Fréttir

Álit 29. gr. starfshópsins um leitarvélar

4.7.2008

 

Hinn 4. apríl sl., samþykkti ráðgjafarhópur skv. 29. gr. Evróputilskipunar um persónuvernd nýtt álit varðandi leitarvélar og einkalífsvernd.

 

Hinn 4. apríl sl., samþykkti 29. gr. starfshópurinn álit hvað varðar leitarvélar og einkalífsvernd. Leitarvélar eru orðnar hluti af daglegu lífi einstaklinga sem nota Netið og tækni til upplýsingaheimtar. 29. gr. starfshópurinn viðurkennir notagildi þeirra og mikilvægi.

Í þessu áliti skilgreinir starfshópurinn með skýrum hætti þá ábyrgð sem hvílir á veitendum leitarvélarþjónustu, samkvæmt persónuverndartilskipuninni (nr. 95/46/EB), sem ábyrgðaraðilum notendaupplýsinga. Í sérstökum tilvikum gildir evrópsk persónuverndarlöggjöf einnig um efnisupplýsingar sem finnast í leitarvélum (þ.e. yfirlit leitarniðurstaðna), t.d. ef upplýsingar eru vistaðar í skyndiminni eða ef leitarvélarnar sérhæfa sig í að búa til persónusnið um netnotendur. Meginmarkmiðið með álitinu er að ná hæfilegu jafnvægi á milli lögmætra viðskiptahagsmuna þjónustuveitenda og verndar persónuupplýsinga um internetnotendur.

Í álitinu er fjallað um skilgreiningu hugtaksins leitarvél, þær tegundir upplýsinga sem unnið er með í leitarvélum, lagarammann, lögmætan tilgang og lagagrundvöll vinnslunnar, fræðsluskyldu og réttindi hinna skráðu einstaklinga.

Meginniðurstaða álitsins er að persónuverndartilskipunin taki almennt til vinnslu persónuupplýsinga í leitarvélum, jafnvel þótt þjónustuveitendur hafi staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins. Áhersla er lögð á umfjöllun um þjónustuveitendur sem eru í þessari stöðu, í því skyni að skýra betur lagalega stöðu þeirra innan Evrópska efnahagssvæðisins og umfang þeirrar ábyrgðar sem hvílir á þeim samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar. Skýrlega kemur fram að tilskipun nr. 2006/24/EB, um varðveislu fjarskiptaupplýsinga, taki ekki til veitenda leitarvélarvélaþjónustu.

Í niðurstöðum álitsins kemur fram að persónuupplýsingar megi aðeins vinna í lögmætum tilgangi. Veitendur leitarvélarþjónustu verði að eyða persónuupplýsingum, eða gera þær ópersónugreinanlegar með varanlegum hætti, þegar þær þjóna ekki lengur þeim skýrt tilgreinda og lögmæta tilgangi sem þeirra var aflað í og þeir verði ávallt að geta fært rök fyrir varðveislutíma persónuupplýsinga, þ. á m. kakna (smygilda). Leita verði eftir samþykki notandans fyrir allri fyrirhugaðri samkeyrslu notendaupplýsinga og viðbótum við notendasnið. Leitarvélar verði að virða bannmerkingar vefstjóra og tafarlaust eigi að verða við beiðnum notenda um að uppfæra skyndiminni. Starfshópurinn minnir á að að veitendum leitarvélarþjónustu ber að veita notendum sínum réttar upplýsingar um alla fyrirhugaða notkun um þá og virða réttindi þeirra til að fá greiðan aðgang að persónuupplýsingum sem unnar eru um þá, að skoða upplýsingarnar og fá þær leiðréttar í samræmi við 12. gr. persónuverndartilskipunarinnar (nr. 95/46/EB).

Álit 29. gr. starfshópsins um leitarvélar.




Var efnið hjálplegt? Nei