Fréttir

Vorfundur evrópskra persónuverndarstofnana

25.5.2007

Vorfundur evrópskra persónuverndarstofnana var haldinn á Kýpur dagana 10. og 11. maí sl. Hann var sóttur af Sigrúnu Jóhannesdóttur forstjóra sem hélt erindi um sjúkraskrár og internetið.

Vorfundur evrópskra persónuverndarstofnana var haldinn á Kýpur dagana 10. og 11. maí sl. Hann var sóttur af Sigrúnu Jóhannesdóttur forstjóra sem hélt erindi um sjúkraskrár og Internetið.

Á fundinum var m.a. fjallað um meðferð heilsufarsupplýsinga, meðferð persónuupplýsinga um börn og meðferð persónuupplýsinga í samvinnu í dóms- og löggæslumálum.

Eftirfarandi skjöl voru samþykkt á fundinum:

1. Yfirlýsing um meginregluna um tiltækileika.

Í Haag-áætluninni, sem samþykkt var í árslok 2004 og ætlað er að styrkja frelsi, öryggi og réttlæti innan ESB, er gert ráð fyrir að frá 1. janúar 2008 taki upplýsingaskipti í löggæslumálum mið af meginreglunni um tiltækileika. Hún felur í sér að starfsmenn í löggæslu í einu aðildarríki eigi að geta aflað upplýsinga sem þeim er þörf á vegna starfa sinna frá öðru aðildarríki.

Í yfirlýsingu fundarins kemur fram að í löggjöf sem byggir á þessari meginreglu verði að tryggja jafnvægi á milli almannaöryggis og grundvallarrétarins til persónuverndar. Því sé þörf á því að meta tillögur að slíkri löggjöf innan ákveðins ramma, þ.e. með hliðsjón af sjónarmiðum um persónuvernd.

Til þess að undirstrika mikilvægi þessa hafa evrópskar persónuverndarstofnanir unnið sameiginlegt afstöðuskjal og gátlista sem fylgja yfirlýsingunni og unnt er að nota til þess að leggja mat á tillögur sem byggja á meginreglunni um tiltækileika.

Yfirlýsingin, ásamt sameiginlegu afstöðuskjali og gátlista. (Word skjal)

 

2. Yfirlýsing um tillögu ráðherraráðs Evrópusambandsins að rammaákvörðun um vernd persónuupplýsinga sem unnar er vegna samvinnu í dóms- og löggæslumálum er varða afbrot.

Í yfirlýsingunni er bent á ýmis atriði sem evrópskrar persónuverndarstofnanir telja að megi betur fara, s.s. að skilgreina verði tilgang vinnslunnar betur, að gera verði greinarmun á meðferð upplýsinga um einstaklinga eftir stöðu þeirra, t.d. sé munur á meðferð upplýsinga um grunaða einstaklinga og þolendur afbrota, að tryggja verði samræmi í mati á því hvort þriðju lönd tryggi vernd persónuupplýsinga með fullnægjandi hætti, auk atriða er lúta að fræðsluskyldu og upplýsingarétti.

Þá kemur fram að þrátt fyrir að skilningur sé á mikilvægi þess að samþykkja ákvörðunina sem fyrst verði einnig að tryggja samræmda og fullnægjandi persónuvernd, enda sé það mikilvægt fyrir bæði löggæsluna og réttindi einstaklingsins. Evrópskar persónuverndarstofnanir hvetja því ráðherraráðið til þess að gefa sér betri tíma í viðræður um ákvörðunina og lýsa sig fúsar til þess að leggja hönd á plóginn.

Yfirlýsingin. (Word skjal)

 

3. Ákvörðun um framtíð starfshóps um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu.

Um nokkurt skeið hefur verið starfræktur starfshópur sem fjallað hefur um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu, einkum hvað varðar samvinnu í dóms- og löggæslumálum. Hópurinn hefur starfað samkvæmt umboði hins árlega vorfundar evrópskra persónuverndarstofnana og m.a. unnið að þeim skjölum sem samþykkt voru á Kýpurfundinum.

Með ákvörðuninni er starf hópsins fært í fastari skorður og kveðið er á um að formaður og varaformaður hópsins séu kjörnir til tveggja ára, en hingað til hefur sú þjóð sem haldið hefur vorfund farið með formennsku fram að næsta vorfundi. Þá fékk hópurinn nýtt heiti – „Working Party on Police and Justice“ í stað „Police Working Party.“

Ákvörðunin. (Word skjal)




Var efnið hjálplegt? Nei