstóla mætti mæla fyrir um almenn skilyrði sem fullnægja bæri til að úrræðið væri tækt. Þannig væri þess gætt að úrræðið stæði aðeins opið þegar sjónarmið um einkalífsvernd vega án nokkurs vafa miklum mun þyngra en sjónarmið um tjángingarfrelsi. Slíkt ákvæði myndi því fullnægja kröfum 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar um takmarkanir við tjáningarfrelsi þar sem fram kemur að þær skulu settar í þágu allsherjarreglu og til verndar réttinda og mannorðs annarra.

Með vísan til þessa leyfir Persónuvernd sér hér með að leggja til við hæstvirtan ráðherra að skipuð verði nefnd til þess að rannsaka hvort fýsilegt sé að setja í lög slíkt úrræði fyrir dómstóla sem lýst er hér að framan. Nákvæmlega hversu þröngt eða vítt slíkt úrræði á að vera er endanlega komið undir pólitísku mati löggjafans innan ramma ákvæða 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.




Var efnið hjálplegt? Nei