Fréttir

62. fundur 29. gr. starfshópsins

23.10.2007

62. fundur hins sk. 29. gr. starfshóps var haldinn í Brussel 9.-10. október síðastliðinn. Hann var sóttur af Sigrúnu Jóhannesdóttur, forstjóra.

Evrópusambandið62. fundur hins sk. 29. gr. starfshóps var haldinn í Brussel 9.-10. október síðastliðinn. Hann var sóttur af Sigrúnu Jóhannesdóttur, forstjóra.

29. gr. starfshópurinn sinnir ráðgjafarhlutverki um persónuverndarmálefni í EB og hefur m.a. það hlutverk að stuðla að samræmingu í framkvæmd persónuverndarlöggjafar í Evrópu. Persónuvernd á áheyrnaraðild að hópnum og tekur virkan þátt í starfi hans.

Ýmis mál voru á dagskrá en þau helstu eru eftirfarandi:

SWIFT-málið

Starfshópurinn hefur haft til skoðunar hvernig bankar uppfylla fræðsluskylduna gagnvart viðskiptavinum sínum að því er varðar aðgang bandarískra stjórnvalda að SWIFT-upplýsingum, þ.e. upplýsingar um millifærslur fjármagns. Upplýsingar frá aðildarríkjunum benda til þess að þar hafi orðið breyting til batnaðar, en persónuverndarstofnanir munu halda áfram að fylgjast með stöðu mála.

Þá hefur SWIFT upplýst starfshópinn um ráðstafanir sem samtökin hafa gert til þess að tryggja gagnsæi og skipulagsbreytingar, sem m.a. felast í því að í árslok 2009 verður stofnuð ný rekstrarmiðstöð í Sviss. Eftir það verða upplýsingar um millifærslur innan Evrópu ekki unnar í Bandaríkjunum. Millifærslur til Bandaríkjanna verða þó áfram unnar í Bandaríkjunum og ekki hefur verið tekin ákvörðun hvar upplýsingar um millifærslur til landa utan Evrópu og Bandaríkjanna verða unnar.

Nýr samningur Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um flutning farþegaupplýsinga

Í samræmi við álit starfshópsins nr. 5/2007 sendi hópurinn bréf til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og óskaði eftir frekari skýringum á ýmsum atriðum sem ekki þóttu skýr.

Eitt þessara atriða varðar aðferðina við flutning farþegaupplýsinga. Þrátt fyrir að evrópsk flugfélög hafi stefnt að því að skipta yfir í sk. „push"-kerfi í árslok virðist ekki lengur raunhæft að það gangi eftir. „Push"-kerfi felur í sér að flugfélögin sendi upplýsingarnar sjálf til bandarískra stjórnvalda í stað þess að stjórnvöld afli upplýsinganna úr tölvukerfum þeirra. Starfshópurinn hefur því kallað eftir upplýsingum frá báðum samningsaðilum um hvað standi þessu í vegi.

Starfshópurinn minnti einnig á skyldu flugfélaga til þess að veita farþegum með hæfilegum fyrirvara fullnægjandi fræðslu um flutning farþegaupplýsinga til bandarískra stjórnvalda.

Meðferð farþegaupplýsinga innan Evrópusambandsins

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti fyrir starfshópinum fyrirætlanir sínar um meðferð farþegaupplýsinga innan Evrópusambandsins. Starfshópurinn vísaði til fyrri afstöðu sinnar og lagði áherslu á að meðferð slíkra upplýsinga hefði áhrif á milljónir ferðamanna árlega og að taka yrði tillit til hagsmuna bæði farþega og flugfélaga. Mikilvægt væri að ná réttu jafnvægi á milli einkalífshagsmuna annars vegar og öryggis- og löggæsluhagsmuna hins vegar.

Stig verndar í Færeyjum og Jersey

Á fundinum samþykkti starfshópurinn álit um að stig verndar persónuupplýsinga í Færeyjum annars vegar og Jersey hins vegar teljist fullnægjandi í skilningi evrópusku persónuverndartilskipunarinnar. Þar sem starfshópurinn er framkvæmdastjórninni til ráðgjafar um persónuverndarmálefni í Evrópusambandinu má gera ráð fyrir að litið verði til álitsins þegar framkvæmdastjórnin tekur ákvörðun um stig verndar í þessum löndum. Ákvörðun um fullnægjandi stig verndar auðveldar mjög miðlun persónuupplýsinga til landa sem ákvörðunin snýr að.

Einkaréttarlegar sjúkrakostnaðartryggingar

Starfshópurinn hefur staðið fyrir könnun á meðferð persónuupplýsinga í tengslum við einkaréttarlegar sjúkrakostnaðartryggingar. Á grundvelli niðurstaðna þeirrar könnunar ákvað starfshópurinn að semja leiðbeiningar sem eiga að vera til þess fallnar að auka meðvitund bæði tryggingafélaga og viðskiptavina þeirra um gildandi reglur.

Fréttatilkynning 29. gr. starfshópsins frá 11. október 2007 (pdf)




Var efnið hjálplegt? Nei