Fréttir

Nýleg skjöl frá 29. gr. starfshópnum

26.3.2007

Það sem af er ári hefur 29. gr. starfshópurinn samþykkt þrjú álit, ein tilmæli og eitt vinnuskjal.

EvrópusambandiðÞað sem af er ári hefur 29. gr. starfshópurinn samþykkt þrjú álit, ein tilmæli og eitt vinnuskjal.

Álit starfshópsins nr. 1/2007 (pdf) fjallar um grænbók Evrópusambandsins um notkun eftirlitstækni í löggæslu, tollgæslu og starfsemi annarra stjórnvalda sem fara með öryggismál. (pdf) Í álitinu fagnar starfshópurinn því að hafa fengið færi á að koma að athugasemdum, en telur þó að á þessu stigi málsins sé erfitt að leggja fram nákvæma álitsgerð. Þó er eftirfarandi ábendingum komið á framfæri:

(1) Tilganginn með vinnslu persónuupplýsinga ætti að afmarka með skýrum hætti frá upphafi og upplýsingarnar ætti ekki að vinna frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi

(2) Eftirlitstækni er ekki vandamál í sjálfu sér heldur er það söfnun og notkun persónuupplýsinga fyrir hennar tilstilli sem verður að fara fram með sanngjörnum hætti. Því ætti að veita fólki tilhlýðilega fræðslu.

(3) Ekki ætti að safna upplýsingum umfram það sem er nauðsynlegt miðað við tilganginn með söfnuninni og þær ætti ekki að varðveita lengur en nauðsyn krefur.

Álit starfshópsins nr. 2/2007 (pdf) fjallar um þá fræðslu sem veita ber farþegum um flutning s.k. PNR-upplýsinga til bandarískra stjórnvalda. Í álitinu er fjallað um það hvaða aðilar eiga að veita slíka fræðslu, hvenær hún skal veitt, hvaða upplýsingar ber að veita og með hvaða hætti. Álitinu fylgir jafnframt texti sem hægt er að nota sem fyrirmynd að stuttri tilkynningu til flugfarþega til Bandaríkjanna um upplýsingavinnsluna og algengar spurningar og svör. (word-skjal)

 

Álit starfshópsins nr. 3/2007 (pdf) fjallar um drög að reglugerð um breytingar á sameiginlegum fyrirmælum um vegabréfsáritanir til sendiráða og ræðisskrifstofa (pdf), sem m.a. er ætlað að veita skráningu lífkenna í tengslum við umsóknir um  vegabréfsáritanir lagastoð. Breytingarnar eru liður í því að koma á fót sk. VIS-upplýsingakerfi sem heldur utan um vegabréfsáritanir og á að styrkja sameiginlegu áritunarstefnuna. Í áliti sínu gerir starfshópurinn athugasemdir í 10 töluliðum þar sem lögð er áhersla á meðalhóf, bent á að sum ákvæði reglugerðardraganna eigi fremur heima í reglugerð um VIS-upplýsingakerfið, að rétt sé að samræma aldursmörk þeirra sem þurfa að sæta fingrafaratöku við aldursmörk sem gilda um aðra fingrafaragrunna, s.s. Eurodac-grunninn, og að meginstefnu eigi ekki að fela einkaaðilum meðferð umsókna um vegabréfsáritanir og skráningu lífkenna nema hún fari fram á svæði sem nýtur úrlendisréttar og á ábyrgð viðkomandi sendiráðs.

 

Í tilmælum starfshópsins nr. 1/2007 (word-skjal) er að finna stöðluð umsóknareyðublöð um samþykkt bindandi fyrirtækjareglna um flutning persónuupplýsinga úr landi.

 

Í vinnuskjali starfshópsins nr. WP131 (pdf) er fjallað um miðlægar rafrænar sjúkraskrár sem nú eru til umræðu í ýmsum aðildarríkjum Evrópusambandsins. Það athugast að ekki er um rannsóknargagnagrunna að ræða, heldur sjúkraskrár ætlaðar heilbrigðisstarfsfólki sem hefur sjúkling til meðferðar. Talið er að slíkar skrár geti tryggt bætta þjónustu og aukið öryggi sjúklings, auk þess að draga úr kostnaði. Í vinnuskjali starfshópsins kemur fram að starfrækslu slíkra miðlægra skráa verði að byggja á lögum. Einnig er vikið að ýmsum atriðum sem þarf að gera sem best úr garði, s.s. auðkenningu bæði starfsfólks og sjúklinga, aðgangsstýringum, öryggi og fræðslu til almennings. 


Persónuvernd á áheyrnaraðild að fundum 29. gr. starfshópsins.

Heimasíða 29. gr. starfshópsins.



Var efnið hjálplegt? Nei