Fréttir

Fésbókin lofar betri persónuvernd

4.9.2009

Stjórnendur Fésbókarforritsins (Facebook) vilja einfalda stjórn notenda á persónuupplýsingum sínum við notkun Fésbókarinnar.

 

08Stjórnendur Fésbókarforritsins (Facebook) vilja einfalda stjórn notenda á persónuupplýsingum sínum við notkun Fésbókarinnar.

Eftir skoðun kanadísku persónuverndarstofnunarinnar á reglum Fésbókar um vernd persónuupplýsinga hefur Fésbókin ákveðið að gera nokkrar breytingar og upplýsa notendur betur um hvernig persónuupplýsingar þeirra eru notaðar og hvernig mögulega er hægt að nota þær.

Víðtækar breytingar

Umræddar breytingar munu ekki aðeins gilda fyrir kanadíska notendur Fésbókarinnar heldur alla 250 milljón notendur síðunnar um heim allan. 

Breytingarnar varða annars vegar svokallaðar viðbætur (e. applications), þ.e. þriðju-aðila forritin, og eyðingu heimasvæðis (e. profile) hins vegar. Um er að ræða tvö svið Fésbókar sem hún hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir.

Viðbætur

Fésbókin hefur sætt gagnrýni fyrir litla upplýsingagjöf um hvernig þriðju aðilar fái aðgang að upplýsingum notenda. Kanadíska persónuverndarstofnunin lagði sérstaka áherslu á að fá upplýsingar um aðgang viðbóta að upplýsingum notenda. Um er að ræða t.d. leikja-, keppnis- og stefnumótaforrit. Við notkun þessara viðbóta í dag fær notandi stutt skilaboð um að þeir sem þrói forritið vilji aðgang að öllum upplýsingum notandans í formi mynda og texta sem notandinn hefur sett inn á heimasvæði sitt. Notendur hafa þó enga stjórn á eða vitneskju um hvernig umræddir aðilar nota upplýsingarnar.

Eftir skoðun kanadísku stofnunarinnar hafa stjórnendur Fésbókar ákveðið að breyta kerfi sínu. Fésbókin vill gera notendum kleift að stjórna hvaða upplýsingum þeir deila með þeim er þróa viðbætur.

Eyðing heimasvæðis

Stjórnendur Fésbókar vilja einnig einfalda eyðingu heimasvæða fyrir notendur. Þar að auki vilja þeir skýra notendaskilmála sína betur í sambandi við dauðsföll notenda.

Stjórnendur Fésbókar telja að það muni taka eitt ár að gera umræddar breytingar.




Var efnið hjálplegt? Nei