Fréttir

Fréttatilkynning 29. gr. starfshópsins um SWIFT-málið

27.9.2006

Í gær fjallaði 29. gr. starfshópurinn um sk. SWIFT-mál og hefur af því tilefni sent frá sér fréttatilkynningu.

Í gær fjallaði 29. gr. starfshópurinn um sk. SWIFT-mál og hefur af því tilefni sent frá sér fréttatilkynningu.

SWIFT stendur fyrir "Society for Worldwide Interbank Financial Telecommunication." Þetta eru samtök í eigu fjármálastofnana um heim allan og skrifstofur samtakanna er sömuleiðis að finna víða um heim. Höfuðstöðvar þeirra eru Í La Hulpe, í grennd við Brussel. Samtökin reka samskiptakerfi sem er notað til að millifæra fjármagn með öruggum hætti. Á Íslandi er SWIFT-kerfið notað til að millifæra peninga á reikninga í erlendum bönkum. Í dag eiga um 7.800 fjármálastofnanir í 205 löndum aðild að SWIFT.

Hinn 23. júní sl. birtust greinar í The New York Times, The Wall Street Journal og The Los Angeles Times um aðgerðir gegn hryðjuverkum. Þar var m.a. sagt frá því að bandaríska fjármálaráðuneytið og leyniþjónustan CIA hefðu, eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001, fengið aðgang að gagnagrunni SWIFT sem í eru upplýsingar um millifærslur fjármuna.

Í kjölfarið sendi SWIFT frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að samtökin hefðu veitt bandarískum stjórnvöldum tilteknar upplýsingar.

Málið hefur verið til athugunar hjá belgískum stjórnvöldum auk þess að vera rætt á vettvangi Evrópusambandsins, þ.á m. 29. gr. starfshópsins, sem hefur m.a. það hlutverk að stuðla að samræmdri beitingu persónuverndarlöggjafar í Evrópusambandinu. Í fréttatilkynningu starfshópsins segir að málið sé flókið og að hópurinn muni halda áfram rannsókn þess með það fyrir sjónum að taka formlega afstöðu á næsta fundi sínum sem haldinn verður í nóvember.





Var efnið hjálplegt? Nei